Ógn sem stafar af skipulagðri brotastarfsemi verður að taka alvarlega. Á það hefur lögreglan ítrekað bent, en með misjöfnum árangri. Skilningur á að efla þurfi lögregluna til að takast á við málaflokkinn hefur þó aukist. Til marks um það voru boðaðar aðgerðir stjórnvalda á fyrri hluta ársins, en í þeim fólst að efla mjög aðgerðir gegn skipulagðri brotastarfsemi. Það átti að gera með því að styrkja rannsóknar- og greiningargetu lögreglu með fjölgun starfsfólks á þessu sviði. Með því móti var betur hægt að takast á við nýjar áskoranir þegar skipulögð brotastarfsemi var annars vegar. Komið var á fót sameiginlegu rannsóknarteymi embætta, en því var ætlað að greina og forgangsraða verkefnum. Þessu öllu bar að fagna enda verður að halda áfram að taka á skipulagðri brotastarfsemi af fullum krafti. Hún teygir anga sína víða , ekki síst er kemur að innflutningi og sölu fíkniefna. Til að stemma stigu við þeim ófögnuði hefur lögreglan m.a. aukið samstarf við erlend lögreglulið með góðum árangri. Og áfram var haldið á þeirri braut.
Þetta árið voru skráð á annað hundrað fíkniefnabrot í umdæminu, stór sem smá. Fjöldi brota sveiflaðist mjög frá einum mánuði til annars, sem er ekki óvenjulegt í málaflokknum. Lagt var hald á töluvert af fíkniefnum, en magn þeirra var mjög breytilegt á milli mánaða. Það var líka alvanalegt, rétt eins og sveiflur í haldlagningu fíkniefna eru gjarnan á milli ára. Marijúana var nokkuð fyrirferðamikið þegar rýnt var í fíkniefnamál sem komu á borð Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu árið 2023. Nálægt 85 kíló af efninu voru haldlögð, þar af næstum helmingur þess í febrúar. Á annan tug kílóa af marijúana voru haldlögð í júlí og annað eins í nóvember, en minna hina mánuði ársins. Kókaín og amfetamín komu líka reglulega við sögu, en stærsti hluti þess síðarnefnda, um 7 kíló, var haldlagður í febrúar. Um var að ræða sama mál og þar sem lagt var hald á mikið af marijúana eins og fyrr var getið. Málið var mjög umfangsmikið, en um tíma sátu fjórir í gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknarinnar, sem hafði staðið yfir í allnokkurn tíma. Fíkniefnin fundust við húsleitir í umdæminu, en auk þess lagði lögreglan enn fremur hald á bæði verulega fjármuni, eða 20 m.kr. bankainnistæður, og svokölluð frammistöðubætandi efni. Hinir handteknu voru grunaðir um að hafa staðið að framleiðslu fíkniefnanna, sem og sölu og dreifingu þeirra.
Alls var lagt hald á tæplega 11 kíló af amfetamíni og rúmlega 14 kíló af kókaíni árið 2023, en stundum komu fleiri embætti að málunum, m.a. Tollurinn. Ýmsum aðferðum var beitt við innflutning fíkniefna, m.a. póst- og hraðsendingum sem og notkun burðardýrs. Það átti t.d. við um mitt sumar þegar Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakaði nokkur mál, sem öll tengdust innflutningi á kókaíni. Níu voru þá handteknir í aðgerðum lögreglu og sátu flestir þeirra í gæsluvarðhaldi um tíma. Fyrri hluta sumars var annað stórt fíkniefnamál til rannsóknar, en þá fundust 160 kíló af hassi um borð í skútu undan suðurströnd Íslands. Grunur var um að hassið hafi átt að flytja til Grænlands, en tveir voru handteknir um borð í skútunni og sá þriðji í landi og voru allir úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna málsins. Á vormánuðum rannsakaði embættið mál sem snéri að kannabisefni í form sælgætis, þ.e. í hlaupböngsum og súkkulaði. Við haldlagningu efnanna tók lögreglan einnig í sína vörslu mikið af vape hylkjum, pennum og vökva sem innihélt THC. Vegna þessa hvatti lögreglan foreldra og forráðamenn til að vera á varðbergi og ræða við börn sín um þær hættur sem fylgdu þegar fíkniefni væru annars vegar.