Til margra ára hefur Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu látið framkvæma könnun á viðhorfum höfuðborgarbúa til þjónustu hennar og starfa. Spurt er um sitthvað er lítur að verkefnum lögreglu í umdæminu, en einnig um reynslu íbúa af afbrotum og ótta við þau. Farið er vel yfir niðurstöður könnunarinnar hverju sinni og þær nýttar til að bæta þjónustu embættisins eftir því sem við verður komið. Þetta árið sá Gallup um framkvæmdina, en könnunin fór fram á nokkurra vikna tímabili í júní og júlí. Hún náði til um 2.800 manna úrtaks (netpanell) og var svarhlutfallið 50,1%. Niðurstöðurnar voru um margt áhugaverðar, en nokkur munur gat verið á viðhorfum og upplifun íbúa. Það sást þegar rýnt var nánar, en kyn og aldur þátttakenda skipti máli og búseta þeirra sömuleiðis.
Þegar á heildina er litið, hversu góðu eða slæmu starfi finnst þér lögreglan skila í þínu hverfi/byggðarlagi til að stemma stigu við afbrotum? var ein spurninganna í könnuninni. Um 80% svarenda töldu lögregluna skila frekar, eða mjög góðu starfi hvað það varðaði. Fleiri konur heldur en karlar voru á þeirri skoðun. Þá var enn meiri munur þegar aldur svarenda var hafður til hliðsjónar við sömu spurningu. Elsti aldurshópurinn, 66 ára og eldri, var ánægðastur með lögregluna í þessum efnum, en því var öðruvísi farið hjá yngsta hópnum, 18-25 ára. Þá sögðu 28% lögregluna skila frekar slæmu, eða mjög slæmu starfi hvað þetta snerti. Niðurstöðurnar voru líkar ólíkar eftir búsetu. Breiðhyltingar voru óánægðastir, en 34% svarenda sögðu lögregluna skila frekar slæmu, eða mjög slæmu starfi til að stemma stigu við afbrotum. Árbæingar og Hafnfirðingar voru öllu ánægðari, en 11% þeirra töldu að lögreglan gerði ekki nóg til að stemma stigu við afbrotum.
Of langt mál er að telja upp allar spurningarnar hér, en könnunin samanstóð af nokkrum köflum. Einn sneri að viðhorfi almennt, annar að ánægju með þjónustu lögreglu og sá þriðji að öryggistilfinningu íbúa og áhyggjum af afbrotum. Enn fremur voru spurningar sem beindust sérstaklega að ofbeldis- og kynferðisbrotum, auk spurninga um brot gegnum net eða síma. Í ljósi þess síðastnefnda má líka nefna að lagt var fyrir þátttakendur að svara því til á hvaða sviði það myndi gagnast þeim mest ef hægt væri að efla stafræna þjónustu lögreglu. Þriðjungur svarenda, eða 33%, nefndi þá netspjall og litlu færri, eða 29%, sögðust helst vilja fá upplýsingar um stöðu mála með stafrænum hætti. Konur nefndu netspjall mun oftar heldur en karlar og það gerði líka elsti aldurshópurinn í samanburði við yngsta aldurshópinn, en munurinn þar var reyndar ekki mikill. Um helmingur Árbæinga, eða 51%, nefndi sömuleiðis netspjall og voru þeir mjög afgerandi í vali sínu í samanburði við aðra íbúa á höfuðborgarsvæðinu.
Nánari upplýsingar um niðurstöður könnunarinnar má finna á logreglan.is