Ársskýrsla lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 2020

Ársskýrsla 2020

Erfiðir og krefjandi tímar

Að baki er eitt óvenjulegasta ár í manna minnum. Árið sem setti daglegt líf fólks úr skorðum á löngum stundum. Það hófst reyndar eins og hvert annað og verkefni lögreglunnar voru eftir því, hefðbundin. Í lok febrúar hafði heimsfaraldurinn hins vegar teygt sig til Íslands og við tóku mjög krefjandi og erfiðir tímar það sem eftir lifði ársins. Segja má að seinni hluta vetrar og fram á sumar hafi kórónuveiran skollið á þjóðina af fullum þunga. Ástandið skánaði talsvert um mitt sumar, en síðan hallaði aftur undan fæti í baráttunni og ný bylgja veikinda reið yfir með tilheyrandi fjölgun smita.

Um leið og fregnir bárust af veirunni út í heimi var kappkostað að undirbúa stofnanir samfélagsins fyrir það sem var í vændum. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var þar á meðal, en þrátt fyrir undirbúninginn gat enginn vitað með algjörrri vissu hvernig heimsfaraldurinn myndi leggjast á landsmenn. Enda fór það svo að hann var bæði mun skæðari og langvinnari en flestir áttu von á. Mikið reyndi á starfsmenn lögreglu við þessar aðstæður og einföld verkefni gátu orðið flókin. Við afskipti af fólki þurfti að gæta sérstakrar varúðar, en þeim fylgdi áhætta um smit í hvert sinn. Lögreglumenn þurftu því að klæðast sérstökum hlífðarbúningum og grímur og hanskur urðu staðalbúnaður. Aðgengi að lögreglustöðvunum í umdæminu var takmarkað og þeim jafnframt hólfaskipt. Margir þurftu að vinna heima og fjárfest var í búnaði svo það gæti orðið. Mikil áhersla var lögð á að vernda starfsemina með öllum ráðum og tókst það vonum framar. Embættið slapp þó ekki við smit frekar en aðrir, en áhrif þess voru minni vegna þeirrar fyrirhyggju sem sýnd var. Heilt yfir gekk starfsemin nokkuð vel þrátt fyrir heimsfaraldurinn og það er þakkarvert.

Helstu verkefni okkar á árinu voru annars að mestu hin sömu og áður. Fjöldi hegningarlagabrota var ámóta á milli ára, en sérrefsilagabrotum, þá aðallega umferðarlagabrotum, fækkaði talsvert frá árinu á undan. Af nýjum verkefnum, ef svo má segja, báru sóttvarnarbrot hæst. Tilkynningar um þau voru á annað þúsund. Ekki áttu þær allar við rök að styðjast, en gróflega má segja að ein tilkynning af hverjum tíu hafi leitt til nánari rannsóknar. Um var að ræða brot gegn m.a. sóttkví og einangrun, en vitaskuld lögðust samkomutakmarkanir þungt á alla. Þær var ýmist verið að herða eða slaka á yfir árið og þótti sumum nóg um. Hverskyns mannfagnaðir voru blásnir af og skemmtistöðum og öldurhúsum var gert að loka um lengri eða skemmri tíma.

Þótt kórónuveiruna sé mér ofarlega í huga var margt annað við að fást á árinu 2020. Baráttan við skipulagða brotastarfsemi hélt áfram af krafti og rannsóknir annarra alvarlegra brota voru líka teknar föstum tökum, en áhersla hefur verið lögð á að hraða málsmeðferð þeirra eins og hægt er. Sérstök ástæða er einnig til að nefna netglæpi. Þeir eru vaxandi vandamál og það urðum við vör við í heimsfaraldrinum.

Reksturinn gekk vel framan af ári en eftir að nýr kjarasamningur lögreglumanna kom til framkvæmda var ljóst að embættið myndi skila miklum halla sem raunin varð. Í starfsemi hverrar stofnunar er mannauðurinn mjög mikilvægur og óhætt er að segja að starfsmenn hafi staðið sig mjög vel. Það er ekki sjálfgefið og vil ég þakka þeim fyrir vel unnin störf.

Embættið vill leggja áherslu á að þjóna íbúum, svo og þeim um umdæmið heimsækja. Okkar metnaður er að tryggja öryggi og veita góða þjónustu. Árið 2020 var mikil áskorun í löggæslu og ljóst er að verkefni lögreglu verða flóknari og flóknari í framtíðinni. Mikilvægt er að efla lögreglu enn frekar við almenna löggæslu, rannsóknir ofbeldisbrota svo og baráttu gegn skipulagðri brotastarfsemi. Varðandi almenna löggæslu þarf að fjölga lögreglumönnum, snjallvæða lögregluna og virkja forvarnir. Varðandi skipulagða brotastarfsemi þarf að fjölga lögreglumönnum, efla geiningar og fjölga ákærendum sem vinna mikla vinnu við rannsókn málanna. Ljóst er að lögreglan þarf aukið fjármagn til þess að sinna betur hlutverki sínu. Vonum að áfram verið unnið að eflingu lögreglunnar með auknum fjárheimildum henni til handa næstu ár.

 

Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri.

Ársskýrsla 2020

Helstu markmið LRH

Öryggi og öryggistilfinning þeirra sem búa, starfa og dvelja í umdæminu var áfram efst á baugi hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu árið 2020, sem tókst á við verkefnin í mjög breyttu umhverfi. Kórónuveiran herjaði á heimsbyggðina alla og ekkert land var undanskilið. Fyrsta tilfelli veirunnar var greint á Íslandi í lok febrúar og við tóku mjög erfiðir mánuðir. Daglegt líf fólks fór úr skorðum og á löngum köflum var þjóðlífið ekki svipur hjá sjón. Mörgum fyrirtækjum voru takmörk sett og önnur urðu hreinlega að loka. Hefðbundið menningarlíf lagðist í dvala og mikið reyndi á þolrif landsmanna. Svona var ástandið mánuðum saman, en þótt birti aðeins til um sumarið var það bara tímabundið. Vissulega fáránlegur veruleiki sem Íslendingar, rétt eins og allir aðrir, þurftu að búa við. Og í þessu sérstaka umhverfi var nýr og ósýnilegur óvinur, kórónuveiran, sem vakti ótta hjá mörgum. Umhverfið var því mikið breytt og ólíkt öllu öðru sem Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði áður tekist á við.

Skyndilega voru sóttvarnaaðgerðir mál málanna og sóttvarnabrot þar með komin á forgangslista lögreglunnar. Önnur brot, öllu hefðbundnari, voru áfram til staðar, en embættið hefur horft til fækkunar afbrota á tilteknum sviðum (eignaspjöll, innbrot, þjófnaðir og líkamsárásir) og sett sér markmið þar um. Það hefur gengið misjafnlega eftir, en innbrotum fækkaði þó á milli áranna 2019 og 2020. Fjöldi þjófnaða og líkamsárása var hins vegar svipaður þegar sömu tímabil eru borin saman. Tilkynningar um eignaspjöll á höfuðborgarsvæðinu voru ívið fleiri árið 2020 en árið á undan. Annars er snúið að lesa í afbrotatölfræði ársins, sem er örugglega það óvenjulegasta sem landsmenn hafa upplifað.

Þrátt fyrir erfitt árferði hélt Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sínu striki í samræmi við einkunnarorð hennar sem eru traust, fagmennska og öryggi. Vel tókst til á ýmsum sviðum, en á meðal markmiða embættisins er að bæta þjónustu þess, ekki síst er lýtur að rafrænum samskiptum. Margt hefur áunnist og þótt sumir séu óþreyjufullir eftir frekari breytingum er sígandi lukka stundum best í þeim efnum. Á árinu var lögð töluverð vinna í lögregluvefinn, hann uppfærður og gerður nútímalegri. Í gegnum lögregluvefinn er hægt að reka ýmiss erindi og þannig spara sér heimsókn á lögreglustöð. Á honum er líka að finna ýmsar gagnlegar upplýsingar, en á árinu var t.d. komið þar fyrir sérstökum sektarreikni. Sýnir hann bæði upphæð sektar vegna hraðaksturs og sviptingartíma ökuréttinda ef svo ber undir, auk annars.

Mannfjöldi Hlutfall af
höfuðb.sv.
Hlutfall af
Íslandi
Fjöldi
erlendra
Hlutfall
erlendra
Fjöldi
ríkisfanga
Stærð
í km2
Reykjavík 131.136 56,3% 36,0% 20.988 16,0% 143 273
Kópavogur 37.959 16,3% 10,4% 4.069 10,7% 105 80
Hafnarfjörður 29.971 12,9% 8,2% 3.401 11,3% 87 143
Garðabær 16.924 7,3% 4,6% 809 4,8% 76 76
Mosfellsbær 12.073 5,2% 3,3% 1.022 8,5% 61 185
Seltjarnarnes 4.726 2,0% 1,3% 395 8,4% 47 2
Kjósarhreppur 245 0,1% 0,1% 15 6,1% 9 284
Höfuðb.sv 233.034 - 64,0% 30.699 13,2% 146 1.043
Ísland 364.134 - 100% 44.270 12,2% 151 102.698

Lögreglumenn 318

Karlar 216
68%
Konur 102
32%

Borgaralegir starfsmenn 104

Karlar 39
38%
Konur 65
63%

Fjöldi ökutækja í lok árs 2020 66

Merktar stórar bifreiðar 7
11%
Merktar fólksbifreiðar 16
24%
Ómerktar fólksbifreiðar 30
45%
Bifhjól 13
20%

Akstur ökutækja í kílómetrum árið 2020 1.528.619

Akstur merktra ökutækja 770.130
50%
Akstur ómerktra ökutækja 621.150
41%
Akstur bifhjóla 137.339
9%
Heimildir:

Fólksfjöldi:
Hagstofa Íslands, Mannfjöldi eftir kyni, aldri og sveitarfélögum 1998-2021 - Sveitarfélagaskipan hvers árs: ár valið 2020

Fjöldi erlendra:
Hagstofa Íslands, Mannfjöldi eftir kyni, sveitarfélagi, aldri og ríkisfangi 1998-2020: Valið 2020

Fjöldi ríkisfanga:
Hagstofa Íslands, Bakgrunnur, Mannfjöldi eftir kyni, sveitarfélagi og ríkisfangi 1. janúar 1998-2020 - Ísl. Talið með

Flatarmál sveitarfélaga:
Landmælingar Íslands, upplýsingaveita sveitarfélaga

Ársskýrsla 2020

Helstu verkefni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu

Árið 2020 hófst eins og hver önnur hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og verkefnin voru hefðbundin eftir því, en það átti eftir að breytast mikið þegar fyrsta tilfelli kórónuveirunnar hafði verið greint hérlendis snemma árs. Við tóku mánuðir þar sem ýmist var verið að herða eða slaka á takmörkunum á starfsemi af öllu tagi. Enginn fór varhluta af þessu skrýtna ástandi og það var ansi þungt hljóðið í landsmönnum stærstan hluta ársins. Lögreglan þurfti fljótt að laga sig að gjörbreyttum aðstæðum og takast á við verkefni, sem ómögulegt var að sjá fyrir. Eftirlit hennar sneri ekki síst að smitvörnum og að þær væru í lagi hjá rekstaraðilum, m.a. veitingastaða og kráa. Þótti sumum nóg um og fékk lögreglan nokkra gagnrýni af þeim sökum. Afskipti hennar voru þó ekki að ósekju, en á annað þúsund tilkynninga voru skráðar hjá embættinu vegna grunsemda um brot gegn gildandi reglugerðum um sóttvarnir, sóttkví og einangrun. Gróflega má segja að ein tilkynning af hverjum tíu hafi leitt til þess að atvik væri tekið til nánari rannsóknar.

