EITT OG ANNAÐ

Ársskýrsla 2022

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stóð fyrir svokölluðum aðgerðadögum seint í nóvember, en að þeim loknum höfðu um fimmtíu manns fengið stöðu sakbornings vegna ýmissa mála. Um var að ræða meint brot sem sneru m.a. að vörslu og meðferð ávana- og fíkniefna, þjófnuðum, skjalafalsi, hylmingu, peningaþvætti, vopnalögum og lögum um útlendinga. Á meðal þess sem var haldlagt voru nokkrir tugir kílóa af kannabis, auk fjölda kannabisplantna sem lögreglan tók í sína vörslu þegar kannabisræktanir voru stöðvaðar í umdæminu. Þess má geta að á sama tíma var einnig ráðist í sams konar aðgerðir í öðrum löndum Evrópu, en lögregluaðgerðirnar bæði ytra og á höfuðborgarsvæðinu voru haldnar að tilstuðlan Europol. Slíkir aðgerðadagar eru vel þekktir hjá Europol og hefur íslenskan lögreglan áður tekið þátt í þeim.

Þótt skiptar skoðanir kunni að vera á störfum lögreglunnar í sumum málum fer ekki á milli mála að mikill meirihluti landsmanna ber til hennar traust. Um það mátti lesa í Þjóðarpúlsi Gallup, sem birtist í mars, en þar kom fram að lögreglan nyti mikils trausts hjá almenningi. Spurt var um traust til fjórtán stofnana og embætta og sögðust 78% aðspurðra treysta lögreglunni. Fékk hún næstbestu útkomuna að þessu sinni, aðeins Landhelgisgæslan var ofar. Á botninum voru hins vegar bankakerfið og borgarstjórn Reykjavíkur. Niðurstöðurnar voru úr netkönnun, sem Gallup gerði mánuðinn á undan. Slíka könnun, traust til ýmissa stofnana, hefur fyrirtækið framkvæmt um árabil. Traust almennings til lögreglunnar mældist hjá Gallup 72% árið 2021 og hækkaði því um 6 prósentustig á milli ára. Þótt um eina könnun væri að ræða, og með þeim fyrirvara sem rétt er að viðhafa, var um ánægjulega niðurstöðu að ræða. Niðurstöðu sem var lögreglunni hvatning um að halda áfram að leggja sig alla fram um að skila góðu verki í þágu borgaranna.

Hálfri öld eftir að lögreglan í Reykjavík flutti í glæsilega lögreglustöð á Hverfisgötu 113-115 árið 1972 voru húsnæðismál embættisins komin á dagskrá á nýjan leik. Réttum 50 árum eftir flutninginn úr Pósthússtræti var aftur orðið mjög þröngt um starfsemi lögreglunnar og úrbóta því þörf. Reyndar var umræðan ekki ný af nálinni, enda hefur hún skotið upp kollinum með reglulegu millibili mörg undanfarin ár. Lítt hefur þó miðað og er ný lögreglustöð ekki alveg í sjónmáli þrátt fyrir góðan vilja margra. Sú breyting hefur þó orðið að í stað nýrrar lögreglustöðvar fyrir Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu var ráðgert að reisa sameiginlega byggingu fyrir bæði löggæslu- og viðbragðsaðila. Henni var valinn staður hjá Holtagörðum, en frekari byggingaráform bíða enn um sinn. Embættið var því áfram til húsa á Hverfisgötu, en á árinu var ráðist í miklar framkvæmdir við og í nágrenni lögreglustöðvarinnar. Það átti m.a. við um nyrsta hluta Rauðarárstígs og var honum lokað tímabundið fyrir umferð ökutækja meðan á framkvæmdum stóð.

Fjölmörg útköll vegna veðurs berast lögreglunni á hverju ári og á því varð engin breyting. Lægðirnar voru samar við sig og gerðu landsmönnum lífið leitt. Febrúar var skrautlegur að vanda og gefnar voru út viðvaranir í öllum litum – gular, appelsínugular og rauðar. Samgöngur fóru vitaskuld úr skorðum við þessar aðstæður, en þrátt fyrir veðurofsann varð ekki teljandi tjón. Mikill undirbúningur var hjá viðbragðsaðilum í aðdraganda óveðurs og aðgerðastjórn höfuðborgarsvæðisins var virkjuð á meðan það gekk yfir. Vert er líka að nefna desember, en í seinni hluta hans var víða ófært á höfuðborgarsvæðinu vegna snjóþyngsla suma daga. Borgaryfirvöld fengu sinn skref af gagnrýni vegna ónógs snjómoksturs en strætisvagnar hættu að ganga þegar verst lét. Lögreglan og viðbragðsaðilar höfðu í nógu að snúast umrædda daga, en í verstu veðrunum lokuðust leiðir til og frá umdæmi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.