Aukinn vopnaburður hefur réttilega verið áhyggjuefni undanfarin ár. Sjónum hefur einkum verið beint að hnífaburði ungra karla og þeim hörmulegu afleiðingum sem honum getur fylgt. Ástæða er líka til að hafa áhyggjur af notkun skotvopna, en annað árið í röð voru nokkrar alvarlegar skotárásir til rannsóknar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Skotárásir eru að sjálfsögðu alltaf alvarlegar, en þær hafa verið fátíðar hingað til. Fjöldi skráðra skotvopna er til í landinu og eigendur þeirra kunna almennt mjög vel með þau að fara, og gera það í fullu samræmi við lög og reglur sem um skotvopn gilda. Í þremur málum sem hér verða stuttlega rakin átti það augljóslega ekki við. Fyrst er nefndur tæplega þrítugur karlmaður sem hleypti af afsagaðri haglabyssu á veitingastað í miðborginni eitt sunnudagskvöldið í mars. Byssunni beindi hann að nokkrum viðskiptavinum og starfsmanni, sem voru við barborð staðarins. Höglin höfnuðu í innréttingu og áfengisflöskum, sem splundruðust og rigndi glerbrotum yfir fólkið og mátti hrósa happi að ekki fór verr. Skotmaðurinn, sem var grímuklæddur, flúði af vettvangi, en var handtekinn daginn eftir. Byssan kom í leitirnar mjög fljótlega, en hún reyndist stolin. Maðurinn hafði fleiri alvarleg brot á samviskunni, en fyrir þau og skotárásina var hann í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmdur í átta ára fangelsi.
Ekki var hættan minni þegar karlmaður um tvítugt skaut nokkrum skotum að fjórum ungum mönnum utan við fjölbýlishús í Úlfarsárdal í Reykjavík í byrjun nóvember. Árásin var gerð að næturlagi þegar íbúar voru í fastasvefni, en skotmaðurinn kom akandi á vettvang og fór þaðan um leið og hún var afstaðin. Ringulreið var á staðnum þegar lögreglan kom og óljóst var hvar árásin átti sér stað. Fljótt fékkst þó skýrari mynd af málinu, en einn mannanna hafði orðið fyrir skoti og var hann fluttur á slysadeild. Sem betur fer voru áverkar hans ekki lífshættulegir, en maðurinn særðist á fæti. Tilviljun réði hvar skotin höfnuðu, en þau lentu enn fremur í bifreið á vettvangi og í nærliggjandi húsi þar sem fjögurra manna fjölskylda svaf værum svefni. Mikill viðbúnaður var vegna skotárásarinnar, en degi eftir hana voru sex úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Grunur var um að tilefni skotárásarinnar hafi verið einhvers konar uppgjör tveggja hópa.
Og á aðfangsdagskvöld var lögreglan aftur kölluð til vegna skotárásar, að þessu sinni á Hvaleyrarholti í Hafnarfirði. Þar höfðu tveir grímuklæddir menn ruðst inn í íbúð fjölbýlishúss og annar þeirra hleypt af sex skotum úr skammbyssu. Fjórir voru á heimilinu þegar þetta átti sér stað, þar af 9 ára stúlka. Ummerki bentu til þess að skotmaðurinn hafi staðið á ganginum innan við forstofu íbúðarinnar og hleypt af skotum í átt að barnaherbergi. Dyr þess stóðu opnar, en tvö skotanna höfnuðu í vegg í því herbergi. Mikil mildi þykir að enginn slasaðist í íbúðinni, en árásarmennirnir voru fljótir að láta sig hverfa af vettvangi. Á þeim virðist hafa verið töluverður asi því skammbyssan fannst utan við fjölbýlishúsið um leið og lögreglan kom á staðinn. Í framhaldinu voru þrír menn handteknir, en einn þeirra var vitorðsmaður og hafði ekið hinum tveimur á vettvang. Eftir árásina fóru þeir í Krýsuvík og skiptu um skráningarnúmer á bifreiðinni, en hún var á röngum skráningarnúmerum til að hylja slóð þeirra. Skotmaðurinn, sem var um tvítugt, sagði að tilgangurinn með árásinni hafi verið að hræða einn heimilismannanna. Þremenningarnir voru allir í Héraðsdómi Reykjaness dæmdir til fangelsisvistar og fékk skotmaðurinn sjálfur þyngsta dóminn, eða 5 ár.