Heildarfjöldi mála sem var skráður hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu árið 2020 var um 72.000 og fækkaði þeim á milli ára. Það átti m.a. við um sérrefsilagabrot, en fjöldi hegningarlagabrota var hins vegar ámóta og undanfarin ár, eða um 9.800. Sérrefsilagabrotin voru annars nálægt 3.000 árið 2020, en voru um 4.000 árið á undan. Um þriðjungur sérrefsilagabrota árið 2020 voru fíkniefnalagabrot. Flest hegningarlagabrotanna voru hins vegar þjófnaðir og innbrot. Þjófnaðarmál voru ámóta mörg og undanfarin ár, en innbrotum fækkaði á árinu 2020. Það átti við um innbrot á heimili og sömuleiðis innbrot í ökutæki, en þeim fækkaði mjög mikið. Fækkunin náði samt ekki til allra innbrota, en innbrotum í fyrirtæki fjölgaði á milli ára.

Morð var framið í Hafnarfirði á fyrri hluta ársins, en þá var sextug kona stungin til bana í íbúð fjölbýlishúss. Sonur hennar var handtekinn á vettvangi, grunaður um verknaðinn, og var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald og síðan til vistunar á viðeigandi stofnun. Hann lést svo síðar á árinu og var málið þá fellt niður. Bruni á Bræðraborgarstíg um mitt sumar varð einnig að manndrápsrannsókn eftir að tæknideild lögreglunnar hafði tekið vettvanginn til skoðunar, en þrír létust í brunanum. Karlmaður á sjötugsaldri var handtekinn í þágu rannsóknarinnar, grunaður um íkveikju. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald og síðan til vistunar á viðeigandi stofnun. Fjöldi ofbeldisbrota í umdæminu hefur annars verið svipaður síðustu árin og tekið litlum breytingum frá árinu 2015. Þá varð fjölgun í kjölfar breytinga á verklagi vegna heimilisofbeldismála. Árið 2020 fjölgaði þó heimilisofbeldismálum frá árinu á undan, aðallega vegna mála sem varðar maka og fyrrum maka og vegna mála sem tengjast ofbeldi milli systkina.

Skipulögð brotastarfsemi var í brennidepli sem fyrr og þar koma fíkniefni iðulega við sögu, en lagt var hald á rúmlega 24 kíló af amfetamíni. Lögreglan tók einnig í sína vörslu verulegt magn af amfetamínbasa, en gróflega má jafna honum við 38 kíló af amfetamíni í smásölu. Þessu tengt má nefna að fjölmargir voru teknir fyrir fíkniefnaakstur, eða vel á annað þúsund. Færri voru hins vegar teknir fyrir ölvunarakstur og fækkaði þeim brotum reyndar mikið á milli ára. Snúið er þó að rýna í tölur yfir umferðarlagabrot, rétt eins og allar aðrar tölur á því herrans ári 2020 enda á það engan sinn líka. Áhrif heimsfaraldursins á umferðina voru ótvíræð og dróst hún mikið saman. Íslendingar voru einfaldlega miklu minna á ferðinni þetta árið vegna aðstæðna og ferðamenn hurfu eins og dögg fyrir sólu. Þrátt fyrir minni umferð létust fjórir í umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu, þar af tveir á Vesturlandsvegi í júní.

Rannsóknir kynferðisbrota voru áfram teknar föstum tökum, en áhersla hefur lögð á að hraða málsmeðferð eins og hægt er. Talsvert var um blygðunarsemisbrot, þ.e. myndsendingar og mynddreifingar af kynferðislegu efni. Sömuleiðs voru nokkur mál til rannsóknar, sem snéru að barnaníði á netinu og fylgdu því húsleitir og haldlagningar, en um mikið magn af efni var að ræða. Sé eitthvað jákvætt um málaflokkinn að segja má helst nefna að tilkynningum um nauðganir fækkaði miðað við árið á á undan.

Netglæpir voru vaxandi vandamál á Íslandi, eins og annars staðar, og þess sáust greinileg merki. Ógrynni slíkra mála kom á borð lögreglu og var ýmsum ósvífnum brögðum beitt til þess að hafa fé af fólki. Svikahrappar voru á ferðinni öllum stundum og féllu margir í gildru þeirra, því miður. Ítrekað var varað við hverskyns gylliboðum og fólk beðið um að gæta að sér á netinu, enda leynast þar margar hætturnar. Hér á eftir er farið frekar yfir helstu verkefni Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu árið 2020. Tekið skal fram að tölfræði embættisins fyrir sama tímabil er að finna í skýrslunni Afbrot á höfuðborgarsvæðinu (útgef. 2021).

COVID-19

Snemma árs fóru að berast af fréttir af kórónuveirunni, COVID-19, úti í heimi og breiddist hún nokkuð hratt út. Veiran lagðist misjafnlega á fólk, en margir veiktust mjög alvarlega.

COVID-19

Dauðsföll voru sömuleiðis tíð og sýnt var að þessi heimsfaraldur myndi valda miklum usla. Íslendingum var ljóst að það væri tímaspursmál hvenær veiran bærist hingað, en ötullega var unnið að því að hafa viðbragðsáætlanir tilbúnir þegar vágesturinn myndi knýja dyra. Þess var heldur ekki langt að bíða, en síðasta dag febrúarmánaðar greindist fyrsta tilfellið hér á landi. Dagurinn markaði tímamót, en segja má að líf allra landsmanna hafi tekið miklum breytingum og umturnast að ákveðnu leyti. Áður hafði verið lýst yfir óvissustigi vegna kórónuveirunnar, en því var breytt í hættustig eftir að sýni úr íslenskum karlmanni á miðjum aldri hafði reynst jákvætt fyrir COVID-19. Síðar átti eftir að lýsa yfir neyðarstigi, en í hönd fóru mjög erfiðir mánuðir. Ekkert bóluefni var í augsýn, en slíkt tekur jafnan nokkur ár að þróa, framleiða og koma á markað. Bjartsýni var því ekki ríkjandi þegar mars gekk í garð og útlitið sannarlega dökkt. Starfsumhverfi lögreglumanna var því mjög erfitt og ekkert í líkingu við það sem þeir höfðu áður upplifað. Einföld verkefni urðu allt að því flókin, enda kölluðu sóttvarnir á annars konar nálgun í samskiptum við borgarana.

Hér er m.a. vísað til þess að lögreglumenn þurftu oft og iðulega að klæðast sérstökum hlífðarbúningum þegar höfð voru afskipti af fólki og grímur og hanskar urðu jafnframt að staðalbúnaði. Stór hluti skrifstofufólks hjá embættinu fór enn fremur strax í byrjun mars að sinna verkefnum sínum að heiman og fjarfundir urðu allsráðandi. Sett voru upp hólf á öllum lögreglustöðvunum og aðgengi innandyra var breytt. Aðgerðunum var ætlað að vernda starfsemina eftir því sem kostur var og að takmarka áhrif þess ef smit kæmi upp hjá starfsmönnum Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Ráðstafanirnar voru nauðsynlegar og það sýndi sig glögglega þegar smit komu upp hjá embættinu. Það var erfitt við að eiga, en starfsemin gekk þó sinn vanagang, ekki síst vegna þeirrar fyrirhyggju sem sýnd var. Nokkur þúsund landsmanna veiktust af COVID-19 á árinu, margir mjög alvarlega og sumum varð ekki bjargað, því miður. Allt kapp var lagt á að hefta útbreiðslu faraldursins og gripið var til ýmissa ráða, jafnt hjá lögreglu sem öðrum.

Við lögreglustöðina á Hverfisgötu, á baklóðinni, var komið fyrir gámi svo ekki þyrfti að fara með fólk inn í bygginguna nema að nauðsyn krefði. Gámurinn þjónaði sínu hlutverki vel þótt fyrirkomulagið hefði vissulega í för með sér óhagræði, t.d. þegar flytja þurfti málsaðila á Hverfisgötuna vegna mála sem komu upp á varðsvæðum annars staðar í umdæminu. Flest mál eru þannig að þau er hægt að afgreiða á viðkomandi  lögreglustöð, en þær eru fjórar á höfuðborgarsvæðinu. Í COVID-19 var þessu öðruvísi farið því viðhafðar voru strangar, en nauðsynlegar reglur vegna sóttvarna og öll starfsemi embættisins tók mið af þeim. Þegar kom að vistun fanga var áfram notast við fangageymsluna, en hana þurfti að sótthreinsa oftar en einu sinni í þessu ástandi sem ríkti og sama átti við um ökutæki embættisins. Reyndar var afráðið mjög fljótlega að nota tiltekna bifreið til fólksflutninga, þ.e. ef grunur var um smit hjá viðkomandi. Þessi sama bifreið var svo sótthreinsuð eftir hverja ferð.

Eins og áður hefur verið rakið tengdust mörg verkefni Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu árið 2020 smitvörnum með einum eða öðrum hætti. Hjá embættinu voru skráðar um 1.200 tilkynningar vegna grunsemda um brot gegn gildandi reglugerðum um sóttvarnir, sóttkví eða einangrun. Gróflega má segja að ein tilkynning af hverjum tíu hafi leitt til þess að atvik væri tekið til nánari rannsóknar. Grunur var um brot gegn sóttvörnum í tæplega 80 tilvikum og grunur um brot gegn sóttkví og einangrun í um 50 tilvikum. Karlmenn voru í miklum meirihluta hinna grunuðu, eða 76%, og var meðalaldur þeirra 38 ár. Af þessu er ljóst að sóttvarnabrot voru á forgangslista lögreglunnar þetta árið, en mikil áhersla var lögð á að koma í veg fyrir og/eða stöðva þau. Starfsmenn lögreglu voru jafnframt kallaðir til strax og sérstöku smitrakningarteymi var komið á laggirnar, en vinna þess var ómetanleg þegar kom að því að hefta frekari útbreiðslu kórónuveirunnar.

Manndráp og líkamsárásir

Snemma í apríl var Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kölluð að fjölbýlishúsi í Hafnarfirði, en í íbúð í húsinu var kvartað undan karlmanni um þrítugt og hann sagður í annarlegu ástandi.

