Líkamsárásir

Ársskýrsla 2019

Nálægt 1.200 líkamsárásir voru tilkynntar til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu árið 2019.

Rétt innan við 1.000 töldust minni háttar, en tæplega 200 voru meiri háttar líkamsárásir. Fjöldi  ofbeldisbrota í umdæminu hefur verið nokkuð svipaður undanfarin ár, en þau voru samt ívíð færri árið 2019 en árið á undan. Fækkunin var þó ekki mikil og raunar eru það ákveðin vonbrigði að ekki dragi úr líkamsárásum svo neinu nemi. Til að svo megi verða þarf að grípa til aðgerða og það hefur verið gert að ákveðnu marki. Þar má sérstaklega nefna fjölgun öryggismyndavéla og áhersla á aukið viðbragð og sýnileika lögreglunnar. Þær aðgerðir hafa beinst að miðborginni sérstaklega enda eru líkamsárásir fylgifiskur skemmtanalífsins, því miður. Fjöldi meiri háttar líkamsárása (218. gr. alm. hegningarlaga) var annars svo gott sem óbreyttur á milli ára, en minni háttar líkamsárásum fækkaði lítillega. Árásirnar áttu sér stað víða á höfuðborgarsvæðinu og voru ekki síður alvarlegar en þær sem tilkynnt var um í miðborginni. Vandinn er því víðtækur og er ekki einvörðungu bundinn við eitt hverfi, fjarri því. Og þótt líkamsárásir væru gjarnan fleiri um helgar heldur en virka daga voru engir dagar undanskildir í þeim efnum.

Fjölmörg ofbeldisbrot voru því til rannsóknar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í hverjum mánuði, oft meira en 100 líkamsárásir. Ágúst, september og nóvember voru verstu mánuðirnir hvað þetta varðar, en þá voru málin í kringum 120. Líkamsárásir voru færri á fyrri helmingi ársins í samanburði við þann seinni, en þá voru nokkrir mánuðir þar sem málafjöldinn var undir 100. Oftast var tilkynnt um meiri háttar líkamsárásir í ágúst, næstum daglega, en sjaldnast í október þegar málin voru færri en 10. Minni háttar líkamsárásir voru hins vegar flestar í september, tæplega 100, en fæstar í febrúar, rúmlega 60. Ekkert morð var framið í umdæminu árið 2019 og telst það jafnan til góðra tíðinda, en þetta var í fimmta sinn á starfstíma embættisins sem svo háttar til innan ársins og er mikilvægt að halda því til haga. Oft mátti reyndar litlu muna að illa færi, en hending getur ráðið um afleiðingar hnefahöggs eða hnífstungu. Að því leytinu hefði árið getað verið verra, en eftir stendur þó að margir brotaþolar hlutu alvarlega áverka eftir að á þá var ráðist.

Eins og áður sagði voru margar, alvarlegar líkamsárásir tilkynntar til lögreglunnar í ágúst. Ein þeirra átti sér stað snemma í mánuðinum, en þá var ráðist á karlmann á þrítugsaldri í Kópavogi og hann stunginn nokkrum sinnum með hnífi í bæði líkama og andlit. Árásin var ofsafengin, en brotaþoli var einnig sleginn með hnefa og/eða barefli í höfuðið. Talið er að þolandi og gerandi hafi verið farþegar í bifreið og þar hafi árásin hafist, en ummerki um átök var einnig að finna utan hennar. Árásarmaðurinn flúði af vettvangi, en var handtekinn skömmu síðar annars staðar í bæjarfélaginu. Ökumaður bifreiðarinnar ók brotaþola á slysadeild, en hann mun ekki hafa séð átök mannanna. Nokkur vitni voru hins vegar að annarri líkamsárás í Kópavogi í ársbyrjun, en þá stakk átján ára piltur jafnaldra sinn með garðklippum. Piltarnir voru saman við vinnu þegar árásin varð, en þeim hafði sinnast út af einhverju og snöggreiddist þá árásarmaðurinn með fyrrgreindum afleiðingum.

Snemma hausts kom lögreglan tæplega tvítugum karlmanni til aðstoðar í Heiðmörk, en sá var illa áttaður eftir að hafi orðið fyrir líkamsárás. Árásarmennirnir voru á bak og burt, en brotaþoli sagðist hafa verið gabbaður upp í bíl þeirra í Reykjavík og síðan óku misindismennirnir með hann í Heiðmörk. Þar mátti maðurinn þola barsmíðar þar sem kylfu var beitt, auk þess sem hann fékk piparúða í augun. Maðurinn var fluttur á slysadeild og um leið hófst leit lögreglunnar að árásarmönnunum. Fljótlega beindist grunar að þremur ungum mönnum og voru þeir handteknir hver á eftir öðrum. Um svipað leyti ársins var lögreglan svo kölluð að fjölbýlishúsi í umdæminu þar sem konu á fertugsaldri var haldið í gíslingu og gengið í skrokk á henni. Árásarmaðurinn var handtekinn á staðnum, en hann þekkti konuna lítið sem ekki neitt. Maðurinn hafði sagst vera hjálparvana og ætlaði konan að koma honum til aðstoðar, en kauði reyndist þá vera úlfur í sauðagæru.