Ársskýrsla 2021

Bjartsýni í heimsfaraldri

Heimsfaraldur geisaði á Íslandi sem annars staðar annað árið í röð og ýmsar blikur voru á lofti. Baráttan við Covid-19 tók áfram sinn toll, en í ársbyrjun 2021 gætti þó bjartsýni með tilkomu bóluefna. Skipulagðar bólusetningar hófust fljótt á höfuðborgarsvæðinu og stóðu yfir í Laugardalshöll mánuðum saman, en með hléum þó. Þær gáfu góðan árangur og komu í veg fyrir alvarleg veikindi margra. Lögreglan stóð sína vakt í þessum efnum sem öðrum, en ófá verkefni hennar tengdust baráttunni við kórónuveiruna. Sóttvarnarbrot voru áfram fjölmörg, en embættið var reynslunni ríkari frá árinu áður, rétt eins og landsmenn allir. Boð, bönn og fyrirmæli vegna Covid-19 voru áfram til staðar og fólki gekk misvel að fylgja þeim eftir. Stuðningur íbúa á höfuðborgarsvæðinu við aðgerðir lögreglu í heimsfaraldrinum var samt almennt mikill eins og lesa mátti um í könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Stuðningurinn var þó mismikill eftir aldurshópum, meiri hjá þeim eldri en minni hjá hinum yngri.

Þúsundir mála komu á borð embættisins, sum auðleyst en önnur ekki. Aukinn þungi hefur færst í rannsóknir á skipulagðri brotastarfsemi og svo var áfram, en þær eru bæði tímafrekar og krefjast mannafla. Forgangsraða þarf sem fyrr, en alvarlegustu málin eru aldrei látin sitja á hakanum. Óhætt er að segja að eitt mál hafið vakið meiri athygli en öll önnur, en það var svokallað Rauðagerðismál. Umfjöllun um málið var eftir því, en það sneri að rannsókn á morði á albönskum karlmanni snemma árs. Engu var til sparað að upplýsa málið sem var í algjörum forgangi hjá embættinu. Um tíma sátu níu í gæsluvarðhaldi vegna málsins og segir það sitthvað um umfangið. Rannsóknin stóð yfir í margar vikur, en svo fór að samlandi fórnarlambsins var dæmdur fyrir verknaðinn.

Samhliða heimsfaraldri og mörgum erfiðum málum sem voru til rannsóknar tók gildi breyting á vinnutíma starfsmanna og var það töluverð áskorun fyrir embættið. Hér er vísað til styttingu vinnuvikunnar, en breytingin tók gildi hjá starfsmönnum í dagvinnu strax í ársbyrjun 2021. Vaktavinnufólk bættist svo í hópinn um vorið, en almenn ánægja var með nýtt fyrirkomulag. Einhverjir hnökrar komu óhjákvæmilega upp í byrjun, en úr þeim öllum var leyst í miklu bróðerni og sátt. Reksturinn gekk líka almennt vel, en vissulega var útlitið heldur dökkt í upphafi árs með uppsafnaðan rekstarhalla í kringum 430 m.kr. Að mestu var um að kenna áhrifum kjarasamninga árið á undan, en svo fór að embættið fékk um 300 m.kr. í gegnum fjáraukalög og bætti það stöðuna til mikilla muna. Það sem á vantaði var unnið niður með útsjónarsemi og ráðdeild starfsmanna og því var rekstrarhallinn úr sögunni þegar uppi var staðið.

Mörg framfaraskref voru stigin árinu. Þjónustugátt fyrir þolendur kynferðibrota var sett á laggirnar, en með tilkomu hennar geta þolendur fengið upplýsingar um stöðu mála sinna og þær bjargir sem þeim standa til boða. Um er að ræða rafræna þjónustugátt, sem miklar vonir eru bundnar við. Sömuleiðis er vert að nefna að Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hlaut jafnlaunavottun á árinu og var það mikilvægur áfangi. Nýtt skipurit fyrir embættið var enn fremur samþykkt, en í því fækkaði sviðum í sex úr átta með tilheyrandi hagræðingu frá því sem áður var.

Minnt er líka á nauðsyn þess að haldið verði áfram að efla lögregluna. Hún þarf að vera vel í stakk búin til að takast á við erfið verkefni hverju sinni, ekki síst rannsóknir sem snúa að skipulagðri brotastarfsemi og útheimta bæði mikinn tíma og mannafla eins og áður var vikið að. Að endingu vil ég þakka öðrum viðbragsaðilum fyrir frábært samstarf á árinu, sem og fjölmörgum stofnunum ríkis og sveitarfélaga. Umfram allt vil ég þó þakka öllum starfsmönnum Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir vel unnin störf á árinu 2021.

 

Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri.