Ársskýrsla lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 2019

Ársskýrsla 2019

Verkefnum fjölgar og kröfurnar aukast

Það sem einkennir starfsemi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu umfram önnur lögregluembætti, er mikill málafjöldi og hraði. Íbúafjöldinn eykst jafnt og þétt, ferðamönnum fjölgaði til skamms tíma og verkefnin verða æ flóknari og meira krefjandi. Auknu fé hefur verið veitt til löggæslunnar í landinu en kröfur borgaranna standa engu að síður til betri og hraðari þjónustu. Starfsmenn geta orðið persónulega ábyrgir og standa oft á tíðum frammi fyrir opinberri umfjöllun um störf sín, án þess að geta sagt sína hlið vegna þagnarskyldu. Ef verklagi er ekki fylgt eða mistök eru gerð, geta starfsmenn staðið frammi fyrir starfsmissi og er það endanleg ákvörðun, ólíkt því sem gerist í mörgum öðrum stéttum.

Hvað er til ráða? Starfsemin er fjármögnuð af skattfé og því fé þarf að ráðstafa í margs konar mikilvæga þjónustu, þar sem lögreglan er einungis einn þáttur af mörgum. Þessum áskorunum hefur Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu staðið frammi fyrir undanfarin ár.

Með samhentu átaki hefur tekist að breyta nálgun og aðferðum. Stefna var mótuð af starfsmönnum og færustu ráðgjafar voru fengnir til aðstoðar. Umbótaverkefni voru valin út frá stefnunni og löggæsluáætlun. Aðferðum straumlínustjórnunar var beitt til að koma umbótaverkefnum í framkvæmd. Viðskiptavinurinn var ávallt hafður í forgrunni og til að mynda var sálfræðingur ráðinn til þess að auðvelda þolendum kynferðisofbeldis samskipti við lögreglu. Kynferðisbrotadeild var bylt, unnið í teymum og jafnvægi náð í fjölda mála. Málafjöldi á ákærusviði var unninn niður um helming einungis með nýjum aðferðum, ferlum og samstarfi, þar sem starfsmenn í þjónustuveri tókust á við ný og breytt verkefni og biðtími í umferðarlagabrotum minnkaði um 3/4. Búin voru til mælaborð sem sýndu málastöðu í öllum deildum þar sem málaþungi á starfsmenn var gerður sýnilegur, rafrænar rannsóknaráætlanir settar inn í lögreglukerfið, stafræn þjónusta aukin verulega og svo mætti lengi áfram telja. Almannavarnir, þjálfun, aðstaða og viðbrögð voru efld verulega og reyndi nokkuð á þann þátt með óveðrum og slysum. Samstarf viðbragðsaðila byggir því á góðum grunni og reynslu og er það mikilvægt fyrir öryggi íbúa.

Lögreglukonum fjölgaði í rúm 30% á árinu en það er tvöföldun á 5 árum. Þjálfun var stóraukin og búnaður bættur. Þá voru búkmyndavélar gerðar að staðalbúnaði lögreglumanna, sem eykur öryggi lögreglumanna ekki síður en borgaranna og gerir eftirlit auðveldara og störfin gagnsærri.

Það eru þó enn áskoranir. Áfram fjölgar verkefnum og kröfur til þjónustu vaxa, eðli máls samkvæmt. Náið og gott samstarf á milli stofnana er grunnforsenda árangurs, en einnig þarf að starfa betur með einkageiranum og þriðja geiranum og gæta þess að þjónustan sé alltaf í fyrirrúmi en ekki valdmörk. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er kraftmikil og öflug stofnun sem skiptir miklu fyrir öryggi og öryggistilfinningu íbúa. Yfirskrift stefnunnar sem starfsmenn settu var; Við erum hér fyrir þig! Það er sannarlega markmiðið að embættið haldi áfram að styrkjast og eflast og veita betri þjónustu til samfélagsins, með fagmennsku, öryggi og traust að leiðarljósi. Með þökk fyrir samstarfið á árinu 2019.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri.

Ársskýrsla 2019

Helstu markmið LRH

Nýjar áskoranir og viðfangsefni taka seint enda hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sem hefur á stundum mátt hafa sig alla við. Í þeim efnum er af nógu að taka, en frá stofnun embættisins hafa orðið mjög miklar breytingar í þjóðfélaginu. Íslenskt samfélag verður sífellt fjölþjóðlegra og hér, sem annars staðar, heldur tæknin líka áfram að ryðja sér til rúms. Búnaður lögreglunnar heldur sömuleiðis áfram að taka breytingum og verða betri og öruggari. Það stuðlar að betri löggæslu, sem er öllum til hagsbóta. Hér má nefna tæki og tól, m.a. í ökutækjum lögreglunnar. Þá má kalla búkmyndavélar, sem taka upp störf lögreglumanna á vettvangi, byltingu, en þær eru nú sjálfsagður búnaður hjá þeim sem sinna útköllum hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Með tilkomu búkmyndavéla þarf ekki lengur að vera ágreiningur um það sem á sér stað við afskipti lögreglu. Afskiptin eru tekin upp í hljóði og mynd og myndefnið getur nýst sem sönnunargögn eins og þegar er raunin.

Á öðrum sviðum í starfsemi embættisins eru breytingarnar jafnframt vel sjáanlegar. Það þekkja þeir sem sækja þjónustu til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Gildir þá einu hvort verið er að tilkynna um brot eða sækja um leyfi, en margt af þessu er hægt að gera rafrænt. Sömuleiðis er hægt að panta tíma í kærumóttöku á netinu, en allt er þetta viðleitni í að bæta þjónustuna við almenning. Seint á árinu 2019 var enn fremur hægt að nálgast upplýsingar um sektir í pósthólfi á island.is, sem er upplýsinga- og þjónustuveita opinberra aðila á Íslandi. Frekari upplýsingar um þá rafrænu þjónustu sem Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu býður upp á má nálgast á lögregluvefnum. Þótt embættið hafi lagt ríka áherslu á bætta þjónustu undanfarin ár og gert það að markmiðum sínum eru grundvallarmarkmiðin þó hin sömu.

Öryggi og öryggistilfinning þeirra sem búa, starfa og dvelja í umdæminu er enn efst á baugi. Sama gildir um önnur sett markmið, t.d. fækkun afbrota á tilteknum sviðum (eignaspjöll, innbrot, þjófnaðir og líkamsárásir). Áðurnefndum brotum fjölgaði ekki á milli ára, sem eru alltaf ánægjuleg tíðindi þótt ekki sé heldur hægt að tala um mikla fækkun brota að þessu sinni. Afbrotatölfræðin tekur samt jafnan einhverjum breytingum frá einu ári til annars og í sumum brotaflokkum geta verið miklar sveiflur. Þær slá þó Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu ekki svo auðveldlega út af laginu. Hún er ávallt tilbúin að takast á við nýjar áskoranir og mun halda því áfram um ókomin ár. Því er hægt að lofa.

Mannfjöldi Hlutfall af
höfuðb.sv.
Hlutfall af
Íslandi
Fjöldi
erlendra
Hlutfall
erlendra
Fjöldi
ríkisfanga
Stærð
í km2
Reykjavík 128.793 56,4% 36,1% 18.446 14,3% 140 273
Kópavogur 36.975 16,2% 10,4% 3.652 9,9% 100 80
Hafnarfjörður 29.799 13,1% 8,3% 3.173 10,6% 84 143
Garðabær 16.299 7,1% 4,6% 717 4,4% 69 76
Mosfellsbær 11.463 5,0% 3,2% 885 7,7% 61 185
Seltjarnarnes 4.664 2,0% 1,3% 352 7,5% 40 2
Kjósarhreppur 238 0,1% 0,1% 19 8,0% 8 284
Höfuðb.sv 228.231 - 63,9% 27.244 11,9% 146 1.043
Ísland 356.991 - 100% 44.270 12,4% 152 102.698

Lögreglumenn 319

Karlar 223
70%
Konur 96
30%

Borgaralegir starfsmenn 105

Karlar 41
39%
Konur 64
61%

Fjöldi ökutækja í lok árs 2019 56

Merktar stórar bifreiðar 5
9%
Merktar fólksbifreiðar 21
38%
Ómerktar fólksbifreiðar 17
30%
Bifhjól 13
23%

Akstur ökutækja í kílómetrum árið 2019 1.342.571

Akstur merktra ökutækja 849.086
63%
Akstur ómerktra ökutækja 370.628
28%
Akstur bifhjóla 122.857
9%
Heimildir:

Fólksfjöldi:
Hagstofa Íslands, Mannfjöldi eftir kyni, aldri og sveitarfélögum 1998-2019 - Sveitarfélagaskipan hvers árs: ár valið 2019

Fjöldi ríkisfanga:
Hagstofa Íslands, Mannfjöldi eftir kyni, sveitarfélagi og ríkisfangi 1. janúar 1998-2019 - Ísl. talið með

Fjöldi erlendra:
Hagstofa Íslands, Mannfjöldi eftir kyni, sveitarfélagi, aldri og ríkisfangi 1998-2019: ár valið 2019

Flatarmál sveitarfélaga:
Landmælingar Íslands, upplýsingaveita sveitarfélagaHeimildir

Ársskýrsla 2019

Helstu verkefni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu

Starfsemi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gekk vel árið 2019. Sem fyrr voru verkefnin ærin enda komu um 82 þúsund mál á borð embættisins. Þau voru af öllu tagi, minni háttar aðstoð við borgarana, rannsóknir umfangsmikilla sakamála og allt þar á milli. Til marks um annríkið voru 250 brot skráð á hverjum sólarhring árið um kring, eða um 10 á hverri klukkustund. Umferðarlagabrot vógu þar mjög þungt, en þau voru um 100 á sólarhring, aðallega hraðakstursbrot. Hegningarlagabrot í umdæminu voru um 9.700 árið 2019, eða ámóta og árið á undan. Sérrefsilagabrot voru í kringum 4.000, en lítil breyting varð einnig á fjölda þeirra á milli ára. Flest brotanna voru fíkniefnabrot. Fjölgun tilkynninga um kynferðisbrot var áberandi, mest vegna tilkynninga um kynferðislega áreitni og vændiskaup.

Mansal og vændi er einn þeirra málaflokka sem hefur verið tekinn mjög föstum tökum hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en á árinu rannsakaði hún mörg mál er varðaði kaup á vændi. Mansal og vændi tengist jafnframt skipulagðri brotastarfsemi, sem lögð hefur verð rík áhersla á að taka á. Eins og áður var fjöldi kynferðisbrota til rannsóknar hjá embættinu, m.a. á annað hundrað nauðganir. Engu að síður voru mun færri nauðganir tilkynntar til lögreglu en árið á undan. Sama var að segja um kynferðisbrot gegn börnum, þeim fækkaði verulega á milli ára. Rannsóknir kynferðisbrota gengu almennt vel, en sérstök gangskör var gerð að því að stytta málsmeðferðartíma þeirra árið 2018. Sú vinna hefur skilað sér, en henni var enn fremur ætlað að tryggja gæði rannsókna og hefur það gengið eftir.

Fjöldi ofbeldisbrota á höfuðborgarsvæðinu hefur verið nokkuð svipaður undanfarin ár. Árið 2019 voru þau þó ívið færri, en fækkunin var ekki mikil. Tilkynningar um líkamsárásir voru nálægt 1.200. Rétt innan við 1.000 töldust minni háttar, en tæplega 200 voru meiri háttar líkamsárásir. Þær áttu sér stað í öllum sveitarfélögunum í umdæminu, en ekki bara á miðborgarsvæðinu þótt fjölmörg líkamsárásarmál hafi vissulega komið þar upp. Ýmislegt hefur verið gert til að sporna gegn ofbeldi, ekki síst heimilisofbeldi og þar hélt Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu áfram á sömu nótum. Skilaboðin hafa verið og eru auðvitað enn að heimilisofbeldi er ekki liðið. Tilkynningar um heimilisofbeldi skiptu þó hundruðum og bárust þær jafnt og þétt yfir árið. Fjöldi tilkynninga var þó viðbúinn, ekki síst vegna þeirrar vitundarvakningar sem hefur orðið í þjóðfélaginu um þá meinsemd sem heimilisofbeldi er.

Þjófnaðarbrot í umdæminu voru líka fjölmörg, eða um 4.000. Um fjórðungur þeirra voru innbrot á heimili, í fyrirtæki og ökutæki. Misjafnlega gekk að hafa hendur í hári þjófanna, en oft hafa ábendingar um grunsamlegar mannaferðir komið lögreglunni á sporið. Svo var einnig þetta árið, en hinir ópúttnu aðilar voru á höttunum eftir allskonar hlutum. Í seinni tíð hefur t.d. mátti líkja þjófnaði á símum og reiðhjólum sem einskonar plágu. Tilkynningar um reiðhjólaþjófnaði voru áberandi frá vori og fram undir sumarlok. Stærri og verðmætari hlutum var líka stolið enda svifust þjófarnir einskis. Sama má segja um þá sem stóðu að innflutningi og/eða framleiðslu fíkniefna. Þau mál tengjast jafnan skipulagðri brotastarfsemi, sem Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leggur mikla áherslu á að sporna gegn. Þar kemur peningaþvætti enn fremur við sögu, en rannsóknir málanna eru bæði flóknar og tímafrekar. Embættið hefur brugðist við og ráðið sérfræðinga á sviði banka- og skattamála til að starfa við hlið lögreglumanna að rannsóknum málanna og hefur það gefist vel.

Netglæpir voru áberandi árið 2019, en Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var stöðugt að vara við svindlurum á netinu. Ófáir urðu fyrir barðinu á netþrjótum og því er hætt við að varnaðarorðin muni hljóma áfram í miðlum embættisins. Kalla mátti þetta afbrotavarnir að einhverju leyti, en þær komu líka við sögu í áhugaverðu og spennandi samstarfs- og þróunarverkefni sem embættið réðst í með Hafnarfjarðarbæ. Það var tilraunaverkefni til eins árs og tók m.a. til barnaverndarmála, heimilisofbeldis og forvarnastarfs. Einnig var horft til þess að unnið yrði að afbrotavörnum í víðu samhengi. Mikil ánægja var með samstarfið hjá báðum aðilum, en verkefnið fékk styrk úr Lýðheilsusjóði.

Töluvert var um opinberar heimsóknir á höfðuðborgarsvæðinu og var nokkur viðbúnaður hjá lögreglunni þegar hinir tignu gestir fóru hér um. Viðbúnaðurinn var mestur þegar varaforseti Bandaríkjanna fundaði með ráðamönnum þjóðarinnar í Höfða í september og var þá öllu tjaldað til. Að síðustu verður að nefna umferðarmálin, en ekkert banaslys varð í umdæminu árið 2019 og sætir það jafnan tíðindum. Hér á eftir er farið frekar yfir helstu verkefni Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu árið 2019. Tekið skal fram að tölfræði embættisins fyrir sama tímabil er að finna í skýrslunni Afbrot á höfuðborgarsvæðinu (útgef. 2020).

Innbrot og þjófnaðir

Innbrotum á höfuðborgarsvæðinu fækkaði lítillega á milli ára, en þau voru um 1.000 árið 2019. Rúmlega þriðjungur þeirra voru innbrot á heimili, en að meðaltali var tilkynnt um eitt innbrot á dag í heimahúsi í umdæminu.

Innbrot og þjófnaðir

Misvel gekk að hafa hendur í hári þjófanna, en þar gerðu  upplýsingar frá almenningi oft gæfumuninn. Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust ótal tilkynningar um grunsamlegar mannaferðir á árinu, stundum margar á dag, og oftar en ekki komu þær henni á sporið. Það er líka segin saga að þegar tekst að upplýsa eitt innbrot leiðir það oft til þess að önnur eru upplýst í framhaldinu. Rannsóknir málanna voru í forgangi hjá embættinu eins og ávallt þegar um er að ræða innbrot á heimili. Innbrot í ökutæki voru litlu færri, en þau voru um þriðjungur allra innbrota. Embættið hefur ítrekað minnt umráðamenn ökutækja á að hafa ekki verðmæti í augsýn því ætla má að það auki líkur á innbroti. Þessu vilja margir gleyma og það getur boðið hættunni heim eins og dæmin sanna. Innbrot í fyrirtæki og verslanir voru líka fjölmörg, eða um 200. Þá urðu ýmsar stofnanir einnig fyrir barðinu á innbrotsþjófum, sem leita víða fanga og svífast einskis. Mikill tími lögreglumanna fór í að leysa málin og ekki síður að koma aftur í réttar hendur öllu því þýfi sem var haldlagt á árinu.

