FJÁRSVIK/NETGLÆPIR

Ársskýrsla 2023

Flesta daga voru óprúttnir aðilar að reyna að svíkja og pretta fé af fólki. Það var reynt með ýmsum hætti, en oftar en ekki var um netsvindl að ræða. Líkja mátti þessu við plágu, enginn stundarfriður var fyrir þrjótunum. Um vaxandi vandamál er að ræða og hefur embættið ítrekað varað við netsvindli og netglæpum undanfarin ár. Því var framhaldið, en á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var þetta svo gott sem orðið að föstum lið. Þótt flestir sjái í gegnum tilraunir svikahrappanna tekst þeim iðulega að blekkja einhverja. Þar með er skaðinn skeður, en oft er um verulegar fjárhæðir að ræða. Árið 2023 bárust hátt í 400 tilkynningar um fjársvik. Drjúgur hluti þeirra voru fjársvik á netinu, en ekki er alltaf auðvelt að endurheimta peningana þegar svo ber undir. Og í sumum tilvikum getur það reynst óvinnandi vegur, því miður. Rannsóknir málanna eru jafnan tímafrekar, rétt eins og á við um fjárdráttarmál. Þetta árið voru nærri 30 slík mál til rannsóknar hjá embættinu.

Síðustu misseri hefur mátt sjá endurteknar tilraunir svikahrappa til að komast yfir bankaupplýsingar. Seint á árinu var t.d. varað við svikasímtölum þar sem reynt var að plata fólk til að heimila innskráningu í  heimabanka með rafrænum skilríkjum. Svikasímtölin komu úr númerum sem líktust símanúmerum íslenskra banka og greiðslufyrirtækja. Hringjandinn talaði ensku og var mjög sannfærandi í að plata fólk til að innskrá sig í heimabanka með rafrænum skilríkjum. Við það var síðan nær samstundis reynt að skuldfæra kort viðkomandi. Undir sumarlok var líka varað við SMS svikaskilaboðum, en með þeim fylgdi hlekkur og var fólk hvatt til að ýta á hann. Eftir atvikum var það jafnframt beðið um að slá inn farsímanúmer og velja viðskiptabanka. Þá kom melding í farsíma þar sem beðið var um staðfestingu í gegnum rafræn auðkenni. Með þessu móti fengu þrjótarnir aðgang að netbanka fólks í þeim tilgangi að tæma reikningana þess. Lögreglan hvatti fólk til þess að vera á varðbergi gagnvart svikunum, sem oftar en ekki áttu sér stað um helgi eða utan opnunartíma bankanna. Á það var líka minnt að undir engum kringumstæðum senda bankar á Íslandi hlekki til að skrá sig inn á netbanka.

Á vormánuðum varaði embættið við fjársvikum sem fólust í því að fyrirtæki óskuðu eftir að stofna til reikningsviðskipta með úttektarheimild, símleiðis eða með tölvupósti. Vörur voru síðan pantaðar og sóttar, en reikningar ekki greiddir. Við þessi fjársvik nýttu óprúttnir aðilar sér annað hvort fyrirtæki með gott lánshæfismat, sem þeir höfðu nýverið tekið yfir, eða fyrirtæki sem þeir sögðust eiga eða starfa fyrir, en hvorugt átti við. Rektraraðilar voru minntir á að sýna árvekni og kanna sérstaklega fyrirtæki sem vildu komast í reikningsviðskipti. Í því fólst m.a. að athuga hvort umrætt fyrirtæki hefði nýverið skipt um eigendur, framkvæmdastjóra, prókúruhafa eða stjórnarmenn.

Af nógu var að taka, en um hríð sendu svindlarar út skilaboð í nafni lögreglunnar. Um var að ræða tölvupóst og ríkislögreglustjóri titlaður sendandi. Varað var sérstaklega við þessum póstum og viðtakendur beðnir um að ýta ekki á hlekki eða viðhengi sem þeim fylgdu. Enn fremur að tilkynna þá sem ruslpóst. Að síðustu skal á það minnt að skoða öll skilaboð og allan póst með gagnrýnum augum. Ekki smella á hlekki eða viðhengi, sem eru grunsamleg, og alls ekki gefa upp kortaupplýsingar eða viðkvæmar persónuupplýsingar.