Óvenjuleg verkefni

Ársskýrsla 2019

Það hendir marga að misstíga sig á lífsins leið og sumir þeirra koma við sögu hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er fólk á öllum aldri, en málin eru eins misjöfn og fólkið er margt.

Karlar eiga oftar hlut að máli og þá frekar þeir yngri en eldri. Ekkert er þó algilt í þessum efnum og jafnvel eldri borgarar komast í kast við lögin, þótt ekki séu þeir daglegir gestir hjá lögreglunni. Á seinni hluta ársins vöknuðu grunsemdir um refisverða háttsemi karls og konu, sem bæði voru á áttræðisaldri, og voru þau handtekin í umdæminu í október. Uppi var rökstuddur grunur um aðkomu þeirra að peningaþvætti og broti á lögum um útlendinga og voru bæði úrskurðuð í gæsluvarðhald að kröfu embættisins. Jafnframt var grunur um að karlinn og konan, sem bæði voru erlendir ríkisborgarar, tengdust smygli á fólki og Ísland hafi verið viðkomustaður á þeirri leið. Framkvæmd var húsleit að undangengnum dómsúrskurði á dvalarstað þeirra á höfuðborgarsvæðinu, en þar var m.a. lagt hald á verulega fjármuni.

Svokallað Spice, efni sem telst til nýmyndaðra kannabínóíða, fannst í rafrettum hjá unglingum á höfuðborgarsvæðinu á seinni hluta ársins. Þetta var mikið áhyggjuefni og því vakti embættið athygli á málinu og hvatti forráðmenn barna og unglinga til að vera á varðbergi. Efnið er nánast lyktarlaust, en á meðal skammtímaáhrifa þess eru mikil gleði og ánægja. Aukinn hjartsláttur, hár blóðþrýstingur, ofskynjanir, ofsóknaræði, kvíðaköst og árásargirni eru hins vegar á meðal alvarlegra aukaverkana af notkun efnisins. Um haustið höfðu fjölmiðlar fjallað um Spice og greindu frá notkun þess á meðal fanga á Litla-Hrauni, en talið er að efnið hafi verið nokkuð lengi að berast hingað. Full ástæða var samt til að hafa áhyggjur af þróun mála, en notkun efnisins var mikið vandamál annars staðar, t.d. á Bretlandi. Það var hegðun unglinganna sem leiddi til afskipta af þeim í umdæmi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og var lagt hald á rafrettur. Veipvökvinn úr þeim var rannsakaður á rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði og reyndist hann innhalda Spice, auk nikótíns. Málið var unnið í samráði við barnaverndaryfirvöld.

Vond veður eru engin nýlunda á Ísland enda hafa landsmenn mátt búa við illviðri svo lengi sem elstu menn muna. Þau skella á með reglulegu millibili og þá er vissara að vera vel undirbúinn og koma hlutum í skjól sem geta auðveldlega fokið, t.d. trampólínum og garðhúsgögnum svo fátt eitt sé nefnt. Það er hins vegar harla óvenjulegt að gefin sé út appelsínugul veðurviðvörun fyrir umdæmið þegar óveður er í aðsigi. Sú var þó raunin skömmu fyrir jól, en þá brast á mikið óveður á landinu öllu. Íbúar á höfuðborgarsvæðinu máttu þó hrósa happi þegar upp var staðið því veðrið, sem var sannarlega mjög vont, var þó sýnu verra annars staðar á landinu. Aðgerðastjórn höfuðborgarsvæðisins var virkjuð þennan dag, en svo er ávallt gert þegar mikið liggur við. Á það bæði við um þegar alvarlegir atburðir kunna að vera yfirvofandi eða hafa þegar átt sér stað. Annars var veðrið í umdæminu á köflum með leiðinlegasta móti og lék íbúana stundum grátt á árinu. Lögreglumenn sinntu mörgum útköllum vegna þessa og þá gaf embættið út ófáar veðurviðvaranir í miðlum sínum.

Nú á dögum kjósa flestir að nota heimabankann þegar greiðslur reikninga eru annars vegar og þannig spara sér tíma sem annars færi í útréttingar. Þetta er þó ekki algilt, en í apríl kom á lögreglustöðina á Hverfisgötu í Reykjavík ökumaður sem hafði verið staðinn að hraðakstri. Sá vildi gera hreint fyrir sínum dyrum og borga sektina umbúðalaust. Hann var með reiðufé meðferðis og mikið af því. Hraðasektir eru þó sjaldnast borgaðar með brosi á vör og það getur jafnvel verið þungt hljóðið í fólki þegar það kemur þessara erinda á lögreglustöð. Töluverð þyngsli áttu líka við í þessu tilviki, en samt í annarri merkingu orðanna, því að smámyntin, sem maðurinn bar í hús, og var notuð til að borga sektina, vó mörg kíló. Þótt embættinu, rétt eins og öðrum stofnunum, beri ekki skylda til að taka á móti smámynt var það engu að síður gert, en síðan fóru starfsmenn þess með peningana í talningavél í næsta banka. Upphæðin reyndist duga fyrir hraðasektinni og rúmlega það, en mismunurinn var auðvitað lagður samviskulega inn á reikning ökumannsins.

Íslendingar eru ýmsu vanir þegar erlendar poppstjörnur eru annars vegar enda hafa ófáir úr þeirra röðum haldið tónleika hérlendis. Englendingurinn Ed Sheeran bættist í þann hóp eftir verslunarmannahelgina, en um sannkallaða risatónleika var að ræða. Um 50 þúsund manns mættu á Laugardalsvöll og hlýddu á goðið, sem bauð upp á tvenna tónleika aðra helgina í ágúst. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stóð vaktina báða tónleikadagana og hafði uppi töluverðan viðbúnað. Loka þurfti nokkrum götum vegna tónleikanna, m.a. Suðurlandsbraut sem var lokuð fyrir umferð báða dagana frá því síðdegis. Einnig var gefið út bann við því að fljúga drónum á tónleikasvæðinu og í nágrenni þess og gilti það frá hádegi á laugardegi til miðnættis á sunnudagskvöld. Báðir tónleikarnir heppnuðust svo einstaklega vel og engin teljandi vandamál komu upp meðan á þeim stóð. Tónleikagestir voru til mikillar fyrirmyndar og samstarf lögreglunnar og þeirra sem komu að skipulagningu viðburðarins var enn fremur mjög gott.