Ótal hnuplmál komu líka á borð Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en tilkynningarnar um þau bárust jafnt og þétt yfir árið. Þjófarnir voru af ýmsu sauðahúsi og sumir komnir langt að, en það er ekki lengur nýmæli að erlendir brotamenn komi við sögu hjá lögreglu. Þjófnaðarbrotin í umdæminu voru annars um 4.000, en fjöldi þeirra sveiflaðist nokkuð eftir mánuðum. Færri brot voru tilkynnt í ársbyrjun, en frá mars til júlí voru þau áberandi fleiri. Aftur fjölgaði þjófnaðarbrotum á tímabilinu frá ágúst til október, en í hverjum þessara mánaða voru tilkynnt vel yfir 400 brot. Þeim fækkaði svo aftur í árslok, en voru þá samt að meðaltali fleiri en brotin í ársbyrjun. Því má með réttu segja að seinni hluti ársins hafi verið verri en sá fyrri hvað þetta varðar. Þegar litið var til tiltekinna brota mátti m.a. sjá að framin voru 100 eða fleiri innbrot að meðaltali í ágúst, september og október. Þau voru reyndar litlu færri í nóvember og desember, en jafnan 70-80 aðra mánuði ársins að mars undanskildum. Þá voru innbrotin innan við 70.

Af öðrum þjófnaðarbrotum má nefna að tilkynningar um símaþjófnaði voru áfram margar, en frá miðju sumri og til ársloka komu þær svo gott sem daglega á borð lögreglunnar. Sama mátti segja um reiðhjólaþjófnaði, en reiðhjólum var stolið víða í umdæminu. Rétt eins og fyrri ár fór tilkynningum um reiðhjólaþjófnaði að fjölga mjög mikið þegar leið á vorið og voru orðnar fjölmargar áður en sumarið var úti. Lætur nærri að tilkynningar um stolin reiðhjól á höfuðborgarsvæðinu frá apríl til september hafi samtals verið um 400. Sum hjólanna komu í vörslu lögreglu og voru þau auglýst á Pinterest, líkt og aðrir óskilamunir. Á síðunni eru ótal myndir af hlutum sem hafa ratað í hendur lögreglu, oft í tengslum við rannsóknir hennar á innbrotum og þjófnuðum, og kennir þar ýmissa grasa. Þar er einnig að finna síma, skartgripi, lykla, gleraugu og veski svo fátt eitt sé nefnt.

Verkfæri freistuðu líka þjófa en snemma árs voru tveir menn handteknir í Kópavogi eftir að brotist var inn í nýbyggingu í bænum. Á vettvangi voru bæði skóför og hjólför og það nægði lögreglunni til að komast á slóð þjófanna. Mennirnir voru sakleysið uppmálið við afskiptin, en í bíl þeirra fannst þýfið úr innbrotinu, mest megnis verkfæri. Þeir voru færðir á lögreglustöð og þar losnaði um málbeinið, en við yfirheyrslu játuðu báðir mennirnir sök. Í sama bæjarfélagi, skömmu fyrir áramót, lagði lögreglan hald á töluvert af þýfi úr nokkrum þjófnaðarmálum, m.a. verkfæri. Upphaf málsins var rannsókn embættisins á þjófnaði á flugeldum, sem tókst að endurheimta, en við húsleitir vegna málsins fundust fleiri illa fengnir hlutir. Nokkur vinna fór í að koma þeim í réttar hendur, en það er alltaf jafn ánægjulegt þegar tekst að koma stolnum munum aftur til réttmætra eigenda þeirra.

Rán og fjársvik

Um 50 rán voru tilkynnt til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu árið 2019 og fækkaði þeim mikið á milli ára.

Rán og fjársvik

Þau voru reyndar óvenju mörg árið 2018, en fjöldi málanna árið 2019 var svipaður og árin þar á undan. Ránin voru oft keimlík, en lögreglan upplýsti eitt þeirra snemma í september. Þá var starfsmanni í fyrirtæki í miðborginni ógnað og hótað með grófum hætti áður en ræninginn komst undan með fenginn. Sá síðarnefndi, karlmaður um þrítugt, var handtekinn nokkru síðar og játaði verknaðinn við yfirheyrslu. Starfsmanninum í fyrirtækinu var eðlilega mjög brugðið, en hann brást hárrétt við í afar erfiðum aðstæðum. Sporleitarhundur var kallaður út við leitina að ræningjanum, en jafnframt var notast við myndefni úr eftirlitsmyndavélum til að hafa uppi á kauða. Um mitt ár var annað rán til rannsóknar og ekki síður ófyrirleitið. Þá var manni í austurborginni ógnað með skotvopni og hann rændur verðmætum. Brugðist var skjótt við enda málið mjög alvarlegt. Framkvæmdar voru húsleitir og fjórir menn handteknir, en einn þeirra, karlmaður á þrítugsaldri, var úrskurðaður í nokkurra vikna gæsluvarðhald. Skotvopnið reyndist vera eftirlíking af skammbyssu. Snemma hausts var annar ræningi, karlmaður á fertugsaldri, handtekinn í austurborginni, en sá hafði ráðist með ofbeldi á eldri borgara og tekið af honum bifreið og ekið á brott. Ræninginn, sem var úrskurðaður í nokkurra vikna gæsluvarðhald, reyndist hafa fleiri brot á samviskunni eins og kom fram við rannsókn málsins.

Þótt ránum hafi fækkað verulega frá 2018 til 2019 fjölgaði auðgunarbrotum heldur á milli ára. Rán hafa jafnan verið lítill hluti þeirra, en þar hafa fjársvikamálin hins vegar vegið miklu þyngra. Þau voru hátt í 500 og fjölgaði frá árinu á undan. Fjárdráttarmálum fjölgaði einnig, en voru þó fá í samanburði við fjársvikin, sem eiga sér stað með ýmsum hætti. Þar koma m.a. netglæpir við sögu, en þeir virðast bara aukast með árunum. Þetta er þróun sem á ekki bara við um Ísland heldur heiminn allan. Á haustdögum vakti embættið athygli á skýrslu Europol um vandann, en í henni mátti lesa að netglæpir voru orðnir hnitmiðaðri og alvarlegri en áður. Þetta kom Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu ekki á óvart enda hafði tilkynningum um netglæpi fjölgað. Raunar hafði embættið þegar brugðist við, en um allnokkurt skeið hefur ítrekað mátt sjá viðvaranir í miðlum þess. Þar hefur t.d. verið varað við allskonar gylliboðum, sem ganga út á það eitt að hafa fé af fólki. Sömuleiðis að deila ekki viðkvæmum upplýsingum til annarra. Það gildir líka þegar PIN-númer eru slegin inn, en góð regla er að geyma ekki upplýsingar um PIN-númer með greiðslukortum. Seinni hluta ársins voru þrír þrjótar handteknir, en þeir höfðu einmitt náð að komist yfir slíkar upplýsingar og taka út peninga af reikningum viðkomandi. Almennt hefur verið töluverð umræða um netöryggi enda nauðsynleg. Alltaf eru einhverjir sem falla í gildruna og því er viðbúið að varnaðarorðin um hætturnar á netinu og annars staðar verði áfram á lofti.

Um mitt sumar barst talsvert af tilkynningum um fólk sem hafði verið blekkt til að senda peninga til fjárfestingafyrirtækja, sem síðan reyndust öll vera svikamyllur. Þeir sem að þessu stóðu notuðu gjarnan myndir af þekktum einstaklingum, að sjálfsögðu í mikilli óþökk og fullkomnu heimildarleysi hinna sömu, til að lokka til sín viðskiptavini. Slíkar auglýsingar voru áberandi á samfélagsmiðlum, ekki síst fésbókinni. Í einhverjum tilvikum komust svikahrapparnir líka yfir greiðslukortaupplýsingar og notuðu þær til úttekta. Tilvik um fölsuð fyrirmæli voru líka til rannsóknar, en um var að ræða tölvupósta til fyrirtækja þar sem óprúttnum aðilum tókst að beina greiðslum frá fyrirtækjunum á aðra reikinga en ætlað var. Af þessu má sjá að margt er að varast og er þó ekki allt upptalið.

Hugmyndaflugi svikahrappanna voru engin takmörk sett, en á fyrri hluta ársins reyndu þeir að sigla undir fölsku flaggi CIA og Microsoft. Bandaríska leyniþjónustan var þá sögð vera að rannsaka barnaníð og sendi tölvupósta, en tilgangur póstanna var að vekja ugg og fá fólk til að reiða fram peninga. Allt var þetta uppspuni, rétt eins og þvælan sem óprúttnir aðilar þóttust bjóða við úrlausnir tölvuvandamála í nafni tölvurisans. Aðstoðin var boðin símleiðis, en tilgangur hennar var einvörðungu að komast yfir viðkvæmar upplýsingar og misnota þær í framhaldinu. Vert er líka að nefna tölvupósta þar sem sendandinn kvaðst hafa náð myndefni af viðtakandanum við að skoða klámsíður á netinu. Með fylgdi hótun um að myndefninu yrði dreift ef ekki bærist greiðsla, helst í formi rafmyntar, innan tiltekins tíma. Þetta var enn ein blekkingin og lögreglan bað þá sem fyrir þessu urðu að halda einfaldlega ró sinni.

Líkamsárásir

Nálægt 1.200 líkamsárásir voru tilkynntar til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu árið 2019.

Líkamsárásir

Rétt innan við 1.000 töldust minni háttar, en tæplega 200 voru meiri háttar líkamsárásir. Fjöldi  ofbeldisbrota í umdæminu hefur verið nokkuð svipaður undanfarin ár, en þau voru samt ívíð færri árið 2019 en árið á undan. Fækkunin var þó ekki mikil og raunar eru það ákveðin vonbrigði að ekki dragi úr líkamsárásum svo neinu nemi. Til að svo megi verða þarf að grípa til aðgerða og það hefur verið gert að ákveðnu marki. Þar má sérstaklega nefna fjölgun öryggismyndavéla og áhersla á aukið viðbragð og sýnileika lögreglunnar. Þær aðgerðir hafa beinst að miðborginni sérstaklega enda eru líkamsárásir fylgifiskur skemmtanalífsins, því miður. Fjöldi meiri háttar líkamsárása (218. gr. alm. hegningarlaga) var annars svo gott sem óbreyttur á milli ára, en minni háttar líkamsárásum fækkaði lítillega. Árásirnar áttu sér stað víða á höfuðborgarsvæðinu og voru ekki síður alvarlegar en þær sem tilkynnt var um í miðborginni. Vandinn er því víðtækur og er ekki einvörðungu bundinn við eitt hverfi, fjarri því. Og þótt líkamsárásir væru gjarnan fleiri um helgar heldur en virka daga voru engir dagar undanskildir í þeim efnum.

Fjölmörg ofbeldisbrot voru því til rannsóknar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í hverjum mánuði, oft meira en 100 líkamsárásir. Ágúst, september og nóvember voru verstu mánuðirnir hvað þetta varðar, en þá voru málin í kringum 120. Líkamsárásir voru færri á fyrri helmingi ársins í samanburði við þann seinni, en þá voru nokkrir mánuðir þar sem málafjöldinn var undir 100. Oftast var tilkynnt um meiri háttar líkamsárásir í ágúst, næstum daglega, en sjaldnast í október þegar málin voru færri en 10. Minni háttar líkamsárásir voru hins vegar flestar í september, tæplega 100, en fæstar í febrúar, rúmlega 60. Ekkert morð var framið í umdæminu árið 2019 og telst það jafnan til góðra tíðinda, en þetta var í fimmta sinn á starfstíma embættisins sem svo háttar til innan ársins og er mikilvægt að halda því til haga. Oft mátti reyndar litlu muna að illa færi, en hending getur ráðið um afleiðingar hnefahöggs eða hnífstungu. Að því leytinu hefði árið getað verið verra, en eftir stendur þó að margir brotaþolar hlutu alvarlega áverka eftir að á þá var ráðist.

Eins og áður sagði voru margar, alvarlegar líkamsárásir tilkynntar til lögreglunnar í ágúst. Ein þeirra átti sér stað snemma í mánuðinum, en þá var ráðist á karlmann á þrítugsaldri í Kópavogi og hann stunginn nokkrum sinnum með hnífi í bæði líkama og andlit. Árásin var ofsafengin, en brotaþoli var einnig sleginn með hnefa og/eða barefli í höfuðið. Talið er að þolandi og gerandi hafi verið farþegar í bifreið og þar hafi árásin hafist, en ummerki um átök var einnig að finna utan hennar. Árásarmaðurinn flúði af vettvangi, en var handtekinn skömmu síðar annars staðar í bæjarfélaginu. Ökumaður bifreiðarinnar ók brotaþola á slysadeild, en hann mun ekki hafa séð átök mannanna. Nokkur vitni voru hins vegar að annarri líkamsárás í Kópavogi í ársbyrjun, en þá stakk átján ára piltur jafnaldra sinn með garðklippum. Piltarnir voru saman við vinnu þegar árásin varð, en þeim hafði sinnast út af einhverju og snöggreiddist þá árásarmaðurinn með fyrrgreindum afleiðingum.

Snemma hausts kom lögreglan tæplega tvítugum karlmanni til aðstoðar í Heiðmörk, en sá var illa áttaður eftir að hafi orðið fyrir líkamsárás. Árásarmennirnir voru á bak og burt, en brotaþoli sagðist hafa verið gabbaður upp í bíl þeirra í Reykjavík og síðan óku misindismennirnir með hann í Heiðmörk. Þar mátti maðurinn þola barsmíðar þar sem kylfu var beitt, auk þess sem hann fékk piparúða í augun. Maðurinn var fluttur á slysadeild og um leið hófst leit lögreglunnar að árásarmönnunum. Fljótlega beindist grunar að þremur ungum mönnum og voru þeir handteknir hver á eftir öðrum. Um svipað leyti ársins var lögreglan svo kölluð að fjölbýlishúsi í umdæminu þar sem konu á fertugsaldri var haldið í gíslingu og gengið í skrokk á henni. Árásarmaðurinn var handtekinn á staðnum, en hann þekkti konuna lítið sem ekki neitt. Maðurinn hafði sagst vera hjálparvana og ætlaði konan að koma honum til aðstoðar, en kauði reyndist þá vera úlfur í sauðagæru.

Kynferðisbrot og heimilisofbeldi

Rannsóknir kynferðisbrota gengu almennt vel árið 2019, en árið á undan var gerð sérstök gangskör að því að stytta málsmeðferðartíma þeirra.

Kynferðisbrot og heimilisofbeldi

Sú vinna hefur skilað sér, en henni var enn fremur ætlað að tryggja gæði rannsókna og hefur það gengið eftir. Samhliða er sérhæfð kærumóttaka hjá embættinu vegna kynferðisbrota og hefur það sömuleiðis gefist vel, en þar er veitt meiri þjónusta en áður. Tilkynningum um kynferðisbrot fjölgaði annars nokkuð á milli ára, en þar réði mestu að töluvert var tilkynnt um kynferðislega áreitni og vændiskaup. Eins og áður var fjöldi kynferðisbrota til rannsóknar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, m.a. á annað hundrað nauðganir. Engu að síður voru mun færri nauðganir tilkynntar til lögreglu en árið á undan. Sama var að segja um kynferðisbrot gegn börnum, þeim fækkaði verulega á milli ára.

Vændismálum fjölgaði hins vegar á sama tímabili enda lagði embættið aukinn kraft í rannsóknir mála er snúa að skipulagðri brotastarfsemi. Mansal og vændi eru einmitt ein birtingamynd þess, en í maí og júní voru t.d. vændismálin samanlagt um 40. Áherslan á málaflokkinn var tilkomin vegna aukins svigrúms með mannafla og tíma lögreglunnar og tölurnar endurspegluðu það. Athygli vakti að 94% þeirra sem voru staðnir að verki við vændiskaup þarna snemma sumars voru íslenskir karlmenn, en meðalaldur þeirra var 41 ár. Þeir sem stunduðu vændið voru mest megnis erlendar konur, en sumar þeirra virtust koma hingað ítrekað þessara erinda.

