Ungmenni í vanda

Ársskýrsla 2019

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust rúmlega 200 leitarbeiðnir að ungmennum á árinu 2019, en beiðnunum fækkaði nokkuð á milli ára.

Mun oftar var leitað að piltum en stúlkum og var því alveg öfugt farið miðað við árið á undan. Samtals komu í kringum sjötíu einstaklingar við sögu í málunum, en lítill munur var á kynjunum í þessum efnum. Að sumum þeirra var leitað oftar en einu sinni, jafnvel margítrekað. Þótt leitirnar færu jafnan ekki hátt þurfti þó í einstaka tilvikum að leita aðstoðar björgunarsveita við þær. Embættið hefur jafnframt gripið til þess ráðs að auglýsa eftir þeim í fjölmiðlum, en ekki kom þó til þess á árinu. Leitað var að ungmenna alla mánuði ársins og stundum nær daglega. Flestar leitarbeiðnir bárust í maí, eða 25, og fæstar í júlí, eða 11. Fjóra mánuði ársins voru leitarbeiðnirnar fleiri en 20 og segir það sitthvað um fjölda ungmenna í vanda. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt mikla áherslu á málefni þeirra undanfarin ár og var full ástæða til eins og dæmin sanna. Einn lögreglumaður hefur helgað sig leitarstarfinu, en notið aðstoðar annarra þegar við á, og hefur sá haft meira en nóg að gera við að sinna þessu mikilvæga verkefni.

Þótt ungmennin finnist og sé komið í viðeigandi úrræði er vandræðum þeirra ekki þar með endilega lokið. Beina brautin reynist mörgum erfið og grátlega margir falla aftur í sama farið með tilheyrandi vímuefnaneyslu. Á árinu leitaði lögreglan aftur að stúlku sem hafði margoft komið við sögu hennar í slíkum málum, en náð sér ágætlega á strik í talsverðan tíma. Þegar stúlkan fannst var hún því miður komin í sama farið og áður. Í árslok var enn fremur á borði lögreglunnar mál pilts, sem hún hafði ítrekað leitað uppi á árinu. Þá var hann kominn til útlanda, en hafði stungið þar af frá forráðamönnum sínum. Hann fannst um sólarhring síðar og hafði þá ratað í mikil vandræði. Við 18 ára aldur hættir slíkum afskiptum lögreglunnar af ungmennum, en málafjöldinn er áfram í hundraðatali. Ný andlit taka við af þeim gömlu, en árið 2019 var leitað að 36 ungmennum sem höfðu ekki áður komið við sögu hjá embættinu.