Ekki skorti verkefnin hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu árið 2023, en heildarfjöldi allra mála sem var skráður hjá embættinu var um 70 þúsund. Þau voru af ýmsu tagi en töldust þó flest hefðbundin. Verkefni lögreglu og áherslur hennar hafa samt tekið breytingum í áranna rás, rétt eins og þjóðfélagið sjálft. Ekki eru allar breytingar til góðs og ástæða er til að hafa áhyggjur. Aukinn vopnaburður er augljóst dæmi þar um, ekki síst hnífaburður ungra karlmanna. Skotvopn má líka nefna til sögunnar, en nokkrar skotárásir voru til rannsóknar á árinu. Það eru því miður ekki nýmæli, en dapurlegt er að slíkar rannsóknir teljist orðnar hefðbundnar þegar verkefni lögreglu eru annars vegar. Skotárásir vekja óhug, eðlilega, en mildi þykir að enginn lést í skotárásum sem voru gerðar í Úlfarsárdal í Reykjavík og á Hvaleyrarholti í Hafnarfirði seint á árinu. Sama má segja þegar byssa var dregin upp og hleypt var af henni á öldurhúsi í miðborginni snemma á árinu.
Ofbeldisbrot voru annars daglegt brauð á höfuðborgarsvæðinu árið 2023, en um 1.400 líkamsárásir voru tilkynntar til embættisins. Hátt í 250 þeirra töldust alvarlegar, en málin dreifðust yfir allt árið. Skástu mánuðina bárust um 100 tilkynningar um líkamsárárásir, en fóru yfir 130 þá mánuði sem verst lét. Í alvarlegustu málunum hlaust bani af, en fjögur manndrápsmál voru til rannsóknar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Í einu þeirra voru fjögur ungmenni handtekin í þágu rannsóknarinnar, en aldur sakborninganna vakti ekki síður athygli. Sá elsti í hópnum var á nítjánda ári og hin voru yngri en 18 ára, en þeim var öllum gerð refsing síðar vegna aðildar að málinu. Og meira um ofbeldisbrot, en undanfarin ár hafa um 800 tilkynningar borist lögreglu árlega vegna heimilisofbeldis í umdæminu. Á því varð lítil breyting árið 2023, en tilkynningar um heimilisofbeldi voru einmitt hátt í 800.
Fyrrnefnd ofbeldisbrot voru því fyrirferðarmikil hjá embættinu og vöktu jafnan mikla athygli fjölmiðla og almennings. Sama gilti um fíkniefnamál, en mörg slík voru til rannsóknar á árinu 2023. Í sumum þeirra var lagt hald á verulegt magn af fíkniefnum, t.d. 7 kg af amfetamíni snemma árs og annað eins af kókaíni um mitt sumar. Og í enn einu málinu var lagt hald á 160 kg af hassi, en það fannst um borð í skútu utan við Reykjanes. Innflutningur, dreifing og sala fíkniefna eru einn liður í skipulagðri brotastarfsemi, en hún teygir anga sína víða eins og áður hefur komið fram í ársskýrslum embættisins. Innbrot og þjófnaðir eru sömuleiðis oft skipulagðir af óprúttnum aðilum sem fara um umdæmið þessara erinda. Þjófnaðarbrot á höfuðborgarsvæðinu voru um 4.000 árið 2023, en af þeim voru innbrot nálægt 850. Mikið var um þjófnaði úr verslunum, en nær daglega var lögreglan kölluð til af þeirri ástæðu. Kynferðisbrot var annar málaflokkur, sem var sömuleiðis áberandi þegar verkefni lögreglu voru skoðuð og dregin fram. Fá brot ganga jafn nærri fólki og kynferðisbrot, líkt og gefur að skilja, en rúmlega 100 nauðganir voru kærðar til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Sem fyrr voru umferðarlagabrot í umdæminu árið 2023 talin í tugþúsundum, en þar var hraðakstri ökumanna aðallega um að kenna. Umferðin var ekki áfallalaus, en tveir létust í umferðarslysum. Annað varð í miðborginni, en hitt á Völlunum í Hafnarfirði.
Að endingu verður að geta stærsta löggæsluverkefnis í sögu íslensku lögreglunnar. Leiðtogafundur Evrópuráðsins var haldinn í Hörpu í maí og var viðbúnaðurinn gríðarlegur. Þar gegndi Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mjög mikilvægu hlutverki.