Mörg kynferðisbrotanna sem voru til meðferðar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu voru eðlilega til umfjöllunar í fjölmiðlum og oft var fólk slegið óhug. Það átti ekki síst við á haustmánuðum, en í byrjun september var lögreglan kölluð að grunnskóla í Reykjavík þar sem tilkynnt var um karlmann á þrítugsaldri sem hafði brotið gegn nemanda í skólanum. Um hálfum mánuði síðar var annar karlmaður, nokkru eldri, handtekinn í menntastofnun á háskólastigi annars staðar í borginni. Brot hans voru ekki síður ógeðfelld, en nokkrir nemendur þar urðu fyrir barðinu á manninum. Hálfgerð ringulreið ríkti í skólanum þegar lögreglan kom á vettvang enda margir nemendanna í uppnámi. Í mánuðinum á eftir var svo karlmaður á fertugsaldri úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna grunsemda um að hafa brotið á unglingsstúlku í heimahúsi í Mosfellsbæ. Og í sama mánuði var annar karlmaður á svipuðum aldri handtekinn eftir að hafi barið og nauðgað konu í vesturbæ Reykjavíkur. Hann var einnig úrskurðaður í gæsluvarðhald og síðan dæmdur í héraðsdómi í fimm ára fangelsi fyrir verknaðinn.

Ekkert lát var heldur á tilkynningum um heimilisofbeldi, en þær voru rúmlega 700 árið 2019. Á meðal úrræða fyrir brotaþola er að fara í Bjarkarhlíð, sem er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, og fá aðstoð og ráðgjöf. Þangað komu rúmlega 550 manns í fyrsta viðtal á árinu, en í Bjarkarhlíð eru starfsmenn frá ýmsum stofnunum og félagasamtökum, auk fulltrúa lögreglu en til hans kom meira en fimmtungur allra þeirra brotaþola sem heimsóttu miðstöðina. Með heimilisofbeldi er átt við ofbeldi milli skyldra aðila, en oft eru þetta ljótustu málin, ef svo má að orði komast, sem koma á borð lögreglunnar. Eitt þessara mála var til rannsóknar hjá embættinu seinni hlutann í október, en þá var karlmaður um tvítugt handtekinn eftir að hafa gengið í skrokk á fyrrverandi kærustu. Árásin var hrottaleg og hlaut konan margvíslega áverka, en hún mun áður hafa þurft að þola barsmíðar af hendi mannsins. Þar á undan hafði árásarmaðurinn átt aðra kærustu og mátti hún búa við slíkt hið sama.

Skipulögð brotastarfsemi

Undanfarin misseri hefur Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lagt aukna áherslu á rannsóknir mála er tengjast skipulagðri brotastarfsemi, en hún teygir anga sína víða.

Skipulögð brotastarfsemi

Fíkniefnamál og peningaþvætti heyra þar undir, en enginn skortur var á slíkum málum árið 2019. Rannsóknir þeirra taka jafnan töluverðan tíma enda málin oft umfangsmikil. Eitt slíkt var til rannsóknar um mitt ár og sátu fjórir karlmenn um tíma í gæsluvarðhaldi vegna þessa. Málið snéri m.a. að framleiðslu fíkniefna og peningaþvætti, en ráðist var í níu húsleitir í þágu rannsóknarinnar. Alls voru sjö handteknir í tengslum við málið og því var um mjög viðamiklar aðgerðir að ræða. Lagt var hald á verulegt magn af amfetamíni, auk marijúana. Þá tók lögreglan enn fremur í sína vörslu ógrynni af búnaði og lagði hald á fjármuni, sem grunur lék á að væru tilkomnir vegna fíkniefnasölu. Um svipað leyti ársins var annað mál til rannsóknar þar sem einnig var um að ræða fíkniefni og peningaþvætti. Þrír voru handteknir í þágu rannsóknarinnar og úrskurðaðir í gæsluvarðhald, en lagt var hald á um 3 kg af amfetamíni, auk kókaíns og e-taflna. Vegna málsins voru kyrrsettar eignir, en grunur var um að tilurð þeirra mætti rekja til ágóða af brotastarfsemi.

Við rannsóknir á skipulagðri brotastarfsemi, rétt eins og í öðrum málum, eiga lögregluliðin í landinu með sér mjög gott samstarf. Fleiri koma líka að þegar svo ber undir, t.d. tollyfirvöld, en í júlí voru tveir handteknir í umfangsmiklum aðgerðum lögregluliðanna á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum og tollyfirvalda gegn innflutningi og sölu á ólöglegum lyfjum og sterum. Lagt var hald á 1.100 ambúlur og 11.565 steratöflur, en málið var hluti af aðgerðum sem tengdust Europol og stóðu yfir frá miðjum janúar og fram í byrjun maí. Um var að ræða sendingar sem reynt var að smygla til landsins með flugi og í pósti, en alls voru þetta ellefu tilvik. Snemma árs unnu líka lögregluliðin á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum að rannsókn umfangsmikils fíkniefnamáls, sem teygði anga sína aftur til ársins 2017. Málið sneri að sjö tilvikum á árunum 2017 og 2018 þar sem kókaín var flutt til Íslands með farþegaflugi um Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvöll, auk innflutnings með póstsendingum. Samtals var um 3 kg af kókaíni að ræða, en rannsóknin varðaði einnig peningaþvætti.Tveir karlmenn voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna málsins, en athygli vakti að annar þeirra, meintur höfuðpaur, var handtekinn á Litla-Hrauni þar sem hann var að afplána dóm.

Fíkniefnabrotum hjá embættinu fækkaði annars á milli ára, en árið 2019 voru þau um 1.400. Flest þeirra vörðuðu vörslu og meðferð ávana- og fíkniefna, eða tæplega 1.100. Málum vegna flutnings fíkniefna milli landa fækkaði hlutfallslega mest, en þau voru rúmlega 70. Þegar kom að málum um framleiðslu fíkniefna voru þau ámóta mörg á milli ára, en málum sem snéru að sölu og dreifingu fíkniefna fjölgaði hins vegar frá árinu á undan og voru í kringum 160 árið 2019. Sveiflur hafa verið í málaflokknum, einkanlega hvað varðar haldlagningu fíkniefna og þess sáust merki. Lagt var hald á tæplega 27 kg af marijúana, sem er töluvert minna en árið 2018. Það var reyndar algjört metár í haldlagningu á marijúana og ágætt að hafa það í huga. Töluvert minna var líka haldlagt af kókaíni í samanburði við árið á undan, en þessu var hins vegar alveg öfugt farið þegar amfetamín var annars vegar. Tæplega 16 kg af amfetamíni voru haldlögð af Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu árið 2019. Af öðrum fíkniefnum sem voru tekin í vörslu lögreglu má nefna hass, metamfetamín, e-töflur og LSD.

Umferðareftirlit

Stór hluti verkefna hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu snýr að umferðinni, en umferðarlagabrot í umdæminu skipta þúsundum á hverju ári.

Umferðareftirlit

Á því varð engin undantekning árið 2019, en engu að síður gekk umferðin ágætlega fyrir sig í umdæminu. Vissulega voru tafir hér og þar, gjarnan viðbúnar eins og á háannatíma virka daga bæði á morgnana og síðdegis. Umferðartafir voru líka tilkomnar vegna árlegra framkvæmda og/eða viðgerða á akbrautum og mæltist það misjafnlega fyrir. Þar hjálpaði ekki til þegar áætlaður tími framkvæmda stóðst ekki og þær drógust á langinn. Þetta var sérstaklega bagalegt á fjölförnum götum ef uppgefinn tími stóðst ekki með þeim afleiðingum að enn meiri tafir urðu á háannatíma. Þá var langlundargeð ökumanna ekki mikið. Opinberar heimsóknir settu líka mark sitt á umferðina, en í einhver skipti þurfti að loka götum tímabundið á meðan fyrirmenni fóru þar um. Lítill skilningur virtist ríkja á þeim aðgerðum og margir ökumenn höfðu samband við lögreglu og töldu þær vera með öllu óþarfar. Þótt lokanir hafi alla jafnan verið tilkynntar fyrirfram á það ekki við þegar slys verða. Þá þarf að loka fyrirvaralaust, oftast í stutta stund, og mætti ætla að allir hefðu á því skilning. Svo er þó ekki, alltaf eru einhverjir ökumenn sem þurfa að troða sér framhjá lokunum, líka þegar um vettvang slyss er að ræða.

Umferðarslysin á höfuðborgarsvæðinu voru annars mörg, en í þeim slösuðust um 500 manns og sumir alvarlega. Að meðaltali varð eitt umferðarslys alla daga ársins, en umferðaróhöppin voru margfalt fleiri með tilheyrandi eignatjóni. Árekstrarnir áttu sér stað víðs vegar í umdæminu, en sumar götur komu þá oftar við sögu en aðrar í slysaskráningunni. Miklabraut var áfram efst á blaði enda þúsundir ökutækja sem um hana fara á hverjum sólarhring. Tvenn gatnamót má nefna þar sérstaklega, eða við Kringlumýrarbraut og Grensásveg. Slys og óhöpp í umferðinni voru áberandi á morgnana, eða á milli kl. 8 og 9, og svo aftur eftir hádegi og fram til kl. 18 síðdegis. Hér er vísað til upplýsinga frá Samgöngustofu, en Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur enn fremur um alllangt skeið birt vikulegar samantektir um umferðarslys í umdæminu. Þær er að finna á lögregluvefnum og er það áhugaverð lesning. Þar er jafnframt getið um aðdraganda og orsakar slysanna, sem eru vitaskuld margvíslegar.

Akstur krefst athygli og einbeitingar, en ef það skortir getur farið illa. Aðgát og tillitssemi verður líka að vera til staðar, en æði oft fer ansi lítið fyrir því síðarnefnda. Um það er mörg dæmi, en snemma árs sektaði lögreglan ökumann sem, allt í senn, hindraði umferð gangandi vegfarenda um gangstétt, göngustíg og gangbraut þegar hann lagði ökutæki sína ólöglega einn daginn. Sá fékk 10 þúsund kr. sekt og þótti mörgum það vel sloppið. Sektir og viðurlög við umferðarlagabrotum höfðu þó hækkað mikið árið á undan, en það virtist ekki bíta á alla. Á árinu voru líka gerðar breytingar sem vöfðust fyrir ökumönnum, a.m.k. til að byrja með. Þar verður að nefna breytta akstursstefnu bíla um Laugaveg, sem ráðist var í snemma sumars, en þá varð heimilt að aka götuna til austurs frá Klapparstíg upp að Frakkastíg. Óhætt er að segja að þetta hafi valdið nokkrum vandræðum framan af. Eins áttu ökumenn erfitt með að átta sig á breyttum hámarkshraða á hluta Hringbrautar í Reykjavík, sem lækkaði í 40 úr 50. Um var að ræða vegkaflann á milli Sæmundargötu og Ánanausta, en við hraðamælingar eftir breytinguna var eiginlega engan mun að sjá fyrst um sinn. Brotahlutfallið var áfram hátt og meðalhraði hinna brotlegu var það sömuleiðis.

Hraðakstursbrot

Um 30 þúsund ökumenn voru staðnir að hraðakstri á höfuðborgarsvæðinu árið 2019 og voru hinir sömu sektaðir fyrir vikið.

Hraðakstursbrot

Einhverjir þeirra voru jafnframt sviptir ökuleyfi ef hraðinn var slíkur. Fyrir grófustu hraðakstursbrotin er gefin út ákæra, en slík mál koma upp reglulega. Sérstakur myndavélabíll embættisins var drjúgur sem fyrr, en hann myndaði tæplega 9.000 brot. Hann var á ferðinni flesta daga ársins og gjarnan í íbúðahverfum í umdæminu, ekki síst við grunnskóla. Myndavélabíllinn var þó notaður mjög víða, en gagnsemi hans í gegnum árin er ótvíræð. Þess má geta að embættið fékk nýjan myndavélabíl á árinu, en sá gamli hafði þjónað Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í níu ár. Nýi bíllinn er sá þriðji á starfstíma embættisins, frá sameiningu lögregluliðanna árið 2007, en sektargreiðslur sem ökumenn hafa innt af hendi vegna þessa eftirlits á umræddu tímabili, framreiknað, má telja í fáeinum milljörðum. Rétt er taka fram að sektargreiðslur fyrir umferðarlagabrot, sem og önnur brot, renna í ríkissjóð, en ekki til lögreglunnar eins og sumir halda. Fjölda hraðakstursbrota í umdæminu mátti líka rekja til hraðamyndavéla á stofnbrautum í Reykjavík, þ.e. á Sæbraut og Hringbraut. Sama átti við um hraðamyndavélar Vegagerðarinnar á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi og í Hvalfjarðargöngum, en hátt í 9.000 brot voru mynduð í þessum hraðamyndavélum í útjaðri höfuðborgarsvæðisins. Þar var brotahlutfallið þó lágt, líkt og á fyrrnefndum stofnbrautum. Eins og áður var getið gekk umferðin almennt vel í umdæminu, en ánægjulegustu tíðindi ársins voru vafalaust þau að ekkert banaslys varð í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu árið 2019. Það var mikill viðsnúningur frá árinu á undan, en þá létust sex í umferðarslysum.

Þótt hraðakstursbrotin hafi verið fyrirferðarmikil komu líka mörg önnur umferðarlagabrot á borð Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Um 1.900 voru teknir fyrir fíkniefnaakstur og tæplega 1.200 fyrir ölvunarakstur. Brotunum hefur fjölgað verulega undanfarin ár, sérstaklega fíkniefnaakstur. Fyrir nokkrum árum voru alltaf fleiri teknir fyrir að aka undir áhrifum áfengis heldur en fíkniefna, en það snerist við árið 2014 og hefur haldist síðan. Að aka undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna er ólíðandi með öllu, en embættið hefur lagt mikla áherslu á að stöðva þessa ökumenn og heldur daglega úti slíku eftirliti. Sama má segja um lyfjaakstur, en afleiðingar þess geta sömuleiðis verið skelfilegar. Sumir fyrrnefndra ökumanna voru stöðvaðir í umdæminu oftar en einu sinni, en það átti líka við um þá 1.250 sem voru teknir í akstri þrátt yfir að hafa þegar verið sviptir ökuleyfi. Einhverjir gerðu þetta ítrekað og létu sér ekki segjast. Um 750 ökumönnum var líka gert að hætta akstri, en þeir höfðu aldrei öðlast ökuréttindi.

Um 800 ökumenn voru staðnir að því að aka gegn rauðu ljósi á höfuðborgarsvæðinu árið 2019 og fjölgaði mjög mikið í þeim hópi á milli ára. Stöðubrotum fækkaði hins vegar á sama tímabili og voru um 4.000. Þá ber að nefna að afskipti voru höfð af 2.200 ökutækjum sem voru ýmist ótryggð og/eða óskoðuð, en þeim málum fækkaði aðeins frá árinu á undan. Loks verður að nefna þann hættulega ósið ökumanna að tala í síma á meðan á akstri stendur, en um 1.200 ökuþórar voru teknir fyrir það lögbrot að tala í síma án handfrjáls búnaðar. Sektir fyrir þá háttsemi voru hækkaðar margfalt vorið 2018, eða úr 5 í 40 þúsund. Sama ár fjölgaði þeim verulega sem voru teknir fyrir þessu iðju og sú þróun hélt áfram árið 2019. Margir virðast því láta sig sektir litlu varða.

Opinberar heimsóknir

Fjölmargir, erlendir ráðamenn heimsóttu Ísland á árinu 2019 og var jafnan töluverður viðbúnaður þegar þeir komu til fundarhalda á höfuðborgarsvæðinu.

Opinberar heimsóknir

Það var ekki síst yfir sumarmánuðina og fram á haust, sem opinberar heimsóknir voru áberandi. Úr hópi fyrirmenna sem þá heimsóttu íslenska ráðamenn voru framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, forseti Þýskalands, varaforseti kínverska Alþýðuþingsins, kanslari Þýskalands, forsætisráðherrar Norðurlandanna, varaforseti Bandaríkjanna og forseti Indlands. Mikið mæddi á Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu við komu gestanna, bæði á meðan á þeim stóð og ekki síður í aðdragandanum, en skipulagning slíkra viðburða krefst mikillar vinnu. Þar er að mörgu að hyggja, ekki síst er lýtur að umferðarmálum. Einhverjar tafir voru því óhjákvæmilegar suma daga og í ákveðnum tilvikum þurfti hreinlega að lokum götum, jafnvel klukkutímum saman. Flestir sýndu þessu skilning, en þó voru margir óánægðir og létu vel í sér heyra eins og við mátti búast. Opinberu heimsóknirnar voru misjafnar að umfangi, en heimsókn Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, sló þó öll met. Þá var viðbúnaðurinn slíkur að annað eins hafði ekki sést hérlendis í langan tíma.

Viðhöfð var ströng öryggisgæsla í lofti, á láði og legi, en varaforsetinn kom með flugvél sinni til Keflavíkur og lenti þar um hádegisbil. Hann fékk lögreglufylgd þaðan og að Höfða í Reykjavík og aftur sömu leið að fundinum loknum. Á annað hundrað lögreglumenn frá embættinu stóðu vaktina þennan eftirminnilegan dag, en þeirra hlutverk sneri m.a. að umferðarmálum og svokallaðri ytri gæslu. Þyrla sveimaði yfir borginni á meðan á fundinum stóð og eftirlitsbátur var á siglingu við strandlengjuna, norðan Sæbrautar. Þegar fundinum lauk síðdegis önduðu margir léttar, bæði yfir því hversu vel gekk og eins að þá komst síðdegisumferðin aftur á rétt ról, en heimsóknina bar upp á virkum degi. Áður en varaforsetinn kom í Höfða handtók lögreglan tvo karlmenn á þrítugsaldri neðan við gatnamót Sæbrautar og Katrínartúns, en mennirnir höfðu kveikt í þjóðfána Bandaríkjanna. Þeir voru færðir á lögreglustöð, en sleppt eftir skýrslutöku. Um athæfið sögðust mennirnir hafa verið að lýsa yfir andstöðu sinni við skoðanir varaforsetans. Karlmaður á fertugsaldri var svo handtekinn að fundinum loknum í Höfða, en þá hafði verið opnað fyrir umferð í Borgartúni sem annars staðar. Maðurinn, sem var í annarlegu ástandi, hugðist þá leggja bifreið sinni í stæði gegnt Höfða og var trúlega lítt meðvitaður um atburðarás dagsins og þá staðreynd að fjöldi lögreglumanna var á svæðinu.

Lokanir gatna þennan dag voru víðtækar í nágrenni Höfða og átti það m.a. við um Sæbraut í marga klukkutíma. Sama gilti um Reykjanesbraut í gegnum umdæmið, en hún var þó einvörðungu lokuð á meðan varaforsetinn þurfti að komast leiðar sinnar. Á meðan fundinum stóð var í gildi tímabundið bann við drónaflugi á afmörkuðu svæðí, en það var gefið út í samræmi við reglugerð um starfrækslu  fjarstýrðra loftfara. Við framkvæmd aðgerða Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu naut hún liðsinnis ýmissa aðila enda þurfa margir að koma að svo stóru verkefni svo það geti gengið snurðulaust fyrir sig. Þess má geta að á fundardeginum í Höfða var boðað til mótmæla á Austurvelli vegna komu varaforsetans og fóru þau mjög friðsamlega fram.

Samstarfs- og þróunarverkefni

Snemma árs fór af stað nýtt samstarfs- og þróunarverkefni Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Hafnarfjarðarbæjar, en því var ætlað að efla samvinnu þeirra í málefnum barna og unglinga.

Samstarfs- og þróunarverkefni

Um var að ræða tilraunaverkefni til eins árs, en það tók m.a. til barnaverndarmála, heimilisofbeldis og forvarnastarfs. Embættið lagði til lögreglumann og hafði hann aðsetur í Ráðhúsi Hafnarfjarðar, en verkefnið fékk úthlutað 3 m.kr. styrk úr Lýðheilsusjóði í mars. Undirbúningur stóð yfir um hríð, en reynslan sýndi að þverfaglegt samstarf væri líklegra til árangurs. Horft var jafnframt til þess að unnið yrði að afbrotavörnum í víðu samhengi, að fulltrúi lögreglunnar og starfsmenn sveitarfélagsins, sem hefðu með málefni barna og ungmenna að gera, ættu með sér nána samvinnu. Allt þetta gekk eftir og samstarfið heppnaðist eins og best verður á kosið. Sérstakur bakhópur var settur á laggirnar og studdi hann dyggilega við verkefnið og lagði línurnar fyrir starfið, en í honum sátu fulltrúar frá bæði Hafnarfjarðarbæ og lögreglunni. Embættið kom einnig á fót starfshópi, sem var ætlað að miða að því að gera verkferla þess skilvirkari í málum tengdum börnum og ungmennum.

Verkefnin reyndust vera mörg og margvísleg, en bakhópurinn fékk t.d. það hlutverk að sporna gegn því að börn leiddust út í notkun vímuefna. Það er ærið verkefni eins og allir vita og verður ekki unnið á einum degi. Einnig að þróa forvarnarstarf til lengri tíma og að samræma verklag skólanna í bænum þegar afbrot ættu sér stað á skólatíma. Með því átti að tryggja að allir nytu sömu þjónustu lögreglunnar þegar svo bar undir. Verkefnalistinn var langur, en strax var ljóst að mikil þörf var á samstarfi embættisins og Hafnarfjarðarbæjar á þessu sviði. Á tímabilinu vann fulltrúi lögreglunnar með mörgum aðilum innan sveitarfélagsins, ekki síst með starfsmönnum barnaverndar og voru þeir mjög ánægðir með fyrirkomulagið. Nefnt var að lögregluskýrslur, varðandi barnaverndarmál og heimilisofbeldi,  bærust fyrr en áður og því væri hægt að bregðast fyrr við og veita skjólstæðingunum betri þjónustu. Þá jókst upplýsingagjöf á milli aðila og var það sömuleiðis til mikilla bóta. Ráðgjöf og aðstoð af hálfu lögreglunnar í ýmsum málum varð fljótfengin enda boðleiðin stutt.

Samskipti við grunnskólana í bænum voru mikil, en þau fólust þó ekki í skipulagðri forvarnarfræðslu eins og lögreglan stóð fyrir hér í eina tíð. Fulltrúi lögreglunnar kom meira þegar í hann var kallað vegna mála sem komu upp og þurfti að taka á. Þar gat verið um að ræða ofbeldisbrot eða ítrekuð skemmdarverk. Þá var farið í skólastofurnar og rætt við nemendurna, en á árinu voru félagsmiðstöðvarnar líka heimsóttar og jafnvel leikskólar. Sömuleiðis var fundað með foreldrum um málin almennt og líka vegna tiltekinna mála. Þau gátu verið eins ólík og þau voru mörg, en einhver snéru að fötluðum einstaklingum sem höfðu orðið fyrir ofbeldi af einhverju tagi. Málefni innflytjenda komu líka á borð fulltrúa lögreglunnar í þessu samstarfs- og þróunarverkefni. Það sýndi líka fjölbreytta flóru verkefna sem við er að eiga hjá sveitarfélögunum í umdæminu, svona rétt eins og hjá lögreglunni sjálfri.

Brunar og íkveikjur

Stórbruni varð í Hafnarfirði í lok júlí, en þá kviknaði í iðnaðarhúsnæði í Fornubúðum.

Brunar og íkveikjur

Eldurinn kom upp um miðja nótt og var mikill í vestari hluta hússins, en slökkvistarfið, sem stóð yfir klukkutímum saman, miðaði m.a. að því að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu hans. Nokkur fyrirtæki tengd sjávarútvegi voru með starfsemi í húsinu, en rannsóknarstofa var í því miðju. Mikið tjón varð í brunanum, bæði á búnaði og öðru innandyra sem og húsinu sjálfu, en þak þess var fjarlægt að stórum hluta. Vinnuvél var notuð til að auðvelda slökkvistarf og fjarlægði hún brak á vettvangi. Það var lán í óláni að veðrið var með þokkalegasta móti í Hafnarfirði þessa nótt og því þurfti ekki að rýma íbúðarhús, sem eru þarna í nágrenninu. Það torveldaði eldsupptakarannsókn lögreglu að sá hluti húsnæðisins, þar sem eldurinn kom upp, var albrunninn og mikið af braki var fjarlægt á meðan á slökkvistarfi stóð. Ekki var því á ummerkjum að sjá hvað olli eldsupptökum. Þrátt fyrir tjónið slasaðist enginn og það er alltaf fyrir mestu. Nokkrum mánuðum seinna, að næturlagi undir lok október, fór því miður ekki svo vel þegar eldur kviknaði í kjallaraíbúð í Mávahlíð í Reykjavík. Þrír voru innandyra og komst einn þeirra sjálfur út úr íbúðinni. Hinir, karl og kona á þrítugsaldri, slösuðust lífshættulega í brunanum. Eldurinn kviknaði í potti á eldavélarhellu.

Eldavélarhellur komu við sögu í fleiri málum, en í byrjun febrúar kviknaði eldur út frá heitri hellu á eldavél í leikskóla í Árbænum. Fljótt og vel gekk að ráða niðurlögum eldsins, en rúmlega 50 börn og starfsmenn voru í húsinu þegar hann kom upp. Viðbragðsáætlun leikskólans var strax virkjuð og vel gekk að koma öllum út. Reyndar voru börnin misvel búin, en nágrannar voru fljótir að bjóða fram aðstoð sína og skutu skjólshúsi yfir þau. Börnin voru síðan færð í safnaðarheimili Árbæjarkirkju og sótt þangað af forráðamönnum. Engan sakaði, en dagurinn líður þeim og starfsmönnum leikskólans væntanlega seint úr minni. Þótt gáleysi hafi iðulega verið um að kenna þegar brunar voru annars vegar var svo ekki í öllum tilvikum. Snemma vors kviknaði í skólabyggingu í Breiðholti og þar var niðurstaða lögreglu að eldsupptök voru íkveikja af mannavöldum. Um mikið tjón var að ræða, en athyglin beindist fljótlega að ungum gerendum. Málið var upplýst, en þeim sem áttu hlut að máli var ekki gerð refsing enda voru þeir ósakhæfir sökum ungs aldurs.

Ungmenni í vanda

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust rúmlega 200 leitarbeiðnir að ungmennum á árinu 2019, en beiðnunum fækkaði nokkuð á milli ára.

Ungmenni í vanda

Mun oftar var leitað að piltum en stúlkum og var því alveg öfugt farið miðað við árið á undan. Samtals komu í kringum sjötíu einstaklingar við sögu í málunum, en lítill munur var á kynjunum í þessum efnum. Að sumum þeirra var leitað oftar en einu sinni, jafnvel margítrekað. Þótt leitirnar færu jafnan ekki hátt þurfti þó í einstaka tilvikum að leita aðstoðar björgunarsveita við þær. Embættið hefur jafnframt gripið til þess ráðs að auglýsa eftir þeim í fjölmiðlum, en ekki kom þó til þess á árinu. Leitað var að ungmenna alla mánuði ársins og stundum nær daglega. Flestar leitarbeiðnir bárust í maí, eða 25, og fæstar í júlí, eða 11. Fjóra mánuði ársins voru leitarbeiðnirnar fleiri en 20 og segir það sitthvað um fjölda ungmenna í vanda. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt mikla áherslu á málefni þeirra undanfarin ár og var full ástæða til eins og dæmin sanna. Einn lögreglumaður hefur helgað sig leitarstarfinu, en notið aðstoðar annarra þegar við á, og hefur sá haft meira en nóg að gera við að sinna þessu mikilvæga verkefni.

Þótt ungmennin finnist og sé komið í viðeigandi úrræði er vandræðum þeirra ekki þar með endilega lokið. Beina brautin reynist mörgum erfið og grátlega margir falla aftur í sama farið með tilheyrandi vímuefnaneyslu. Á árinu leitaði lögreglan aftur að stúlku sem hafði margoft komið við sögu hennar í slíkum málum, en náð sér ágætlega á strik í talsverðan tíma. Þegar stúlkan fannst var hún því miður komin í sama farið og áður. Í árslok var enn fremur á borði lögreglunnar mál pilts, sem hún hafði ítrekað leitað uppi á árinu. Þá var hann kominn til útlanda, en hafði stungið þar af frá forráðamönnum sínum. Hann fannst um sólarhring síðar og hafði þá ratað í mikil vandræði. Við 18 ára aldur hættir slíkum afskiptum lögreglunnar af ungmennum, en málafjöldinn er áfram í hundraðatali. Ný andlit taka við af þeim gömlu, en árið 2019 var leitað að 36 ungmennum sem höfðu ekki áður komið við sögu hjá embættinu.

Jafnréttismál

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur tekið jafnréttismál æ fastari tökum undanfarin misseri og merki þess eru vel greinileg.

Jafnréttismál

Hjá embættinu er til staðar jafnréttisáætlun, sem gildir fyrir tímabilið 2019-2022, og eftir henni var unnið. Þróunin stefnir því í rétta átt og árið 2019 voru áfram stigin stór skref í átt að auknu jafnrétti og bættum kynjahlutföllum. Sá merki áfangi náðist á árinu að hlutfall starfandi lögreglukvenna hjá embættinu fór í 30,5%. Í lögregluliðinu voru þá 97 konur og 221 karl. Það er ekki síður athyglisvert í ljósi þess að í löggæsluáætlun stjórnvalda, sem gildir fyrir tímabilið 2019-2023, er stefnt að því að hlutfall kvenna á meðal lögreglumanna nái 30% á landsvísu fyrir árið 2023. Þótt Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi náð góðum árangri í þessum efnum á tiltölulega stuttum tíma þá vill hún gera enn betur. Það gildir ekki síst um stjórnunar- og áhrifastöður innan embættisins, en stefnt er að hærra hlutfalli lögreglukvenna á þeim vettvangi. Þar hefur líka miðað í rétta átt, en betur má ef duga skal. Jafnréttisáætlunin var endurskoðuð í árslok og aðgerðaráætlun hennar uppfærð.

Unnið var á fleiri sviðum jafnréttismála og þar bar hæst jafnlaunavottun, sem vinnur gegn kynbundnum launamun. Jafnlaunavottun á að tryggja að konur og karlar fái jöfn laun og njóti sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Vottunin felur í sér að Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tileinkar sér ákveðið vinnulag við launavinnslu og launaákvarðanir, sem byggir á fyrirfram ákveðnum staðli. Gerð var forúttekt jafnlaunavottunar hjá embættinu seint á árinu og reyndust flestir þættir hennar vera í góðu lagi og án athugasemda. Að síðustu má nefna Jafnréttisvísi, verkefni sem unnið var með Capacent, og snýst um stefnumótun og vitundarvakningu í jafnréttismálum. Í því felst að meta stöðu jafnréttismála út frá ítarlegri greiningarvinnu. Enn fremur að koma á breytingaverkefnum til að bæta stöðu jafnréttismála og innleiða þau. Síðla árs voru haldnir vinnufundir vegna þessa með starfsfólki embættisins þar sem unnið var að úrbótahugmyndum.

Óvenjuleg verkefni

Það hendir marga að misstíga sig á lífsins leið og sumir þeirra koma við sögu hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er fólk á öllum aldri, en málin eru eins misjöfn og fólkið er margt.

Óvenjuleg verkefni

Karlar eiga oftar hlut að máli og þá frekar þeir yngri en eldri. Ekkert er þó algilt í þessum efnum og jafnvel eldri borgarar komast í kast við lögin, þótt ekki séu þeir daglegir gestir hjá lögreglunni. Á seinni hluta ársins vöknuðu grunsemdir um refisverða háttsemi karls og konu, sem bæði voru á áttræðisaldri, og voru þau handtekin í umdæminu í október. Uppi var rökstuddur grunur um aðkomu þeirra að peningaþvætti og broti á lögum um útlendinga og voru bæði úrskurðuð í gæsluvarðhald að kröfu embættisins. Jafnframt var grunur um að karlinn og konan, sem bæði voru erlendir ríkisborgarar, tengdust smygli á fólki og Ísland hafi verið viðkomustaður á þeirri leið. Framkvæmd var húsleit að undangengnum dómsúrskurði á dvalarstað þeirra á höfuðborgarsvæðinu, en þar var m.a. lagt hald á verulega fjármuni.

