Helstu verkefni LRH

Ársskýrsla 2022

Helstu verkefni LRH

Baráttan við kórónuveiruna stóð enn yfir þegar árið 2022 gekk í garð, en fljótt fjaraði þó undan heimsfaraldrinum. Samhliða tóku aðgerðir yfirvalda breytingum og í lok febrúar var aflétt öllum takmörkunum, þ.e. bæði innanlands og á landamærum. Snemma árs var því hefðbundið líf komið aftur í eðlilegar skorður, öllum til mikils léttis. Það átti ekki síst við um lögregluna sem sinnti fjölmörgum verkefnum í tengslum við heimsfaraldurinn, en þau bættust við önnur verkefni embættisins sem voru ærin fyrir. Um leið og gleðitíðindunum af baráttunni við kórónuveiruna var fagnað hérlendis bárust fréttir af innrás Rússa í Úkraínu. Stríðið þar hafði mikil áhrif á heimsbyggðina alla, en Úkraínumönnum var m.a. boðið skjól á Íslandi. Fljótlega fóru þeir að streyma hingað og mótmæli urðu daglegt brauð við sendiráð Rússa í Reykjavík. Lögreglan stóð þar vaktina og sá til þess að öryggis væri gætt, en mótmælin voru friðsöm. Úkraínumenn bættust í stóran hóp útlendinga sem þegar voru í leit að betra lífi á Íslandi og óskuðu eftir landvist. Mikið reyndi á yfirvöld og snemma varð yfirálag á landamærum. Móttökumiðstöð umsækjenda um alþjóðlega vernd var starfrækt í Hafnarfirði og þar hafði starfsfólk embættisins í nógu að snúast. Móttökumiðstöðin flutti í stærra húsnæði í Reykjavík nokkrum vikum eftir innrásina í Úkraínu og var það til mikilla bóta.

Þegar litið er yfir árið 2022 eru samt skotárásir og vopnaburður eitt af því sem helst stóð upp úr og verður minnst. Þetta er ekki auðvelt að segja, en var engu að síður sá veruleiki sem blasti við Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hverju er um að kenna skal ósagt látið, en þessa óheillaþróun verður að stöðva með sameiginlegu átaki. Það er ekki auðvelt, en mjög mikið er undir fyrir alla. Skotárásir í umdæminu fengu mikla umfjöllun fjölmiðla, eðlilega, og fólki var brugðið. Ein þeirra var gerð að næturlagi í Grafarholti í Reykjavík fyrri hlutann í febrúar, en þar var skotið á karl og konu utandyra í hverfinu og voru bæði flutt á slysadeild þar sem gert var að sárum þeirra. Örfáum dögum síðar var önnur skotárás gerð í miðborg Reykjavíkur, en sá sem fyrir henni varð náði sjálfur að tilkynna verknaðinn til lögreglu. Hann var fluttur á slysadeild og gekkst þar undir aðgerð, en árásin var gerð að næturlagi utandyra aðra helgina í febrúar þegar skemmtanalífið var í algleymingi. Og að morgni dags í júní heyrðust skothvellir í Hafnarfirði, en þar skaut íbúi fjölbýlishúss á kyrrstæða bifreið sem var staðsett handan við leikskóla. Starfsfólki og börnum á leikskólanum var gert að halda sig innandyra á meðan aðgerðum lögreglu stóð og jafnframt var lokað fyrir alla umferð í nágrenninu. Mikil hætta var á ferð í Hafnarfirði og mildi að enginn lést, rétt eins og í skotárásunum í Reykjavík. Árásarmennirnir voru handteknir og gert að sæta gæsluvarðhaldi, að einum undanskyldum, en sá var vistaður á viðeigandi stofnun.

Fjölmörg önnur ofbeldisbrot komu til kasta Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en tilkynnt var um nálægt 1.400 líkamsárásir. Meira en 200 töldust alvarlegar, en þær áttu sér stað víða í umdæminu. Líkamsárás á skemmtistað í miðborg Reykjavíkur í nóvember vakti þar mesta athygli almennings, en þrír voru stungnir inni á staðnum. Árásarmennirnir voru um þrjátíu talsins, en sextán voru síðan úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Tugir lögreglumanna unnu að rannsókn málsins, sem var í forgangi hjá embættinu, en hún sneri líka að hótunum og skemmdarverkum á húsnæði og hættu sem af því hlaust. Rannsóknin beindist sömuleiðis að því hvort árásin tengdist uppgjöri eða hefndaraðgerðum, en í kjölfar málsins var viðbúnaður lögreglu aukinn. Heildarfjöldi líkamsárása í umdæminu tók annars ekki miklum breytingum frá árinu á undan og átti það við um fleira. Þjófnaðarbrot voru ívið færri árið 2022, eða um 4.000, en um fjórðungur þeirra voru innbrot. Samtals voru hegningarlagabrot nálægt 10.000 og sérrefsilagabrot rúmlega 3.000. Heildarfjöldi allra mála sem var skráður hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var um 70.000 og fækkaði frá árinu á undan. Sveiflur í afbrotatölfræði eru ekki óþekktar á milli ára, en erfitt getur reynst að útskýra af hverju þær stafa. Þetta á t.d. við um kynferðisbrot, en árið 2022 voru meira en 150 nauðganir tilkynntar til embættisins, en voru rúmlega 100 árið á undan. Þá er ótalið, þegar afbrotatölfræði er annars vegar, að eitt manndrápsmál var til rannsóknar, en snemma sumars var karlmanni ráðinn bani í austurborg Reykjavíkur. Árásarmaðurinn var nágranni hins látna.

Rannsóknir sem snúa að skipulagðri brotastarfsemi voru líka fyrirferðamiklar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og fá sífellt meira vægi. Samfélaginu stafar mikil ógn af þess konar brotastarfsemi og á henni verður að taka. Um mitt ár greindi embættið frá tveimur mjög umfangsmiklum rannsóknum í málaflokknum. Þær voru unnar í samvinnu við önnur lögregluembætti hérlendis og stóðu yfir í langan tíma, eins og gjarnan þegar um er að ræða skipulagða brotastarfsemi. Við aðgerðir lögreglu var lagt hald á verulegt magn fíkniefna, en innflutningur og sala þeirra er talinn vera stærsti þáttur í starfsemi þessara glæpahópa. Þar geta líka komið til sögunnar tryggingasvik, fasteignaviðskipti og peningaþvætti, auk mansals og vændis og því ljóst að slíkar rannsóknir verða alltaf tímafrekar. Og áður en sumarið var úti var skýrt frá enn einu málinu er varðaði skipulagða brotastarfsemi, en í því var hald lagt á tæplega 100 kg af kókaíni, sem var falið í vörusendingu á leið til landsins.

Hér hefur verið stiklað á stóru þegar helstu verkefni Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eru nefnd, en þau voru vitaskuld miklu fleiri og um mörg þeirra er fjallað annars staðar í ársskýrslunni. Ekki er þó hægt að ljúka þessum kafla án þess að geta um mjög alvarlegt mál sem kom upp á haustmánuðum. Þá voru menn handteknir í tengslum við rannsókn á ætluðum undirbúningi að hryðjuverkum, en hald var lagt á tugi skotvopna og þúsundir skotfæra vegna málsins. Talið var að mennirnir hefðu haft uppi hótanir og ætlað að skaða tiltekna aðila eða hópa, þ.á.m. lögreglumenn.