Rekstur

Ársskýrsla 2021

Rekstur

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fór ekki varhluta af heimsfaraldrinum annað árið í röð, en hann setti óneitanlega strik í reikninginn þegar kom að rekstri embættisins. Því fylgdu margar áskoranir, auk þess sem innleitt var tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar. Náði það til bæði starfsmanna í dagvinnu og vaktavinnu. Fjölga þurfti stöðugildum í vaktavinnu til að mæta svokölluðu mannaflagati, sem myndaðist við styttingu vinnutímans. Innleiðing verkefnisins gekk þó almennt vel og um það var ánægja á meðal starfsmanna.

Rekstur embættisins var engu að síður erfiður, en í ársbyrjun 2021 var ljóst að uppsafnaður rekstrarhalli þess nam 433 m.kr. Hann mátti að mestu rekja til áhrifa kjarasamninga árið á undan, sem ekki fengust bætt að fullu. Hafið var virkt samtal við dómsmálaráðuneytið vegna þessa og send minnisblöð og greiningar um að hallinn væri tilkominn vegna utanaðkomandi aðstæðna. Gerð var grein fyrir með ítarlegum hætti hvernig hallinn myndaðist að mestu og hvernig rekja mætti hann til þátta sem ógjörningur var að bregðast við. Vísað var til þess að 84% af rekstrarfé embættisins færi í laun og aðhaldskröfur hefðu því mikil áhrif á þjónustustig lögreglu. Ráðuneytið tók undir rökin, en embættið varð þó að vinna niður um helming af þeim uppsafnaða 250 m.kr. halla sem eftir stóð.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu dró því úr fjárfestingum og ráðist var í átaksverkefni um niðurvinnslu orlofsskuldbindinga. Enn fremur var hert eftirlit með rekstrinum, en aðgerðirnar skiluðu tilætluðum árangri, þökk sé útsjónarsemi og ráðdeild starfsmanna. Í árslok, eftir mikla vinnu þar sem vel rökstuddum sjónarmiðum embættisins vegna hallans hafði verið haldið á lofti, fékkst 305 m.kr. framlag í gegnum fjáraukalög. Það leiðrétti rekstrarhallann að fullu. Framlagið má þakka ráðherra, ráðuneyti og fjárlaganefnd fyrir að horfa til sérstöðu embættisins. Með því var tryggt að þjónustustig Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu liði ekki fyrir breytingar á utanaðkomandi þáttum, sem ógjörningur var að bregðast við.

Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2021 var ársveltan 7.057,9 m.kr. og afkoma 497,6 m.kr. Þá var hrein eign embættisins 74,4 m.kr. í árslok samkvæmt efnahagsreikningi og eignir samtals 1.449,7 m.kr. Ársreikninga Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er að finna á slóðinni https://arsreikningar.rikisreikningur.is/

 

Útgefandi:
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

 

Umsjón og ábyrgð:
Upplýsinga-og áætlanadeild, Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson

 

Myndir:
Júlíus Sigurjónsson/Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson

 

www.lrh.is
www.facebook.com/logreglan
https://www.instagram.com/logreglan/