FJÁRSVIK/NETGLÆPIR

Ársskýrsla 2022

Framfarir í tækni eru jafnan til góðs og þær vilja flestir nýta sér. Líka óprúttnir aðilar, því miður. Tilkoma veraldarvefsins breytti gríðarlega miklu og upplýsingamiðlun tók risastórt stökk. Þróunin varð hröð og alls konar snjalltæki komu jafnframt til sögunnar. Að fóta sig í heimi tækninnar getur reynst fólki flókið og það hafa ótal þrjótar fært sér í nyt. Netglæpir voru því áfram vaxandi vandamál árið 2022, en oftar en ekki var herjað á þau sem eldri eru. Sá hópur er grandalausari og því líklegri til að verða fyrir netglæpum. Um það voru mörg dæmi, líkt og um miðjan október þegar fólk fékk boð á fésbókinni um þátttöku í leikjum með spennandi vinningum. Þar að baki voru svindlarar á höttunum eftir greiðslukortaupplýsingum, en tilgangurinn var að hækka heimild á kortum viðkomandi. Í framhaldinu voru keyptar vörur í öðrum löndum, en gjörningurinn allur tók aðeins um stundarfjórðung. Tapið hjá mörgum var umtalsvert, eða allt að einni milljón. Brotaþolar voru allir í góðri trú um að skilaboð um þátttöku væru frá vinum þeirra, en ekki svikahröppum. Þeir síðarnefndu náðu því að komast inn á heimabanka fólks með fyrrgreindum afleiðingum. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vakti athygli á málinu um leið og það kom upp og minnti, enn og aftur, á ýmislegt sem ber að varast í samskiptum á netinu. Að vera tortryggin er eitt það allra mikilvægasta. Ef skilaboð frá vinum virðast skrýtin, hringja þá og fá skýringu áður en lengra er haldið. Ekki senda viðkvæmar upplýsingar nema að vel athuguðu máli og ganga ávallt fyrst úr skugga um að allt sé með felldu. Og enn fremur að gjalda varhug við því að staðfesta kóða í síma í framhaldi af slíkum samskiptum, en rík ástæða er til að nefna það sérstaklega.

Um sumarið rannsakaði embættið fjársvik, sem viðskiptavinir eins íslensku bankanna urðu fyrir, en hópur brotamanna var talinn standa á bak við svikin. Framkvæmdar voru handtökur og húsleitir í þágu rannsóknarinnar, en um var að ræða skipulagða brotastarfsemi að mati lögreglu. Sakborningar virtust hafa komið til landsins í þeim eina tilgangi að svíkja fé út úr fólki og sýndust hafa til að bera sérhæfingu í netfjársvikum og peningaþvætti. Einn þeirra sat í gæsluvarðhaldi í tæplega hálfan mánuð vegna rannsóknarhagsmuna. Rannsókn málsins leiddi í ljós að settar voru upp svokallaðar skuggasíður í nafni bankans, sem grunlausir viðskiptavinir fóru inn á í gegnum leitarvélar (Google, Firefox, Safari), og á meðan viðskiptavinirnir töldu sig vera að tengjast heimabanka sínum voru fjármunirnir millifærðir af reikningi þeirra í rauntíma. Þau sem skráðu sig beint á rétta slóð bankans urðu ekki fyrir þessari árás, en áríðandi er að fólk hafi ávallt hugfast að  tengjast heimabönkum beint en ekki í gegnum leitarvélar og skoði slóðina sem viðkomandi fer á. Það verður sjálfsagt aldrei sagt nógu oft, en haft var náið samstarf við bankana og CERT-Is til að fyrirbyggja að þetta form netsvindls endurtæki sig.

Netsvindl og fjársvik voru annars af öllu tagi og sjá mátti ítrekaðar viðvaranir um þau á fésbókarsíðu embættisins. Svo hefur reyndar lengi verið á þeim víðlesna vettvangi og ekki verið vanþörf á enda oft um háar fjárhæðir að ræða. Slíkar viðvaranir voru áberandi í miðlum lögreglu í heimsfaraldrinum og þeim var framhaldið. Árið 2022 bárust Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu vel yfir 400 tilkynningar um fjársvik og voru þær ámóta margar og árið á undan. Hlutfall fjársvika með greiðslukortum er jafnan nokkuð hátt og breyttist það ekki. Þá má stuttlega nefna fjárdráttarmál, sem töldust um 20. Eins og önnur auðgunarbrot eiga málin það sameiginlegt að rannsóknir þeirra eru iðulega umfangsmiklar og tímafrekar eftir því.