Umferðareftirlit er ávallt ofarlega á baugi hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og á því varð engin breyting árið 2023. Í því fólst m.a. að fylgjast með og taka á hraðakstri í umdæminu og að ökumenn væru allsgáðir í umferðinni. Á þetta skortir og árlega eru þúsundir ökumanna staðnir að umferðarlagabrotum. Og ekki var að merkja breytingu til betri vegar. Um 2.200 ökumenn voru teknir fyrir ölvunar- og/eða fíkniefnaakstur árið 2023, sem er ámóta fjöldi og árið á undan. Margir þeirra höfðu áður verið stöðvaðir af lögreglu fyrir sömu sakir, en héldu samt sínu striki. Um hætturnar af slíkum akstri þarf ekki að hafa mörg orð enda var ölvunar- og/eða fíkniefnaakstri oft um að kenna þegar slys urðu. Nálægt 800 sinnum voru höfð afskipti af ökumönnum sem höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi. Þá reyndust 300 ökumenn aldrei hafa öðlast ökuréttindi þegar að var gáð. Skeytingarleysi margra er því algjört. Og hér skal hafa í huga að fjöldi fyrrnefndra ökumanna ræðst ekki síst af því bolmagni sem lögreglan hefur til að sinna umferðareftirliti á hverjum tíma. Því verður að gera ráð fyrir að vandinn sé meiri en hér var lýst.
Símanotkun ökumanna var líka um að kenna þegar illa fór í sumum tilvikum. Sektin við að tala í síma án handfrjáls búnaðar var hækkuð margfalt fyrir fáeinum árum, en margir ökumenn létu það ekki stöðva sig. Nálægt 650 þeirra fengu sekt fyrir vikið. Ámóta margir voru staðnir að því að aka gegn rauðu ljósi á höfuðborgarsvæðinu, en það er ekki síður varasamt og skapar mikla slysahættu. Um 1.500 sinnum voru skráningarnúmer fjarlægð af ökutækjum, en þau voru ótryggð og/eða óskoðuð.
Til margra ára hefur embættið haldið úti sérstökum myndavélabíl. Hann er notaður víða við eftirlit og hraðamælingar, ekki síst þar sem gangandi vegfarendur eru á ferð. Iðulega við eða í nágrenni skóla og við þekktar gönguleiðir barna. Þetta hefur gefist vel, en sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu eru upplýst um þessar hraðamælingar og geta brugðist við, kjósi þau svo. Á löngum tíma hafa safnast gagnlegar upplýsingar um umferðarhraða í tilteknum götum þar sem glöggt má sjá hvernig þróunin er. Niðurstöður hraðamælinga eru breytilegar frá einum stað til annars. Víða gengur umferðin vel og flestir ökumenn virða hámarkshraða. Stundum birtast líka hraðamælingar þar sem allir óku á löglegum hraða. Gott væri samt að það gerðist oftar.Verst er þegar meirihluti ökumanna ekur yfir leyfilegum hámarkshraða, en um það voru of mörg dæmi. Hinir sömu eru á öllum aldri og á mismunandi ökutækjum. Hjól af ýmsu tagi hafa líka farið að koma meira við sögu í umferðinni, m.a. rafmagnshlaupahjól. Þau virðast geta náð miklum hraða, en í maí mældi lögreglan slíkt hjól á 59 km hraða á Þúsöld í Reykjavík. Þar var leyfður hámarkshraði 50 og aksturinn því áhyggjuefni af mörgum ástæðum. Mynd náðist af ökumanninum, sem var piltur á grunnskólaaldri. Hann var ekki með öryggishjálm, né farþeginn sem var með honum á rafmagnshlaupahjólinu. Alls voru hraðakstursbrotin í umdæminu um 17 þúsund.
Fjölmörg umferðarslys urðu á höfuðborgarsvæðinu árið 2023, en um þau má lesa í sérstakri samantekt, sem birt var vikulega á lögregluvefnum. Tvö þeirra voru banaslys. Karlmaður á fertugsaldri lést í árekstri sendibifreiðar og vinnuvélar/lyftara í miðborg Reykjavíkur í september. Og átta ára drengur lést í umferðarslysi á Ásvöllum í Hafnarfirði í lok október. Drengurinn var á reiðhjóli þegar hann varð fyrir steypubíl.