Manndráp og líkamsárásir

Það reyndist rétt vera, en á meðan lögreglumenn voru á vettvangi var maðurinn nokkuð rólegur og sýndi ekki ógnandi tilburði. Úr varð að húsráðandi, kona um sextugt og móðir mannsins, ætlaði að leyfa honum að dvelja áfram í íbúðinni, en með ákveðnum skilyrðum. Nokkrum klukkutímum síðar var aftur hringt úr íbúðinni og beðið um aðstoð lögreglu, en þá hafði mikið gengið á með hörmulegum afleiðingum. Sonurinn, sem kvartað var undan áður, kom til dyra þegar lögreglan kom á vettvang í seinna skiptið og var hann handtekinn, grunaður um morð. Móðir hans fannst látin í svefnherbergi í íbúðinni, en hún hafði verið stungin tvisvar í brjóstið með hnífi. Unnusti konunnar, karlmaður á sextugsaldri, var líka í íbúðinni og hafði sonurinn einnig veist að honum með hnífi. Unnustinn, sem hringdi í lögregluna eftir árásina, var með áverka á handlegg og í andliti. Ætlað morðvopn fannst í stofunni og var haldlagt. Sonurinn var  úrskurðaður í gæsluvarðhald og síðan til vistunar á viðeigandi stofnun. Hann lést svo síðar á árinu og var málið þá fellt niður. Morðið vakti óhug eins og ávallt þegar slíkur verknaður er framinn, en fjöldi manndrápsmála hjá embættinu hefur sveiflast nokkuð á starfstíma þess.

Fjöldi líkamsárása á höfuðborgarsvæðinu var hins vegar nánast óbreyttur á milli áranna 2020 og 2019. Það átti bæði við um minni háttar líkamsárásir og eins þær sem teljast meiri háttar. Tilkynningar um líkamsárásir voru í kringum 1.200, en tæplega 1.000 töldust minni háttar. Meiri háttar líkamsárásir, sem voru um 200, dreifðust nokkuð jafnt yfir árið, en voru þó sýnu fæstar í jólamánuðinum. Þær áttu sér stað víða í umdæminu og á ólíkum tímum sólarhringsins, jafnt um helgar sem virka daga. Á mánudagsmorgni um miðjan júní var lögreglan kölluð að húsi í Vogunum, en þar hafði karlmaður á fertugsaldri veist að konu á fimmtugsaldri og veitt henni alvarlega áverka með hnífi. Maðurinn var nýfarinn að leigja hjá konunni þegar hann réðst á hana. Leigjandinn, sem var í annarlegu ástandi, var handtekinn á vettvangi og færður á lögreglustöð. Daginn eftir var hann svo úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald í ljósi alvarleika málsins. Maðurinn hafði áður komið við sögu lögreglu, m.a. vegna ofbeldisbrota.

Á fimmtudegi seint í apríl bárust tvær tilkynningar um meiri háttar líkamsárásir. Sú fyrri barst síðdegis, en þá hafði 17 ára piltur verið stunginn með hnífi á göngustíg í Breiðholti. Hann var fluttur á Landspítalann og gekkst þar undir aðgerð, en um var að ræða lífshættulegan áverka. Jafnaldri piltsins var svo handtekinn daginn eftir, grunaður um verknaðinn. Þeim bar ekki saman um aðdraganda eða málsatvik, en rannsókn lögreglu leiddi í ljós að þetta skelfilega atvik tengdist illdeilum tveggja hópa. Á meðan málinu stóð, í þinghaldi, ræddust þolandi og gerandi við og lofuðu að slíðra sverðin svo ekki kæmi til frekari átaka milli þeirra eða hópanna. Seint að kvöldi fyrrnefnds fimmtudags var lögreglan farin að rannsaka aðra meiri háttar líkamsárás, en þá hafði hún verið kölluð að húsi í Kópavogi þar sem karlmaður á fimmtugsaldri fannst alvarlega slasaður. Þrír voru handteknir vegna málsins og einn þeirra, karlmaður á svipuðu reki og brotaþoli, var úrskurðaður í gæsluvarðhald daginn eftir. Honum var gefið að sök að hafa slegið og hrint hinum slasaða með þeim afleiðingum að hann féll aftur fyrir sig og skall í gólfið.

Tilkynningar um líkamsárásir í umdæminu bárust nokkuð jafnt yfir árið, líkt og áður var getið, en í apríl voru þær með allra mesta móti, eða rúmlega 120. Og á síðasta degi þess mánaðar var Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu með mikinn viðbúnað í Salahverfinu í Kópavogi eftir að tilkynnt var um að ráðist hefði verið á tvo unglinga. Mikil leit var gerð að meintum árásarmanni og naut lögreglan m.a. aðstoðar sporhunds og þyrlu Landhelgisgæslunnar. Eftir töluverða leit kom hins vegar á daginn að málsatvik voru með allt öðrum hætti en talið var í fyrstu. Þarna voru á ferð piltur og stúlka og reyndist hún hafa veitt honum áverka með eggvopni. Málið var unnið með aðkomu barnaverndaryfirvalda, en stúlkan var ósakhæf.

Innbrot og þjófnaðir

Tilkynningar um innbrot og þjófnaði bárust Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu alla daga, en þær voru samtals um 4.000 árið 2020.

Innbrot og þjófnaðir

Það er nánast sami fjöldi tilkynninga og barst embættinu um innbrot og þjófnaði árið á undan, ótrúlegt en satt. Brotin dreifuðust yfir árið, en voru þó áberandi fleiri frá sumarlokum og fram á haust, eða mánuðina ágúst, september og október. Í hverjum þessara mánaða komu í kringum 400 mál á borð embættisins. Brotunum fækkaði aftur síðustu tvo mánuði ársins, en það breytti samt ekki þeirri staðreynd að seinni hluti ársins var mun verri en sá fyrri í þessum efnum. Þegar litið er til einstakra brota breyttist sumt en annað ekki. Hér má nefna að tilkynningum um reiðhjólaþjófnaði fór mjög að fjölga er leið á árið, eða frá vori og fram á haust. Þetta var svo sem engin nýlunda, en á tímabilinu frá apríl til október var fjölmörgum reiðhjólum stolið í umdæminu. Tilkynningar um reiðhjólaþjófnaði árið 2020 voru um 560. Hluti þeirra endar svo í vörslu lögreglu, en betur mætti ganga að koma reiðhjólum aftur í réttar hendur. Þegar það tekst ekki enda þau á uppboði hjá embættinu, sem enn og aftur minnir á miðla Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem nálgast má upplýsingar um óskilamuni, m.a. fundin reiðhjól. Sama gildir um síma, en myndir af fundnum símum er þar líka að finna. Tilkynningum um símaþjófnaði fækkaði annars mikið árinu, sérstaklega eftir að COVID-19 var skollið á, og varði það út árið.

Innbrot í umdæminu voru um 900, en meira en þriðjungur þeirra voru innbrot á heimili. Engu að síður fækkaði innbrotum almennt, þau voru um 1.000 árið 2019, þótt annað gilti um innbrot á heimili, en fjöldi þeirra tók litlum breytingum á milli ára. Kom það e.t.v. á óvart þar sem fólk var frekar lítið að heiman í samanburði við fyrri ár. Innbrotum í ökutæki fækkaði þó mjög mikið, en innbrotum í fyrirtæki fjölgaði hins vegar frá árinu á undan. Flestar tilkynningar um innbrot bárust í febrúar, júlí og ágúst, eða í kringum 100. Fæst voru innbrotin í maí, eða innan við 50, en hér er átt við öll innbrot á höfuðborgarsvæðinu. Innbrot á heimili voru um 350 á árinu 2020 og innbrot í fyrirtæki voru litlu færri. Innbrot í ökutæki voru um 200, en mjög dró úr þeim undir árslok. Þannig voru tilkynningar um innbrot í ökutæki innan við 10 í bæði nóvember og desember. Þetta voru annars innbrot í ökutæki af ýmsum stærðum og gerðum, en snemma árs voru til rannsóknar innbrot í vinnuvélar. Úr þeim var stolið GPS-tækjum og var um töluverð verðmæti að ræða. Eigendur og umráðamenn vinnuvéla voru því hvattir til að vera á varðbergi og gera ráðstafanir ef því var við komið.

Síðla árs voru til rannsóknar mörg þjófnaðarbrot í Mosfellsbæ, en þar hafði m.a. verið brotist inn í geymslur á nokkrum stöðum í bænum. Í tengslum við málið var framkvæmd húsleit á tveimur stöðum í sveitarfélaginu og lagt hald á marga muni, sem taldir voru þýfi. Húsráðandi á öðrum staðnum, karlmaður á sextugsaldri, var úrskurðaður í gæsluvarðhald, en fleiri voru þó grunaðir um aðild. Heima hjá manninum fannst m.a. tölvubúnaður, nokkur reiðhjól, húsgögn, gaskútar og mikið af verkfærum. Um svipað leyti upplýsti Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fjölda innbrota í Kópavogi, en þar var um að ræða innbrot í bæði geymslur og hjólageymslur. Þjófarnir, tveir karlar á fertugsaldri, stálu öllu steini léttara, m.a. reiðhjólum, matvælum og húsmunum af ýmsu tagi.

Í fyrrnefndum málum fór síðan drjúgur tími lögreglumanna í að koma hlutunum aftur í réttar hendur, en það er mjög ánægjulegt í hvert skipti sem það tekst. Samhliða hvatti lögreglan fólk til að sýna árvekni þegar keyptir voru hlutir á sölusíðum á netinu, t.d. að seljandi sýni kvittun fyrir vörunni. Of oft gerist það að þýfi finnst í fórum kaupenda sem bera við að þeir hafi ekki vitað að varan var stolin, vita ekki nafn seljanda, heimilisfang eða annað sem að gagni má koma við rannsókn máls, en finnst engu að síður sárgrætilegt og ósanngjarnt að varan sé af þeim tekin og komið í vörslu réttmæts eiganda. Þá hélt Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu áfram að minna á forvarnir vegna innbrota á heimili, t.d. að fólk tilkynni um grunsamlegar mannaferðir og skrifi jafnvel hjá sér bílnúmer og lýsingar á fólki ef eitthvað óvenjulegt á sér stað í nánasta umhverfi þess. Jafnframt að fólk gangi tryggilega frá heimilum sínum þegar það fer að heiman og upplýsi nágranna um slíkt, en nágrannavarsla getur skipt sköpum þegar kemur að því að upplýsa brot eða koma í veg fyrir þau.

Rán og fjársvik

Svikahrappar héldu uppteknum hætti árið 2020 og létu einskis ófreistað. Heimsfaraldur breytti þar engu um, þvert á móti reyndu óprúttnir aðilar að nýta kórónuveiruna sér til framdráttar.

