KYNFERÐISBROT OG HEIMILISOFBELDI

Ársskýrsla 2022

Áfram var unnið að því að stytta málsmeðferðartíma kynferðisbrota hjá embættinu, en ágætlega hefur miðað í þeim efnum síðustu árin. Vafalaust má gera betur og að því er ávallt stefnt, en undir lok ársins var næstum fjórðungur mála, sem þá hafði verið færður í lokastöðu, yngri en 120 daga, en hlutfall þessara mála hafði farið hækkandi jafnt og þétt árin á undan. Góðum gangi í rannsóknum kynferðisbrota var um að þakka, auk þess sem ákærusviði tókst samhliða að ljúka fleiri málum. Ástæða er líka til að nefna að sjónum var einnig beint að gerendum, en á vormánuðum var hrundið af stað tilraunaverkefni til hálfs árs um eftirfylgnisamtöl við sakborninga í kynferðisbrotamálum. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, embætti ríkislögreglustjóra, Háskólinn á Akureyri og sálfræðistofan Taktu skrefið höfðu samstarf um verkefnið, en það var styrkt af stjórnvöldum og var hluti af aðgerðum þeirra gegn ofbeldi. Markmiðið var að reyna að koma í veg fyrir ítrekuð brot og minnka líkur á sjálfsskaða meðal sakborninga. Starfsmenn Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sáu um að hafa samband við sakborninga, áttu við þá samtal og buðu þeim að þiggja einn sálfræðitíma. Loks var Háskólanum á Akureyri ætlað að sjá um rannsókn á ávinningi og áhrifum verkefnisins.

Ýmislegt var enn fremur gert til að sporna gegn kynferðisbrotum, en snemma árs hófst herferðin Verum vakandi, en hún beindist gegn kynferðisofbeldi á djamminu. Hátt hlutfall tilkynninga um nauðganir berst frá föstudegi til sunnudags, einkanlega frá tímabilinu um miðnætti og fram undir sex um morguninn. Sláandi var að sjá að þessum tilkynningum fækkaði mjög mikið þegar samkomutakmarkanir voru í hámarki meðan á heimsfaraldrinum stóð. Árið 2022 voru meira en 150 nauðganir tilkynntar til embættisins, en voru rúmlega 100 árið á undan. Sveiflur í afbrotatölfræði eru vel þekktar, en erfiðara getur reynst að útskýra af hverju þær stafa. Fækkun áðurnefndra brota í samhengi við heimsfaraldur er hins vegar áhugaverð staðreynd, sem varla verður litið framhjá. Þegar horft var til allra kynferðisbrota fækkaði þeim hins vegar frá árinu á undan og skal því haldið til haga. Eins og í öðrum málaflokkum áttu brotin sér stað yfir allt árið, en sjáanlegur munur var á milli ársfjórðunga. Þannig voru kynferðisbrot færri í ársbyrjun, líkt og undir árslok, en fleiri í hinum mánuðunum af einhverjum ástæðum. Ekki leita allir þolendur beint til lögreglu, en Bjarkarhlíð er eitt þeirra úrræða sem standa til boða. Hún er þjónustumiðstöð fyrir fullorðna þolendur ofbeldis af öllum kynjum. Þar er starfandi rannsóknarlögreglumaður frá embættinu, en Bjarkarhlíð átti 5 ára starfsafmæli árið 2022 og er óhætt að segja að starfsemi þess hafi mælst vel fyrir frá upphafi.

Heimilisofbeldi er sömuleiðis málaflokkur sem Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leggur mikla áherslu á. Komið var á fót ákveðnu verklagi hjá embættinu á sínum tíma og var það til mikilla bóta enda hefur heimilisofbeldi lengi verið meinsemd í þjóðfélaginu. Tilkynningar um heimilisofbeldi í umdæminu árið 2022 skiptu hundruðum. Það er af sem áður var, en mjög mikilvægt er að þolendur þori að stíga fram og tilkynna um brot. Gildir það auðvitað um öll brot, en því var ekki áður alltaf að heilsa í sumum ofbeldisbrotum. Heimilisofbeldi á sér stað á höfuðborgarsvæðinu árið um kring og öllum tímum sólarhrings. Tilkynningarnar voru minnst um 50 á mánuði, en 80 þegar mest var. Samtals voru þær um 800, eða ámóta margar og árið á undan og því ljóst að heimilisofbeldi er enn stórt vandamál.