Umferðareftirlit

Ársskýrsla 2019

Stór hluti verkefna hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu snýr að umferðinni, en umferðarlagabrot í umdæminu skipta þúsundum á hverju ári.

Á því varð engin undantekning árið 2019, en engu að síður gekk umferðin ágætlega fyrir sig í umdæminu. Vissulega voru tafir hér og þar, gjarnan viðbúnar eins og á háannatíma virka daga bæði á morgnana og síðdegis. Umferðartafir voru líka tilkomnar vegna árlegra framkvæmda og/eða viðgerða á akbrautum og mæltist það misjafnlega fyrir. Þar hjálpaði ekki til þegar áætlaður tími framkvæmda stóðst ekki og þær drógust á langinn. Þetta var sérstaklega bagalegt á fjölförnum götum ef uppgefinn tími stóðst ekki með þeim afleiðingum að enn meiri tafir urðu á háannatíma. Þá var langlundargeð ökumanna ekki mikið. Opinberar heimsóknir settu líka mark sitt á umferðina, en í einhver skipti þurfti að loka götum tímabundið á meðan fyrirmenni fóru þar um. Lítill skilningur virtist ríkja á þeim aðgerðum og margir ökumenn höfðu samband við lögreglu og töldu þær vera með öllu óþarfar. Þótt lokanir hafi alla jafnan verið tilkynntar fyrirfram á það ekki við þegar slys verða. Þá þarf að loka fyrirvaralaust, oftast í stutta stund, og mætti ætla að allir hefðu á því skilning. Svo er þó ekki, alltaf eru einhverjir ökumenn sem þurfa að troða sér framhjá lokunum, líka þegar um vettvang slyss er að ræða.

Umferðarslysin á höfuðborgarsvæðinu voru annars mörg, en í þeim slösuðust um 500 manns og sumir alvarlega. Að meðaltali varð eitt umferðarslys alla daga ársins, en umferðaróhöppin voru margfalt fleiri með tilheyrandi eignatjóni. Árekstrarnir áttu sér stað víðs vegar í umdæminu, en sumar götur komu þá oftar við sögu en aðrar í slysaskráningunni. Miklabraut var áfram efst á blaði enda þúsundir ökutækja sem um hana fara á hverjum sólarhring. Tvenn gatnamót má nefna þar sérstaklega, eða við Kringlumýrarbraut og Grensásveg. Slys og óhöpp í umferðinni voru áberandi á morgnana, eða á milli kl. 8 og 9, og svo aftur eftir hádegi og fram til kl. 18 síðdegis. Hér er vísað til upplýsinga frá Samgöngustofu, en Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur enn fremur um alllangt skeið birt vikulegar samantektir um umferðarslys í umdæminu. Þær er að finna á lögregluvefnum og er það áhugaverð lesning. Þar er jafnframt getið um aðdraganda og orsakar slysanna, sem eru vitaskuld margvíslegar.

Akstur krefst athygli og einbeitingar, en ef það skortir getur farið illa. Aðgát og tillitssemi verður líka að vera til staðar, en æði oft fer ansi lítið fyrir því síðarnefnda. Um það er mörg dæmi, en snemma árs sektaði lögreglan ökumann sem, allt í senn, hindraði umferð gangandi vegfarenda um gangstétt, göngustíg og gangbraut þegar hann lagði ökutæki sína ólöglega einn daginn. Sá fékk 10 þúsund kr. sekt og þótti mörgum það vel sloppið. Sektir og viðurlög við umferðarlagabrotum höfðu þó hækkað mikið árið á undan, en það virtist ekki bíta á alla. Á árinu voru líka gerðar breytingar sem vöfðust fyrir ökumönnum, a.m.k. til að byrja með. Þar verður að nefna breytta akstursstefnu bíla um Laugaveg, sem ráðist var í snemma sumars, en þá varð heimilt að aka götuna til austurs frá Klapparstíg upp að Frakkastíg. Óhætt er að segja að þetta hafi valdið nokkrum vandræðum framan af. Eins áttu ökumenn erfitt með að átta sig á breyttum hámarkshraða á hluta Hringbrautar í Reykjavík, sem lækkaði í 40 úr 50. Um var að ræða vegkaflann á milli Sæmundargötu og Ánanausta, en við hraðamælingar eftir breytinguna var eiginlega engan mun að sjá fyrst um sinn. Brotahlutfallið var áfram hátt og meðalhraði hinna brotlegu var það sömuleiðis.