Svokallað Spice, efni sem telst til nýmyndaðra kannabínóíða, fannst í rafrettum hjá unglingum á höfuðborgarsvæðinu á seinni hluta ársins. Þetta var mikið áhyggjuefni og því vakti embættið athygli á málinu og hvatti forráðmenn barna og unglinga til að vera á varðbergi. Efnið er nánast lyktarlaust, en á meðal skammtímaáhrifa þess eru mikil gleði og ánægja. Aukinn hjartsláttur, hár blóðþrýstingur, ofskynjanir, ofsóknaræði, kvíðaköst og árásargirni eru hins vegar á meðal alvarlegra aukaverkana af notkun efnisins. Um haustið höfðu fjölmiðlar fjallað um Spice og greindu frá notkun þess á meðal fanga á Litla-Hrauni, en talið er að efnið hafi verið nokkuð lengi að berast hingað. Full ástæða var samt til að hafa áhyggjur af þróun mála, en notkun efnisins var mikið vandamál annars staðar, t.d. á Bretlandi. Það var hegðun unglinganna sem leiddi til afskipta af þeim í umdæmi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og var lagt hald á rafrettur. Veipvökvinn úr þeim var rannsakaður á rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði og reyndist hann innhalda Spice, auk nikótíns. Málið var unnið í samráði við barnaverndaryfirvöld.

Vond veður eru engin nýlunda á Ísland enda hafa landsmenn mátt búa við illviðri svo lengi sem elstu menn muna. Þau skella á með reglulegu millibili og þá er vissara að vera vel undirbúinn og koma hlutum í skjól sem geta auðveldlega fokið, t.d. trampólínum og garðhúsgögnum svo fátt eitt sé nefnt. Það er hins vegar harla óvenjulegt að gefin sé út appelsínugul veðurviðvörun fyrir umdæmið þegar óveður er í aðsigi. Sú var þó raunin skömmu fyrir jól, en þá brast á mikið óveður á landinu öllu. Íbúar á höfuðborgarsvæðinu máttu þó hrósa happi þegar upp var staðið því veðrið, sem var sannarlega mjög vont, var þó sýnu verra annars staðar á landinu. Aðgerðastjórn höfuðborgarsvæðisins var virkjuð þennan dag, en svo er ávallt gert þegar mikið liggur við. Á það bæði við um þegar alvarlegir atburðir kunna að vera yfirvofandi eða hafa þegar átt sér stað. Annars var veðrið í umdæminu á köflum með leiðinlegasta móti og lék íbúana stundum grátt á árinu. Lögreglumenn sinntu mörgum útköllum vegna þessa og þá gaf embættið út ófáar veðurviðvaranir í miðlum sínum.

Nú á dögum kjósa flestir að nota heimabankann þegar greiðslur reikninga eru annars vegar og þannig spara sér tíma sem annars færi í útréttingar. Þetta er þó ekki algilt, en í apríl kom á lögreglustöðina á Hverfisgötu í Reykjavík ökumaður sem hafði verið staðinn að hraðakstri. Sá vildi gera hreint fyrir sínum dyrum og borga sektina umbúðalaust. Hann var með reiðufé meðferðis og mikið af því. Hraðasektir eru þó sjaldnast borgaðar með brosi á vör og það getur jafnvel verið þungt hljóðið í fólki þegar það kemur þessara erinda á lögreglustöð. Töluverð þyngsli áttu líka við í þessu tilviki, en samt í annarri merkingu orðanna, því að smámyntin, sem maðurinn bar í hús, og var notuð til að borga sektina, vó mörg kíló. Þótt embættinu, rétt eins og öðrum stofnunum, beri ekki skylda til að taka á móti smámynt var það engu að síður gert, en síðan fóru starfsmenn þess með peningana í talningavél í næsta banka. Upphæðin reyndist duga fyrir hraðasektinni og rúmlega það, en mismunurinn var auðvitað lagður samviskulega inn á reikning ökumannsins.

Íslendingar eru ýmsu vanir þegar erlendar poppstjörnur eru annars vegar enda hafa ófáir úr þeirra röðum haldið tónleika hérlendis. Englendingurinn Ed Sheeran bættist í þann hóp eftir verslunarmannahelgina, en um sannkallaða risatónleika var að ræða. Um 50 þúsund manns mættu á Laugardalsvöll og hlýddu á goðið, sem bauð upp á tvenna tónleika aðra helgina í ágúst. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stóð vaktina báða tónleikadagana og hafði uppi töluverðan viðbúnað. Loka þurfti nokkrum götum vegna tónleikanna, m.a. Suðurlandsbraut sem var lokuð fyrir umferð báða dagana frá því síðdegis. Einnig var gefið út bann við því að fljúga drónum á tónleikasvæðinu og í nágrenni þess og gilti það frá hádegi á laugardegi til miðnættis á sunnudagskvöld. Báðir tónleikarnir heppnuðust svo einstaklega vel og engin teljandi vandamál komu upp meðan á þeim stóð. Tónleikagestir voru til mikillar fyrirmyndar og samstarf lögreglunnar og þeirra sem komu að skipulagningu viðburðarins var enn fremur mjög gott.

Lögreglan og samfélagsmiðlar

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er sífellt að leita leiða til að bæta þjónustuna og efla tengslin við almenning, ekki síst við unga fólkið.

Lögreglan og samfélagsmiðlar

Þar leika samfélagsmiðlar stórt hlutverk og það hefur embættið nýtt sér óspart, en nýjasta viðbótin í þeim efnum var Instagramsíðan Samfélagslöggur, sem var farið af stað með á fyrri hluta ársins. Henni stýrðu þrír reyndir lögreglumenn, en vilji þeirra var að færa lögregluna nær samfélaginu og styrkja tengsl hennar við ungt fólk sérstaklega. Tveir þessara lögreglumanna störfuðu á lögreglustöðinni í Kópavogi og sá þriðji var fulltrúi embættisins í samstarfs- og þróunarverkefni þess með Hafnarfjarðarbæ, sem lesa má um annars staðar í ársskýrslunni. Tilgangurinn með Instagramsíðunni var ekki síst að miðla áhugaverðu efni sem varð á vegi þremenninganna. Þar var af nógu að taka enda er enginn dagur eins í lífi lögreglumannsins. Þessu til viðbótar hafa tveir aðrir lögreglumenn í Reykjavík, annar á lögreglustöðinni á Hverfisgötu og hinn á Vínlandsleið, verið með sérstakar fésbókarsíður til að eiga samskipti við fólk í ákveðnum hverfum. Það hefur sömuleiðis gefið góða raun.

Um fésbókarsíðu embættisins þarf ekki að hafa sérstaklega mörg orð, en velflestir þekkja til hennar. Síðunni hefur verið haldið úti í um níu ár, en ákveðið var að setja hana í loftið í árslok 2010. Um það voru skiptar skoðanir og sitt sýndist hverjum um þetta framtak lögreglunnar á þeim tíma. Efasemdarmönnum fækkaði þó með árunum og nú þykir sjálfsagt að lögreglan sé þátttakandi á þessum vettvangi. Fylgjendum Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á fésbókinni hefur fjölgað mikið í gegnum tíðina, en í árslok höfðu um 90 þúsund manns líkað við síðu embættisins. Fáir sáu þróunina fyrir í upphafi, en fjölda fylgjenda merkir væntanlega að embættið er að gera eitthvað rétt á þessum vettvangi og ætlunin er að halda því áfram. Þess má enn fremur geta að árið 2019 bárust Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu um 25 þúsund einkaskilaboð í gegnum fésbókarsíðu embættisins og segir það sína sögu. Þeim er jafnað svarað innan fjögurra klukkustunda af starfsmönnum embættisins og starfsmönnum fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra.

Við sérstakar aðstæður er haldið úti vakt á fésbókarsíðunni, t.d. ef óveður geisar í umdæminu líkt og gerðist í árslok. Þá er mikilvægt að geta komið skilaboðum hratt og örugglega til almennings, en við þær aðstæður hefur fésbókarsíðan margsannað gildi sitt. Miðillinn hefur líka reynst mjög vel við leit að fólki, en upplýsingar frá almenningi koma lögreglu iðulega á sporið í slíkum málum sem öðrum. Mikilvægt er þó að undirstrika að sé óskað eftir skjótri aðstoð lögreglu skal hins vegar ávallt hringja í 112, en það vill stundum gleymast. Að síðustu má geta þess að Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lætur líka til sín taka á öðrum samfélagsmiðlum. Hún er einnig á Instagram, til viðbótar fyrrnefndum Samfélagslöggum, en þar eru fylgjendur lögreglunnar um tvöfalt fleiri heldur en á fésbókinni. Embættið er sömuleiðis á Twitter og hefur í allnokkur skipti haldið úti svokölluðu Löggutísti í samstarfi við önnur lögregluembætti.

Viðhorfskönnun

Öryggiskennd íbúa á höfuðborgarsvæðinu í eigin hverfi mældist svipuð og undanfarin ár, en u.þ.b. níu af hverjum tíu segjast öruggir einir á gangi í eigin hverfi eftir myrkur.

Viðhorfskönnun

Þegar spurt var um miðborgina sérstaklega sagðist um helmingur íbúa í umdæminu telja sig örugga eina á gangi þar eftir að myrkur er skollið á, eða eftir miðnætti um helgar. Þetta er sömuleiðis svipað hlutfall og í könnunum síðustu ára, en Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lætur framkvæma þær árlega og hefur svo verið gert í allmörg ár. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands sá um framkvæmdina, en viðhorfskönnunin árið 2019 fór fram um mitt sumar. Úrtakið náði til 2.000 manns og var svarhlutfallið tæplega 55%, en stuðst var við netpanel eins og jafnan áður. Niðurstöðurnar gefa embættinu mikilvægar vísbendingar um það sem vel gengur og líka það sem þarf mögulega að bæta í starfseminni. Áhugavert var að sjá mismunandi viðhorf eftir aldri og kyni, sem var mjög greinilegt við ákveðnum spurningum. Áhyggjur af brotum voru t.d. minnstar hjá ungu fólki á aldrinum 26-35 ára.

Innbrot voru þau brot sem flestir töldu vera mesta vandamálið í sínu hverfi, en þjófnaðir og eignaspjöll voru líka nefnd til sögunnar. Meirihluti svarenda upplifði aðstæður á einhverjum tímapunkti þannig að þeir töldu líklegt að þeir yrðu fyrir afbroti. Hátt í fimmtungur kvenna, eða 18%, tiltók kynferðisbrot, sem það brot sem þær höfðu mestar áhyggjur að verða fyrir. Hjá körlunum nefndu hins vegar 1% kynferðisbrot. Um þriðjungur þátttakenda hafði orðið fyrir afbroti og vísuðu flestir til eignaspjalla. Þar á eftir voru nefndir þjófnaðir og innbrot. Marktækur munur var eftir búsetu svarenda, en Garðbæingar höfðu mestar áhyggjur af innbrotum á meðan Kópavogsbúar sögðu umferðarlagabrotin vera helsta vandamálið í þeirra heimabæ. Árbæingar og Breiðhyltingar nefndu hins vegar eignaspjöll sem aðal vandamálið á þeirra slóðum. Frekari upplýsingar um viðhorfskönnunina er að finna á lögregluvefnum.

Eitt og annað

Fjórir voru í haldi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu einn laugardaginn í mars eftir að skotum var hleypt af í Vogunum í Reykjavík.

Eitt og annað

Tilkynning um skothvelli við hús í hverfinu barst snemma um morguninn og fór lögreglan þegar á vettvang, en skothvellirnir voru þagnaðir þegar þangað var komið. Tveir, sem voru í íbúð í húsinu, voru handteknir og sömuleiðis tveir aðrir sem voru þar utandyra. Lögreglan lagði hald á skotvopn sem fannst í húsinu, auk nokkurra skothylkja sem fundust á vettvangi. Þá lá enn fremur fyrir að byssukúlur höfnuðu í tveimur bifreiðum sem stóðu fyrir utan húsið. Af þessu var ljóst að mikil hætta var á ferðum og þótti mikil mildi að enginn skyldi slasast þegar þetta átti sér stað. Rannsókn málsins leiddi fljótt í ljós að fjórmenningarnir áttu mismikinn hlut að máli, en einn þeirra var úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Því miður var þetta ekki eina útkallið sem lögreglan brást við þar sem skotvopn komu við sögu.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og Landspítalinn unnu Media Management verðlaunin, sem voru afhent í september. Það var sameiginlegt verkefni stofnananna, þar sem notast var við Digital Asset Management lausn, sem færði þeim verðlaunin, en verkefnið sneri að vörslu og dreifingu viðkvæmra gagna þar sem þurfti bæði að tryggja öryggi þeirra og aðgengi skilgreindra notenda með skilvísum og fljótlegum hætti. Viðkvæmu gögnin sem vísað er til eru myndir sendar frá Neyðarmóttökunni til tæknideildar lögreglu, auk mynda sem tæknideild sendir réttarmeinafræðingum spítalans og öfugt. Öll varsla þessara mynda var nú með miklu öruggari hætti en áður, auk þess sem verkefnið leiddi líka til tímasparnaðar og hagræðingar. Það var Þekking, samstarfsaðili FotoWare á Íslandi, sem vann að verkefninu með Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og Landspítalanum.

Samstarf lögregluliða, sem og samstarf þeirra við aðrar stofnanir er mikilvægt og færist í vöxt ef eitthvað er. Dæmi um þetta mátti sjá snemma í febrúar þegar Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu framkvæmdi átta húsleitir í umdæminu, m.a. á skemmtistað í miðborginni, vegna grunsemda hennar um umfangsmikla brotastarfsemi. Lagt var hald á gögn, búnað og fjármuni, en öll málin tengdust. Höfð voru afskipti af tuttugu og sex einstaklingum og voru tíu þeirra færðir á lögreglustöð til yfirheyrslu, en síðan sleppt úr haldi að henni lokinni. Fjöldi lögreglumanna og starfsmanna frá embætti skattrannsóknarstjóra tók þátt í aðgerðunum og gengu þær vel fyrir sig. Rannsókn lögreglu var unnin í samvinnu við embætti skattrannsóknarstjóra.

Óhætt er að segja að embættinu berist beiðnir og fyrirspurnir um nánast allt á milli himins og jarðar. Sumum er hægt að verða við, en öðrum ekki eins og gengur. Ein af þeim óvenjulegri rataði á borð Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu seint í nóvember, en þá hafði erlendur karlmaður á biðilsbuxunum, sem hér var á stuttu ferðalagi með kærustunni, samband og óskaði aðstoðar lögreglunnar við að bera upp bónorðið. Hugmynd ferðamannsins var ekki alveg fullmótuð, en hann vildi þó enda í fangageymslunni og biðja þar sinnar heittelskuðu. Ekki kom þó til þess að hugmyndin væri fullunnin í samráði við lögregluna, því eftir efnislega meðferð var beiðninni hafnað hjá embættinu þótt um margt væri hún áhugaverð. Um ástæður neitunarinnar þarf kannski ekki að hafa mörg orð, en aðstæður í fangageymslunni eru sjaldan eða aldrei rómantískar og starfsemin þar jafnan viðkvæm svo aðeins það sé nefnt til sögunnar.

Að venju voru viðhöfð mótmæli í umdæminu af ýmsum ástæðum og fóru þau jafnan mjög vel fram á árinu. Undantekning varð þó á því í mars þegar hælisleitendur og stuðningsfólk þeirra skipulögðu mótmæli á Austurvelli. Það var gert án þess að sækja um leyfi, eins og venjan er, og ekki bætti úr skák að mótmælendur settu upp tjöld og mynduðu skjaldborg um þau. Lögreglan, sem hafði venjubundinn viðbúnað við Alþingishúsið, gerði mótmælendum grein fyrir því að þeir gætu ekki tjaldað á Austurvelli án leyfis. Svo fór að lögreglumenn tóku tjöldin og kom þá til stympinga. Lögreglan lagði jafnframt hald á pappaspjöld og vörubretti á vettvangi enda taldi hún að verið væri að hlaða í bálköst. Við það þurftu lögreglumenn að beita afli og var þá sparkað í einn þeirra og ráðist á annan. Hluti mótmælenda gerði enn fremur aðsúg að lögreglunni og var þá piparúða beitt. Beiting hans var metið vægasta stig valdbeitingar, en litið var svo á að verið væri að ráðast á lögregluna við skyldustörf. Þrátt fyrir atganginn hlaut enginn alvarleg meiðsli af.

