Innbrot og þjófnaðir

Ársskýrsla 2019

Innbrotum á höfuðborgarsvæðinu fækkaði lítillega á milli ára, en þau voru um 1.000 árið 2019. Rúmlega þriðjungur þeirra voru innbrot á heimili, en að meðaltali var tilkynnt um eitt innbrot á dag í heimahúsi í umdæminu.

Misvel gekk að hafa hendur í hári þjófanna, en þar gerðu  upplýsingar frá almenningi oft gæfumuninn. Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust ótal tilkynningar um grunsamlegar mannaferðir á árinu, stundum margar á dag, og oftar en ekki komu þær henni á sporið. Það er líka segin saga að þegar tekst að upplýsa eitt innbrot leiðir það oft til þess að önnur eru upplýst í framhaldinu. Rannsóknir málanna voru í forgangi hjá embættinu eins og ávallt þegar um er að ræða innbrot á heimili. Innbrot í ökutæki voru litlu færri, en þau voru um þriðjungur allra innbrota. Embættið hefur ítrekað minnt umráðamenn ökutækja á að hafa ekki verðmæti í augsýn því ætla má að það auki líkur á innbroti. Þessu vilja margir gleyma og það getur boðið hættunni heim eins og dæmin sanna. Innbrot í fyrirtæki og verslanir voru líka fjölmörg, eða um 200. Þá urðu ýmsar stofnanir einnig fyrir barðinu á innbrotsþjófum, sem leita víða fanga og svífast einskis. Mikill tími lögreglumanna fór í að leysa málin og ekki síður að koma aftur í réttar hendur öllu því þýfi sem var haldlagt á árinu.

Ótal hnuplmál komu líka á borð Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en tilkynningarnar um þau bárust jafnt og þétt yfir árið. Þjófarnir voru af ýmsu sauðahúsi og sumir komnir langt að, en það er ekki lengur nýmæli að erlendir brotamenn komi við sögu hjá lögreglu. Þjófnaðarbrotin í umdæminu voru annars um 4.000, en fjöldi þeirra sveiflaðist nokkuð eftir mánuðum. Færri brot voru tilkynnt í ársbyrjun, en frá mars til júlí voru þau áberandi fleiri. Aftur fjölgaði þjófnaðarbrotum á tímabilinu frá ágúst til október, en í hverjum þessara mánaða voru tilkynnt vel yfir 400 brot. Þeim fækkaði svo aftur í árslok, en voru þá samt að meðaltali fleiri en brotin í ársbyrjun. Því má með réttu segja að seinni hluti ársins hafi verið verri en sá fyrri hvað þetta varðar. Þegar litið var til tiltekinna brota mátti m.a. sjá að framin voru 100 eða fleiri innbrot að meðaltali í ágúst, september og október. Þau voru reyndar litlu færri í nóvember og desember, en jafnan 70-80 aðra mánuði ársins að mars undanskildum. Þá voru innbrotin innan við 70.

Af öðrum þjófnaðarbrotum má nefna að tilkynningar um símaþjófnaði voru áfram margar, en frá miðju sumri og til ársloka komu þær svo gott sem daglega á borð lögreglunnar. Sama mátti segja um reiðhjólaþjófnaði, en reiðhjólum var stolið víða í umdæminu. Rétt eins og fyrri ár fór tilkynningum um reiðhjólaþjófnaði að fjölga mjög mikið þegar leið á vorið og voru orðnar fjölmargar áður en sumarið var úti. Lætur nærri að tilkynningar um stolin reiðhjól á höfuðborgarsvæðinu frá apríl til september hafi samtals verið um 400. Sum hjólanna komu í vörslu lögreglu og voru þau auglýst á Pinterest, líkt og aðrir óskilamunir. Á síðunni eru ótal myndir af hlutum sem hafa ratað í hendur lögreglu, oft í tengslum við rannsóknir hennar á innbrotum og þjófnuðum, og kennir þar ýmissa grasa. Þar er einnig að finna síma, skartgripi, lykla, gleraugu og veski svo fátt eitt sé nefnt.

Verkfæri freistuðu líka þjófa en snemma árs voru tveir menn handteknir í Kópavogi eftir að brotist var inn í nýbyggingu í bænum. Á vettvangi voru bæði skóför og hjólför og það nægði lögreglunni til að komast á slóð þjófanna. Mennirnir voru sakleysið uppmálið við afskiptin, en í bíl þeirra fannst þýfið úr innbrotinu, mest megnis verkfæri. Þeir voru færðir á lögreglustöð og þar losnaði um málbeinið, en við yfirheyrslu játuðu báðir mennirnir sök. Í sama bæjarfélagi, skömmu fyrir áramót, lagði lögreglan hald á töluvert af þýfi úr nokkrum þjófnaðarmálum, m.a. verkfæri. Upphaf málsins var rannsókn embættisins á þjófnaði á flugeldum, sem tókst að endurheimta, en við húsleitir vegna málsins fundust fleiri illa fengnir hlutir. Nokkur vinna fór í að koma þeim í réttar hendur, en það er alltaf jafn ánægjulegt þegar tekst að koma stolnum munum aftur til réttmætra eigenda þeirra.