MANNDRÁP OG LÍKAMSÁRÁSIR

Ársskýrsla 2023

Fjögur manndrápsmál voru til rannsóknar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu árið 2023 og hafa aldrei verið fleiri á einu ári á starfstíma hennar. Á árunum 2007-2022 voru framin sautján morð í umdæminu, eða að jafnaði um eitt á ári. Eðlilega voru sveiflur innan þess tímabils, en tvisvar voru þrjú manndrápsmál til rannsóknar hjá embættinu, eða árin 2011 og 2017. Undanfarin fimm ár, 2018-2022, voru morðin hlutfallslega fá, eða samtals þrjú. Fjögur manndrápsmál á einu og sama árinu vekja því upp ýmsar spurningar, sem erfitt getur reynst að svara. Málin voru enda ólík og sama má segja um þau sem komu við sögu þeirra. Rannsóknir manndrápsmála eru alltaf umfangsmiklar, en þessi fjögur mál árið 2023 komu öll á borð lögreglu á fimm mánaða tímabili.

Seinni hlutann í apríl lést karlmaður á þrítugsaldri eftir að á hann var ráðist utan við öldurhús í Hafnarfirði, en við atlöguna var maðurinn m.a. stunginn með hnífi. Fjögur ungmenni voru handtekin vegna málsins, en þrjú þeirra voru yngri en 18 ára. Fjórði aðilinn var litlu eldri, eða á nítjánda ári, en sá hafði sig mest í frammi við árásina og sannað þótti að hann beitti hnífnum. Öllum var þeim gerð refsing vegna aðildar að málinu, en einn fjórmenninganna hlaut dóm fyrir að sýna athafnaleysi. Viðkomandi lét fyrir farast að koma manni til hjálpar í lífsháska, heldur stóð hjá og myndaði atlöguna. Á þjóðhátíðardaginn var aftur framið morð í Hafnarfirði, í sama hverfi og í áðurnefndu máli í apríl. Þar var karlmaður á fimmtugsaldri stunginn til bana, en hann fannst utandyra þegar komið var á vettvang. Karlmaður um fertugt var handtekinn vegna málsins, en mennirnir bjuggu í sama húsi. Árásarmaðurinn bar við sjálfsvörn, en sönnunargögnin bentu til annars og hlaut hann dóm fyrir. Viku síðar var lögreglan kölluð að skemmtistað í miðborginni eftir að tilkynning barst um alvarlega líkamsárás. Þar hafði karlmaður á þrítugsaldri verið sleginn og við það fallið aftur fyrir sig og misst meðvitund. Hann var fluttur á slysadeild, en lést þar síðar sama dag. Karlmaður á svipuðum aldri var handtekinn í miðborginni fljótlega eftir að tilkynnt var um árásina. Hann var síðar ákærður fyrir stórfellda líkamsárás. Og síðla í september lést karlmaður eftir að hafa mátt þola margþætt ofbeldi. Sambýliskona hans, sem var á fimmtugsaldri, hringdi í lögregluna þegar maðurinn átti orðið erfitt með andardrátt. Haldið var í íbúð þeirra í fjölbýlishúsi í Vogunum í Reykjavík og hafnar endurlífgunartilraunir. Í kjölfarið var maðurinn fluttur á slysadeild og lést þar skömmu síðar. Konunni var gefið að sök að hafa beitt manninn margþættu ofbeldi, en við það hlaut hann margvíslega áverka á höfði og líkama. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi hana í 10 ára fangelsi.

Fjöldi ofbeldisbrota á höfuðborgarsvæðinu undanfarin ár hefur verið nokkuð svipaður. Þau voru um 1.400 árið 2023, en þá er bæði átt við minni háttar og meiri háttar líkamsárásir, samanlagt. Breytingin á milli áranna 2022 og 2023 er þó að síðartalda árið voru meiri háttar líkamsárásir nálægt 250, en voru nær 200 árið á undan. Tilkynningar um alvarlegar líkamsárásir bárust embættinu jöfnum höndum yfir árið. Þær voru samt öllu fleiri á síðari hluta ársins, einkum síðasta ársfjórðunginn. Ekkert lát var heldur á tilkynningum um heimilisofbeldi, en þegar verst lét voru þær nálægt 80 í einum og sama mánuðinum. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur tekið þennan málaflokk mjög föstum tökum, en mikið verk er enn óunnið. Yfir árið bárust samanlagt hátt í 800 tilkynningar um heimilisofbeldi, sem sýnir að vandinn er mikill og að áfram verður að berjast af krafti gegn þessari meinsemd.