Opinberar heimsóknir

Ársskýrsla 2019

Fjölmargir, erlendir ráðamenn heimsóttu Ísland á árinu 2019 og var jafnan töluverður viðbúnaður þegar þeir komu til fundarhalda á höfuðborgarsvæðinu.

Það var ekki síst yfir sumarmánuðina og fram á haust, sem opinberar heimsóknir voru áberandi. Úr hópi fyrirmenna sem þá heimsóttu íslenska ráðamenn voru framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, forseti Þýskalands, varaforseti kínverska Alþýðuþingsins, kanslari Þýskalands, forsætisráðherrar Norðurlandanna, varaforseti Bandaríkjanna og forseti Indlands. Mikið mæddi á Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu við komu gestanna, bæði á meðan á þeim stóð og ekki síður í aðdragandanum, en skipulagning slíkra viðburða krefst mikillar vinnu. Þar er að mörgu að hyggja, ekki síst er lýtur að umferðarmálum. Einhverjar tafir voru því óhjákvæmilegar suma daga og í ákveðnum tilvikum þurfti hreinlega að lokum götum, jafnvel klukkutímum saman. Flestir sýndu þessu skilning, en þó voru margir óánægðir og létu vel í sér heyra eins og við mátti búast. Opinberu heimsóknirnar voru misjafnar að umfangi, en heimsókn Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, sló þó öll met. Þá var viðbúnaðurinn slíkur að annað eins hafði ekki sést hérlendis í langan tíma.

Viðhöfð var ströng öryggisgæsla í lofti, á láði og legi, en varaforsetinn kom með flugvél sinni til Keflavíkur og lenti þar um hádegisbil. Hann fékk lögreglufylgd þaðan og að Höfða í Reykjavík og aftur sömu leið að fundinum loknum. Á annað hundrað lögreglumenn frá embættinu stóðu vaktina þennan eftirminnilegan dag, en þeirra hlutverk sneri m.a. að umferðarmálum og svokallaðri ytri gæslu. Þyrla sveimaði yfir borginni á meðan á fundinum stóð og eftirlitsbátur var á siglingu við strandlengjuna, norðan Sæbrautar. Þegar fundinum lauk síðdegis önduðu margir léttar, bæði yfir því hversu vel gekk og eins að þá komst síðdegisumferðin aftur á rétt ról, en heimsóknina bar upp á virkum degi. Áður en varaforsetinn kom í Höfða handtók lögreglan tvo karlmenn á þrítugsaldri neðan við gatnamót Sæbrautar og Katrínartúns, en mennirnir höfðu kveikt í þjóðfána Bandaríkjanna. Þeir voru færðir á lögreglustöð, en sleppt eftir skýrslutöku. Um athæfið sögðust mennirnir hafa verið að lýsa yfir andstöðu sinni við skoðanir varaforsetans. Karlmaður á fertugsaldri var svo handtekinn að fundinum loknum í Höfða, en þá hafði verið opnað fyrir umferð í Borgartúni sem annars staðar. Maðurinn, sem var í annarlegu ástandi, hugðist þá leggja bifreið sinni í stæði gegnt Höfða og var trúlega lítt meðvitaður um atburðarás dagsins og þá staðreynd að fjöldi lögreglumanna var á svæðinu.

Lokanir gatna þennan dag voru víðtækar í nágrenni Höfða og átti það m.a. við um Sæbraut í marga klukkutíma. Sama gilti um Reykjanesbraut í gegnum umdæmið, en hún var þó einvörðungu lokuð á meðan varaforsetinn þurfti að komast leiðar sinnar. Á meðan fundinum stóð var í gildi tímabundið bann við drónaflugi á afmörkuðu svæðí, en það var gefið út í samræmi við reglugerð um starfrækslu  fjarstýrðra loftfara. Við framkvæmd aðgerða Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu naut hún liðsinnis ýmissa aðila enda þurfa margir að koma að svo stóru verkefni svo það geti gengið snurðulaust fyrir sig. Þess má geta að á fundardeginum í Höfða var boðað til mótmæla á Austurvelli vegna komu varaforsetans og fóru þau mjög friðsamlega fram.