Undanfarin misseri hefur Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lagt aukna áherslu á rannsóknir mála er tengjast skipulagðri brotastarfsemi, en hún teygir anga sína víða.
Fíkniefnamál og peningaþvætti heyra þar undir, en enginn skortur var á slíkum málum árið 2019. Rannsóknir þeirra taka jafnan töluverðan tíma enda málin oft umfangsmikil. Eitt slíkt var til rannsóknar um mitt ár og sátu fjórir karlmenn um tíma í gæsluvarðhaldi vegna þessa. Málið snéri m.a. að framleiðslu fíkniefna og peningaþvætti, en ráðist var í níu húsleitir í þágu rannsóknarinnar. Alls voru sjö handteknir í tengslum við málið og því var um mjög viðamiklar aðgerðir að ræða. Lagt var hald á verulegt magn af amfetamíni, auk marijúana. Þá tók lögreglan enn fremur í sína vörslu ógrynni af búnaði og lagði hald á fjármuni, sem grunur lék á að væru tilkomnir vegna fíkniefnasölu. Um svipað leyti ársins var annað mál til rannsóknar þar sem einnig var um að ræða fíkniefni og peningaþvætti. Þrír voru handteknir í þágu rannsóknarinnar og úrskurðaðir í gæsluvarðhald, en lagt var hald á um 3 kg af amfetamíni, auk kókaíns og e-taflna. Vegna málsins voru kyrrsettar eignir, en grunur var um að tilurð þeirra mætti rekja til ágóða af brotastarfsemi.
Við rannsóknir á skipulagðri brotastarfsemi, rétt eins og í öðrum málum, eiga lögregluliðin í landinu með sér mjög gott samstarf. Fleiri koma líka að þegar svo ber undir, t.d. tollyfirvöld, en í júlí voru tveir handteknir í umfangsmiklum aðgerðum lögregluliðanna á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum og tollyfirvalda gegn innflutningi og sölu á ólöglegum lyfjum og sterum. Lagt var hald á 1.100 ambúlur og 11.565 steratöflur, en málið var hluti af aðgerðum sem tengdust Europol og stóðu yfir frá miðjum janúar og fram í byrjun maí. Um var að ræða sendingar sem reynt var að smygla til landsins með flugi og í pósti, en alls voru þetta ellefu tilvik. Snemma árs unnu líka lögregluliðin á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum að rannsókn umfangsmikils fíkniefnamáls, sem teygði anga sína aftur til ársins 2017. Málið sneri að sjö tilvikum á árunum 2017 og 2018 þar sem kókaín var flutt til Íslands með farþegaflugi um Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvöll, auk innflutnings með póstsendingum. Samtals var um 3 kg af kókaíni að ræða, en rannsóknin varðaði einnig peningaþvætti.Tveir karlmenn voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna málsins, en athygli vakti að annar þeirra, meintur höfuðpaur, var handtekinn á Litla-Hrauni þar sem hann var að afplána dóm.
Fíkniefnabrotum hjá embættinu fækkaði annars á milli ára, en árið 2019 voru þau um 1.400. Flest þeirra vörðuðu vörslu og meðferð ávana- og fíkniefna, eða tæplega 1.100. Málum vegna flutnings fíkniefna milli landa fækkaði hlutfallslega mest, en þau voru rúmlega 70. Þegar kom að málum um framleiðslu fíkniefna voru þau ámóta mörg á milli ára, en málum sem snéru að sölu og dreifingu fíkniefna fjölgaði hins vegar frá árinu á undan og voru í kringum 160 árið 2019. Sveiflur hafa verið í málaflokknum, einkanlega hvað varðar haldlagningu fíkniefna og þess sáust merki. Lagt var hald á tæplega 27 kg af marijúana, sem er töluvert minna en árið 2018. Það var reyndar algjört metár í haldlagningu á marijúana og ágætt að hafa það í huga. Töluvert minna var líka haldlagt af kókaíni í samanburði við árið á undan, en þessu var hins vegar alveg öfugt farið þegar amfetamín var annars vegar. Tæplega 16 kg af amfetamíni voru haldlögð af Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu árið 2019. Af öðrum fíkniefnum sem voru tekin í vörslu lögreglu má nefna hass, metamfetamín, e-töflur og LSD.