INNBROT OG ÞJÓFNAÐIR

Ársskýrsla 2022

Þjófar af ýmsu sauðahúsi komu við sögu hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu árið 2022 og átti það við um bæði aldur þeirra og þjóðerni. Fátt kemur reyndar lengur á óvart í þessum efnum, ekki einu sinni þegar þjófar í sama glæpnum tengdust fjölskylduböndum. Þróunin hérlendis er sú sama og annars staðar, brotahópar ferðast á milli landa og Ísland er þar ekki undanskilið. Erlendir brotamenn héldu því áfram að venja komur sínar hingað árið 2022 og komu við sögu hjá lögreglu eins og mörg dæmi voru um. Að kenna erlendum brotamönnum alfarið um innbrot og þjófnaði í umdæminu væri hins vegar rangt. Íslenskir þjófar létu ekki sitt eftir liggja, komu margoft við sögu og stálu sams konar hlutum. Undanfarin ár hafa skráð þjófnaðarbrot á höfuðborgarsvæðinu gjarnan verið í kringum 4.000. Svo var líka þetta árið, en heildarfjöldi brotanna var þó ívið lægri en árið á undan.

Þjófnaðarmálin voru alls konar, en hnupl í verslunum var áberandi, stundum oft á dag. Þjófarnir gátu verið stórtækir og bíræfnir eftir því, en þeir sóttust m.a. eftir matvælum, snyrtivörum og fatnaði. Oft voru þeir nokkrir saman, einn fékk þá athygli afgreiðslumannsins á meðan hinir athöfnuðu sig við að koma vörum undan. Stundum höfðu þjófarnir sérstaka tösku meðferðis, en í hana hafði verið komið fyrir álpappír í þeim tilgangi að sneiða hjá þjófavörn verslunar. Slíkt er ekki nýtt og hefur sést áður, en er til marks um hversu langt er gengið. Varninginn losuðu þeir sig síðan við með ýmsum hætti, en m.a. mátti sjá stolin matvæli auglýst til sölu á samfélagsmiðlum. Það átti við um meira af illa fengnum vörum, en vekur líka upp spurningar varðandi þau sem kaupa slíkt. Nýjar vörur á lægra verði hjá óþekktum aðilum ætti að vekja grunsemdir. Sem og það gerði, en upplýsingar um það hjálpuðu lögreglunni að upplýsa mál. Þótt brotahópurinn væri ekki einsleitur var samt greinilegt að margir, sem komu við sögu í málaflokknum, áttu það sameiginlegt að hafa farið halloka. Leiðst út í neyslu áfengis- og/eða vímuefna og fjármögnuðu hana með þjófnuðum og innbrotum.

Innbrot voru um fjórðungur þjófnaðarbrotanna. Flest innbrotanna, rúmlega 400, voru í fyrirtæki, verslanir og stofnanir. Innbrot á heimili voru í kringum 350 og innbrot í ökutæki um 200. Framan af ári voru tilkynnt innan við 70 innbrot í hverjum mánuði, en þeim fjölgaði skyndilega í júní og fóru þá yfir 100. Þeim fækkaði ekki aftur fyrr en að liðnu hausti, fóru undir 90 í nóvember og síðan niður í 50 í desember. Fjölgun innbrota í júní stafaði ekki síst af  innbrotum í fyrirtæki og verslanir, en þann mánuðinn voru um 60 innbrot í þess konar húsnæði. Ágúst var samt verstur allra mánaða árið 2022 hvað innbrotin varðaði, en þá voru þau samtals um 125. Þann mánuðinn var brotist inn í hátt í 50 fyrirtæki og verslanir og jafnoft inn á heimili, auk nálægt 30 innbrota í ökutæki. Sveiflur voru líka miklar þegar horft var til annarra þjófnaðarbrota. Reiðhjólaþjófnaðir rjúka upp þegar líður að sumri og á því varð engin breyting þetta árið. Fjölda reiðhjóla var stolið frá maí og fram undir lok október, eða um 400. Hina sex mánuði ársins bárust embættinu samtals 140 tilkynningar um stolin reiðhjól og munurinn því töluverður. Reiðhjólaþjófnuðum fækkaði þó frá árinu á undan og sama gilti um símaþjófnaði, þeir voru líka færri í samanburði við árið 2021. Bifreiðar og önnur vélknúin ökutæki freistuðu líka þjófa, en nytjastuldur átti sér sömuleiðis stað alla mánuði ársins. Málin dreifðust nokkuð jafnt yfir árið, en í október keyrði þó um þverbak og var þá um 50 sinnum tilkynnt um nytjastuld, sem var langtum meira en þegar mest lét hina mánuðina.