Rán og fjársvik

Fljótlega eftir að fyrsta tilfellið greindist hérlendis varaði Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sérstaklega við svikum sem voru að eiga sér stað á netinu og í gegnum síma. Þrjótar settu upp svikasíður eða hringdu í fólk og blekktu það til að gefa upp upplýsingar eða greiða fyrir vörur sem voru ekki til. Í tengslum við COVID-19 var reynt að svindla með vörur sem mikil eftirspurn var eftir, t.d. öndunarmaska, handspritt og þess háttar. Þetta átti sér stað víða um heim, en alþjóðalögreglan, Interpol, og alþjóða heilbrigðisstofnunin, WHO, greindu frá tilkynningum sem þeim bárust vegna þessa. Almenningur var beðinn um að vera á varðbergi vegna slíkra blekkinga og svika, en því miður höfðu margir þegar látið blekkjast, m.a. á Íslandi. Þetta átti t.d. við um Instagram-síðu þar sem fólk var blekkt að Landlæknisembættið væri að hafa samband gegnum þá síðu. Minnt var á og fólk beðið um að hafa hugfast, þegar rakningarteymi almannavarna var að hafa samband vegna COVID-19 veirunnar, að aldrei væri spurt um lykilorð, notendanöfn eða greiðsluupplýsingar í þeim samtölum.

Tilkynningar um fjársvik voru í kringum 450 og bárust þær yfir allt árið. Fjöldi þeirra gat þó verið breytilegur frá einum mánuði til annars, en í maí bárust t.d. fleiri tilkynningar um netglæpi en venjulega. Þetta var þó í samræmi við þróun mála í mörgum öðrum löndum, en um var að ræða netglæpi eins og fjárfestasvindl, loforð um peninga og hótanir. Vitað var að heimsfaraldurinn ylli mörgum fjárhagsáhyggjum og hinir sömu voru því viðkvæmari fyrir gylliboðum en ella. Tilboð um álitlegar fjárfestingar komu gjarnan á samfélagsmiðlum og oft var frægt fólk sagt hafa stokkið á tækifærið, en raunin var iðulega allt önnur. Loforð um peninga voru allskonar, t.d. arfur eða vinningur af einhverju tagi. Ekkert var þar að baki, aðeins var verið að draga fólk á asnaeyrum og hafa af því fé. Hótanir voru einnig algengar og tengdust ekki endilega COVID-19. Slík mál eru þekkt hjá lögreglu, t.d. hótanir um að upplýsa um fólk sem skoðar klámefni á netinu, en þá segjast þrjótarnir gjarnan hafa myndir því til sönnunar. Þetta eru nánast alltaf innantómar hótanir og lögreglan ráðleggur fólki að láta ekki undan. Hótanirnar eru vissulega óþægilegar enda segjast hinir óprúttnu aðilar hafa komst yfir lykilorð viðkomandi og yfirtekið tölvuna. Þeim sem fyrir þessu verða er bent á að hafa samband með tölvupósti á netfangið cybercrime@lrh.is

Viðbúið er að netglæpum muni fjölga frekar en hitt og því hefur Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lagt töluverða áherslu á hafa uppi varnaðarorð um hætturnar sem leynast á netinu. Ófáar tilkynningar þar að lútandi birtust t.d. á fésbókarsíðu embættisins árið 2020. Þar var fólk minnt á að opna ekki grunsamlega tölvupósta eða viðhengi, heldur að eyða þeim strax. Sömuleiðis að notast við tveggja þátta auðkenningu þar sem það er hægt, eins og á samfélagsmiðlum, og svo mætti áfram telja. Oft bárust lögreglunni margar tilkynningar þegar tiltekið svindl var í gangi og þá var upplýsingum um það komið á framfæri við almenning jafnharðan. Dæmi um það voru SMS-skilaboð snemma árs, en í þeim var fólk beðið um að gera ákveðna hluti sem stóðust enga skoðun þegar að var gáð. Á sama tíma tókst svindlurum að greiða fyrir ýmsar vörur og þjónustu með fölsuðum evruseðlum, en þeir herjuðu m.a. á sólarhringsverslanir, leiktækjasali og leigubíla. Svikahröppunum tókst að hafa nokkuð upp úr krafsinu, eða þar til lögreglan komst í málið og tókst að hafa hendur í hári þjófanna.

Fjárdráttarmálum fækkaði mjög mikið frá árinu á undan, en tilkynningum um rán fjölgaði hins vegar. Þau hafa oft verið í kringum 50, en voru um 70 árið 2020. Ránin dreifðust nokkuð yfir árið, en voru þó sýnu flest í ársbyrjun og um haustið. Í þeim ófyrirleitnustu hlutu þolendur einhverja áverka, en í öllum tilvikum var fólki auðvitað illa brugðið við slíka upplifun. Ræningjarnir komust sjaldan á brott með mikil verðmæti eins og jafnan er raunin í málum sem þessum. Brotamennirnir voru sumir ungir að árum, en í október var 18 ára piltur úrskurðaður í fjögurra vikna síbrotagæslu. Sá var grunaður um að hafa framið rán á nokkrum stöðum í borginni á einni og sömu helginni.

Kynferðisbrot og heimilisofbeldi

Tæplega 800 tilkynningar um heimilisofbeldi bárust Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu árið 2020.

Kynferðisbrot og heimilisofbeldi

Flestar voru tilkynningarnar í apríl, eða nálægt 80, en fæstar í febrúar, eða um 50. Hina mánuðina voru þær á bilinu 60-70 og því ljóst að mikið verk er enn óunnið, slíkur er fjöldi mála. Heimilisofbeldi er samfélagslegt mein, sem verður að taka á með öllum ráðum. Fyrir nokkrum árum fór embættið, í samvinnu við fleiri aðila, að taka betur á þessum málum. Samhliða skapaðist mikil umræða um heimilisofbeldi og hún hefur haldið áfram. Það er vel, en ætla má að umræðan hafi hjálpað þolendum að stíga fram. Eðli málsins samkvæmt eru málin oft mjög ljót, ef svo má að orði komast. Fjölskyldufaðir í umdæminu kom við sögu í einu þeirra, en málið vakti óhug margra. Sá var grunaður um að hafa beitt fjölskyldu sína, bæði eiginkonu og börn, andlegu og líkamlegu ofbeldi yfir nokkurra ára tímabil. Eftir rannsókn lögreglu var fjölskyldufaðirinn ákærður og síðar dæmdur til fangelsisvistar. Málin voru allskonar, en í einu þeirra hafði gerandinn áður gerst sekur um ofbeldi og hlotið dóm fyrir. Í sumarbyrjun voru aftur höfð afskipti af viðkomandi, sem hafði þá meðal annars veist að móður sinni með hnefahöggum. Maðurinn flúði af vettvangi en var handtekinn skömmu síðar, en hann var jafnframt sakaður um alvarleg brot gegn öðrum líka. Málsaðilar voru annars á ýmsum aldri, en í einu málanna var ráðist á karl á níræðisaldri. Árásarmaðurinn var sonur sambýliskonu mannsins, sem voru veittir áverkar með hnífi og kertastjaka.

Nálægt 100 nauðganir voru til rannsóknar hjá embættinu árið 2020 og var það ákveðinn viðsnúningur frá árinu á undan. Þá voru nauðgunarmálin vel á annað hundrað, en hvað olli þó þessari breytingu á málafjölda milli ára skal ósagt látið. Í kynferðisbrotadeildinni var engu að síður meira en nóg að gera, því miður, og mörg mál þung í vöfum. Í seinni tíð hafa líka komið fjölmörg mál á borð lögreglu er varða stafrænt kynferðisofbeldi og árið 2020 var engin undantekning í þeim efnum. Hér er átt við dreifingu á kynferðislegu myndefni án samþykkis, en það var vilji yfirvalda að taka á slíkum brotum með skýrum hætti. Umræða um stafrænt kynferðisofbeldi var því töluverð, en auk refsinga þarf líka að huga að fræðslu. Oftlega voru málsaðilar ungir að árum og því ósakhæfir. Um hugarangur þolenda í slíkum málum þarf ekki að hafa mörg orð, en í sumum málanna var enn fremur verið að hóta fólki og kúga.

Rannsóknir fyrrnefndra mála geta oft verið mjög vandasamar, en undanfarin misseri hefur verið reynt að stytta málsmeðferðartíma þeirra og hefur það gengið eftir. Sömuleiðis hefur sérhæfð kærumóttaka hjá embættinu vegna kynferðisbrota gefist vel. Með tilkomu hennar fékkst tækifæri til að veita þolendum meiri þjónustu og hefur það mælst vel fyrir. Á árinu 2020 var jafnframt framkvæmd þjónustukönnun hjá þeim sem leituðu til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna kynferðisbrota og var mikill meirihluti þeirra, eða 76%, almennt ánægður með þjónustuna sem fékkst hjá embættinu. Þjónustu fyrir þolendur er líka að fá í Bjarkarhlíð, en þangað leituðu meira en 800 manns í fyrsta viðtal. Þar starfar m.a. fulltrúi frá lögreglu og tók hann á móti hátt í fjórðungi af fyrrnefndum hópi, en í Bjarkarhlíð er boðið upp á aðstoð og ráðgjöf. Nokkrir tugir vændismála voru til meðferðar hjá embættinu, en flest þeirra má rekja til sérstakra aðgerða sem ráðist var í seint á árinu. Samhliða voru fjórir handteknir grunaðir um að hafa haft barnaníðsefni í sinni vörslu, en aðgerðirnar, sem beindust að barnaníði á netinu og vændi, voru unnar í samvinnu við Europol og Interpol.

Skipulögð brotastarfsemi

Rannsóknir Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á málum sem tengjast skipulagðri brotastarfsemi eru sífellt að verða umfangsmeiri og tímafrekar eftir því.

Skipulögð brotastarfsemi

Brotin geta verið margþætt, en þau snúa m.a. að fíkniefnasölu og peningaþvætti svo fátt eitt sé nefnt. Brotahóparnir svífast einskis og því er mikilvægt að lögreglan sé vel í stakk búin að takast á við þennan málaflokk sem aðra. Undanfarin misseri hefur verið lögð mikil áhersla á þjálfun starfsmanna lögreglunnar svo hún sé betur fær um að eiga við skipulagða brotastarfsemi. Vel hefur gengið í þeim efnum, en á árinu 2020 voru til rannsóknar mörg mál sem snéru einmitt að þessum málaflokki. Strax í ársbyrjun, eða um miðjan janúar, voru sex handteknir og úrskurðaðir í gæsluvarðhald í þágu rannsóknar embættisins, sem snéri m.a. að framleiðslu fíkniefna og peningaþvætti. Rannsókn málsins hafði staðið yfir í töluverðan tíma og fylgst var með ferðum sumra sakborninganna. Þegar látið var til skarar skríða gegn þeim við sumarhús í útjaðri höfuðborgarsvæðisins reyndu hinir sömu að komast undan. Við tók stutt eftirför uns bifreið mannanna hafnaði utan vegar. Í fórum þeirra fannst ætlað amfetamín og í sumarhúsinu var lagt hald á tæki og búnað, sem lögreglan taldi hafa verið notaðan til að framleiða amfetamín. Um viðamikla aðgerð var að ræða, en í kjölfarið var ráðist í margar húsleitir víða í umdæminu og í þeim tók lögreglan í sína vörslu fíkniefni, vopn og fjármuni. Við rannsóknina var lagt hald alls á 13,5 lítra af amfetamínbasa, auk tilbúinna fíkniefna og mikið af sterum.

