Eftir langa baráttu fjaraði heimsfaraldurinn loksins út á fyrri hluta ársins 2022 og þá fór lífið að komast aftur í sama horf. Það var kærkomið, enda fylgdi kórónuveirunni gríðarlegt álag fyrir alla þjóðina. Verkefni henni tengd voru ófá hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu árin 2020-2021 og það gerði embættinu erfitt fyrir. Eilítið betur áraði því 2022 þegar heimsfaraldrinum sleppti og veitti ekki af. Rannsóknir alvarlegra mála voru áfram í brennidepli, en af þeim var meira en nóg. Raunar var áhyggjuefni hvernig komið var, en hér er sérstaklega vísað til skotárása í umdæminu. Mikið lán var að enginn lét lífið í þeim, en það var ekki árásarmönnunum að þakka. Fjölmargar líkamsárásir voru sömuleiðis til rannsóknar, en í einu málanna sátu sextán manns í gæsluvarðhaldi um tíma. Eitt manndrápsmál var til meðferðar, en karlmanni á miðjum aldri var ráðinn bani í íbúðarhverfi í Reykjavík. Ofbeldi og vopnaburður á höfuðborgarsvæðinu er því mikið áhyggjuefni.
Við þessum veruleika þarf lögreglan að bregðast og því mikilvægt að halda áfram að efla hana, líkt og ég hefur áður nefnt í ársskýrslum embættisins. Það á jafnframt við um fleiri málaflokka og má þar einnig minnast á skipulagða brotastarfsemi. Af henni stafar margvísleg ógn enda nær starfsemin til margra þátta. Einn þeirra er innflutningur fíkniefna, en mikið magn þeirra var haldlagt á árinu. Þar bar hæst um 100 kg af kókaíni í einu og sama málinu. Verð líka að geta um rannsóknir kynferðisbrota, en embættið hefur lagt mikla áherslu á að hraða málsmeðferð þeirra. Ágætlega hefur miðað í þeim efnum og mikilvægt að svo verði áfram. Annað sem Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vill efla eru samskipti við borgarana, ekki síst unga fólkið. Embættið sætti nokkurri gagnrýni, og það réttilega, þegar forvarnardeildin var lögð niður hérna um árið, en það var gert vegna allsherjar samdráttar í kjölfar efnahagshrunsins. Núna eru hins vegar svokallaðar samfélagslöggur teknar til starfa og bind ég miklar vonir við að með þeim takist okkur að nálgast ungu kynslóðina með sama jákvæða hætti og áður.
Eins og gengur gekk sumt vel og annað síður þegar litið var yfir árið 2022. Eitt af því síðarnefnda var umferðin, en vel á þriðja þúsund ökumanna voru staðnir að ölvunar- og/eða fíkniefnaakstri á höfuðborgarsvæðinu. Það er áhyggjuefni að svo margir skuli stefna sjálfum sér og öðrum vegfarendum í mikla hættu með þess konar háttsemi. Enda voru umferðarslysin fjölmörg og ekki hefur tilkoma nýs ferðamáta bætt þar úr. Rafhlaupahjól eru ýmsum kostum búin, en umhugsunarvert er að fjölmargir ferðist um á þeim án sjálfsagðs öryggisbúnaðar. Margir hinna sömu reyndust líka undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna á rafhlaupahjólum og það fór iðulega illa.
Af framansögðu er ljóst að við margar áskoranir var að etja árið 2022 og þar var reksturinn ekki undanskilinn. Með ábyrgri fjármálastjórn gekk hann vel og var rekstrarafkoma embættisins jákvæð í árslok. Að vanda komu upp ófyrirséð verkefni, en í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu voru tíð mótmæli við sendiráð þeirra fyrrnefndu í Reykjavík. Móttökumiðstöð umsækjenda um alþjóðlega vernd á Íslandi þurfti jafnframt að stækka og fluttist hún því frá Hafnarfirði til Reykjavíkur. Hvort tveggja var afleiðing af breyttri heimsmynd.
Að síðustu vil ég þakka öllum samstarfsaðilum Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir framúrskarandi samstarf á árinu 2022.
Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri.