Helstu verkefni LRH

Ársskýrsla 2021

Helstu verkefni LRH

Óvissa ríkti í upphafi ársins 2021 enda baráttan við kórónuveiruna enn þá í algleymingi. Bóluefni gegn COVID-19 var komið fram, en óljóst hversu vel það myndi virka og hversu langan tíma tæki að bólusetja þjóðina. Það var því viðbúið að verkefni tengd kórónuveirunni yrðu áfram fjölmörg hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og það varð raunin. Sóttvarnabrot voru því áfram á forgangslista embættisins, auk þess sem lögreglumenn stóðu ófáar vaktir í Laugardalshöll, en þangað fór þorri þjóðarinnar til bólusetningar. Hún stóð yfir mánuðum saman, með einhverjum hléum, en þegar upp var staðið þurfti þrjár sprautur á hvern fullorðinn einstakling til að ná tilætluðum árangri, að mati sóttvarnalæknis, í baráttunni gegn veirunni skæðu. Vegna þessa var lögreglan, líkt og fleiri viðbragðsaðilar, ýmist á óvissu-, hættu- eða neyðarstigi, en fleira kom líka til. Jarðskjálftahrina hófst á Reykjanesi og fundu íbúar á höfuðborgarsvæðinu vel fyrir henni, auk þess sem eldgos hófst í Fagradalsfjalli og stóð yfir lengi, en embættið sinnti sömuleiðis verkefnum vegna náttúruhamfaranna.

Hin hefðbundnu verkefni lögreglu, líkamsárásir, kynferðisbrot, fíkniefnamál o.s.frv., voru vitaskuld áfram til staðar og þar var af nógu að taka. Hæst bar morð á albönskum karlmanni á fertugsaldri í Rauðagerði í Reykjavík aðra helgina í febrúar, en málið vakti skiljanlega mikinn óhug. Maðurinn var skotinn nokkrum skotum í búk og höfuð síðla kvölds fyrir utan heimili sitt. Í hönd fór fram mjög umfangsmikil rannsókn, en að henni komu fjölmargir starfsmenn embættisins með einum eða öðrum hætti. Um tíma voru fjórtán aðilar frá tíu löndum með réttarstöðu sakbornings í málinu, en þegar mest var sátu níu manns í gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknarinnar. Auk þess var rætt við fjölda vitna og framkvæmdar vel á annan tug leita í húsnæði, ökutækjum og á víðavangi. Vegna umfangs málsins tók tíma að ná utan um það, en rannsókninni miðaði þó vel og seint í mars var svo boðað til blaðamannafundar þegar játning lá fyrir. Hún kom heim og saman við kenningar lögreglu um atburðarásina, en gerandinn reyndist vera landi fórnarlambsins.

Ofbeldisbrot í umdæminu árið 2021 voru annars um 1.300. Meiri háttar líkamsárásir töldust í kringum 200, sem er ámóta og árið á undan, en minni háttar líkamsárásum fjölgaði lítillega á sama tímabili, en þær voru nálægt 1.100. Fjöldi tilkynninga um heimilisofbeldi stóð í stað á milli ára, en þær voru um 800. Heildarfjöldi mála sem var skráður hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu árið 2021 var rúmlega 78.000 og fjölgaði þeim á milli ára. Það átti líka við um hegningarlagabrot, en þau voru næstum 10.500. Þar af voru þjófnaðarbrot nálægt 4.300, en hátt í fjórðungur þeirra voru innbrot. Fjöldi sérrefsilagabrota var hins vegar nánast óbreyttur miðað við árið á undan, eða um 3.000. Áfram voru fíkniefnabrot hátt hlutfall þeirra, eða næstum þriðjungur. Og sem fyrr var lagt hald á mikið af fíkniefnum, en magn þess sveiflast þó gjarnan á milli ára. Svo var einnig nú, en embættið tók t.d. í sína vörslu um eitt hundrað og tíu kíló af marijúana, eða tvöfalt meira en árið á undan og rúmlega það. Sama átti við um kókaín, en árið 2021 var lagt hald á tæplega 8 kíló af því og var það mikil aukning frá árinu á undan. Þessu var hins vegar öfugt farið þegar kom að amfetamíni, en 11 kíló voru haldlögð 2021. Það er helmingi minna magn en var haldlagt af amfetamíni árið á undan.

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu gekk sinn vanagang árið 2021, en þó ekki án áfalla frekar en áður. Áhrifa heimsfaraldursins gætti minna en árið á undan, þ.e. umferðin jókst, og umferðarslysum og óhöppum fjölgaði. Flest þeirra urðu á fjölförnum stofnbrautum, t.d. á þremur mismunandi gatnamótum Miklubrautar (við Grensásveg, Kringlumýrarbraut og Háaleitisbraut) og einnig á tveimur hringtorgum í Hafnarfirði (Hlíðartorg og FH-torg). Meiðsli á fólki í umferðarslysum urðu oftast á gatnamótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar. Fimm létust í umferðarslysum á árinu, einum fleiri en árið á undan. Fjögur banaslysanna urðu í Reykjavík og eitt í Kjósarhreppi.

Svikahrappar voru á kreiki árið um kring, en tilkynningar um fjársvik voru rúmlega 500. Svikin voru af ýmsu tagi, m.a. misnotkun á greiðslukortum. Óprúttnir aðilar svífast einskis til að komast yfir greiðslukortaupplýsingar og beita öllum brögðum í þeim efnum. Því þarf að geyma þær á öruggum stað og eins að láta slíkar upplýsingar ekki í té hverjum sem er. Tilkynningar um útsmogna þrjóta bárust lögreglu mjög reglulega og því birtust ítrekaðar færslur á fésbókarsíðu embættisins þar sem varað var við allskyns svikum og prettum. Því miður er fátt sem bendir til þess að netglæpum muni fækka. Almenningur verður því sífellt að vera á varðbergi og sjálfsagt verður það aldrei sagt nógu oft.

Fjölmörg kynferðisbrot voru til rannsóknar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu árið 2021. Þar af voru rúmlega 100 nauðganir og fjölgaði þeim málum aðeins á milli ára. Erfitt er að ráða í sveiflur þegar kynferðisbrot eru annars vegar, en ætla má að mikil umræða í þjóðfélaginu um kynferðisofbeldi hafi hjálpað brotaþolum að stíga fram. Hjá embættinu er kappkostað að vanda til verka við rannsóknir kynferðisbrota, en í því felst líka að reyna að stytta málsmeðferðartíma og bæta upplýsingagjöf til brotaþola. Stafræn gögn verða sífellt fyrirferðameiri við rannsóknir mála, en með breyttum tækniheimi er stafrænt kynferðisofbeldi nú orðið eitt af þeim verkefnum sem Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tekst á við í auknum mæli. Því miður var af mörgu að taka þegar kynferðisbrot árið 2021 bar á góma, en rannsókn embættisins á meintum brotum karlmanns á sjötugsaldri gegn börnum vakti mikla athygli. Maðurinn var grunaður um fjölmörg blygðunarsemis- og barnaverndarlagabrot og fyrir að reyna að mæla sér mót við börn í kynferðislegum tilgangi. Hann var úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald í árslok.