Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stendur stöðugt frammi fyrir nýjum áskorunum í síbreytilegum heimi. Verkefni hennar taka mið af því og áherslur sömuleiðis. Margt er ófyrirséð og þá þarf að bregðast við. Markmiðin taka því breytingum, bæði til lengri og skemmri tíma. Heimsfaraldurinn er dæmi um það, en verkefni af hans sökum hjá embættinu árin 2020-2022 voru umtalsverð og kölluðu á sérstakar áherslur. Rétt er að tilgreina að faraldurinn var að mestu í rénun snemma árs 2022, en er hér nefndur sem dæmi um það sem upp getur komið og lögreglan þarf að bregðast við. Alla jafnan snúast markmiðin helst um tiltekin afbrot og hvernig megi takast á við þau. Í því felst enn fremur aukin þjónusta við almenning, en hana hefur embættið lagt ríka áherslu á að bæta með margvíslegum hætti. Til lengri tíma hafa ofbeldisbrot verið í brennidepli, sérstaklega heimilisofbeldi og kynferðisbrot. Margt hefur áunnist í málaflokkunum, t.d. er varðar styttri málsmeðferðartíma kynferðisbrota þótt ávallt megi leita leiða til að gera enn betur. Þá hafa þolendur heimilisofbeldis stigið fram í auknum mæli og tilkynnt um brotin. Þess má geta að á 112 deginum árið 2022 voru þau sem urðu fyrir ofbeldi hvött til að tilkynna um það til lögreglu í síma 112.
Í byrjun markaði Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sér ákveðna stefnu og hefur fylgt henni að stærstum hluta þótt margt hafi tekið breytingum í þjóðfélaginu frá upphafsdögum embættisins árið 2007. Sem fyrr er mikilvægt að viðhalda öryggi og öryggistilfinningu allra þeirra sem búa, starfa og dvelja í umdæminu og er það alltaf haft að leiðarljósi, en um er að ræða eitt af grundvallarmarkmiðum Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hvergi má slaka á í þeim efnum. Traust er líka mikilvægt, ekki síst gagnvart þeim fjölda nýrra borgara sem flust hafa til Íslands undanfarin ár. Lögreglan leggur sig líka fram um að ná til unga fólksins og þar gegna samfélagslöggur mikilvægu hlutverki, t.d. með heimsóknum í skóla, en mikill vilji er til að efla þennan þátt starfseminnar.
Ástæða er líka til að nefna baráttuna gegn skipulagðri brotastarfsemi, en hana ber að taka alvarlega. Umfjöllun um skipulagða brotastarfsemi hefur verið að finna í síðustu ársskýrslum embættisins og er sú nýjasta engin undantekning í þeim efnum. Þar liggja líka áherslur og markmið, enda mikilvægt að Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu geti tekist á við þann veruleika af fullum þunga. Það er líka gert í samstarfi við önnur lögregluembætti og ekki síður löggæsluyfirvöld erlendis. Áfram verður haldið á þeirri braut, enda verkefnið aðkallandi.