Rán og fjársvik

Ársskýrsla 2019

Um 50 rán voru tilkynnt til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu árið 2019 og fækkaði þeim mikið á milli ára.

Þau voru reyndar óvenju mörg árið 2018, en fjöldi málanna árið 2019 var svipaður og árin þar á undan. Ránin voru oft keimlík, en lögreglan upplýsti eitt þeirra snemma í september. Þá var starfsmanni í fyrirtæki í miðborginni ógnað og hótað með grófum hætti áður en ræninginn komst undan með fenginn. Sá síðarnefndi, karlmaður um þrítugt, var handtekinn nokkru síðar og játaði verknaðinn við yfirheyrslu. Starfsmanninum í fyrirtækinu var eðlilega mjög brugðið, en hann brást hárrétt við í afar erfiðum aðstæðum. Sporleitarhundur var kallaður út við leitina að ræningjanum, en jafnframt var notast við myndefni úr eftirlitsmyndavélum til að hafa uppi á kauða. Um mitt ár var annað rán til rannsóknar og ekki síður ófyrirleitið. Þá var manni í austurborginni ógnað með skotvopni og hann rændur verðmætum. Brugðist var skjótt við enda málið mjög alvarlegt. Framkvæmdar voru húsleitir og fjórir menn handteknir, en einn þeirra, karlmaður á þrítugsaldri, var úrskurðaður í nokkurra vikna gæsluvarðhald. Skotvopnið reyndist vera eftirlíking af skammbyssu. Snemma hausts var annar ræningi, karlmaður á fertugsaldri, handtekinn í austurborginni, en sá hafði ráðist með ofbeldi á eldri borgara og tekið af honum bifreið og ekið á brott. Ræninginn, sem var úrskurðaður í nokkurra vikna gæsluvarðhald, reyndist hafa fleiri brot á samviskunni eins og kom fram við rannsókn málsins.

Þótt ránum hafi fækkað verulega frá 2018 til 2019 fjölgaði auðgunarbrotum heldur á milli ára. Rán hafa jafnan verið lítill hluti þeirra, en þar hafa fjársvikamálin hins vegar vegið miklu þyngra. Þau voru hátt í 500 og fjölgaði frá árinu á undan. Fjárdráttarmálum fjölgaði einnig, en voru þó fá í samanburði við fjársvikin, sem eiga sér stað með ýmsum hætti. Þar koma m.a. netglæpir við sögu, en þeir virðast bara aukast með árunum. Þetta er þróun sem á ekki bara við um Ísland heldur heiminn allan. Á haustdögum vakti embættið athygli á skýrslu Europol um vandann, en í henni mátti lesa að netglæpir voru orðnir hnitmiðaðri og alvarlegri en áður. Þetta kom Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu ekki á óvart enda hafði tilkynningum um netglæpi fjölgað. Raunar hafði embættið þegar brugðist við, en um allnokkurt skeið hefur ítrekað mátt sjá viðvaranir í miðlum þess. Þar hefur t.d. verið varað við allskonar gylliboðum, sem ganga út á það eitt að hafa fé af fólki. Sömuleiðis að deila ekki viðkvæmum upplýsingum til annarra. Það gildir líka þegar PIN-númer eru slegin inn, en góð regla er að geyma ekki upplýsingar um PIN-númer með greiðslukortum. Seinni hluta ársins voru þrír þrjótar handteknir, en þeir höfðu einmitt náð að komist yfir slíkar upplýsingar og taka út peninga af reikningum viðkomandi. Almennt hefur verið töluverð umræða um netöryggi enda nauðsynleg. Alltaf eru einhverjir sem falla í gildruna og því er viðbúið að varnaðarorðin um hætturnar á netinu og annars staðar verði áfram á lofti.

Um mitt sumar barst talsvert af tilkynningum um fólk sem hafði verið blekkt til að senda peninga til fjárfestingafyrirtækja, sem síðan reyndust öll vera svikamyllur. Þeir sem að þessu stóðu notuðu gjarnan myndir af þekktum einstaklingum, að sjálfsögðu í mikilli óþökk og fullkomnu heimildarleysi hinna sömu, til að lokka til sín viðskiptavini. Slíkar auglýsingar voru áberandi á samfélagsmiðlum, ekki síst fésbókinni. Í einhverjum tilvikum komust svikahrapparnir líka yfir greiðslukortaupplýsingar og notuðu þær til úttekta. Tilvik um fölsuð fyrirmæli voru líka til rannsóknar, en um var að ræða tölvupósta til fyrirtækja þar sem óprúttnum aðilum tókst að beina greiðslum frá fyrirtækjunum á aðra reikinga en ætlað var. Af þessu má sjá að margt er að varast og er þó ekki allt upptalið.

Hugmyndaflugi svikahrappanna voru engin takmörk sett, en á fyrri hluta ársins reyndu þeir að sigla undir fölsku flaggi CIA og Microsoft. Bandaríska leyniþjónustan var þá sögð vera að rannsaka barnaníð og sendi tölvupósta, en tilgangur póstanna var að vekja ugg og fá fólk til að reiða fram peninga. Allt var þetta uppspuni, rétt eins og þvælan sem óprúttnir aðilar þóttust bjóða við úrlausnir tölvuvandamála í nafni tölvurisans. Aðstoðin var boðin símleiðis, en tilgangur hennar var einvörðungu að komast yfir viðkvæmar upplýsingar og misnota þær í framhaldinu. Vert er líka að nefna tölvupósta þar sem sendandinn kvaðst hafa náð myndefni af viðtakandanum við að skoða klámsíður á netinu. Með fylgdi hótun um að myndefninu yrði dreift ef ekki bærist greiðsla, helst í formi rafmyntar, innan tiltekins tíma. Þetta var enn ein blekkingin og lögreglan bað þá sem fyrir þessu urðu að halda einfaldlega ró sinni.