Viðhorfskönnun

Ársskýrsla 2019

Öryggiskennd íbúa á höfuðborgarsvæðinu í eigin hverfi mældist svipuð og undanfarin ár, en u.þ.b. níu af hverjum tíu segjast öruggir einir á gangi í eigin hverfi eftir myrkur.

Þegar spurt var um miðborgina sérstaklega sagðist um helmingur íbúa í umdæminu telja sig örugga eina á gangi þar eftir að myrkur er skollið á, eða eftir miðnætti um helgar. Þetta er sömuleiðis svipað hlutfall og í könnunum síðustu ára, en Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lætur framkvæma þær árlega og hefur svo verið gert í allmörg ár. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands sá um framkvæmdina, en viðhorfskönnunin árið 2019 fór fram um mitt sumar. Úrtakið náði til 2.000 manns og var svarhlutfallið tæplega 55%, en stuðst var við netpanel eins og jafnan áður. Niðurstöðurnar gefa embættinu mikilvægar vísbendingar um það sem vel gengur og líka það sem þarf mögulega að bæta í starfseminni. Áhugavert var að sjá mismunandi viðhorf eftir aldri og kyni, sem var mjög greinilegt við ákveðnum spurningum. Áhyggjur af brotum voru t.d. minnstar hjá ungu fólki á aldrinum 26-35 ára.

Innbrot voru þau brot sem flestir töldu vera mesta vandamálið í sínu hverfi, en þjófnaðir og eignaspjöll voru líka nefnd til sögunnar. Meirihluti svarenda upplifði aðstæður á einhverjum tímapunkti þannig að þeir töldu líklegt að þeir yrðu fyrir afbroti. Hátt í fimmtungur kvenna, eða 18%, tiltók kynferðisbrot, sem það brot sem þær höfðu mestar áhyggjur að verða fyrir. Hjá körlunum nefndu hins vegar 1% kynferðisbrot. Um þriðjungur þátttakenda hafði orðið fyrir afbroti og vísuðu flestir til eignaspjalla. Þar á eftir voru nefndir þjófnaðir og innbrot. Marktækur munur var eftir búsetu svarenda, en Garðbæingar höfðu mestar áhyggjur af innbrotum á meðan Kópavogsbúar sögðu umferðarlagabrotin vera helsta vandamálið í þeirra heimabæ. Árbæingar og Breiðhyltingar nefndu hins vegar eignaspjöll sem aðal vandamálið á þeirra slóðum. Frekari upplýsingar um viðhorfskönnunina er að finna á lögregluvefnum.