Í Bæjarhrauni í Hafnarfirði er starfrækt móttaka fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Hún var opnuð árið 2017 og var þá gerður samstarfssamningur um starfsemina á milli Útlendingastofnunar og lögregluliðanna á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Strax var ljóst að full þörf var fyrir móttökuna, en þangað hafa margir komið og sótt um alþjóðlega vernd á undanförnum árum. Starfsemin þar gekk vel á árinu 2019, en í nógu var að snúast fyrir lögreglumennina í Bæjarhrauni. Umsóknir um alþjóðlega vernd voru um 850 og fjölgaði þeim á milli ára. Flestar umsóknir bárust frá ríkisborgurum Venesúela og Íraks, en umsækjendur voru annars frá um 70 löndum. Karlar voru um helmingi fleiri í hópi umsækjenda heldur en konur, sem samanstóð líka af rúmlega 200 börnum, en fjögur þeirra voru fylgdarlaus.

Um árabil hefur Gallup kannað traust til stofnana í þjóðfélaginu, en þar hefur traust almennings til lögreglunnar jafnan verið mikið. Svo var líka árið 2019, en í Þjóðarpúlsi Gallup í mars mátti lesa að 83% landsmanna báru mikið traust til lögreglunnar. Það voru ánægjulegar niðurstöður, en traustið var ívið meira en árið á undan þegar sambærileg könnun var framkvæmd. Traust er ekki sjálfgefið og allra síst fyrir lögregluna, sem er flesta daga að fást við mjög erfið og krefjandi verkefni og viðbúið að ekki líki öllum afskipti hennar eða framganga. Lögreglan leyfði sér þó að líta svo á að hún væri að gera margt rétt og að áðurnefndar niðurstöður endurspegluðu það.

Ársskýrsla 2019

Rekstur

Rekstur Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gekk almennt vel árið 2019 og varð um 52 m.kr. rekstrarafgangur í árslok. Niðurstaðan varð samt um 100 m.kr. halli, sem er innan við 2% af fjárheimildum, en ársvelta embættisins var um 5,9 milljarðar. Að láta enda ná saman er ávallt vandasamt enda er umfang starfseminnar mikið og verkefnin eftir því. Bætt nýting fjármuna var höfð að leiðarljósi, en það er eitt markmiða sem Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu setti sér við sameiningu lögregluliðanna hér um árið og frá því hefur ekki verið vikið. Þetta árið, sem önnur, komu upp óvænt útgjöld og þá þurfti að bregðast við með útsjónarsemi.

Útgjöld voru þó oftar bæði fyrirséð og nauðsynleg. Þar bar einna hæst endurnýjun margskonar búnaðar enda mikilvægt að lögreglan hafi þau tæki og tól sem til þarf. Útgjöld vegna þessa skiptu samtals tugum m.kr., bæði vegna búnaðar lögreglumanna og borgaralegra starfsmanna. Nefna má búkmyndavélar, fartölvur og snjalltæki í þessu samhengi, en öll tækin auðvelda störf lögreglunnar og gera þau öruggari. Áfram féll líka til kostnaður vegna stefnumótunar og umbótavinnu, en hann skilar sér til baka með aukinni starfsánægju og bættri þjónustu við borgarana. Á fjárlögum var gert ráð fyrir fyrir 49 m.kr hagræðingarkröfu til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en á móti komu verulega auknar fjárheimildir vegna landamæravörslu, fjölgunar ferðamanna, aðgerða gegn skipulagðri brotastarfsemi og peningaþvætti og vegna aðgerðaáætlunar um bætta meðferð kynferðisbrota.

Frá árinu 2017 hefur embættið skilað frá sér ársreikningi sem uppfyllir alþjóðlega reikningsskilastaðla opinberra aðila í samræmi við ný lög um opinber fjármál. Rekstrarniðurstaðan er því önnur en ef fylgt hefði verið eldri uppgjörsaðferð og hefur þess verið getið í síðustu ársskýrslum, sérstaklega er varðar orlofsskuldbindingar. Ársreikninga Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er að finna á slóðinni https://arsreikningar.rikisreikningur.is

Umfjöllun um rekstur byggir á bráðabirgðatölum úr ársreikningi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir árið 2019.

 

 

Útgefandi:
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu
Umsjón og ábyrgð:
Upplýsinga- og áætlanadeild, Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson
Myndir:
 Júlíus Sigurjónsson
www.lrh.is
www.facebook.com/logreglan

 

Útsend

Greidd

 

Í lok janúar 2020 eftir skipulagseiningum

 

424
Heildarfjöldi starfsmanna við lok janúar 2020
378,7
Fjöldi ársverka 2019
30%
Hlutfall kvenna af lögreglumönnum
61%
Hlutfall kvenna af borgaralegum starfsmönnum
5,37%
Hlutfall tapaðara vinnustunda vegna veikinda
10,2%
Starfsmannavelta * lögregla
12,7%
Starfsmannavelta * borgarar
10
Fjöldi lögreglumanna í launalausu leyfi í árslok
* taldir með þeir sem hætta vegna aldur

 

Handtökur

Eftir mánuðum

Eftir vikudögum

Samtals 2016
4242
Fjöldi einstaklinga: 2641
Samtals 2017
5191
Fjöldi einstaklinga: 3136
Samtals 2018
5864
Fjöldi einstaklinga: 3467
Samtals 2019
5761
Fjöldi einstaklinga: 3355

Vistanir

Eftir mánuðum

Eftir vikudögum

Samtals 2016
2351
Fjöldi einstaklinga: 1507
Samtals 2017
2621
Fjöldi einstaklinga: 1686
Samtals 2018
2913
Fjöldi einstaklinga: 1826
Samtals 2019
2578
Fjöldi einstaklinga: 1655

 

Skipurit
Fréttir frá lögreglu
x
20. október

Versta veðrið á höfuðborgarsvæðinu frá kl. 17 -21/22

3. janúar, 2019

Hótun

Lesa meira

Vinnumálastofnun var lokað í morgun eftir að þangað barst hótun. Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var kunngjört um málið og hefur hún upplýsingar um þann sem stendur að baki hótuninni. Viðkomandi er staddur erlendis og er málið unnið í samvinnu við þarlend lögregluyfirvöld.

Búist er við að starfsemi Vinnumálastofnunar komist fljótlega í eðlilegt horf og lokuninni verði aflétt.

10. janúar, 2019

Innbrot – reiðhjólum stolið

Lesa meira

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur til rannsóknar innbrot í Reiðhjóla- og sláttuvélarþjónustana á Vagnhöfða 6 í Reykjavík, en málið var tilkynnt til lögreglu í morgun. Þar var m.a. stolið fulldempuðum fjallareiðhjólum af gerðinni Sensa, auk Elite hjólatrainera.

Talið er að innbrotið hafi verið framið í gærkvöld eða nótt, en þeir sem geta veitt upplýsingar um málið eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögreglu í síma 444 1000, með tölvupósti á netfangið hildur.run@lrh. is eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Allt eins er líklegt að hinir óprúttnu aðilar bjóði hjólin til sölu og er fólk beðið um að hafa það hugfast.

18. janúar, 2019

Bílþjófur handtekinn

Lesa meira

Stolna bifreiðin sem lögreglan lýsti eftir í gær er fundin, en svo var ekki síst árverkni borgara fyrir að þakka. Sá tilkynnti um bifreiðina í austurborginnni, en ökumaður hennar var ekkert á þeim buxunum að stöðva för sín þegar lögreglumenn komu á vettvang og ók rakleiðis áfram. Úr varð stutt eftirför uns bílþjófurinn nam staðar, en þá reyndi hann að komast undan á tveimur jafnfljótum og síðan að fela sig undir annarri bifreið skammt frá. Þar var maðurinn handtekinn og færður á lögreglustöð, en þess má geta að hann hafði þegar verið sviptur ökuleyfi.

20. janúar, 2019

Umferðaróhapp á Kjalarnesi

Lesa meira

Vinnu á vettvangi er lokið, en 27 voru í annarri rútunni og 11 í hinni. Þetta voru erlendir ferðamenn frá Bretlandi og Bandaríkjunum. Fólkið var flutt í fjöldahjálparmiðstöð í Varmárskóla, utan fjögurra sem voru fluttir á slysadeild til skoðunar, en talið er að meiðsli þeirra séu minni háttar. Aðgerðastjórn höfuðborgarsvæðisins var virkjuð vegna óhappsins.

Vesturlandsvegur er lokaður á milli Mosfellsbæjar, við Þingvallaveg, og Hvalfjarðarganga og verður svo eitthvað áfram.

31. janúar, 2019

Um afskipti lögreglu

Lesa meira

Vegna fréttar á menn. is, þar sem vitnað er í fésbókarskrif um afskipti lögreglu af ungum pilti í verslun í Breiðholti í síðustu viku, vill Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu taka fram að málsatvik voru ekki með þeim hætti sem þar er lýst. Þar ber að nefna að umræddur piltur var ekki staðinn að þjófnaði né var hann grunaður um nokkuð slíkt og því mjög mikilvægt að það komi fram. Jafnframt skal þess getið að lögreglumenn á vettvangi áttu engin orðaskipti við þann sem ritaði áðurnefnda fésbókarfærslu og virðist umfjöllun viðkomandi byggð á misskilningi. Orðum um að lögreglumenn hafi lagt hendur á piltinn er algjörlega vísað á bug.

Skoðun á myndefni úr eftirlitsmyndavélum á og við vettvang staðfestir enn frekar að allar ávirðingar í garð lögreglu í málinu eru ekki á rökum reistar.

7. febrúar, 2019

Vegfarandi í ójafnvægi

Lesa meira

Á fjórða tímanum í dag barst lögreglu tilkynning um vegfaranda í ójafnvægi á göngubrú á Miklubraut, á móts við Kringluna, en óttast var að viðkomandi kynni að fara sér að voða. Brugðist var fljótt við og tókst að afstýra því að illa færi, en vegfarandanum var síðan komið í hendur viðeiganda aðila.

Eilítil röskun varð á umferð vegna þessa, en loka varð fyrir umferð í stutta stund á meðan aðgerðum á vettvangi stóð.

22. febrúar, 2019

Grunsamlegar mannaferðir

Lesa meira

Nokkuð reglulega berast lögreglu tilkynningar um innbrot í heimahús á höfuðborgarsvæðinu og ein slík barst nýverið, en þá var tilkynnt um yfirstandandi innbrot í raðhúsi í umdæminu þar sem skuggalegt par á miðjum aldri hafði fundið sér leið inn í húsið gegnum bílskúrinn. Brugðist var skjótt við og tveir lögreglumenn sendir rakleiðis á vettvang, en samtímis var haft samband við húsráðanda til að upplýsa hann um stöðu mála. Sá var í makindum heima hjá sér þegar hringt var frá lögreglunni og sá enga innbrotsþjófa á heimilinu. Reyndar var maðurinn nýkominn inn eftir að hafa farið í göngutúr með konunni sinni í slagveðri og voru þau klædd í samræmi við það. Hann sagði þau sjálf hafi farið inn um bílskúrinn og nú var ljóst að málið var á misskilningi byggt.Nágranni mannsins, sem tilkynnti um innbrotsþjófana, hafði farið mannavillt og því var lögreglubílnum með blikkandi ljós snúið við þegar staðreynd málsins blasti við.

Því má svo bæta við að húsráðandi í umræddu raðhúsi, sem er reyndar starfandi lögreglumaður á höfuðborgarsvæðinu, hefur verið duglegur að hvetja nágranna sína til að láta lögreglu vita um grunsamlegar mannaferðir.

Sá sem hringdi í lögregluna í þessu tilfelli brást því hárrétt við enda er betra að hringja einu sinni of oft í lögregluna með upplýsingar af þessi tagi en einu sinni of sjaldan.

28. febrúar, 2019

Alvarlegt umferðarslys

Lesa meira

Alvarlegt umferðarslys varð á gatnamótum á Lambhagavegi í Reykjavík um hálfáttaleytið í kvöld, en þar var ekið á gangandi vegfaranda. Lögreglan og sjúkraflutningamenn héldu þegar á vettvang, en slysið átti sér stað u.þ.b. miðja vegu á milli Bauhaus og Mímisbrunns.

Rannsókn slyssins er á frumstigi og ekki er hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.

19. mars, 2019

Þrír handteknir við alþingishúsið

Lesa meira

Þrír voru handteknir við Alþingishúsið á öðrum tímanum í dag eftir að lögreglan var kölluð þangað vegna hóps af fólki sem hindraði aðgengi að húsinu. Þremenningarnir hlýddu ekki ítrekuðum fyrirmælum lögreglu um að láta af þessari háttsemi og voru handteknir eins og áður sagði.

Síðdegis, að loknum skýrslutökum, var hinum sömu sleppt úr haldi lögreglu.

25. mars, 2019

Innbrotsþjófar handteknir í Kópavogi

Lesa meira

Tveir innbrotsþjófar voru handteknir í Kópavogi á laugardag eftir að tilkynnt var um innbrot í nýbyggingu í bænum.

Á vettvangi og í nágrenni hans var ekki á miklu að byggja og þjófarnir hvergi sjáanlegir, en þó mátti sjá einhver skóför og hjólför að auki. Það var þó nóg til þess að lögreglumenn, sem sinntu útkallinu, komust á sporið, en það leiddi þá að íbúð annars staðar í bænum. Þar fyrir utan stóð bifreið, sem hafði að geyma þýfið, en í íbúðinni voru tveir menn, annar á þrítugsaldri og hinn á fimmtugsaldri, og voru báðir handteknir í þágu rannsóknar málsins.

Annar þeirra, húsráðandinn, var sakleysið uppmálað þegar spurt var út í innbrotið og hvort hann hann hefði eitthvað misjafnt að geyma á heimilinu. Ekki reyndust svör hans sannleikanum samkvæm því í íbúðinni fannst talvert af fíkniefnum, sem lögreglan lagði hald á. Mennirnir játuðu báðir sök við yfirheyrslu á lögreglustöð, en að því loknu var hinum stolnu munum komið aftur í réttar hendur. Mestmegnis voru þetta verkfæri, en þjófnaðurinn var mjög bagalegur fyrir eigandann sem hefði lítið komist áfram við framkvæmdirnar án þeirra.

Hér fór því allt vel, ekki síst af þeirri ástæðu að lögreglumennirnir sýndu mikla útsjónarsemi við að upplýsa málið.

28. mars, 2019

Lögregluaðgerð í Kópavogi – tveir handteknir

Lesa meira

Tveir voru handteknir í aðgerðum lögreglunnar í fjölbýlishúsi í Vallakór í Kópavogi í morgun, en tilkynnt var um skotvopn í íbúð í húsinu á áttunda tímanum í morgun. Töluverður viðbúnaður var á vettvangi, en það voru lögreglumenn frá sérsveit ríkislögreglustjóra sem handtóku mennina.

Rannsókn málsins er á frumstigi og ekki er hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.

1. apríl, 2019

Afskipti vegna veikinda

Lesa meira

Um þrjúleytið í dag hafði Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu afskipti af manni í austurborginni vegna veikinda, en óttast var að maðurinn kynni að fara sér að voða. Viðkomandi var ósamvinnufús á vettvangi, en vel gekk að tryggja öryggi hans. Maðurinn var síðan færður á sjúkrastofnun til frekari aðhlynningar.

Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar um málið.

10. maí, 2019

Rannsókn lokið

Lesa meira

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur lokið rannsókn á meintri árás hóps ungmenna á ungling í Langarima í Grafarvogi þann 21. apríl síðastliðinn. Ungmennin eru á aldrinum þrettán til fimmtán ára. Rætt var við fimm ungmenni að foreldrum viðstöddum, sem veittu alla þá aðstoð sem hægt var til að upplýsa um málsatvik. Gerandi og þolandi eru báðir undir sakhæfisaldri. Virðist sem um pústra hafi verið að ræða þar sem gerandi taldi sig eiga óuppgerðar sakir. Brotaþoli varð ekki fyrir áverkum. Engar kröfur eru uppi í málinu.

Barnaverndaryfirvöld voru upplýst um allar rannsóknaraðgerðir lögreglu og nú niðurstöðu.

26. maí, 2019

Ekki er allt sem sýnist

Lesa meira

Á vettvangi fésbókarinnar fáum við mikið af skilaboðum frá íbúum á höfuðborgarsvæðinu og við megum til með að deila einum þeirra með ykkur, en sá sem þau sendi gaf góðfúslega leyfi sitt og gat hlegið, eftir á, að þeim aðstæðum sem þarna kom upp.

