Rekstur

Ársskýrsla 2022

Rekstur

Rekstur Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er mikil áskorun ár hvert, en markmið hennar og áherslur hafa verið hin sömu frá upphafi þegar reksturinn er annars vegar; markviss fjármálastjórn og bætt nýting fjármuna. Framtíðarsýn embættisins hefur sömuleiðis verið skýr frá byrjun, eða að verða meðal bestu ríkisstofnana á innlendum vettvangi. Bæði þegar horft er til faglegra þátta og fjárhagslegs rekstrar. Erfitt getur reynst að ná slíkum markmiðum og viðhalda þeim enda hafa mörg ófyrirséð verkefni haft mikil áhrif á rekstur embættisins í gegnum árin. Nægir þar að nefna búsáhaldabyltingu og heimsfaraldur, auk þess sem stytting vinnuvikunnar var sömuleiðis heilmikil áskorun að fást við. Við fyrrnefndar aðstæður er mikilvægt að búa að ábyrgri fjármálastjórn eins og Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur gert.

Áskoranir í rekstri embættisins árið 2022 voru engu minni en áður. Þar má t.d. nefna að stofnanasamningur Landssambands lögreglumanna og lögregluembætta var virkjaður að stórum hluta á árinu. Innleidd voru tímabundin átaksverkefni, sem m.a. var ætlað að auka skilvirkni í móttöku og þjálfun nýrra starfsmanna, straumlínulaga ferla hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og þróa nýjar samskiptaleiðir við borgarana. Allt tímabær verkefni, en þau kostuðu auðvitað sitt. Á sama tíma var unnið að því að tryggja stöðugleika og undirbúa embættið fyrir aðhaldskröfur sem mátti vænta síðar. Samhliða öllu þessu sýndi Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mátt sinn og hélt úti öflugri þjónustu.

Fleira var eflt á árinu og ástæða er til að nefna þar rannsóknir kynferðisbrota, en Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk aukna fjármuni alveg sérstaklega í þennan málaflokk. Stöðugildum var því fjölgað í kynferðisbrotadeild, tæknideild og á ákærusviði með það að markmiði að hraða málsmeðferðartíma við rannsóknir kynferðisbrota. Þetta var mjög mikilvægt, enda er launakostnaður um 85% af heildarkostnaði embættisins. Það er almennt mun hærra hlutfall í samanburði við önnur embætti.

Sömuleiðis er vert að nefna að á árinu framkvæmdi Ríkisendurskoðun skoðun á ársreikningi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hún byggði á bókhaldi embættisins og veittum upplýsingum frá stjórnendum þess. Það er einkar ánægjulegt frá að segja að þar komu fram mjög fáar athugasemdir og er það til vitnis um góða stjórnun í umfangsmiklum og flóknum rekstri Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2022 var ársveltan 7.123,5 m.kr. og afkoma 131,7 m.kr. Þá var hrein eign embættisins 206,2 m.kr. í árslok samkvæmt efnahagsreikningi og eignir samtals 1.709,4 m.kr. Jákvæðri rekstrarafkomu mátti að stærstum hluta þakka niðurstöðu í fjáraukalögum 2021. Ársreikninga Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er að finna á slóðinni https://arsreikningar.rikisreikningur.is/


Útgefandi:
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

Umsjón og ábyrgð:
Upplýsinga-og áætlanadeild, Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson

Myndir:
Júlíus Sigurjónsson/Sandra Sif Ottadóttir/Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson