Samstarfs- og þróunarverkefni

Ársskýrsla 2019

Snemma árs fór af stað nýtt samstarfs- og þróunarverkefni Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Hafnarfjarðarbæjar, en því var ætlað að efla samvinnu þeirra í málefnum barna og unglinga.

Um var að ræða tilraunaverkefni til eins árs, en það tók m.a. til barnaverndarmála, heimilisofbeldis og forvarnastarfs. Embættið lagði til lögreglumann og hafði hann aðsetur í Ráðhúsi Hafnarfjarðar, en verkefnið fékk úthlutað 3 m.kr. styrk úr Lýðheilsusjóði í mars. Undirbúningur stóð yfir um hríð, en reynslan sýndi að þverfaglegt samstarf væri líklegra til árangurs. Horft var jafnframt til þess að unnið yrði að afbrotavörnum í víðu samhengi, að fulltrúi lögreglunnar og starfsmenn sveitarfélagsins, sem hefðu með málefni barna og ungmenna að gera, ættu með sér nána samvinnu. Allt þetta gekk eftir og samstarfið heppnaðist eins og best verður á kosið. Sérstakur bakhópur var settur á laggirnar og studdi hann dyggilega við verkefnið og lagði línurnar fyrir starfið, en í honum sátu fulltrúar frá bæði Hafnarfjarðarbæ og lögreglunni. Embættið kom einnig á fót starfshópi, sem var ætlað að miða að því að gera verkferla þess skilvirkari í málum tengdum börnum og ungmennum.

Verkefnin reyndust vera mörg og margvísleg, en bakhópurinn fékk t.d. það hlutverk að sporna gegn því að börn leiddust út í notkun vímuefna. Það er ærið verkefni eins og allir vita og verður ekki unnið á einum degi. Einnig að þróa forvarnarstarf til lengri tíma og að samræma verklag skólanna í bænum þegar afbrot ættu sér stað á skólatíma. Með því átti að tryggja að allir nytu sömu þjónustu lögreglunnar þegar svo bar undir. Verkefnalistinn var langur, en strax var ljóst að mikil þörf var á samstarfi embættisins og Hafnarfjarðarbæjar á þessu sviði. Á tímabilinu vann fulltrúi lögreglunnar með mörgum aðilum innan sveitarfélagsins, ekki síst með starfsmönnum barnaverndar og voru þeir mjög ánægðir með fyrirkomulagið. Nefnt var að lögregluskýrslur, varðandi barnaverndarmál og heimilisofbeldi,  bærust fyrr en áður og því væri hægt að bregðast fyrr við og veita skjólstæðingunum betri þjónustu. Þá jókst upplýsingagjöf á milli aðila og var það sömuleiðis til mikilla bóta. Ráðgjöf og aðstoð af hálfu lögreglunnar í ýmsum málum varð fljótfengin enda boðleiðin stutt.

Samskipti við grunnskólana í bænum voru mikil, en þau fólust þó ekki í skipulagðri forvarnarfræðslu eins og lögreglan stóð fyrir hér í eina tíð. Fulltrúi lögreglunnar kom meira þegar í hann var kallað vegna mála sem komu upp og þurfti að taka á. Þar gat verið um að ræða ofbeldisbrot eða ítrekuð skemmdarverk. Þá var farið í skólastofurnar og rætt við nemendurna, en á árinu voru félagsmiðstöðvarnar líka heimsóttar og jafnvel leikskólar. Sömuleiðis var fundað með foreldrum um málin almennt og líka vegna tiltekinna mála. Þau gátu verið eins ólík og þau voru mörg, en einhver snéru að fötluðum einstaklingum sem höfðu orðið fyrir ofbeldi af einhverju tagi. Málefni innflytjenda komu líka á borð fulltrúa lögreglunnar í þessu samstarfs- og þróunarverkefni. Það sýndi líka fjölbreytta flóru verkefna sem við er að eiga hjá sveitarfélögunum í umdæminu, svona rétt eins og hjá lögreglunni sjálfri.