„Góðan daginn. Ég vildi bara láta ykkur vita, ef ske kynni að fengjuð tilkynningu um innbrot í hús við xxxxxxxxxxxxx, að ég, húsmóðirin á heimilinu, læsti mig úti og brá á það ráð að skrúfa gluggafestinguna upp með bíllyklinum mínum og klifra inn um gluggann. Ég var svo óheppin að rassinn skorðaðist í glugganum og ég var föst þarna í dágóða stund. Ég hef smá áhyggjur af því að gangandi vegfarendur kunni að hafa séð til mín með rassinn út um gluggann og tilkynnt herlegheitin. En þetta var ekki það sem það leit út fyrir að vera. Það má segja að þetta hafi verið árangursríkt innbrot þrátt fyrir að það hafi gengið brösuglega. Ég komst óslösuð frá þessu öllu saman, náði að grípa veskið mitt og láta mig hverfa, allt áður en lögregla mætti á staðinn.“

27. maí, 2019

Virðum lokanir

Lesa meira

Það er með öllu óskiljanlegt hversu oft ökumenn reyna að troða sér framhjá lokunum í umdæminu og skiptir þá engu þótt um vettvang slyss sé að ræða.

Þetta var því miður raunin enn eina ferðina í gærdag, en þá var lögreglan kölluð til vegna umferðarslyss á mótum Sogavegar og Austurgerðis, rétt norðan Bústaðavegar. Þar var bifreið ekið á barn á reiðhjóli og strax ljóst að um alvarlegt slys var að ræða. Setja þurfti upp lokun á Bústaðavegi vegna þessa svo m.a. væri hægt með öruggum hætti fyrir viðbragðsaðila að athafna sig á vettvangi. Þrátt fyrir ökutæki lögreglu á staðnum, bæði bílar og bifhjól með blikkandi ljós, freistuðu ökumenn þess að troða sér framhjá og tókst einhverjum það uns þeir urðu að nema staðar beint við slysstaðinn.

Svona háttsemi er með öllu ólíðandi og hinir sömu þurfa að hugsa sinn gang, því varla vill nokkur maður skapa frekari hættu á vettvangi þar sem þegar hefur orðið slys.

11. júní, 2019

Stöðubrot

Lesa meira

Búast má við um 10 þúsund áhorfendum á leik Íslands og Tyrklands á Laugardalsvellinum í kvöld kl. 18.45, og eru vallargestir hvattir til að mæta tímanlega. Þeir knattspyrnuáhugamenn, sem ekki ætla að nota strætó til að komast á völlinn, eru minntir á að leggja löglega, en sl. laugardag, þegar leikið var gegn Albaníu, fengu átján ökumenn sekt fyrir stöðubrot. Það þykir ekkert sérstaklega mikið þegar um svona viðburð er að ræða og almennt þá voru lagningar ökutækja til fyrirmyndar og vonandi verður það einnig raunin í Laugardalnum í kvöld. Á meðal þeirra sem fengu sekt á laugardaginn voru ökumenn sem lögðu bílum sínum við biðstöð hópbifreiða, en þarna má eigi stöðva eða leggja ökutæki í minna en 15 metra fjarlægð frá merki fyrir biðstöð hópbifreiða (sbr. 28. gr. umferðarlaga).

Lögreglan spáir annars íslenska liðinu sigri í kvöld, 1-0, en þetta verður hörkuleikur og Tyrkirnir eru greinilega með firnasterkt lið um þessar mundir.

Okkar menn eru hins vegar engir aukvisar og eru iðulega bestir þegar mest á reynir.

Áfram Ísland!

18. júní, 2019

Reiðhjólaþjófnaður

Lesa meira

Að undanförnu hefur borið nokkuð á reiðhjólaþjófnaði á höfuðborgarsvæðinu, en þjófarnir eru ansi bíræfnir og stela líka hjólum sem eru tryggilega læst með lásum og jafnvel keðjum. Virðist sem reiðhjól þurfi helst að geyma innandyra svo þau fái að vera í friði fyrir óprúttnum aðilum, en því miður hafa ekki allir aðstöðu til þess. Ætla má að þjófarnir reyni að selja hjólin og því mikilvægt að fólk tilkynni til lögreglu ef það grunar að reiðhjól, sem það hyggst kaupa, sé illa fengið.

Upplýsingar um reiðhjól í óskilum hjá lögreglu er hægt að nálgast á Pinterest síðunni okkar.

21. júní, 2019

Fyrstu lögregluþjónarnir í Reykjavík

Lesa meira

Eitt og annað er að finna í sögubókum fyrir þá sem eru áhugasamir um sögu lögreglunnar. Í ritinu Lögreglan í Reykjavík, sem kom út á fjórða áratug síðustu aldar, er t.d. fjallað um fyrstu lögregluþjónana í Reykjavík í upphafi 19. aldar. Þeir voru hreint út sagt alveg afleitir, en um þá tvo fyrstu er fjallað stuttlega um í ritinu. Þeir hétu Ole Biörn og Vilhelm Nolte og höfðu verið undirliðsforingjar í danska hernum, en lýsingarnar á þeim eru ekki fagrar. „Nolte varð að vísu ekki mosavaxinn í lögreglustörfunum, því hann lagðist þegar í drykkjuskap, er hann kom hingað, og gerðist hann svo magnaður, að hann var settur frá starfi sínu 1804 og sendur heim til Danmerkur. Ole Biörn var hér alla tíð fram til ársins 1814, og hvarf hann þá líka héðan.Ferill hans hafði sízt verið merkilegri en ferill Noltes, en hinsvegar langvinnari. Hann var mesti drykkjurútur, og kom á fót hér í bænum svo nefndum klúbb, en slíkur félagsskapur var þá mjög tíðkaður um álfuna, og átti að heita að það væri málfundafélög, en fór oft svo að allt lenti í drykkjuskap og spilasukki og eins hér, og var þó annar lögregluþjónn, Kragh, einnig meðstofnandi klúbbsins.“

Kragh þessi var jafnframt skraddari, en fengur þótti af slíkum mönnum. Af Kragh fara þó litlar sögur og af því megi ráða að hann hafi verið nokkuð óaðfinnanlegur, eins og segir í ritinu, þrátt fyrir aðild hans að fyrrnefndum klúbbi. Nolte var hins vegar skóari, eins og þá var títt um danska undirliðsforingja og má ætla að það hafi ráðið því að hann fékk lögreglumannsstarfið í Reykjavík á þessum tíma. „Þegar Nolte varð fyrir valinu, er naumast hægt að segja, að þar hafi legið lögregluleg hugsun til grundvallar, því hann var meðfram og jafnvel fyrst og fremst tekinn vegna skósmíðakunnáttu sinnar, og átti hann að reka það starf samsíða lögreglustörfunum, sem vafalaust ekki hefur verið holt, því framkvæmd beggja gat verið bráðaðkallandi samtímis, og þá óvíst hvort yrði látið lúta í lægra haldi.“

5. júlí, 2019

Hraðamælingar á Hringbraut í Reykjavík

Lesa meira

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var aftur við hraðamælingar á Hringbraut í Reykjavík í dag, en um er að ræða vegkafla á milli Sæmundargötu og Ánanausta þar sem leyfður hámarkshraði var nýverið lækkaður úr 50 í 40 í kjölfar umferðarslyss sem varð á þessum slóðum, en í framhaldinu urðu töluverðar umræður um leiðir til úrbóta.

Á einni klukkustund eftir hádegi í dag voru mynduðu brot 122 ökumanna, sem óku Hringbraut í austurátt, við Vesturvallagötu. Á umræddum tíma fóru 475 ökutæki þessa akstursleið og því var brotahlutfallið 26%, en meðalhraði hinna brotlegu var 54 km/klst. Nítján óku á 60 km hraða eða meira, fjórir á 70 km hraða eða meira en sá sem hraðast ók mældist á 80. Þess má geta að við þrjár hraðamælingar á sama stað í ársbyrjun, þegar leyfður hámarkshraði var 50, var brotahlutfallið 2 – 4%.

Ekki verður annað sagt en að niðurstaða dagsins valdi vonbrigðum, en við hraðamælingar á þessum vegkafla við Furumel og Brávallagötu í vikunni, og sagt var frá í gær, var brotahlutfallið 21% og 16%. Til samanburðar var brotahlutfallið á sömu stöðum 5 – 8% þegar leyfður hámarkshraði var 50.

6. júlí, 2019

Böðull Reykjavíkur

Lesa meira

Áfram rýnum við í ritið Lögreglan í Reykjavík, sem kom út á þriðja áratug síðustu aldar, en þar er fjallað um böðulinn í Reykjavík, já ótrúlegt en satt. „Hér verður að geta eins starfsmanns, sem að vísu hvorki var lögregluþjónn, né næturvörður og hafði enga löggæzlu á hendi, en starf hans var þó beinlínis í þágu lögreglunnar. Það var böðullinn, og var það hans verk að leggja á líkamlegar hegningar, flengja menn og setja í gapastokk. Þó að þessi starfsmaður væri að vísu fastur, tók hann ekki föst laun, heldur var honum greitt eftir fastri gjaldskrá fyrir hvert verk, og var greiddur ríkisdalur silfurs fyrir að leggja á 10-15 vandarhagga hýðingu, 1 rd. 48 sk. fyrir 16-30 högg, 2 rd. fyrir 2X27 högg, 3 rd. fyrir 3X27 högg og 5 ríkisdalir fyrir kagstrýkingu.

Var þetta góð borgun og allmikið að gera hér, en staðan var hins vegar í mjög litlu áliti, og menn sem hana höfðu, völdust því ekki af betri endanum. Böðull Reykjavíkur frá 1803-1838 hét Guðmundur Hannesson og var auknefndur „fjósrauður“; kona hans hét Margrét Guðmundsdóttir, en var kölluð „Manga með augað“, og bjuggu þau í svo nefndum Suðurbæ, sem lá vestast í Vonarstræti og þótti eitt óþverralegasta bælið í bænum. Með konungsbréfi 24. janúar 1838 var svo ákveðið, að þegar búið væri að koma upp typtunarhúsi í Reykjavík, skyldu líkamlegar refsingar afnumdar og vatns- og brauðshengingar takast upp í staðinn, og sama dag var gefið út konungsbréf um að byggja skyldi fangahús í Reykjavík, sem þó komst ekki í framkvæmd fyrr en 1872.

Þar með var böðulsstarfi Guðmundar lokið, en hann sat þó ekki auðum höndum, því árið 1836 hafði hann verið skipaður fastur sótari fyrir bæinn og jafnframt salernishreinsari.

25. júlí, 2019

Sitthvað á næturvaktinni

Lesa meira

Að venju var í ýmiss horn að líta á næturvakt Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en þrír voru teknir fyrir ölvunar- og fíkniefnaakstur í austurborginni. Tilkynnt var um innbrot í tvær bifreiðar í miðborginni, en úr annarri var stolið myndavélum og talsvert af fatnaði.

Einhverjir voru komnir í snemmbúið helgarstuð, en lögreglan sinnti nokkrum útköllum þar sem kvartað var undan partýhávaða. Þá var lögreglan kölluð að hóteli í miðborginni, en þar hafði gestur pissað á farangur hjá öðrum hótelgesti. Ekki er vitað hvort atvikið megi rekja til kvikindisskaps gerandans eða óheppilegs slyss.

Loks má nefna að lögreglan aðstoðaði ungan mann við komast aftur á gististað sinn í umdæminu í nótt. Sá hafðist við í tjaldi og virðist hafa tapað áttum á kvöldgöngunni því hann rataði ekki til baka. Úr málum hans tókst að leysa og vonandi fékk maðurinn góðan nætursvefn í tjaldinu.

31. júlí, 2019

Bruni í Hafnarfirði

Lesa meira

Slökkvistarf stendur enn yfir í vöruskemmu við Fornubúðir í Hafnarfirði, en tilkynning um eld þar barst á fjórða tímanum í nótt.

Lokað er fyrir umferð í Fornubúðir frá Flensborgartorgi og þá er einnig lokað á Óseyrarbraut, á milli Fornubúða og Stapagötu, auk Cuxhavengötu. Rafmagnstruflanir eru á svæðinu og er fólk beðið um að sýna þolinmæði.

Hagstæð vindátt er í Hafnarfirði þessa stundina og því leggur reykinn ekki yfir byggðina. Ef fólk finnur reykjarlykt í húsum sínum er því bent á að loka gluggum og hækka í ofnum.

18. ágúst, 2019

Viðbúnaður í Breiðholti

Lesa meira

Fjölmennt lið lögreglu var við leit að vopnuðum manni í Breiðholti í kvöld og nótt, en tilkynnt var um mann með haglabyssu á ferð í hverfinu um ellefuleytið á laugardagskvöld.

Tilkynningin var tekin mjög alvarlega og var viðbúnaður lögreglu í samræmi við hana. ítarleg leit að manninum stóð yfir í u.þ.b. eina og hálfa klukkustund, en skilaði ekki árangri og var þá hætt.

Auk leitarinnar var farið yfir myndefni úr öryggismyndavélum á svæðinu, en það skilaði heldur ekki árangri.

21. ágúst, 2019

Tilkynningum um þjófnað á farsímum fjölgar í júlí

Lesa meira

Skráð voru 725 hegningarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu í júlí og fjölgar þessum brotum lítillega á milli mánaða. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir júlí 2019. Þá kemur fram að á tímabilinu hafi heilt yfir orðið litlar breytingar á fjölda þeirra brota sem horft er sérstaklega til í skýrslunni. Mikil fjölgun er á skráðum innbrotum á heimili í júlí þegar miðað er við meðalfjölda síðustu 6 mánaða á undan en ef horft er til meðaltals síðustu 12 mánaða eru skráð brot í þessum málaflokki álíka mörg.

Töluverð fjölgun var á tilkynningum um eignaspjöll en tilkynningum fjölgaði um rúm 23% á milli mánaða. Af þeim flokkum sem teknir eru fyrir í þessari skýrslu var mesta fjölgunin á minniháttar eignaspjöllum.

Skráðum fíkniefnabrotum fækkaði töluvert á milli mánaða og fóru úr 155 brotum í 118 brot. Engin stórfelld fíkniefnabrot voru skráð á höfuðborgarsvæðinu í júlí.

Heilt yfir fækkaði tilkynningum um þjófnað á milli mánaða en þó ber að nefna að tilkynningum um þjófnað á farsímum fjölgaði nokkuð á milli mánaða.

Lögreglan vill því nota tækifærið og benda fólki á óskilamunasíðu lögreglunnar inná www. logreglan.is en þar setur lögreglan meðal annars inn myndir af farsímum sem hafa komið í leitirnar.

24. ágúst, 2019

Menningarnótt

Lesa meira

Menningarnótt er búin að ganga mjög vel fyrir sig í dag og engin teljandi óhöpp hafa komið upp. Hátíðargestir hafa auðsjáanlega tekið góða skapið með sér í bæinn og veðrið sýndi sínar bestu hliðar gestum til mikillar ánægju.

Umferðin hefur gengið vel og fólk hefur nýtt sér strætó eða þá gengið í blíðunni inn á hátíðarsvæðið frá þeim fjölda bílastæða sem skipulögð voru í nágrenninu.

29. ágúst, 2019

Að hafa samband við lögreglu

Lesa meira

Ýmsar leiðir eru færar þegar fólk vill afla upplýsinga eða koma þeim á framfæri hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Margir vilja spara sér ferðina á næstu lögreglustöð enda oft hægt að leysa málin símleiðis, með tölvupósti eða einkaskilaboðum á fésbókarsíðu embættisins. Misjafnt er hvað hentar hverjum best, en Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu reynir ávallt sitt besta til að bregðast við og svara erindum eins fljótt og verða má. Stundum dregst að svara, t.d. ef fyrirspurn krefst tímafrekrar úrvinnslu, og það leggst misjafnlega vel í fólk.

Umfang fyrirspurna til embættisins á undanförnum árum hefur aukist frekar en hitt og skipta þær þúsundum á hverju ári. Ein leið til að afla upplýsinga eða koma þeim á framfæri er að senda tölvupóst á abending@lrh.is en frá vordögum ársins 2015 og til dagsins í dag hafa borist vel yfir 10 þúsund tölvupóstar á þetta eina netfang. Að móttaka og svara slíkum fjölda pósta krefst mikillar vinnu, sem Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu telur ekki eftir sér enda er hún fyrst og fremst þjónustustofnun.

Erindin sem berast eru af öllum toga, en jafnan berst töluvert af ábendingum þegar áberandi mál eru til rannsóknar. Um það eru mörg dæmi og þegar hvarf ungrar stúlku kom til rannsóknar í ársbyrjun 2017 barst slíkur fjöldi ábendinga að embættið hafði aldrei áður séð annað eins. Oft er sagt að betra sé að hringja í lögregluna einu sinni of oft heldur en einu sinni of sjaldan, en það má líka heimfæra á aðrar samskiptaleiðir sem fólk kann að viðhafa við embættið og er það undirstrikað hér.

4. september, 2019

Heimsókn varaforsetans lokið á höfuðborgarsvæðinu

Lesa meira

Heimsókn varaforseta Bandaríkjanna, Mike Pence, í Höfða er lokið og hefur hann yfirgefið höfuðborgarsvæðið.

Tímabundnum umferðartöfum í umdæminu af þeirri ástæðu á því að vera lokið og umferðin að komast í eðlilegt horf. Umferðin í dag hefur annars mestmegnis gengið ágætlega að því undanskildu að harður árekstur varð á gatnamótum Miklubrautar og Háaleitisbrautar um eittleytið.Þar rákust saman lögreglubifreið og fólksbifreið. Tveir voru fluttir á slysadeild, en meiðsli þeirra eru talin minni háttar.

Um svipað leyti voru tveir menn handteknir skammt frá Höfða fyrir brot á lögreglusamþykkt. Þeir voru færðir á lögreglustöð til skýrslutöku.

Bann var sett við drónaflugi yfir Höfða og nágrenni, en því var aflétt kl. 17. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þakkar vegfarendum fyrir þolinmæðina og tillitssemina, sem þeir sýndu á meðan heimsókninni stóð.

9. september, 2019

Húsleit í Árbæ – þrír handteknir

Lesa meira

Þrír karlar á fertugsaldri voru handteknir í kjölfar húsleitar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í iðnaðarhúsnæði í Árbæ í gær. Lagt var hald á talsvert af munum, sem grunur leikur á að séu þýfi. Á vettvangi fundust enn fremur ætluð fíkniefni, sem voru sömuleiðis tekin í vörslu lögreglu.

Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.

17. september, 2019

Fjögurra vikna gæsluvarðhald

Lesa meira

Karlmaður á fertugsaldri, sem var handtekinn í gærkvöld grunaður um að hafa átt þátt í falli konu af svölum íbúðar í fjölbýlishúsi í Breiðholti, hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 15. október. Er það gert á grundvelli 1.mgr. 95.gr. l.nr. 88/2008, þ.e.a.s. talið er að hann hafi rofið, í verulegum atriðum, skilyrði skilorðsbundins dóms.

Konan sem féll af svölunum er illa slösuð, en þó ekki í lífshættu.

20. september, 2019

Hraðakstur við grunnskóla

Lesa meira

Frá því að grunnskólar á höfuðborgarsvæðinu tóku aftur til starfa í síðasta mánuði hefur lögreglan verið með aukið eftirlit við skólana í umdæminu og þar sem þekkt er að börn þurfi að þvera veg til að komast til og frá skóla, en meðal annars hefur verið notast við ómerkta lögreglubifreið með hraðamyndavélabúnaði við eftirlitið. Fram að þessu hefur hraðamyndavélin skráð 419 hraðakstursbrot þar sem ökumenn mega búast við sekt og í sumum tilfellum að verða sviptir ökuleyfi.

Á þessum stöðum, þar sem leyfður hámarkshraði er 30, hefur meðalhraði hinna brotlegu verið 44 km/klst. Við fyrrnefndar hraðamælingar hefur enn fremur 45 ökutækjum verið ekið á 50 km hraða eða meira, en sá sem hraðast ók mældist á 69. Nokkur önnur dæmi voru jafnframt um ökumenn sem óku á meira en tvöföldum leyfðum hámarkshraða. Niðurstaðan sýnir að ökumenn verða að gera betur og því er full ástæða til að minna þá á að aka hægar og sýna meiri tillitssemi í námunda við skólana þar sem margir eru á ferli, m.a. nýir vegfarendur sem voru að hefja skólagöngu.

Allir ættu að geta fallist á mikilvægi þess að leyfður umferðarhraði sé virtur í kringum skólana og við þær leiðir sem börnin okkar nota til að komast til og frá skólum og frístundastarfi.

Virðum rétt þeirra – virðum hámarkshraða.

23. september, 2019

Ósætti unglinga

Lesa meira

Á níunda tímanum í gærkvöld barst tilkynning um átök unglingspilta við Salaskóla í Kópavogi og sagt að einhverjir í hópnum væru með hnífa og barefli. Lögreglan brást skjótt við og hélt þegar á vettvang, en átökin voru yfirstaðin þegar þangað var komið. Rætt var við nokkra hlutaðeigendur og þeim síðan ekið til síns heima þar sem rætt var við foreldra viðkomandi. Engir sjáanlegir áverkar voru á neinum piltanna sem komu við sögu og hvorki hnífar né barefli fundust í tengslum við málið. Unglingarnir voru sammála um að til deilna hefði komið, en sitt sýndist hverjum um atburðarásina.

Málið er í rannsókn og unnið í samráði við barnaverndaryfirvöld.

24. september, 2019

Ofsaakstur á Vesturlandsvegi

Lesa meira

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu brást við aðstoðarbeiðni rétt fyrir hádegi en Lögreglan á Vesturlandi hafði veitt bifreið athygli sem var ekið á miklum hraða við Hvalfjarðargöng í átt að borginni. Ökumaður virti ekki ítrekuð stöðvunarmerki lögreglu og var talinn valda mikilli hættu, enda var bifreiðin mæld á rúmlega 200 km/klst hraða þegar mest var. Lögð var naglamotta í veg fyrir bifreiðina og var hún loks stöðvuð í Mosfellsbæ. Þar veittist ökumaðurinn að lögreglumönnum og var handtekinn.

Málið er í rannsókn og ekki hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.

2. október, 2019

Heimsóknir alþingismanna

Lesa meira

Það er jafnan gestkvæmt á lögreglustöðinni við Hverfisgötu í Reykjavík, en þessa vikuna hafa tveir hópar alþingismanna litið þar við.

Fyrst komu þingmenn frá Miðflokknum í heimsókn og svo þingmenn frá Samfylkingunni, en nú eru svokallaðir kjördæmadagar á Alþingi og þá eru þingmenn á ferð og flugi í kjördæmum sínum.

Þingmennirnir fengu að sjálfsögðu góðar móttökur hjá lögreglunni enda gott til þess að vita að þeir sýni henni áhuga og fræðist um hennar mikilvægu störf.

24. október, 2019

Vetrardekkin og rúðuskafan

Lesa meira

Það er heldur kuldalegt um að litast á höfuðborgarsvæðinu þennan morguninn, en ætti kannski ekki að koma á óvart enda er fyrsti vetrardagur á laugardaginn samkvæmt almanakinu.

Á þessum árstíma þarf því að huga að ýmsu sem snýr að bifreiðinni. Þar koma vetrardekkin fyrst upp í hugann, en viðbúið er að það gæti orðið mikið að gera á dekkjaverkstæðum næstum daga og því kannski gott að sýna fyrirhyggju í þeim efnum. Sömuleiðis er gott að athuga hvort að rúðuskafan sé ekki örugglega við höndina, en hún er mikið þarfaþing eins og allir vita. Að síðustu látum við fylgja með veðurspá dagsins, en samkvæmt henni er vissara fyrir gangandi og hjólandi að klæða sig vel.

Norðan 8-15 m/s, en 10-20 eftir hádegi, hvassast á Kjalarnesi. Bjart með köflum og þurrt að kalla, en líkur á smáéljum seinni partinn. Hægari vindur á morgun og þurrt. Hiti um frostmark.

31. október, 2019

Gæsluvarðhald til 22.nóvember

Lesa meira

Landsréttur hefur snúið við úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá því sl. föstudag og verður karlmanni um tvítugt því gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi til 22. nóvember. Maðurinn var handtekinn á vettvangi miðsvæðis í Reykjavík um þar síðustu helgi í þágu rannsóknar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á alvarlegri líkamsárás og í kjölfarið úrskurðaður í sex daga gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lagði síðan fram kröfu í héraðsdómi um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manninum á grundvelli almannahagsmuna, en henni var hafnað. Þeim úrskurði hefur nú verið snúið við í Landsrétti eins og áður sagði.

Maðurinn hefur verið handtekinn og færður í gæsluvarðhald.

6. nóvember, 2019

Þjófur handtekinn

Lesa meira

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð að heimili í austurborginni morgun einn í vikunni, en þar hafði verið brotist inn og stolið munum af húsráðendum – tölvum, tækjum og öðru fémætu. Á staðnum bjuggu erlendir verkamenn sem hafa oft skamma veru á Íslandi og tjónið því tilfinnanlegt fyrir fólkið, eins og iðulega er með innbrot og þjófnaði. Rannsakari málsins komst fljótlega að því að samstarfsmaður íbúa hafði verið rekinn úr starfi fyrr um daginn og hefði líklega bókað flug úr landi að kvöldi sama dags.

Voru því góð ráð dýr og því haft var samband við embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum og óskað eftir því að viðkomandi aðili yrði stoppaður á leið úr landi og kannað með skóbúnað hans, upp á samanburð við skóför sem fundust á vettvangi. Reyndist hugboð rannsóknarlögreglumannsins rétt, lögreglan á Suðurnesjum greip manninn glóðvolgan í Leifsstöð þar sem hann var leið úr landi. Við frekari athugun á manninum reyndust skór hans passa við fótsporið sem rannsakarinn fann á vettvangi. Eftirleikurinn var auðveldur, maðurinn var handtekinn og allt þýfið úr innbrotinu fannst í farangri hans.

Málið er á lokastigum rannsóknar.

9. nóvember, 2019

Gul viðvörun fyrir höfuðborgarsvæðið

Lesa meira

Gul viðvörun frá Veðurstofu fyrir höfuðborgarsvæðið. Um eða upp úr hádegi á morgun er gert ráð fyrir suðaustan 18-23 m/s og rigningu. Mögulega varasamir sviptivindar í efri byggðum og við háar byggingar. Fólk er hvatt til að sýna aðgát og ganga vel frá lausum munum til að forðast tjón. Lægir svo til um kvöldið og dregur úr úrkomu.

Einnig viljum við beina þeim tilmælum til verktaka að ganga vel frá byggingar og framkvæmdasvæðum sem þeir bera ábyrgð á og girðingum í kringum þau.

14. nóvember, 2019

Aukin þjónusta

Lesa meira

Nú hefur lögreglan tekið í notkun nýja tækni og hér eftir verður hægt að nálgast upplýsingar um sektir í pósthólfi á island.is sem er upplýsinga- og þjónustuveita opinberra aðila á Íslandi.

Þegar fólk fær sekt fær það tilkynningu í tölvupósti og getur síðan farið á vefsíðuna og séð þar sektarboðið. Það er aldrei gleðiefni að fá sekt fyrir umferðarlagabrot, en þó skiptir máli að geta nálgast allar upplýsingar um málið með eins auðveldum hætti og unnt er.

Vonandi þurfa samt sem fæstir að nýta sér þessa auknu þjónustu.

15. nóvember, 2019

Ökufantur á Reykjanesbraut

Lesa meira

Allnokkrir ökumenn voru staðnir að hraðakstri á Reykjanesbraut, við Hvassahraun, þegar Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var þar við hraðamælingar eftir hádegi í gær. Í þeim hópi voru nokkrir ferðamenn og greiddu þeir sektina á staðnum, en allir sem voru stöðvaðir við þetta hraðaeftirlit mældust á vel yfir 100 km hraða. Sá sem hraðast ók var hins vegar íslenskur karlmaður á miðjum aldri, en bifreið hans mældist á 159.

Viðkomandi bíður 230 þúsund kr. sekt, svipting ökuleyfis í tvo mánuði og þrír refsipunktar í ökuferlisskrá fyrir þennan ofsaakstur.

29. nóvember, 2019

Afsökunarbeiðni

Lesa meira

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu biðst afsökunar á umfjöllun um útkall hennar á skólaskemmtun í Breiðholti í gærkvöld, en frétt fjölmiðla var byggð á upplýsingum frá embættinu. Greint var frá aðila sem var í annarlegu ástandi, en af því mátti ráða að viðkomandi hefði verið ölvaður eða undir áhrifum fíkniefna. Svo var þó alls ekki heldur var um veikindi að ræða. Lögreglunni hafa borist, mjög svo réttilega, kvartanir vegna fréttarinnar og harmar hún mjög að hafa valdið fólki óþægindum og sárindum.

Ljóst er að mistök voru gerð við upplýsingagjöf og ekki var sýnd viðeigandi nærgætni enda um viðkvæmar upplýsingar að ræða.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vill því ítreka afsökunarbeiðnina og biður alla hlutaðeigendur velvirðingar.

9. desember, 2019

Mannslát – gæsluvarðhald til 19.desember

Lesa meira

Karlmaður um fimmtugt var í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaður í tíu daga gæsluvarðhald, eða til 19. desember, á grundvelli rannsóknarhagsmuna að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á andláti karlmanns á sextugsaldri í gær.

Eins og fram hefur komið féll hinn látni fram af svölum íbúðar fjölbýlishúss í austurborginni eftir hádegi í gær og var fluttur á Landspítalann þar sem hann var úrskurðaður látinn. Fimm karlmenn voru handteknir á vettvangi og hefur einn þeirra verið úrskurðaður í gæsluvarðhaldi, líkt og áður sagði, en hinir fjórir eru lausir úr haldi lögreglu.

Rannsókn lögreglu gengur vel, en hún miðar að því að leiða í ljós með hvaða hætti maðurinn féll fram af svölunum.

10. desember, 2019

Versta veðrið á höfuðborgarsvæðinu frá kl. 17 -21/22

Lesa meira

Við vekjum athygli á því að appelsínugul viðvörun er nú í gildi á höfuðborgarsvæðinu, en allt bendir til þess að veðurspár muni ganga eftir. Jafnvel er talið að vindurinn verði heldur meiri en búist var við, en reikna má með að veðrið á höfuðborgarsvæðinu verði verst frá kl. 17 og fram til 21 eða 22 í kvöld. Fólk er beðið um að halda sig innandyra og vera alls ekki á ferðinni nema að mjög brýna nauðsyn beri til. Vonandi hafa allir náð að koma lausamunum í skjól í sínu nánasta umhverfi enda mikil hætta á foktjóni í þessu veðri.

Please note that an orange condition is on in the greater Reykjavík area, and it looks like the forecast is accurate. It is likely that there will be more wind than had been forecast. The weather is expected to peak from 17:00 until 21:00 tonight. People are asked to stay indoors and not to travel unless explicitly necessary. Hopefully everybody has been able to clear any outdoor loose items from their surroundings as there is a significant risk of damage due to the high winds.

12. desember, 2019

Hvítskeggjaðir karlar í rauðum búningum

Lesa meira

Það var tiltölulega rólegt á næturvaktinni hjá okkur og ekkert um tilkynningar um grunsamlegar mannaferðir, sem við þó áttum von á enda sá árstími sem hvítskeggjaðir karlar í rauðum búningum koma til byggða.

Fengum þó eina tilkynningu um grunsamlegar mannaferðir í umdæminu, en gátum strax útilokað að þar væri jólasveinn á ferðinni enda kom bifreið við sögu, sem reyndist tilheyra blaðbera sem var að störfum í nótt.

Höfum annars ekkert frétt af Stekkjarstaur, sem átti víst að koma til byggða í nótt, en vonum bara að allir þægir krakkar hafi fengið eitthvað í skóinn þennan morguninn

27. desember, 2019

Grunur um kynferðisbrot – gæsluvarðhald

Lesa meira

Karlmaður á sextugsaldri var á jóladag í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaður í fjögurra daga gæsluvarðhald, eða til 29. desember, á grundvelli rannsóknar- og almannahagsmuna að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar vegna gruns um kynferðisbrot og fl. Maðurinn var handtekinn í heimahúsi á jóladag.

Ekki verða veittar frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.

x