Miklar breytingar hafa átt sér stað í íslensku samfélagi á starfstíma Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu undanfarin fimmtán ár. Fólki hefur fjölgað, ekki síst erlendum ríkisborgurum sem hingað hafa komið til starfa til lengri eða skemmri tíma. Margir þeirra una hag sínum vel og hafa sest að á Íslandi til framtíðar. Nýir borgarar koma úr ólíkum áttum, m.a. frá ríkjum þar sem lögreglumenn bera skotvopn við dagleg störf. Upplifun þeirra frá heimalandinu kann að vera misgóð, en nauðsynlegt er að þessi hópur beri traust til íslensku lögreglunnar, líkt og aðrir landsmenn, og leiti til hennar þegar bjátar á. Öryggi og öryggistilfinning allra þeirra sem búa, starfa og dvelja í umdæmi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er jú keppikefli hennar. Og frá því var ekki hvikað árið 2021 enda eitt af grundvallarmarkmiðum embættisins. Sú stefna var mörkuð við upphaf sameiningar lögregluliðanna á höfuðborgarsvæðinu, en jafnframt að bæta rannsóknir sakamála og gera þær skilvirkari. Er þá fátt eitt nefnt af markmiðum, sem enn eru í fullu gildi. Markmið og áherslur taka þó breytingum í takti við annað, en lögreglan verður að vera viðbúin hverjum þeim verkefnum sem hún stendur frammi fyrir hverju sinni.
Í heimsfaraldrinum reyndi einmitt á þetta, en segja má að Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi verið reynslunni ríkari þegar hún tókst á við störf sín árið 2021. Draga mátti lærdóm af verkefnum lögreglunnar í heimsfaraldrinum árið 2020 og hann kom að góðum notum. Sóttvarnarbrot voru áfram ofarlega á baugi, en líka hefðbundin brot eins og eignaspjöll, innbrot, þjófnaðir og líkamsárásir. Horft hefur verið til fækkunar fyrrnefndra brota og mætti árangurinn vera betri, ekki síst er varðar alvarlegar líkamsárásir, en fjöldi þeirra var ámóta á milli ára. Baráttan við kórónuveiruna var samt efst á baugi árið um kring, en lögreglumenn stóðu ófáar vaktir þegar þjóðin var bólusett með góðum árangri.
Af málaflokkum sem hafa verið settir á oddinn síðustu ár má sérstaklega nefna heimilisofbeldi og kynferðisbrot. Markvisst hefur verið unnið að því að efla rannsóknir málanna og jafnframt að auka þjónustu við brotaþola. Ýmislegt hefur áunnist, en þetta árið var komið á fót sérstakri þjónustugátt við þolendur kynferðisbrota. Um var að ræða rafræna þjónustugátt þar sem þolendur geta fengið upplýsingar um stöðu mála sinna og þær bjargir sem þeim standa til boða. Fram hafði komið að þolendur kynferðisbrota töldu upplýsingar skorta um fyrrnefnt og því var mjög mikilvægt að geta bætt þar úr með opnun þjónustugáttar.