EITT OG ANNAÐ

Ársskýrsla 2023

Ekkert lát var á leitarbeiðnum að unglingum sem bárust Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu árið 2023. Samtals voru leitarbeiðnirnar um 220 og því óhætt að segja að margir unglingar í umdæminu voru í vanda. Enda fjölgaði beiðnum um nánast helming á milli ára, en þær voru um 150 árið á undan. Sveiflur í málaflokknum eru þó þekktar og áður hafa sést hærri/verri tölur. Leitað var að um 70 unglingum þetta árið og sumum oftar en einu sinni. Að stærstum hluta þeirra, eða um 50, hafði lögreglan ekki leitað að áður. Skýringin lá í því að í hópnum verður árlega ákveðin endurnýjun. Nýir bættust í hópinn, einhverjir komust aftur á beinu brautina og ekki er lengur leitað þegar viðkomandi verður 18 ára. Leitarbeiðnir dreifðust mjög yfir árið, voru fæstar í ársbyrjun og höfðu síðan tvöfaldast um mitt sumar. Flestar voru þær þó á síðasta ársfjórðungi, eða hátt í 90. Þar var október sérstaklega slæmur, en þá bárust embættinu 37 leitarbeiðnir. Yfir árið bárust svo gott sem jafn margar beiðnir um leit að piltum sem stúlkum. Misjafnlega lengi tók að finna unglingana, en í örfáum tilvikum var auglýst eftir þeim í fjölmiðlum. Þetta var tíunda árið í röð sem einn lögreglumaður á höfuðborgarsvæðinu hafði það að aðalstarfi að leita að unglingum í vanda.

Árleg könnun á viðhorfum íbúa í umdæminu til starfa og þjónustu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fór fram í júní. Framkvæmdin var í höndum Gallup, en um var að ræða netkönnun. Boð um þátttöku fengu 2.579 íbúar, 18 ára og eldri, og svöruðu 1.394. Svarhlutfallið var því 54,1%, sem má teljast viðunandi. Könnunin skiptist í nokkra liði, þ.e. spurt var um viðhorf almennt, ánægju með þjónustu lögreglu, öryggistilfinningu íbúa og áhyggjur af afbrotum. Einnig voru spurningar sem snéru að ákveðnum brotum og jafnframt hvort íbúar hefðu sent tilkynningar um tiltekin brot til lögreglu. Mikilvægi slíkra kannana verður seint ofmetið, en bæði veita niðurstöður þeirra upplýsingar um það sem vel er gert og sömuleiðis um það sem þarf að bæta. Niðurstöður könnunarinnar þetta árið sýndu að viðhorf fólks til lögreglu er almennt gott. Um 75% sögðust bera traust til hennar og 78% töldu hana skila góðu starfi í sínu hverfi. Greina mátti mismunandi svör eftir hópum. Þannig bar yngsti aldurshópurinn, 18-25 ára, mun minna traust til lögreglu í samanburði við hina eldri, en einvörðungu 55% þeirra svöruðu á þá vegu. Næstum fjórðungur allra svarenda, eða 23%, hafði orði fyrir einhvers konar afbroti og voru eignaskemmdir helst nefndar til sögunnar.  Niðurstöður könnunarinnar verða ekki raktar hér frekar, en þær má allar finna á lögregluvefnum undir Útgáfa -Fræðilegar rannsóknir.

Um mitt ár var lokað fyrir móttöku einkaskilaboða á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Eftir sem áður var hægt að senda embættinu ábendingar og/eða fyrirspurnir um hvaðeina með einföldum hætti. Og áfram var lögð mikil áhersla á að svara öllum erindum eins fljótt og unnt var. Minnt var á netfangið abending@lrh.is en tölvupóstum sem þangað bárust var svarað á skrifstofutíma alla virka daga. Til hægðarauka var jafnframt settur upp sérstakur hnappur á fésbókarsíðu embættisins – HAFÐU SAMBAND VIÐ OKKAR en ábendingar og fyrirspurnir fluttust beint þaðan til starfsmanna sem voru til svara á abending@lrh.is Við þetta tilefni var einnig minnt á upplýsingasíma lögreglu – 800 5005. Í  hann mátti hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um skipulagða brotastarfsemi, eða önnur brot sem fólk hafði vitneskju um.