Brunar og íkveikjur

Ársskýrsla 2019

Stórbruni varð í Hafnarfirði í lok júlí, en þá kviknaði í iðnaðarhúsnæði í Fornubúðum.

Eldurinn kom upp um miðja nótt og var mikill í vestari hluta hússins, en slökkvistarfið, sem stóð yfir klukkutímum saman, miðaði m.a. að því að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu hans. Nokkur fyrirtæki tengd sjávarútvegi voru með starfsemi í húsinu, en rannsóknarstofa var í því miðju. Mikið tjón varð í brunanum, bæði á búnaði og öðru innandyra sem og húsinu sjálfu, en þak þess var fjarlægt að stórum hluta. Vinnuvél var notuð til að auðvelda slökkvistarf og fjarlægði hún brak á vettvangi. Það var lán í óláni að veðrið var með þokkalegasta móti í Hafnarfirði þessa nótt og því þurfti ekki að rýma íbúðarhús, sem eru þarna í nágrenninu. Það torveldaði eldsupptakarannsókn lögreglu að sá hluti húsnæðisins, þar sem eldurinn kom upp, var albrunninn og mikið af braki var fjarlægt á meðan á slökkvistarfi stóð. Ekki var því á ummerkjum að sjá hvað olli eldsupptökum. Þrátt fyrir tjónið slasaðist enginn og það er alltaf fyrir mestu. Nokkrum mánuðum seinna, að næturlagi undir lok október, fór því miður ekki svo vel þegar eldur kviknaði í kjallaraíbúð í Mávahlíð í Reykjavík. Þrír voru innandyra og komst einn þeirra sjálfur út úr íbúðinni. Hinir, karl og kona á þrítugsaldri, slösuðust lífshættulega í brunanum. Eldurinn kviknaði í potti á eldavélarhellu.

Eldavélarhellur komu við sögu í fleiri málum, en í byrjun febrúar kviknaði eldur út frá heitri hellu á eldavél í leikskóla í Árbænum. Fljótt og vel gekk að ráða niðurlögum eldsins, en rúmlega 50 börn og starfsmenn voru í húsinu þegar hann kom upp. Viðbragðsáætlun leikskólans var strax virkjuð og vel gekk að koma öllum út. Reyndar voru börnin misvel búin, en nágrannar voru fljótir að bjóða fram aðstoð sína og skutu skjólshúsi yfir þau. Börnin voru síðan færð í safnaðarheimili Árbæjarkirkju og sótt þangað af forráðamönnum. Engan sakaði, en dagurinn líður þeim og starfsmönnum leikskólans væntanlega seint úr minni. Þótt gáleysi hafi iðulega verið um að kenna þegar brunar voru annars vegar var svo ekki í öllum tilvikum. Snemma vors kviknaði í skólabyggingu í Breiðholti og þar var niðurstaða lögreglu að eldsupptök voru íkveikja af mannavöldum. Um mikið tjón var að ræða, en athyglin beindist fljótlega að ungum gerendum. Málið var upplýst, en þeim sem áttu hlut að máli var ekki gerð refsing enda voru þeir ósakhæfir sökum ungs aldurs.