Um allnokkra hríð hafa á annað þúsund ofbeldisbrot verið tilkynnt árlega til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Engin breyting varð á því árið 2022, en illa gengur að fækka ofbeldisbrotum þrátt fyrir mikinn vilja allra. Ekki bætir úr skák sú vonda þróun að vopnaburður ungs fólks, einkum karla, hefur aukist og virðist mörgum sjálfsagt að hafa hníf undir höndum. Hinir sömu segja hnífaburðinn vera í öryggisskyni og er áhyggjuefni að svo er komið. Verra er að hnífum var oft beitt í umdæminu og mátti teljast heppni að ekki hlytist bani af. Áverkar brotaþola voru í mörgum tilfellum mjög alvarlegir, en það var tilviljunum háð hvar hnífsblaðið endaði þegar árásarmennirnir drógu upp hnífa. Oft var miðborgin vettvangur slíkra líkamsárása, en á fyrri hluta ársins urðu þar tvær alvarlegar árásir með nokkurra vikna millibili. Báðar voru framdar við skemmtistaði að næturlagi, en í öðru tilfellinu var hnífi beitt við verknaðinn en skrúfjárni í hinu, að því að talið var. Þolendur og gerendur í málunum voru allt ungir karlar, eða á þrítugsaldri. Af aðdragandanum að dæma í þessum tilvikum virtist kveikjuþráðurinn ansi stuttur hjá mörgum og ekki hjálpar til þegar hinir sömu hafa neytt áfengis- og/eða vímuefna, en svo háttar oft til. Stórfelldar líkamsárásir eru þó ekki bundnar við miðborgina, eða að málsaðilar séu einvörðungu ungt fólk. Því fer fjarri og líka nauðsynlegt að halda því til haga. Síðdegis á virkum degi síðla árs réðst karlmaður um fimmtugt að konu, litlu yngri, á bifreiðastæði við Dalskóla í Úlfarsárdal í Reykjavík og veitti henni alvarlega áverka með öxi, auk þess að vinna skemmdir á bifreið hennar. Vitni voru að árásinni, enda jafnan margir á ferli á þessum stað í hverfinu þar sem er líka að finna leikskóla, sundlaug og íþróttamiðstöð. Fólki var eðlilega brugðið svo ekki sé meira sagt.
Nokkru áður, eða um miðjan nóvember, barst óvenjuleg tilkynning um líkamsárás á skemmtistað í miðborg Reykjavíkur. Óvenjuleg að því leyti að árásarmennirnir voru um þrjátíu talsins, allir dökkklæddir og með grímur, og veittust þeir með höggum og spörkum að þremur mönnum inni á staðnum, auk þess að beita eggvopnum. Árásarmennirnir yfirgáfu staðinn um leið og árásin var yfirstaðin, en þá höfðu þeir m.a. veitt þremenningunum allmörg stungusár. Fljótt var ljóst um að skipulagða aðför var að ræða, en hún átti sér stað undir miðnætti á virkum degi. Rannsóknin var í algjörum forgangi hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og réðst hún strax um nóttina í umfangsmiklar aðgerðir vegna alvarleika málsins. Þeim var fylgt eftir næstu daga með frekari handtökum og húsleitum, en þegar mest var sátu sextán í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Rannsóknin var mjög viðamikil, en unnið var sleitulaust að því að upplýsa málið. Fjölmargir starfsmenn embættisins komu að rannsókninni, en hún beindist m.a. að því hvort árásin tengdist uppgjöri eða hefndaraðgerðum ákveðinna hópa. Einnig sneri hún að hótunum og skemmdarverkum á húsnæði og hættu sem af því hlaust. Árásin á skemmtistaðnum var mjög alvarleg og vopnaðist lögreglan vegna hennar þegar um nóttina og þeirra aðgerða sem gripið var til strax í framhaldinu. Þolendurnir í málinu voru allt karlar nálægt tvítugu, eða þar um bil, og sama átti við um aldur margra gerendanna.
Eitt manndrápsmál var til rannsóknar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu árið 2022, en fyrstu helgina í júní var karlmanni á fimmtugsaldri ráðinn bani í Vogahverfinu í Reykjavík með ítrekuðum höggum og spörkum. Árásarmaðurinn, sem var um tvítugt, hringdi sjálfur í lögregluna og greindi frá átökum sem áttu sér stað við þríbýlishús í hverfinu, en mennirnir bjuggu báðir í húsinu og voru því nágrannar, en það voru einu tengsl þeirra. Þegar lögreglan kom á staðinn lá eldri maðurinn á lóðinni og var augljóslega mikið slasaður og hóf hún strax endurlífgunartilraunir. Þær báru hins vegar ekki árangur og var maðurinn úrskurðaður látinn á vettvangi. Árásarmaðurinn var handtekinn á staðnum og síðar úrskurðaður í gæsluvarðhald, en hann var að lokum dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir manndráp. Árásarmaðurinn, sem þótti ekki eiga sér sérstakar málsbætur, hafnaði sök í málinu, en viðurkenndi þó háttsemina að hluta.
Meira en 200 alvarlegar líkamsárásir voru framdar í umdæminu, en alls var tilkynnt um nálægt 1.400 líkamsárásir samanlagt. Fjöldi þeirra er ekki ósvipaður og árið á undan, en þær voru þó ívið fleiri árið 2022 í samanburði við árin 2019 og 2020. Snúnara er að bera saman tölfræði um manndráp á höfuðborgarsvæðinu enda málin iðulega afar fá og sum árin stundum blessunarlega engin. Sveiflur í manndrápsmálum í umdæminu markast vitaskuld af því. Líkamsárásirnar 2022 dreifðust mjög yfir árið. Þær voru færri í bæði upphafi árs og undir lok þess, en frá mars til ágúst voru þær í kringum 100 í hverjum mánuði og raunar líka í október. Í janúar og febrúar var ástandið skárra, en þá voru tilkynntar um 70 líkamsárásir í hvorum mánuði. Hér er vísað til líkamsárása sem töldust minni háttar, en þegar litið var til meiri háttar líkamsárása, eða stórfelldra líkamsárása, voru þær í kringum 20, og stundum rúmlega það, mánuðina frá júní til nóvember. Í janúar og mars þetta sama ár var fjöldi alvarlegra árása víst svipaður þegar betur var gáð. Í jólamánuðinum taldist ástandið mun betra, en þá voru helmingi færri tilkynningar um meiri háttar líkamsárásir á höfuðborgarsvæðinu en þá mánuði þegar verst lét. Desember skar sig því nokkuð úr frá öðrum mánuðum ársins 2022 hvað þetta varðar, en erfitt er að henda reiður á ástæðu þessa.