Starfsemi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er margþætt og því getur rekstur embættisins verið snúinn. Áætlanir ganga ekki alltaf eftir enda bætast oft við ný og ófyrirséð verkefni. Þeim fylgir gjarnan aukinn kostnaður og þá er úr vöndu að ráða. Á þetta reyndi líka árið 2023 og þá var gott að búa að styrkri fjármálastjórn. Áskoranir voru af ýmsu tagi, en nefna má mótmæli þegar ófyrirséð verkefni voru annars vegar. Þau voru vissulega ekki ný af nálinni, en gátu stundum staðið lengi yfir og oft. Rétturinn til að mótmæla er mjög mikilvægur, en þá er hlutverk lögreglunnar að tryggja að þau fari friðsamlega fram. Það útheimtir mannafla með tilheyrandi kostnaði.
Margt annað í rekstri embættisins var sömuleiðis breytingum háð og t.d. var brugðist við snemma árs þegar kom að rannsóknum bæði kynferðisbrota og skipulagðrar brotastarfsemi. Þar var aðkallandi að bæta við starfsfólki og það var gert. Sama gilti um almenna löggæslu og því var viðbragð lögreglu aukið síðla árs. Öllum þessum aðgerðum fylgdi umtalsverður kostnaður, en þar komu enn fremur stjórnvöld til skjalanna og lögðu sitt af mörkum með viðbótarfjármagni. Í öllum tilvikum var verið að mæta erfiðri stöðu sem við blasti, en frekari mönnun í útkallsliðinu var til komin vegna alvarlega ofbeldismála í umdæminu. Rétt er líka að geta sérstaklega leiðtogafundar Evrópuráðsins, en þá voru mjög margir lögreglumenn kallaðir til starfa. Loks er að nefna fjölgun starfsmanna í landamæradeild, en hún var tilkomin vegna stóraukinnar komu skemmtiferðaskipa til hafna í umdæminu. Það fékkst tímabundið viðbótarfjármagn yfir sumarið, en að öðru leyti var ekki fjölgað í deildinni. Landamæradeildin var stofnuð 1 janúar 2023 með breytingu á skipuriti embættisins en áður hafði hún tilheyrt lögreglustöð 1. Hún skiptist í landamærahluta /rannsóknarhluta og móttöku umsækjanda um alþjóðlega vernd. Markmiðið var að efla landamæraeftirlit, þ.e. á Reykjavíkurflugvelli, í höfnum umdæmisins sem og innan svæðis.
Launakostnaður vegur þyngst þegar rekstur Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er annars vegar, en hann er um 85% af heildarkostnaði embættisins. Og þykir hlutfallið vera hátt í samanburði við önnur embætti og aðrar stofnanir. Drjúgur hluti útgjaldanna snéri að búnaði, en hann þarf að endurnýja reglulega. Einnig þarf að kaupa ný tæki sem innhalda nýja tækni svo lögreglan sé sem best búin til að takast á við verkefnin hverju sinni. Tekinn var í notkun þjarkur, stafrænt vinnuafl, til að auðvelda vinnu við meðhöndlun og skráningu á reikningum milli kerfa. Innleidd voru þýðingartól og talgervlar til að spara vinnu og flýta fyrir rannsókn mála. Starfrækt voru nokkur gagngreindarverkefni til að koma auga á tækifæri og draga úr mögulegri sóun í rekstri. Snjallvæðing var sömuleiðis komin til sögunnar og áfram var haldið að þróa nýjar samskiptaleiðir við borgarana. Græn skref voru líka tekin, en á árinu voru keyptir tíu rafmagnsbílar fyrir um 85 m.kr. Allt prýðisbílar sem komu í stað bílaleigubíla sem voru fyrir og því var ekki um að ræða fjölgun ökutækja.
Áfram var markviss fjármálastjórn og bætt nýting fjármuna höfð að leiðarljósi, en markmið embættisins um reksturinn, sem sett voru í ársbyrjun, gengu að langstærstum hluta öll eftir. Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2023 var ársveltan 7.911 m.kr. og afkoma neikvæð um 43,2 m.kr. Þá var hrein eign embættisins 163 m.kr. í árslok samkvæmt efnahagsreikningi og eignir samtals 1.885,6 m.kr. Ársreikninga Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er að finna á slóðinni https://arsreikningar.rikisreikningur.is/
Útgefandi:
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu
Umsjón og ábyrgð:
Upplýsinga-og áætlanadeild, Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson
Myndir:
Sandra Sif Ottadóttir/Leifur Gauti Sigurðsson/Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson/Júlíus Sigurjónsson