Um 30 þúsund ökumenn voru staðnir að hraðakstri á höfuðborgarsvæðinu árið 2019 og voru hinir sömu sektaðir fyrir vikið.
Einhverjir þeirra voru jafnframt sviptir ökuleyfi ef hraðinn var slíkur. Fyrir grófustu hraðakstursbrotin er gefin út ákæra, en slík mál koma upp reglulega. Sérstakur myndavélabíll embættisins var drjúgur sem fyrr, en hann myndaði tæplega 9.000 brot. Hann var á ferðinni flesta daga ársins og gjarnan í íbúðahverfum í umdæminu, ekki síst við grunnskóla. Myndavélabíllinn var þó notaður mjög víða, en gagnsemi hans í gegnum árin er ótvíræð. Þess má geta að embættið fékk nýjan myndavélabíl á árinu, en sá gamli hafði þjónað Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í níu ár. Nýi bíllinn er sá þriðji á starfstíma embættisins, frá sameiningu lögregluliðanna árið 2007, en sektargreiðslur sem ökumenn hafa innt af hendi vegna þessa eftirlits á umræddu tímabili, framreiknað, má telja í fáeinum milljörðum. Rétt er taka fram að sektargreiðslur fyrir umferðarlagabrot, sem og önnur brot, renna í ríkissjóð, en ekki til lögreglunnar eins og sumir halda. Fjölda hraðakstursbrota í umdæminu mátti líka rekja til hraðamyndavéla á stofnbrautum í Reykjavík, þ.e. á Sæbraut og Hringbraut. Sama átti við um hraðamyndavélar Vegagerðarinnar á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi og í Hvalfjarðargöngum, en hátt í 9.000 brot voru mynduð í þessum hraðamyndavélum í útjaðri höfuðborgarsvæðisins. Þar var brotahlutfallið þó lágt, líkt og á fyrrnefndum stofnbrautum. Eins og áður var getið gekk umferðin almennt vel í umdæminu, en ánægjulegustu tíðindi ársins voru vafalaust þau að ekkert banaslys varð í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu árið 2019. Það var mikill viðsnúningur frá árinu á undan, en þá létust sex í umferðarslysum.
Þótt hraðakstursbrotin hafi verið fyrirferðarmikil komu líka mörg önnur umferðarlagabrot á borð Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Um 1.900 voru teknir fyrir fíkniefnaakstur og tæplega 1.200 fyrir ölvunarakstur. Brotunum hefur fjölgað verulega undanfarin ár, sérstaklega fíkniefnaakstur. Fyrir nokkrum árum voru alltaf fleiri teknir fyrir að aka undir áhrifum áfengis heldur en fíkniefna, en það snerist við árið 2014 og hefur haldist síðan. Að aka undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna er ólíðandi með öllu, en embættið hefur lagt mikla áherslu á að stöðva þessa ökumenn og heldur daglega úti slíku eftirliti. Sama má segja um lyfjaakstur, en afleiðingar þess geta sömuleiðis verið skelfilegar. Sumir fyrrnefndra ökumanna voru stöðvaðir í umdæminu oftar en einu sinni, en það átti líka við um þá 1.250 sem voru teknir í akstri þrátt yfir að hafa þegar verið sviptir ökuleyfi. Einhverjir gerðu þetta ítrekað og létu sér ekki segjast. Um 750 ökumönnum var líka gert að hætta akstri, en þeir höfðu aldrei öðlast ökuréttindi.
Um 800 ökumenn voru staðnir að því að aka gegn rauðu ljósi á höfuðborgarsvæðinu árið 2019 og fjölgaði mjög mikið í þeim hópi á milli ára. Stöðubrotum fækkaði hins vegar á sama tímabili og voru um 4.000. Þá ber að nefna að afskipti voru höfð af 2.200 ökutækjum sem voru ýmist ótryggð og/eða óskoðuð, en þeim málum fækkaði aðeins frá árinu á undan. Loks verður að nefna þann hættulega ósið ökumanna að tala í síma á meðan á akstri stendur, en um 1.200 ökuþórar voru teknir fyrir það lögbrot að tala í síma án handfrjáls búnaðar. Sektir fyrir þá háttsemi voru hækkaðar margfalt vorið 2018, eða úr 5 í 40 þúsund. Sama ár fjölgaði þeim verulega sem voru teknir fyrir þessu iðju og sú þróun hélt áfram árið 2019. Margir virðast því láta sig sektir litlu varða.