Nokkrum vikum síðar voru fimm handteknir í óskyldu máli, sem snéri einnig að framleiðslu fíkniefna. Þar kom einnig við sögu sumarhús, en á Vesturlandi, en sakborningarnir voru handteknir þegar þeir voru á ferð á tveimur bifreiðum í og við Hvalfjarðargöng. Fimmmenningunum, sem sátu í gæsluvarðhaldi um tíma, var gefið að sök að hafa staðið að framleiðslu amfetamíns í áðurnefndu sumarhúsi og hafa haft fíkniefni í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni. Húsleitir voru framkvæmdar á nokkrum stöðum vegna rannsóknarinnar, en lagt var hald á talsvert af fíkniefnum í tengslum við málið. Um töluverða lögregluaðgerð var að ræða, en við hana naut Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu aðstoðar annarra lögregluembætta. Slíkt er alvanalegt í málum sem þessum, auk þess sem lögregluliðin eiga líka í góðri samvinnu við tollyfirvöld þegar innflutningur fíkniefna er annars vegar. Alls voru haldlögð rúmlega 24 kíló af amfetamíni á árinu, en hátt í helmingur þess fannst við húsleit í fjölbýlishúsi á höfuðborgarsvæðinu í maí. Til viðbótar tók embættið í sína vörslu amfetamínbasa, sem má gróflega áætla sem 38 kíló af amfetamíni í smásölu.

Skráðum fíkniefnabrotum í umdæminu fækkaði töluvert frá árinu á undan, en rúmlega 1.100 brot voru skráð þetta árið. Eins og áður kom marijúana oft við sögu, en Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu haldlagði rúmlega 42 kíló af því. Kannabisræktanir var víða að finna, en í nóvember stöðvuðu lögreglumenn mjög umfangsmikla kannabisræktun í húsi í Reykjavík. Þar var lagt hald á um 1.300 kannabisplöntur á ýmsum stigum ræktunar. Um svipað leyti fannst hátt í hálft kíló af kókaíni, sem hafði verið grafið í holu í Heiðmörk. Það var útivistarmaður sem tilkynnti um sérkennilegan hlut á þessum slóðum, en hluturinn reyndist síðan innhalda kókaín. Það var þó ekki síst hundi mannsins að þakka að svona vel fór og fíkniefninu enduðu hjá lögreglunni. Nokkrum vikum síðar var aftur lagt hald á ámóta magn af kókaíni, en það hafði verði sent til landsins með hraðsendingu. Einn var handtekinn vegna málsins. Af öðrum fíkniefnum sem voru tekin í vörslu lögreglu árið 2020 má nefna metamfetamín, hass, LSD og e-töflur (MDMA).

Umferðareftirlit

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu var með töluvert öðrum brag á árinu 2020 enda fór Ísland ekki varhluta af heimsfaraldrinum frekar en aðrar þjóðir.

Umferðareftirlit

Umferðin dróst því mikið saman enda voru landsmenn miklu minna á ferðinni þetta árið vegna aðstæðna og ferðamenn voru vart sjáanlegir. Umferðarmálin voru samt ofarlega á baugi, en á 112-deginum var sjónum beint að öryggi fólks í umferðinni. Varað var sérstaklega við því að nota síma og önnur snjalltæki undir stýri og var ekki vanþörf á, en þeir sem það gera eru margfalt líklegri til að valda umferðarslysum eins og rannsóknir sýna. Þeir sem ganga og hjóla voru hvattir til að nota endurskin og vera þannig vel sýnilegir þeim sem fara um á bílum. Hvorutveggja mikilvæg skilaboð, sem er brýnt að halda stöðugt á lofti. Og það var fleira sem vegfarendur þurftu að hafa hugfast, en í ársbyrjun tóku gildi ný umferðarlög. Í þeim er t.d. kveðið á um að þegar ekið er fram úr reiðhjóli eða léttu bifhjóli skal hliðarbil vera að lágmarki 1,5 metrar. Barn yngra en 16 ára skal nota reiðhjólahjálm við hjólreiðar var annað atriði sem tók breytingum, en áður var miðað við 15 ára aldur. Í nýju umferðarlögunum er sérstaklega áréttað að ekki megi leggja í snúningssvæði í botnlangagötum, en undan því hefur verið talsvert kvartað til lögreglu í gegnum tíðina. Sekt fyrir að aka gegn rauðu ljósi var hækkuð úr 30 í 50 þúsund krónur og þá hefur verið lögfest að ökumaður í ytri hring í hringtorgi skal veita þeim sem ekur í innri hring forgang út úr torginu. Fleiri breytingar er að finna í nýju umferðarlögunum en ekki er unnt að telja þær allar upp hér.

Umferðarslys voru áfram daglegt brauð í umdæminu, en þeim fækkaði samt frá árinu á undan og voru það góð tíðindi. Samanburður talna frá árinu 2020 við önnur ár er þó mjög erfiður og verður að taka með fyrirvara enda aðstæður allt aðrar vegna COVID-19, sem hafði mjög mikil áhrif á umferðina rétt eins og annað í þjóðlífinu. Embættið hefur lengi birt vikulegar samantektir um umferðarslys á höfuðborgarsvæðinu, en í þeim koma ákveðnar fjölfarnar götur ítrekað við sögu. Þar á meðal er Miklabraut, en slys hafa löngum verið tíð á gatnamótum hennar við Grensásveg, Kringlumýrarbraut og Háaleitisbraut. Sama má segja um þrenn gatnamót Reykjanesbrautar, þ.e. við Lækjargötu/Hlíðarberg, Bústaðaveg og Fjarðarhraun. Gatnamótum Fjarðarhrauns, Flatahrauns og Bæjarhrauns má einnig bæta við upptalninguna, en hér er líka vísað til upplýsinga frá Samgöngustofu. Flest slysanna urðu á svokölluðum álagstímum, þ.e. þegar fólk fer til og frá vinnu og skóla, en slysin eru enn fremur fleiri eftir hádegi heldur en fyrir. Fjöldi þeirra er jafnframt misjafn eftir vikudögum, færri í byrjun vikunnar og fleiri eftir því sem á hana líður.

Ýmsar vegaframkvæmdir stóðu yfir á árinu og leiddi það stundum til óhjákvæmilegra tafa í umferðinni. Flestir vegfarendur sýndu því skilning enda voru framkvæmdirnar til bóta þegar uppi var staðið. Á meðal stórra vegaframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu var breikkun Reykjanesbrautar á móts við Vellina og Áslandið í Hafnarfirði og breikkun Vesturlandsvegar í Mosfellsbæ. Yfir sumarmánuðina voru götur fræstar og malbikaðar  víðs vegar í umdæminu eins og jafnan áður. Þessu fylgdu tímabundnar lokanir og óþægindi eftir því.  Þegar mest var mátti lesa tilkynningar um framkvæmdir nánast daglega á fésbókarsíðu embættisins, en ávallt hefur verið lögð áhersla á að miðla þeim upplýsingum til vegfarenda. Sérstaklega þegar um fjölfarnar götur er að ræða og hafa lesendur síðunnar verið þakklátir fyrir upplýsingarnar.

Banaslys og hraðakstursbrot

Fjórir létust í umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu árið 2020 og er það þyngra en tárum taki, en fjöldi látinna í umferðinni hefur sveiflast töluvert.

Banaslys og hraðakstursbrot

Ekkert banaslys varð í umdæminu árið á undan, en 2018 létust sex í umferðarslysum. Þegar litið er lengra aftur í tímann kveður við það sama, þ.e. sveiflur á milli ára, en árið 2014 lést þó enginn í umferðarslysi á höfuðborgarsvæðinu. Dæmin um góðan árangur í umferðinni eru því til staðar og vonandi eiga þau eftir að verða fleiri í framtíðinni. Árið 2020 var hins vegar slæmt hvað þetta varðar, en fyrsta banaslysið í umdæminu varð fyrripartinn í janúar þegar karlmaður á fimmtugsaldri lést í hörðum árekstri fólksbíls og snjóruðningstækis á Reykjanesbraut, á móts við álverið í Straumsvík. Maðurinn ók fólksbílnum, en bílarnir voru að koma úr gagnstæðri átt. Um tveimur mánuðum síðar, í mars, lést karlmaður um þrítugt eftir þriggja bíla árekstur á Reykjanesbraut, nálægt Orkunni í Kópavogi. Hann var farþegi í einum bílanna og lést á sjúkrahúsi nokkrum dögum eftir slysið. Og loks létust tveir, karl og kona, í árekstri bifhjóls og húsbíls á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi, norðan Grundarhverfis, undir lok júní. Hin látnu, ökumaður og farþegi á bifhjólinu, voru bæði á sextugsaldri, en ökutækin voru að koma úr gagnstæðri átt.

Þrátt fyrir minni umferð á höfuðborgarsvæðinu voru þúsundir umferðarlagabrota skráð hjá embættinu árið 2020. Það var kannski viðbúið, en þess verður þó að geta að brotunum fækkaði allnokkuð frá árinu á undan. Sem fyrr voru hraðakstursbrotin þar mjög áberandi, en rúmlega 22 þúsund ökumenn voru staðnir að hraðakstri í umdæminu. Brotin áttu sér stað víða, jafnt á stofnbrautum sem og við grunnskóla. Þar má nefna að á nokkurra vikna tímabili á haustmánuðum, eftir að skólar tóku aftur til starfa eftir sumarleyfi, voru fleiri hundruð ökumenn staðnir að hraðakstri við skólana í umdæminu. Um 2.000 ökutæki voru vöktuð við þetta eftirlit og fékk hátt í þriðjungur ökumannanna sekt fyrir hraðakstur. Um var að ræða götur þar sem leyfður hámarkshraði er 30, en meðalhraði hinna brotlegu var 43 km/klst. Fjölmargir óku þarna um á yfir 50 km hraða, en sá sem hraðast ók mældist á 65. Ökumenn áttu líka í vandræðum með að virða hámarkshraða við vinnusvæði, en í apríl var ökumaður staðinn að hraðakstri á Vesturlandsvegi í Mosfellsbæ. Sá ók á 98 km hraða yfir Leirvogsá, en þar var hámarkshraði lækkaður í 30 vegna framkvæmda. Ökumaðurinn átti ákæru yfir höfði sér, en á vettvangi voru áberandi skilti til að vekja athygli ökumanna á leyfðum hámarkshraða. Margir ökumenn brutu líka af sér á Garðahraunsvegi í Garðabæ, en á árinu var götunni breytt í botnlangagötu og leyfður hámarkshraði lækkaður í 30. Allnokkrir í hópi hinna brotlegu á Garðahraunsvegi áttu einnig sviptingu ökuleyfis yfir höfði sér, slíkur var hraðinn.

Nálægt 1.500 ökumenn voru teknir fyrir fíkniefnaakstur árið 2020 og rúmlega 750 fyrir ölvunarakstur. Brotunum fækkaði mikið frá fyrra ári, en árin þar á undan hafði þeim fjölgað verulega, sérstaklega fíkniefnaakstur. Hátt í 500 ökumenn voru sektaðir fyrir að aka gegn rauðu ljósi og um 900 fyrir að tala í síma án handfrjáls búnaðar. Sektin fyrir að aka gegn rauðu ljósi var hækkað í ársbyrjun og sekt fyrir að tala í síma án handfrjáls búnaðar var hækkuð margfalt á vormánuðum 2018, eða úr 5 í 40 þúsund. Sú staðreynd virðist þó ekki skipta alla ökumenn máli. Sama má kannski segja um ökumenn sem höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi en héldu samt áfram akstri. Á árinu voru 1.200 tilvik þar sem lögreglan stöðvaði för slíkra ökumana. Þá voru hátt í 700 ökumenn sem reyndust ekki hafa gild ökuréttindi þegar afskipti voru höfð af þeim.

Brunar og íkveikjur

Þrír létust í hörmulegum bruna í vesturbæ Reykjavíkur í júní, en á fimmtudegi, seint í mánuðinum, barst tilkynning um kaffileytið um eld í þriggja hæða húsi á horni Bræðraborgarstígs og Vesturgötu.

Brunar og íkveikjur

Fjölmennt lið viðbragðsaðila hélt þegar á vettvang, en þegar þangað var komið var ljóst að um mikinn eld var að ræða og allar aðstæður mjög erfiðar. Á leiðinni þangað höfðu þegar borist upplýsingar um að eldurinn væri á miðhæð hússins og í þaki þess, og fólk væri í sjálfheldu á efstu hæðinni. Eldurinn breiddist hratt út í þessu gamla húsi og þurftu einhverjir íbúanna að stökkva út til að reyna að bjarga sér, en því miður náðu ekki allir að forða sér úr húsinu. Fjórir voru fluttir á slysadeild, en einn þeirra lést. Við slökkvistarf fundust tveir aðrir látnir í húsinu, en þremenningarnir, tvær konur og einn karl, voru öll á þrítugsaldri. Slökkvistarfið tók töluverðan tíma, en mikinn reyk lagði frá húsinu og voru íbúar í nágrenninu beðnir um að loka gluggum hjá sér. Eins og jafnan áður dreif að fólk til að fylgjast með aðgerðum á vettvangi, en tveir voru handteknir fyrir að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu.

Lögregluna grunaði fljótt að um íkveikju af mannavöldum væri að ræða, en í bráðabirgðaskýrslu kom fram að eldsupptakastaðir voru fleiri en einn og á aðskildum svæðum. Því var nánast hægt að útiloka að eldurinn hafi kviknað vegna gáleysis. Skömmu eftir að tilkynnt var um eldinn var einn íbúanna í  húsinu, karlmaður á sjötugsaldri, handtekinn annars staðar í hverfinu. Sá var í annarlegu ástandi, en maðurinn var fluttur á lögreglustöð. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald daginn eftir og síðar ákærður fyrir verknaðinn. Rannsókn leiddi í ljós að hann kveikti eld á gólfi í herbergi sínu á annarri hæð hússins og jafnframt á tveimur öðrum stöðum á gólfi í sameiginlegu rými, en þrettán aðrir voru í húsinu þegar þetta átti sér stað. Með því olli hann almannahættu, en eldurinn breiddist hratt út og var húsið nánast alelda þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang. Maðurinn var dæmdur til að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun.

Embættið rannsakaði fleira bruna á árinu, en í mars var karlmaður um þrítugt úrskurðaður í fjögurra vikna síbrotagæslu eftir eldsvoða á skemmtistað í miðborginni. Maðurinn, sem hafði áður komið við sögu lögreglu, var ákærður fyrir að brjótast þar inn, stela ýmsum hlutum og kveikja síðan í. Seinna á árinu, eða í október, varð eldsvoði í iðnaðarhúsnæði í Kópavogi, en töluverðar skemmdir urðu á húsnæðinu, m.a. eyðilögðust bifreiðar sem voru þar innandyra. Verið var að logsjóða þegar eldurinn kom upp. Og í sama mánuði kviknaði líka í íbúðarhúsnæði í Kópavogi. Þar varð mikið tjón, ekki síst tilfinningalega, en sex hundar drápust í brunanum. Talið var að eldurinn hafi kviknað út frá rafmagnstæki.

Unglingar í vanda

Árlega ratar fjöldi unglinga í vandræði af ýmsum ástæðum og oft er lögreglan kölluð til þegar svo er komið.

Unglingar í vanda

Hér er átt við þegar unglingar fara að heiman og vilja ekki snúa aftur af einhverjum ástæðum, eða strjúka úr úrræði sem er þegar búið að koma þeim í. Fjölmörg slík mál komu á borð Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu árið 2020, en leitarbeiðnir vegna þessa voru um 200. Iðulega tekst fljótt að hafa uppi á krökkunum, en í undantekningartilvikum þarf að auglýsa eftir þeim í fjölmiðlum. Slíkt er neyðarúrræði þegar allt annað hefur verið reynt, en við leitir er gripið til ýmissa ráða. Þar má t.d. nefna að notast við flygildi (dróna) og að kalla til sporhund. Hvorutveggja var gert á árinu, en í alvarlegustu tilvikunum er ótti um að viðkomandi kunni að fara sér að voða. Einn lögreglumaður hjá embættinu hefur helgað sig leitarstarfinu, en hann hefur jafnframt notið aðstoðar annarra þegar við á. Því miður hefur umræddur lögreglumaður haft meira en nóg að gera eins og fjöldi leitarbeiðna segir til um.

Þær bárust stöðugt alla mánuði ársins, en þó sýnu meira yfir sumartímann. Leitað var að 63 einstaklingum, 26 stelpum og 37 strákum. Að sumum var leitað einu einni en öðrum ítrekað. Ástand þeirra var misjafnt, en áfengi og fíkniefni komu gjarnan við sögu þótt ekki væri það algilt. Við úrvinnslu málanna var höfð samvinna við barnaverndaryfirvöld og önnur lögregluembætti þegar svo bar undir, en oftar en einu sinni náðu leitirnar út fyrir höfuðborgarsvæðið. Unglingarnir fundust við misjafnar aðstæður, stundum í slagtogi með sér töluvert eldra fólki, en embættið hefur einmitt séð ástæðu til að árétta að það er refsivert að stuðla að því eða aðstoða barn við að koma sér undan forsjá. Þegar leit að unglingi er lokið fer sá hinn sami í flestum tilvikum til síns heima, eða í viðeigandi úrræði. Í mörgum tilvikum þarf þó að grípa til neyðarvistunar á Stuðlum. Af þeim sem koma ítrekað við sögu í málunum getur þurft að leita að þeim reglulega á nokkurra ára tímabili, en þessum afskiptum lýkur við 18 ára aldur. Ekki virðist samt fækka í hópnum því ný andlit taka við af þeim gömlu, en þetta árið komu 39 unglingar við sögu í málaflokknum í fyrsta sinn.

Jafnréttismál

Áfram var unnið ötullega að jafnréttismálum hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu árið 2020.

Jafnréttismál

Ýmislegt hefur áunnist í þeim efnum undanfarin misseri, en embættið hefur einsett sér að gera vel í þessum málum sem öðrum. COVID-19 setti þó óneitanlega strik í reikninginn og ekki tókst að ljúka öllu sem að var stefnt. Jafnréttisvísir, verkefni sem snýst um stefnumótun og vitundarvakningu í jafnréttismálum, var áfram á dagskrá. Um er að ræða verkefni sem var unnið með Capacent og hófst árið 2019. Starfsfólk embættisins tók þá þátt í vinnustofum og hugmyndavinnu, en stefnt var að ákveðnum markmiðum á þriggja ára tímabili. Niðurstöður þeirrar vinnu náðist að kynna starfsfólki í byrjun mars, en í kjölfarið tók heimsfaraldurinn yfir og verkefnið, rétt eins og mörg önnur, varð að bíða betri tíma. Á árinu var enn fremur unnið að endurskoðun ferla um einelti og kynferðislega áreitni, m.a. með teymisvinnu og rýni, og þá var lokaúttekt jafnlaunavottunar sömuleiðis á dagskrá. Aftur leiddi COVID-19 til þess að ekki tókst heldur að ljúka þeim verkum. Það verður hins vegar gert þegar betur árar.

Hlutfall starfandi lögreglukvenna hjá embættinu hækkaði lítilega á milli ára, fór úr 30,5% í 32%. Það var jákvætt, en Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vill samt gera enn betur. Og árangurinn fram til þessa er samt umfram það sem að er stefnt í löggæsluáætlun stjórnvalda, sem gildir fyrir tímabilið 2019-2023, svo því sé líka haldið til haga. Enn fremur er horft til hærra hlutfalls lögreglukvenna þegar stjórnunar- og áhrifastöður innan embættisins eru annars vegar. Þar varð mikilvæg breyting þegar lögreglukona var skipuð aðstoðaryfirlögregluþjónn snemma árs, en hún tók við og stýrði einni af fjórum lögreglustöðvunum í umdæminu. Fyrir var önnur lögreglukona í sama hlutverki og því var kynjahlutfall stöðvarstjóranna jafnt í fyrsta sinn hjá embættinu. Um haustið voru tvær lögreglukonur ráðnar til starfa í umferðardeildinni og voru það sömuleiðis töluverð tíðindi. Þær gáfu körlunum ekkert eftir og kom svo sem engum á óvart, en lögreglukonur hafa ekki komið mikið við sögu á þessum vettvangi löggæslunnar í gegnum tíðina.

Óvenjuleg verkefni

Í ársbyrjun varð mjög alvarlegt slys í Hafnarfirði þegar bifreið fór fram af Óseyrarbryggju og hafnaði í sjónum og sökk.

Óvenjuleg verkefni

Tilkynning um slysið barst klukkan rúmlega níu að kvöldi og fór fjölmennt lið viðbragðsaðila þegar á staðinn, en kalt var í veðri og snjóþekja yfir bryggjunni. Þrír piltar á aldrinum 15-17 ára voru í bílnum, en einum þeirra tókst að brjóta rúðu í bílnum og synda að stiga við bryggjuna þar sem vegfarendur aðstoðuðu hann við komast í land. Kafarar björguðu hinum tveimur við erfiðar aðstæður, en grugg var í sjónum og skyggnið eftir því en dýpi á vettvangi var um fimm metrar. Um hálftími leið frá því að tilkynnt var um slysið og þar til báðum piltunum hafði verið bjargað úr sjónum, en nokkrar mínútur liðu milli þess að tókst að færa þá úr bifreiðinni og upp á yfirborðið. Þeir voru síðan fluttir á Landspítalann, en tvísýnt var um líf þeirra. Við tók löng endurhæfing, en björgun piltanna þykir ganga kraftaverki næst og ljóst er að viðbragðsaðilar unnu mikið þrekvirki þetta örlagaríka föstudagskvöld um miðjan janúar.

Reglulega þarf lögreglan að veita ökumönnum eftirför í umferðinni, en þá er iðulega um að ræða ökuþrjóta í misgóðu ástandi, sem eru bæði hættulegir sjálfum sér og öðrum. Ein slík eftirför var farin morgun einn í mars, en þá skapaðist mikil hætta þegar steypubíl var stolið við nýbyggingu á Vitastíg í miðborg Reykjavíkur. Steypubílnum var ekið niður Laugaveg, Bankastræti, um Lækjargötu og eftir Sæbraut uns bíllinn stöðvaðist nálægt Kleppsvegi þar sem eftirförinni lauk. Lögreglan var með mikinn viðbúnað vegna málsins, en ökumaðurinn, karlmaður um þrítugt, virti öll stöðvunarmerki að vettugi og setti fjölda vegfarenda í mikla hættu með þessu framferði, en maðurinn ók m.a. á öfugum vegarhelmingi á meðan þessu stóð. Hann var handtekinn á vettvangi og fluttur á lögreglustöð, en þar fengust litlar skýringar á athæfi mannsins enda bauð ástand hans ekki upp á slíkt. Maðurinn hafði áður komst í kast við lögin og hafði m.a. verið sviptur ökuleyfi þegar þetta gerðist. Þótt eftirfarir séu nokkuð tíðar er mjög sjaldgæft að þar komi við sögu ökutæki eins og steypubílar.

Á sunnudegi síðla í apríl var hringt í Neyðarlínuna og greint frá svansunga, sem var í miklum vandræðum í Læknum í Hafnarfirði. Óttast var að hann kynni að drukkna og var brugðist hratt við. Fremsti maður Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í slíkum málum var kallaður á vettvang og tókst honum, með mjög góðri aðstoð nokkurra vegfarenda, að bjarga unganum frá dauða. Um tíma var útlitið tvísýnt enda flaut svanurinn á hvolfi með haus og vængi á kafi, en fætur upp úr. Allt fór þó vel að lokum og giftusamleg björgun var staðreynd. Svanurinn, sem gekk undir nafninu Fannar, var líklega um tveggja ára gamall, en til hans hafði sést við gamla Lækjarskóla og var greinilegt að eitthvað hafði verið að angra hann. Fannar var færður til aðhlynningar hjá dýravinum í Kjósinni í þeirri von að hann yrði fljótur að braggast. Dýr hafa oft komið við sögu hjá embættinu í gegnum árin, en málalokin hafa ekki alltaf verið svona ánægjuleg.

Undir lok sumars barst lögreglu tilkynning um líkfund í skóginum neðan við Hólahverfi í Breiðholti. Ekki var hægt að bera kennsl á viðkomandi á vettvangi, en sýnt þótti að sá hinn sami hafði látist fyrir nokkru síðan. Enginn grunur var samt um að eitthvað saknæmt hefði átt sér stað, en Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og kennslanefnd ríkislögreglustjóra unnu að rannsókn málsins. Fljótlega kom síðan á daginn að hinn látni var karlmaður á níræðisaldri, búsettur í hverfinu. Líkfundur kemur oft á borð lögreglu, en umrætt mál var sérstakt að því leyti að ekki hafði verið tilkynnt um hvarf mannsins og hans var því ekki leitað. Líkfundurinn vakti því meiri athygli en ella, ef svo má að orði komast, og hreyfði eðlilega við fólki í samfélaginu. Rétt er þó að hafa hugfast að aðstæður fólks eru auðvitað mismunandi og samskipti þess við aðra eru með ýmsum hætti og því ber að varast að fella áfellisdóma í slíkum málum.

Lögreglan og samfélagsmiðlar

Samfélagsmiðlar gegna mikilvægu hlutverki þegar upplýsingamiðlun er annars vegar og því er nauðsynlegt að opinberar stofnanir veiti líka góða þjónustu á þeim vettvangi.

Lögreglan og samfélagsmiðlar

Hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu er þetta engin nýlunda, en embættið hefur rekið samfélagsmiðla í áratug. Reynslan af því er góð og ástæða er til að efla þjónustuna þar ef eitthvað er. Fésbókarsíða lögreglunnar er flestum kunn, en fylgjendur hennar eru vel yfir 90 þúsund og er leitun að öðru eins. Þar er að finna upplýsingar af ýmsum toga, en fésbókarsíðan hefur fyrir löngu sannað gildi sitt. Hún hefur t.d. reynst ómetanleg við leit að fólki, en oftar en ekki berast upplýsingar til lögreglu eftir að hún hefur birt myndir á þeim vettvangi. Sama má segja þegar lýst er eftir vitnum í allskonar málum, þá láta viðbrögðin ekki á sér standa og árangurinn er eftir því. Það er því afar dýrmætt að búa yfir slíkum miðli, en upplýsingar á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu berast jafnan hratt til almennings, auk þess sem fólk er mjög duglegt að deila tilkynningum frá  lögreglu þegar svo ber undir. Þá er einnig ljóst, m.a. samkvæmt viðhorfskönnunum embættisins, að fólk kýs gjarnan að eiga samskipti við lögreglu í gegnum samfélagsmiðla fremur en að senda tölvupóst, hringja eða koma á lögreglustöð í eigin persónu.

Lögregluvefurinn er líka vinsæll hjá þeim sem leita eftir upplýsingum eða tiltekinni þjónustu. Hann var uppfærður og gerður nútímalegri og þjónar nú hlutverki sínu enn betur en áður. Í gegnum lögregluvefinn er hægt að reka ýmiss erindi og þannig spara sér heimsókn á lögreglustöð. Á honum er jafnframt að finna ýmsar gagnlegar upplýsingar, en á árinu var t.d. komið þar fyrir sérstökum sektarreikni. Sýnir hann bæði upphæð sektar vegna hraðaksturs og sviptingartíma ökuréttinda svo eitthvað sé nefnt. Á lögregluvefnum er enn fremur hægt að tilkynna um ákveðin brot rafrænt og er það til mikils hægðarauka, t.d. um stolin reiðhjól eða farsíma. Þar má einnig finna öll þau helstu eyðublöð og reglur þeim tengdar vegna leyfa, sem eru gefin út af lögreglu. Á lögregluvefnum er líka hægt að leggja fram beiðni um tíma hjá kærumóttöku embættisins og það hafa margir gert. Fleira væri hægt að tína til í þessum efnum, en Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt sérstaka áherslu á að bæta alla þjónustu sem snýr að rafrænum samskiptum og vonandi sér þess merki.

Twitter og Instagram eru líka samfélagsmiðlar sem embættið hefur nýtt sér, en Instagram-síða lögreglunnar nýtur mjög mikilla vinsælda og það langt út fyrir landsteinana. Á henni er einkum að finna myndir úr starfinu þar sem lögreglumenn leyfa sér að slá á létta strengi og hefur það fallið vel í kramið. Að síðustu má nefna að Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er einnig á Pinterest, en síðan gegnir afar mikilvægu hlutverki við að koma á framfæri upplýsingum um fjölda óskilamuna sem leitast er við að koma aftur í réttar hendur. Á Pinterest eru t.d. myndir af farsímum, reiðhjólum og skartgripum, auk mynda af ýmsum munum sem taldir eru tengjast innbrotum í umdæminu og hafa verið haldlagðir. Af framansögðu ætti mikilvægi samfélagsmiðla að vera öllum ljóst enda auðvelda þeir samskipti og það er lögreglunni, rétt eins og öllum öðrum stofnunum, nauðsyn.

Viðhorfskönnun

Mikill meirihluti íbúa á höfuðborgarsvæðinu, eða yfir 80%, ber traust til lögreglunnar og telur hana skila mjög eða frekar góðu starfi til að stemma stigu við afbrotum í umdæminu.

Viðhorfskönnun

Hinir sömu telja Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu heiðarlega og að mikilvægt sé að fylgja fyrirmælum hennar við ólíkar aðstæður. Þetta kom fram í árlegri viðhorfskönnun sem Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lét framkvæma í maí og júní árið 2020. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands sá um framkvæmdina og náði úrtakið til 2.000 manns (netpanell), en niðurstöður könnunarinnar gefa embættinu mikilvægar vísbendingar um starfsemina. Svarhlutfallið þetta árið var um 60% og má það teljast ágætt. Almennt hafa íbúar í umdæminu jákvætt viðhorf til lögreglu, en um þriðjungur þeirra leitaði til hennar eftir þjónustu í einhverri mynd. Fólk í aldurshópnum 26-35 ára leitaði helst eftir aðstoð eða þjónustu, en þeir sem það gerðu voru ánægðir með viðbrögðin. Meirihluti þeirra sem höfðu samband við lögreglu hringdi í 112.

Konur reyndust jákvæðari í garð lögreglu en karlar, en einnig mátt greina mismunandi viðhorf til lögreglu eftir aldri þátttakenda. Þannig var eldra fólk almennt jákvæðara í garð lögreglu en þeir yngri. Sama átti við þegar viðhorf var greint eftir menntunarstigi, en þeir sem höfðu lokið háskólanámi voru jákvæðari gagnvart lögreglu. Ekki var að sjá skýrt mynstur í viðhorfi til lögreglu eftir búsetu þátttakenda á höfuðborgarsvæðinu, en þeir svöruðu einnig spurningum tengdum COVID-19. Í þeim hluta könnunarinnar kom fram að mikill meirihluti svarenda var hlynntur aðgerðum stjórnvalda til að vinna gegn heimsfaraldrinum. Flestir þátttakenda studdu jafnframt aðgerðir lögreglu vegna COVID-19 af heilum hug. Og þeir vildu enn fremur herða refsingar við brotum gegn samkomubanni. Mjög lítill hluti þeirra sem urðu varir við slík brot tilkynntu þau hins vegar til lögreglu. Frekari upplýsingar um viðhorfskönnunina er að finna á lögregluvefnum.

Eitt og annað

Nokkrar breytingar urðu í yfirstjórn Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu árið 2020, en sú helsta var að snemma árs var skipt um lögreglustjóra.

