SKIPULÖGÐ BROTASTARFSEMI

Ársskýrsla 2022

Undanfarin ár hefur verið lögð mikil áhersla á þjálfun starfsmanna embættisins vegna rannsókna á skipulagðri brotastarfsemi. Samhliða hefur samvinna við önnur lögregluembætti verið efld, bæði heima og erlendis, til að takast á við málaflokkinn. Fyrir nokkrum árum var t.d. gert samkomulag við pólsk löggæsluyfirvöld um aukið samstarf og samvinnu í baráttunni gegn skipulagðri brotastarfsemi. Heimsfaraldurinn setti að vísu strik í reikninginn, en þegar hann fjaraði út var settur fullur kraftur í verkefnið. Aðaláherslan var lögð á baráttuna gegn fíkniefnavandanum og brotahópum sem standa að sölu og dreifingu fíkniefna, innflutningi og ekki síst framleiðslu þeirra. Þar var mikið verk að vinna og öll samvinna af hinu góða, en í því fólst m.a. að löggæsluyfirvöld deildu með sér upplýsingum sem gátu komið að gagni við rannsóknir mála. Og sömuleiðis að nota upplýsingar til að koma í veg fyrir brot. Skipulögð brotastarfsemi er vaxandi vandamál og nauðsynlegt að á því sé tekið af fullum þunga, og með öllum tiltækum ráðum. Þess konar brotastarfsemi teygir anga sína víða og má þar nefna peningaþvætti, fasteignaviðskipti, tryggingasvik og mansal og vændi. Ekki má heldur gleyma innflutningi og sölu fíkniefna, sem er talinn vera stærsti þátturinn í starfsemi glæpahópanna.

Rannsóknir sem sneru að skipulagðri brotastarfsemi voru enda fyrirferðamiklar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu árið 2022 og lagði hún jafnframt hald á mikið magn af fíkniefnum. Í einu málanna var um að ræða tæplega 100 kg af kókaíni, en það var falið í sjö trjádrumbum í gámi frá Brasilíu, sem hafði viðkomu í Hollandi. Íslensk og hollensk löggæsluyfirvöld áttu í náinni samvinnu vegna þessa, en kókaínið fannst ytra við leit hollenskra tollvarða í vörusendingu. Grundvöllur leitarinnar þar voru upplýsingar frá íslenskum löggæsluyfirvöldum, byggðar á frumkvæðisrannsóknum á skipulagðri brotastarfsemi, um grun þess efnis að mikið magn kókaíns væri að finna í gámnum. Gerviefnum var síðan komið fyrir í gámnum, sem var siglt áfram til Íslands, og voru loks fjórir menn handteknir hér heima eftir að gámurinn komst á land. Þeir fengu allir þunga dóma fyrir aðild sína að málinu, en sýnt þótti að ásetningur þeirra til innflutnings hefði verið einbeittur og skipulagður í þaula.

Á blaðamannafundi um mitt ár greindi embættið enn fremur frá tveimur öðrum mjög umfangsmiklum rannsóknum í málaflokknum. Þær voru unnar í samvinnu við önnur lögregluembætti hérlendis og stóðu yfir í langan tíma, eins og gjarnan þegar um var að ræða skipulagða brotastarfsemi. Gripið var til töluverðra aðgerða vegna þessa og var leit framkvæmd á fjölmörgum stöðum, þ.e. í iðnaðarhúsnæði, ökutækjum, á heimilum og sveitabæjum. Við aðgerðir lögreglu var jafnframt lagt hald á mikið magn af fíkniefnum, eða tugi kílóa, auk búnaðar af ýmsu tagi. Fíkniefnin samanstóðu m.a. af kókaíni, amfetamíni, hassi og marijúana. Ekki er þó allt upptalið, en í aðgerðunum var einnig lagt hald á 40 lítra af amfetamínbasa, 20 lítra af MDMA basa og 7 kg af MDMA kristal. Úr því hefði mátt búa til 170 kg af amfetamíni til sölu á götunni og um 250 þúsund e-töflur að því að talið var. Söluandvirði alls þessa  hljóp á milljörðum króna. Eins og fram hefur komið eru rannsóknir vegna skipulagðrar brotastarfsemi oft tímafrekar og það átti sannarlega við um hér. Fram kom á blaðamannafundinum að lögreglu bárust upplýsingar frá tengslaskrifstofu Íslands hjá Europol, sem aflað var úr dulkóðuðum samskiptum árið 2020. Það kom henni á sporið, auk þess sem sérstakur rannsóknarhópur frá  nokkrum lögregluembættum vann að málinu.