INNBROT OG ÞJÓFNAÐIR

Ársskýrsla 2023

Þúsundir þjófnaðarbrota voru tilkynnt til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu árið 2023, eða um 4.000. Það er ámóta fjöldi þjófnaðarbrota og komið hefur á borð embættisins undanfarin ár, en málaflokkurinn er sannarlega umfangsmikill. Um var að ræða alls kyns þjófnaði, sem áttu sér stað í umdæminu árið um kring og í öllum sveitarfélögum þess. Þjófarnir voru af öllum stærðum og gerðum, ef svo má að orði komast, og oft bæði óprúttnir og ófyrirleitnir. Fylltu jafnvel innkaupakerrur af varningi og freistuðu þess að komast undan án þess að greiða fyrir vörurnar. Starfsmenn verslana fylgdust þó vel með, en gátu lent í handalögmálum við þjófana þegar átti að stöðva þá. Um þetta voru mörg dæmi, sem sýna líka hversu langt þjófarnir gátu gengið. Þar sem fáir voru að störfum, jafnvel einn starfsmaður, fóru þjófarnir nokkrir saman og sá einn þeirra um að draga athyglina frá viðkomandi starfsmanni á meðan hinir athöfnuðu sig og fóru um með ránshendi. Aðferðin var vel þekkt, en sífellt fleiri verslanir og fyrirtæki hafa brugðist við með því að koma upp öryggismyndavélum til að sporna við ástandinu. Myndum og myndskeiðum úr þeim er síðan komið til lögreglu þegar slík mál koma upp. Það hefur reynst henni mjög gagnlegt og hjálpað til við að bera kennsl á þjófa og ná í skottið á þeim.

Í gegnum árin hefur Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu reglulega sent út varnaðarorð til almennings þegar ljóst þykir að brotahópur séu á ferðinni, ekki síst ef greina mátti fjölgun innbrota í heimahús. Þannig var því t.d. farið í júlí og því mátti um mitt sumar lesa þess konar tilkynningu í miðlum lögreglu, en þá voru á ferðinni í umdæminu þjófar sem stunduðu það að fara inn í bæði ólæst hús og bíla. Fólk var góðfúslega beðið um að læsa öllum híbýlum sínum og skilja ekki verðmæti eftir á glámbekk eða í augsýn. Minnt var á að innbrot og þjófnaðir áttu sér stað jafnt á degi sem nóttu og því ætti aðgæsla við öllum stundum.

Þjófnaðarbrot voru enda tilkynnt til lögreglu árið um kring, oftsinnis mörg á dag. Innbrot voru stór hluti þeirra, eða nærri 850. Fjölmörg þeirra voru innbrot á heimili, eða rúmlega 300, og innbrot í fyrirtæki og verslanir voru jafnframt ívið fleiri. Til viðbótar voru innbrot í ökutæki í kringum 150. Embættið hélt líka tölfræði yfir bæði stolna síma og reiðhjól. Eins og áður fjölgaði tilkynningum um stolin reiðhjól þegar fór að vora og voru mjög tíðar allt fram á haust. Júní og júlí voru áberandi slæmir, en báða þessa mánuði bárust um 70 tilkynningar um stolin reiðhjól. Símaþjófnaðir voru mun færri, en þar var desember verstur. Þá var tilkynnt um stolna síma næstum 30 sinnum. Reglulega var lagt hald á þýfi, en misjafnlega gekk að koma hinum stolnum munum aftur í réttar hendur. Ef það tókst ekki var þeim komið til óskilamunadeildar embættisins, en þar er jafnan talsvert af óskilamunum.

Því miður rata ekki allir stolnir munir til lögreglu og óvíst er hvað verður um þá alla. Hluti þeirra fer erlendis, en oft hefur tekist að stöðva slíkar sendingar áður en þær fara úr landi. Það staðfestir enn fremur að það er ein leiðin sem þjófar nota til að koma undan þýfi. Innanlands ganga hlutir líka kaupum og sölum, einnig illa fengnir hlutir. Þýfi dúkkar oft upp á sölusíðum veraldarvefjarins og á verði sem er of gott til að vera satt. Það ætti að hringja bjöllum hjá fólki en gerir það bara alls ekki hjá öllum. Erfitt er að trúa því að fólk kaupi þýfi meðvitað, en eigi það við í einhverjum tilvikum er verið að viðhalda ástandi sem langflestir eru sammála um að sé óviðunandi.