KYNFERÐISBROT

Ársskýrsla 2023

Rannsóknum kynferðisbrota miðaði ágætlega á árinu 2023, en markvisst hefur verið unnið að því að stytta málsmeðferðartíma í málaflokknum. Þess sáust merki snemma á árinu, en þá þegar hafði komið til aukið fjármagn svo hægt var að fjölga stöðugildum hjá embættinu við rannsókn og saksókn kynferðisbrota. Með því tókst að vinna töluvert niður uppsafnaðan málafjölda. Samhliða var ráðist í ýmsar aðgerðir til að flýta meðferð kynferðisbrota hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Verkferlar voru teknir til endurskoðunar með það að markmiði að auka málshraða við rannsóknir brotanna. Þá var samvinna kynferðisbrotadeildar og tölvurannsóknardeildar aukin og bætt til að stytta rannsóknartíma rafrænna gagna sem tengjast kynferðisbrotum. Stoðþjónusta frá þjónustudeild embættisins var sömuleiðis aukin og útbúið var sérstakt stjórnborð. Þar var fylgst með fjölda mála og framvindu þeirra hverju sinni, bæði hjá kynferðisbrotadeild og ákærusviði. Allt var þetta til mikilla bóta og hjálpaði til við að flýta meðferð og afgreiðslu mála.

Á árinu var einnig kynnt ný aðgerðaáætlun stjórnvalda til að efla löggæslu, en í henni var vikið sérstaklega að kynferðisbrotum. Þar komu margir að málum, m.a. lögregluembættin, en áætlunin var til þriggja ára og ætlað að bæta málshraða kynferðisbrota. Miklar vonir voru bundnar við framtakið enda afar mikilvægt að geta flýtt afgreiðslu svo alvarlegra mála sem kynferðisbrot eru. Of mörg mál höfðu verið of lengi í kerfinu með tilheyrandi álagi á brotaþola og því er til mikils að vinna að bæta þar úr.

Þrátt mjög mikla og þarfa umræðu um kynferðisbrot í þjóðfélaginu er enn mikið verk óunnið. Þessum brotum þarf að fækka með öllum tiltækum ráðum og best væri að þau heyrðu sögunni til. Það er samt langt í land, en rúmlega 100 nauðganir voru tilkynntar til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu árið 2023. Þær voru í kringum 150 árið 2022 og því var þetta ár skárra hvað það varðar. Árið 2021 var hins vegar tilkynnt um ámóta margar nauðganir og 2023, en sveiflur í málaflokknum eru ekki óþekktar þótt erfitt geti reynst að útskýra af hverju þær stafa. Tilkynningar um kynferðisbrot bárust annars embættinu jafnt og þétt yfir árið, vissulega fleiri suma mánuði en aðra. Október skar sig úr, en þá voru tilkynningarnar rúmlega 40. Þær voru litlu færri í júní, en langfæstar í janúar. Þá bárust um 10 tilkynningar um kynferðisbrot. Þegar litið var til einstakra daga vikunnar mátti sjá að fæstar tilkynningar um kynferðisbrot í umdæminu bárust um helgar, þ.e. laugardaga og sunnudaga. Þær bárust oftast á mánudögum og þriðjudögum og þurfti það ekki endilega að koma á óvart. Talsvert var líka um tilkynningar á miðvikudögum og fimmtudögum, en síðan töluvert færri á föstudögum. Alls  bárust Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu nálægt 330 tilkynningar um kynferðisbrot á árinu 2023. Það voru ívið færri tilkynningar en síðustu þrjú ár á undan, en árið 2021 fóru þær  yfir 400 og rúmlega það.