Eitt og annað

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, fráfarandi lögreglustjóri, var þá skipuð ríkislögreglustjóri og við störfum hennar hjá embættinu tók Hulda Elsa Björgvinsdóttir, sviðsstjóri ákærusviðs. Hulda Elsa gegndi stöðunni tímabundið, en í maí tók Halla Bergþóra Björnsdóttir formlega við lyklavöldum. Halla Bergþóra hafði þá nokkru áður verið skipuð lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu að undangenginni auglýsingu um starfið. Hún þekkti mjög vel til lögreglunnar og málefna hennar, en Halla Bergþóra, sem er lögfræðingur að mennt og var afleysingamaður í lögreglunni samhliða námi, starfaði lengi í dómsmálaráðuneytinu og var síðar sýslumaður og lögreglustjóri á Akranesi árin 2009-2015 og síðan lögreglustjóri á Norðurlandi eystra frá árinu 2015.

Í móttöku fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem starfrækt er í Bæjarhrauni í Hafnarfirði, var í nógu að snúast á árinu 2020, en þar störfuðu að jafnaði þrír lögreglumenn. Fyrstu tvo mánuði ársins bárust samanlagt um 180 umsóknir, en aldrei áður höfðu borist svona margar umsóknir í byrjun árs frá því að móttakan tók til starfa árið 2017. Því var jafnvel búist við metfjölda umsókna um alþjóðlega vernd árið 2020, en þá kom heimsfaraldurinn til sögunnar og breytti öllu. Umsóknum fækkaði verulega í mars og apríl og í maí voru þær sárafáar. Fjöldinn jókst aftur í júlí, en þá voru umsóknirnar rúmlega 100 og var það annasamasti mánuðurinn hvað þetta varðar. Í ágúst, september og október bárust samanlagt tæplega 230 umsóknir um alþjóðlega vernd, en síðustu tvo mánuði ársins fækkaði þeim aftur og voru þær þá samanlagt hátt í 60. Alls voru lagðar fram 653 umsóknir á árinu, en þess má geta að þær voru um 850 árið á undan. Sem fyrr bárust margar umsóknir frá ríkisborgurum Venesúela og Íraks, en í hópi umsækjenda voru einnig áberandi einhleypir karlar með ríkisfang Palestínu. Þeir síðastnefndu voru með grísk ferðaskilríki gefin út á árunum 2018-2020, en hinir sömu komu flestir til landsins á seinni helmingi ársins.

Á árinu sinnti Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu auknum forvörnum og stuðningi við börn í viðkvæmri stöðu til að draga úr líkum á ofbeldisbrotum þeirra. Mikilvægt var að grípa snemma inn í til að vernda börn í viðkvæmri stöðu, ekki síst þar sem félagslegt álag jókst vegna COVID-19 faraldursins á fjárhag heimilanna og fjölskyldulíf. Lögreglan hafði verulegar áhyggjur af þróun ofbeldisbrota meðal ungmenna, vegna ofbeldismyndbanda sem ungmenni tóku upp og deildu á sérstökum vefsvæðum og mála þar sem hnífar komu við sögu hjá ungum gerendum. Um var að ræða verkefni sem hófst á vormánuðum og stóð yfir í nokkra mánuði, en embættið naut mikils stuðnings og velvilja frá bæði félagsmála- og dómsmálaráðuneytunum, sem lögðu til fjármuni vegna þessa. Um haustið var farið yfir stöðuna, en mikill vilji var til þess gera áfram vel í  málaflokknum. Ýmsar hugmyndir voru á lofti, t.d. að fjölga úrræðum fyrir gerendur ofbeldisbrota sem eru börn að aldri.

Afskipti voru höfð af um 20 manns í umfangsmiklum aðgerðum Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, embættis ríkisskattstjóra, Vinnueftirlitsins og Vinnumálastofnunar í janúar í þágu rannsóknar vegna grunsemda um skráningar á kennitölum í gegnum Þjóðskrá með sviksömum hætti. Tæplega helmingur mannanna var færður á lögreglustöð, en þar kom í ljós að hinir sömu höfðu ekki atvinnuréttindi til starfa hérlendis. Útlendingastofnun fékk mál þeirra til frekari meðferðar, en mennirnir áttu yfir höfði sér hugsanlega brottvísun og endurkomubann. Hinn helmingur hópsins gat ekki gert grein fyrir sér við afskiptin og því þurfti að ganga úr skugga um það með skoðun persónuskilríkja þeirra í framhaldinu. Tók það nokkurn tíma, en hinir sömu reyndust allir uppfylla tilskilin skilyrði til starfa á Íslandi og gátu þeir því haldið áfram störfum sínum. Rannsóknin laut einnig að vinnuveitendum mannanna og voru þeir kallaðir til yfirheyrslu til að leita frekari skýringa á tilurð málsins.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér afsökunarbeiðni í október og tók þar skýrt fram að hún styddi ekki með neinum hætti hatursorðræðu eða merki sem ýttu undir slíkt. Tilefnið var umfjöllun fjölmiðla og myndbirtingar af lögreglumanni, en á búningi hans mátti sjá merki sem voru óviðeigandi með öllu. Embættið harmaði jafnframt mjög að hafa valdið fólki særindum vegna þessa og bað alla hlutaðeigendur innilegrar afsökunar. Skilaboðin sem mátti lesa úr merkjunum voru í engu samræmi við fræðslu, stefnu og markmið lögreglunnar. Lögreglumönnum hjá embættinu voru enn fremur send skýr fyrirmæli um að fjarlægja öll merki af lögreglubúningum sínum, sem voru ekki samræmi við reglugerð, hafi þau verið til staðar.

Á vormánuðum fékk Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu nýjan sérhannaðan bíl til að sinna landamæraeftirliti. Bifreiðin, sem var í raun færanlega landamærastöð, var afurð verkefnis embættisins og Ríkislögreglustjóra og fyrir það var sótt um styrk hjá Innri Öryggissjóð Evrópusambandsins. Tilkoma bifreiðarinnar var m.a. hluti af viðbrögðum við ábendingum sem gerðar voru í úttekt á þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu. Bifreiðinni var ætlað að stuðla að bættri framkvæmd landamæraeftirlits á höfuðborgarsvæðinu. Í henni var m.a. fullkominn vegabréfaskanni, sem var tengdur við Interpol og Schengen-upplýsingakerfið. Auk þess var hægt að gefa út vegabréfsáritun á staðnum.

Embættið var tilnefnt til Foreldraverðlauna Heimils og skóla 2020, en hún var til komin vegna sérstaks tilraunaverkefnis sem gekk m.a. út á að efla tengsl lögreglu við börn, ungmenni og íbúa með annað móðurmál en íslensku. Lögreglumennirnir Unnar Þór, Hreinn Júlíus og Birgir Örn höfðu frumkvæði að verkefninu, en því var mjög vel tekið og var tilnefningin tilkomin vegna starfa þeirra í Breiðholti að þessu máli. Þá hlaut lögreglumaðurinn Guðmundur Fylkisson viðurkenningu Barnaheilla – Save the Children á Ísland árið 2020 fyrir störf í þágu barna og unglinga sem voru í vanda og þá nálgun sem hann hafði í samskiptum sínum við þau. Við athöfnina var Guðmundur sagður leggja sig fram um að nálgast ungmennin af virðingu og nærgætni til að auka ekki á vanlíðan þeirra og skaða. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var að sjálfsögðu stolt af þessum lögreglumönnum, sem og öðrum starfsmönnum embættisins, sem lögðu sig fram um að skila góðu starfi alla daga ársins.

Ársskýrsla 2020

Rekstur

Heimsfaraldur setti mark sitt á alla starfsemi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu árið 2020. Honum fylgdu ný verkefni og áskoranir, en baráttan við kórónuveiruna kostaði sitt því grípa þurfti til margvíslegra aðgerða til að tryggja öryggi bæði starfsmanna og þeirra sem þurftu á aðstoð eða hjálp lögreglunnar að halda. Þetta er rakið sérstaklega annars staðar í ársskýrslunni, en sóttvarnir voru í hávegum hafðar, m.a. með hólfaskiptingu hjá embættinu og kaupum á vörum til að verjast smiti. Kostnaður vegna þessa nam um 130 m.kr., en hann fékkst að mestu bættur í fjáraukalögum.

Rekstur Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var þó erfiður fyrir, en niðurstaðan var um 300 m.kr. hallarekstur árið 2020. Þar var helst um að kenna afturvirkum hækkunum kjarasamninga og hækkunum orlofsskuldbindinga umfram áætlanir. Þær voru ekki að fullu bættar í fjárlögum og var það ekki til að auðvelda reksturinn. Ársvelta embættisins var um 6,1 milljarður króna og eigið fé í árslok, uppsafnaður afgangur/halli, var neikvætt um 400 m.kr, eða tæplega 7% fjárheimilda ársins. Á fjárlögum ársins 2020 var gert ráð fyrir 94,7 m.kr. hagræðingarkröfu til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en á móti komu auknar fjárheimildir, 16 m.kr., vegna aðgerða gegn peningaþvætti. Alls lækkuðu því fjárveitingar til embættisins um 78,7 m.kr.

Undanfarin ár hefur embættið skilað frá sér ársreikningi sem uppfyllir alþjóðlega reikningsskilastaðla opinberra aðila í samræmi við ný lög um opinber fjármál. Af því leiðir að rekstrarniðurstaðan er önnur miðað við eldri uppgjörsaðferð, sérstaklega er varðar orlofsskuldbindingar, og er rétt að hafa það hugfast. Ársreikninga Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er að finna á slóðinni https://arsreikningar.rikisreikningur.is

Umfjöllun um rekstur byggir á bráðabirgðatölum úr ársreikningi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir árið 2020.

 

 

Útgefandi:
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu
Umsjón og ábyrgð:
Upplýsinga- og áætlanadeild, Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson
Myndir:
 Júlíus Sigurjónsson
www.lrh.is
www.facebook.com/logreglan

 

Útsend

Greidd

 

Í lok janúar 2021 eftir skipulagseiningum

 

422
Heildarfjöldi starfsmanna við lok janúar 2021
387,6
Fjöldi ársverka 2019
32%
Hlutfall kvenna af lögreglumönnum
63%
Hlutfall kvenna af borgaralegum starfsmönnum
6,21%
Hlutfall tapaðara vinnustunda vegna veikinda
7,0%
Starfsmannavelta * lögregla
9,0%
Starfsmannavelta * borgarar
7
Fjöldi lögreglumanna í launalausu leyfi í árslok
* taldir með þeir sem hætta vegna aldur

 

Handtökur

Eftir mánuðum

Eftir vikudögum

Samtals 2017
5191
Fjöldi einstaklinga: 3136
Samtals 2018
5864
Fjöldi einstaklinga: 3467
Samtals 2019
5761
Fjöldi einstaklinga: 3355
Samtals 2020
4237
Fjöldi einstaklinga: 2472

Vistanir

Eftir mánuðum

Eftir vikudögum

Samtals 2017
2621
Fjöldi einstaklinga: 1686
Samtals 2018
2913
Fjöldi einstaklinga: 1826
Samtals 2019
2578
Fjöldi einstaklinga: 1655
Samtals 2020
2066
Fjöldi einstaklinga: 1308

 

Skipurit
x
20. október

Versta veðrið á höfuðborgarsvæðinu frá kl. 17 -21/22

x