Jafnréttismál

Ársskýrsla 2019

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur tekið jafnréttismál æ fastari tökum undanfarin misseri og merki þess eru vel greinileg.

Hjá embættinu er til staðar jafnréttisáætlun, sem gildir fyrir tímabilið 2019-2022, og eftir henni var unnið. Þróunin stefnir því í rétta átt og árið 2019 voru áfram stigin stór skref í átt að auknu jafnrétti og bættum kynjahlutföllum. Sá merki áfangi náðist á árinu að hlutfall starfandi lögreglukvenna hjá embættinu fór í 30,5%. Í lögregluliðinu voru þá 97 konur og 221 karl. Það er ekki síður athyglisvert í ljósi þess að í löggæsluáætlun stjórnvalda, sem gildir fyrir tímabilið 2019-2023, er stefnt að því að hlutfall kvenna á meðal lögreglumanna nái 30% á landsvísu fyrir árið 2023. Þótt Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi náð góðum árangri í þessum efnum á tiltölulega stuttum tíma þá vill hún gera enn betur. Það gildir ekki síst um stjórnunar- og áhrifastöður innan embættisins, en stefnt er að hærra hlutfalli lögreglukvenna á þeim vettvangi. Þar hefur líka miðað í rétta átt, en betur má ef duga skal. Jafnréttisáætlunin var endurskoðuð í árslok og aðgerðaráætlun hennar uppfærð.

Unnið var á fleiri sviðum jafnréttismála og þar bar hæst jafnlaunavottun, sem vinnur gegn kynbundnum launamun. Jafnlaunavottun á að tryggja að konur og karlar fái jöfn laun og njóti sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Vottunin felur í sér að Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tileinkar sér ákveðið vinnulag við launavinnslu og launaákvarðanir, sem byggir á fyrirfram ákveðnum staðli. Gerð var forúttekt jafnlaunavottunar hjá embættinu seint á árinu og reyndust flestir þættir hennar vera í góðu lagi og án athugasemda. Að síðustu má nefna Jafnréttisvísi, verkefni sem unnið var með Capacent, og snýst um stefnumótun og vitundarvakningu í jafnréttismálum. Í því felst að meta stöðu jafnréttismála út frá ítarlegri greiningarvinnu. Enn fremur að koma á breytingaverkefnum til að bæta stöðu jafnréttismála og innleiða þau. Síðla árs voru haldnir vinnufundir vegna þessa með starfsfólki embættisins þar sem unnið var að úrbótahugmyndum.