Lögreglan og samfélagsmiðlar

Ársskýrsla 2019

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er sífellt að leita leiða til að bæta þjónustuna og efla tengslin við almenning, ekki síst við unga fólkið.

Þar leika samfélagsmiðlar stórt hlutverk og það hefur embættið nýtt sér óspart, en nýjasta viðbótin í þeim efnum var Instagramsíðan Samfélagslöggur, sem var farið af stað með á fyrri hluta ársins. Henni stýrðu þrír reyndir lögreglumenn, en vilji þeirra var að færa lögregluna nær samfélaginu og styrkja tengsl hennar við ungt fólk sérstaklega. Tveir þessara lögreglumanna störfuðu á lögreglustöðinni í Kópavogi og sá þriðji var fulltrúi embættisins í samstarfs- og þróunarverkefni þess með Hafnarfjarðarbæ, sem lesa má um annars staðar í ársskýrslunni. Tilgangurinn með Instagramsíðunni var ekki síst að miðla áhugaverðu efni sem varð á vegi þremenninganna. Þar var af nógu að taka enda er enginn dagur eins í lífi lögreglumannsins. Þessu til viðbótar hafa tveir aðrir lögreglumenn í Reykjavík, annar á lögreglustöðinni á Hverfisgötu og hinn á Vínlandsleið, verið með sérstakar fésbókarsíður til að eiga samskipti við fólk í ákveðnum hverfum. Það hefur sömuleiðis gefið góða raun.

Um fésbókarsíðu embættisins þarf ekki að hafa sérstaklega mörg orð, en velflestir þekkja til hennar. Síðunni hefur verið haldið úti í um níu ár, en ákveðið var að setja hana í loftið í árslok 2010. Um það voru skiptar skoðanir og sitt sýndist hverjum um þetta framtak lögreglunnar á þeim tíma. Efasemdarmönnum fækkaði þó með árunum og nú þykir sjálfsagt að lögreglan sé þátttakandi á þessum vettvangi. Fylgjendum Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á fésbókinni hefur fjölgað mikið í gegnum tíðina, en í árslok höfðu um 90 þúsund manns líkað við síðu embættisins. Fáir sáu þróunina fyrir í upphafi, en fjölda fylgjenda merkir væntanlega að embættið er að gera eitthvað rétt á þessum vettvangi og ætlunin er að halda því áfram. Þess má enn fremur geta að árið 2019 bárust Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu um 25 þúsund einkaskilaboð í gegnum fésbókarsíðu embættisins og segir það sína sögu. Þeim er jafnað svarað innan fjögurra klukkustunda af starfsmönnum embættisins og starfsmönnum fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra.

Við sérstakar aðstæður er haldið úti vakt á fésbókarsíðunni, t.d. ef óveður geisar í umdæminu líkt og gerðist í árslok. Þá er mikilvægt að geta komið skilaboðum hratt og örugglega til almennings, en við þær aðstæður hefur fésbókarsíðan margsannað gildi sitt. Miðillinn hefur líka reynst mjög vel við leit að fólki, en upplýsingar frá almenningi koma lögreglu iðulega á sporið í slíkum málum sem öðrum. Mikilvægt er þó að undirstrika að sé óskað eftir skjótri aðstoð lögreglu skal hins vegar ávallt hringja í 112, en það vill stundum gleymast. Að síðustu má geta þess að Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lætur líka til sín taka á öðrum samfélagsmiðlum. Hún er einnig á Instagram, til viðbótar fyrrnefndum Samfélagslöggum, en þar eru fylgjendur lögreglunnar um tvöfalt fleiri heldur en á fésbókinni. Embættið er sömuleiðis á Twitter og hefur í allnokkur skipti haldið úti svokölluðu Löggutísti í samstarfi við önnur lögregluembætti.