Kynferðisbrot og heimilisofbeldi

Ársskýrsla 2019

Rannsóknir kynferðisbrota gengu almennt vel árið 2019, en árið á undan var gerð sérstök gangskör að því að stytta málsmeðferðartíma þeirra.

Sú vinna hefur skilað sér, en henni var enn fremur ætlað að tryggja gæði rannsókna og hefur það gengið eftir. Samhliða er sérhæfð kærumóttaka hjá embættinu vegna kynferðisbrota og hefur það sömuleiðis gefist vel, en þar er veitt meiri þjónusta en áður. Tilkynningum um kynferðisbrot fjölgaði annars nokkuð á milli ára, en þar réði mestu að töluvert var tilkynnt um kynferðislega áreitni og vændiskaup. Eins og áður var fjöldi kynferðisbrota til rannsóknar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, m.a. á annað hundrað nauðganir. Engu að síður voru mun færri nauðganir tilkynntar til lögreglu en árið á undan. Sama var að segja um kynferðisbrot gegn börnum, þeim fækkaði verulega á milli ára.

Vændismálum fjölgaði hins vegar á sama tímabili enda lagði embættið aukinn kraft í rannsóknir mála er snúa að skipulagðri brotastarfsemi. Mansal og vændi eru einmitt ein birtingamynd þess, en í maí og júní voru t.d. vændismálin samanlagt um 40. Áherslan á málaflokkinn var tilkomin vegna aukins svigrúms með mannafla og tíma lögreglunnar og tölurnar endurspegluðu það. Athygli vakti að 94% þeirra sem voru staðnir að verki við vændiskaup þarna snemma sumars voru íslenskir karlmenn, en meðalaldur þeirra var 41 ár. Þeir sem stunduðu vændið voru mest megnis erlendar konur, en sumar þeirra virtust koma hingað ítrekað þessara erinda.

Mörg kynferðisbrotanna sem voru til meðferðar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu voru eðlilega til umfjöllunar í fjölmiðlum og oft var fólk slegið óhug. Það átti ekki síst við á haustmánuðum, en í byrjun september var lögreglan kölluð að grunnskóla í Reykjavík þar sem tilkynnt var um karlmann á þrítugsaldri sem hafði brotið gegn nemanda í skólanum. Um hálfum mánuði síðar var annar karlmaður, nokkru eldri, handtekinn í menntastofnun á háskólastigi annars staðar í borginni. Brot hans voru ekki síður ógeðfelld, en nokkrir nemendur þar urðu fyrir barðinu á manninum. Hálfgerð ringulreið ríkti í skólanum þegar lögreglan kom á vettvang enda margir nemendanna í uppnámi. Í mánuðinum á eftir var svo karlmaður á fertugsaldri úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna grunsemda um að hafa brotið á unglingsstúlku í heimahúsi í Mosfellsbæ. Og í sama mánuði var annar karlmaður á svipuðum aldri handtekinn eftir að hafi barið og nauðgað konu í vesturbæ Reykjavíkur. Hann var einnig úrskurðaður í gæsluvarðhald og síðan dæmdur í héraðsdómi í fimm ára fangelsi fyrir verknaðinn.

Ekkert lát var heldur á tilkynningum um heimilisofbeldi, en þær voru rúmlega 700 árið 2019. Á meðal úrræða fyrir brotaþola er að fara í Bjarkarhlíð, sem er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, og fá aðstoð og ráðgjöf. Þangað komu rúmlega 550 manns í fyrsta viðtal á árinu, en í Bjarkarhlíð eru starfsmenn frá ýmsum stofnunum og félagasamtökum, auk fulltrúa lögreglu en til hans kom meira en fimmtungur allra þeirra brotaþola sem heimsóttu miðstöðina. Með heimilisofbeldi er átt við ofbeldi milli skyldra aðila, en oft eru þetta ljótustu málin, ef svo má að orði komast, sem koma á borð lögreglunnar. Eitt þessara mála var til rannsóknar hjá embættinu seinni hlutann í október, en þá var karlmaður um tvítugt handtekinn eftir að hafa gengið í skrokk á fyrrverandi kærustu. Árásin var hrottaleg og hlaut konan margvíslega áverka, en hún mun áður hafa þurft að þola barsmíðar af hendi mannsins. Þar á undan hafði árásarmaðurinn átt aðra kærustu og mátti hún búa við slíkt hið sama.