Að baki er viðburðaríkt ár þar sem tekist var á við mörg krefjandi verkefni. Jafnframt voru tekin skref til að bæta þjónustuna sem embættið veitir. Af ýmsu var að taka, en m.a. var kallað eftir styttri málsmeðferðartíma kynferðisbrota. Það átti sér reyndar lengri aðdraganda og til þess hafði áður fengist aukið fjármagn í málaflokkinn, en vel miðaði í þeim efnum á árinu 2023. Betri árangur var enn fremur sjáanlegur á fleiri stöðum innan embættisins, ekki síst á ákærusviðinu. Málastaðan þar undir árslok var betri en hún hafði verið mörg ár á undan. Unnið var markvisst að umbótum og það skilaði fyrrnefndum árangri. Vinna sem þessi var ekki ný af nálinni, en sífellt er verið að leita leiða til að gera betur. Fleiri deildir og svið hjá embættinu nutu góðs af því. Tekið var upp nýtt skipulag á rannsóknarsviði, en í því fólst m.a. að byggja upp sérþekkingu á fjármunabrotarannsóknum, peningaþvætti og fjármálagreiningum. Nýrri landamæradeild var komið á fót hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í ársbyrjun og hennar biðu fjölmörg verkefni. Komur skemmtiferðaskipa vógu þar þungt, enda þúsundir farþega um borð sem allir vildu heimsækja landið okkar. Og síðla sumars var samþykkt nýtt skipurit embættisins, en í því urðu m.a. breytingar sem snéru að fyrirkomulagi rannsókna á fjármunabrotum og peningaþvætti.
Ýmsu var því áorkað, en í stuttum inngangi er ekki hægt að gera því öllu skil. Eitt verkefni var þó umfangsmeira en öll önnur, eða leiðtogafundur Evrópuráðsins, sem var haldinn í Hörpu í maí. Aðdragandi fundarins á Íslandi var ekki ýkja langur og þurfti lögreglan að hafa hraðar hendur við undirbúninginn. Evrópuráðið er alþjóðasamtök 46 ríkja og komu því tugir þjóðarleiðtoga til fundarins. Viðbúnaðurinn og öryggisgæslan var í samræmi við það, eða gríðarlegur. Utanríkisráðuneytið hafði umsjón með verkefninu í heild sinni og embætti ríkislögreglustjóra fyrir hönd lögreglunnar. Nær allir starfsmenn Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu komu að leiðtogafundinum með einum eða öðrum hætti og gegndu þar veigamiklum hlutverkum líkt og aðrir. Vegna fundarins þurfti að grípa til götulokana við Hörpu, auk þess sem boðaðar voru tímabundnar umferðartafir á höfuðborgarsvæðinu og um Reykjanesbraut, til og frá Keflavíkurflugvelli. Allt gekk þó vel og vandræðalaust fyrir sig, þökk sé góðu skipulagi og undirbúningi allra sem að leiðtogafundinum komu. Um var að ræða stærsta löggæsluverkefni í sögu íslensku lögreglunnar og því einkar ánægjulegt hversu vel til tókst.
Þrátt fyrir góðan árangur á ýmsum sviðum er margt óunnið. Ég hef áður viðrað áhyggjur mínar af ofbeldi og vopnaburði í umdæminu og geri enn. Enda var fjöldi alvarlega ofbeldisbrota áfram til rannsóknar hjá embættinu. Það var til marks um að þjóðfélagið er ekki alveg á réttri leið, hverju sem um er að kenna. Harka og óþol gagnvart náunganum er of algengt og lögreglumenn finna fyrir því eins og aðrir. Hótanir eru tíðar og á árinu var tvisvar farið að heimilum lögreglumanna á höfuðborgarsvæðinu og bílar þeirra stórskemmdir, ef ekki eyðilagðir. Slíkur verknaður er ömurlegur og ólíðandi og lögreglumenn eiga alls ekki að þurfa að upplifa hann. Því miður er þetta veruleiki sem lögreglan stendur frammi fyrir, óprúttnir aðilar svífast greinilega einskis. Og þá hefur einmitt aldrei verið mikilvægara að eiga öfluga lögreglu til að stóla á.
Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri.