LÖGREGLAN OG SAMFÉLAGSMIÐLAR

Ársskýrsla 2022

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hélt uppteknum hætti á samfélagsmiðlum árið 2022 og var óspör á að miðla þar upplýsingum. Svo hefur raunar verið allt frá árslokum 2010, en þá opnaði embættið fésbókarsíðu. Henni var strax mjög vel tekið enda kjörinn vettvangur til að miðla upplýsingum fljótt og vel. Twitter og Instagram bættust við allnokkru síðar, en alla áðurnefnda samfélagsmiðla hefur lögreglan notað til þessa, mismikið þó. Fylgjendur embættisins á fésbókinni eru nærri 100 þúsund og þegar þeir deila áfram skilaboðum lögreglu ná þau til býsna margra. Um þetta eru mörg dæmi og hefur slíkt komið sér mjög vel, t.d. við leit að fólki. Hætt er við að án samfélagsmiðla hefði útkoma mála í einhverjum tilvikum orðið önnur og verri. Aðstoðar hefðbundinna fjölmiðla naut áfram við hvað þetta varðaði, en lesendur þeirra endurspegla ekki endilega alla aldurshópa. Með samfélagsmiðlum er því hægt að ná til enn fleiri, ekki síst unga fólksins.

Færslur Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á samfélagsmiðlum eru jafnan nokkur hundruð á ári og á því varð ekki breyting. Fjölmargar þeirra sneru að fjársvikum á netinu, en í ófá skiptin var varað við óprúttnum aðilum sem beittu ýmsum brögðum til að hafa fé af fólki. Lögreglan hefur haft uppi mörg og ítrekuð varnaðarorð vegna fjársvika á netinu enda hafa þau færst mjög í vöxt undanfarin ár. Upplýsingar um vegaframkvæmdir og lokanir á vegum, auk tíðinda af veðri og færð voru líka mjög áberandi og fékk embættið þakkir fyrir að koma þeim á framfæri. Og átti það líka við um mörg önnur skilaboð sem birt voru á árinu. Líkt og á fésbókinni er embættið með fjölmarga fylgjendur á Instagram, eða rúmlega 150 þúsund. Ekki má heldur gleyma Twitter, þótt sá miðill hafi mun minni útbreiðslu. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur staðið fyrir árlegu löggutísti og brá ekki út af þeim vana árið 2022. Sem fyrr vakti það mikla athygli, enda margir forvitnir um störf lögreglunnar. Af framansögðu má fullyrða að notkun samfélagsmiðla kemur að góðu gagni þegar löggæsla er annars vegar.

Þá er lögregluvefurinn ótalinn, en á honum er að finna fréttir og upplýsingar um þjónustu embættisins, m.a. um óskilamuni og sérstaka síðu þeim tengda,  www.pinterest.com/logreglanAllar ársskýrslur Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2007 eru sömuleiðis aðgengilegar á lögregluvefnum. Þar er enn fremur að finna fróðleik um forvarnir og aðra fræðslu.