Rekstur

Rekstur Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gekk almennt vel árið 2019 og varð um 52 m.kr. rekstrarafgangur í árslok. Niðurstaðan varð samt um 100 m.kr. halli, sem er innan við 2% af fjárheimildum, en ársvelta embættisins var um 5,9 milljarðar. Að láta enda ná saman er ávallt vandasamt enda er umfang starfseminnar mikið og verkefnin eftir því. Bætt nýting fjármuna var höfð að leiðarljósi, en það er eitt markmiða sem Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu setti sér við sameiningu lögregluliðanna hér um árið og frá því hefur ekki verið vikið. Þetta árið, sem önnur, komu upp óvænt útgjöld og þá þurfti að bregðast við með útsjónarsemi.

Útgjöld voru þó oftar bæði fyrirséð og nauðsynleg. Þar bar einna hæst endurnýjun margskonar búnaðar enda mikilvægt að lögreglan hafi þau tæki og tól sem til þarf. Útgjöld vegna þessa skiptu samtals tugum m.kr., bæði vegna búnaðar lögreglumanna og borgaralegra starfsmanna. Nefna má búkmyndavélar, fartölvur og snjalltæki í þessu samhengi, en öll tækin auðvelda störf lögreglunnar og gera þau öruggari. Áfram féll líka til kostnaður vegna stefnumótunar og umbótavinnu, en hann skilar sér til baka með aukinni starfsánægju og bættri þjónustu við borgarana. Á fjárlögum var gert ráð fyrir fyrir 49 m.kr hagræðingarkröfu til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en á móti komu verulega auknar fjárheimildir vegna landamæravörslu, fjölgunar ferðamanna, aðgerða gegn skipulagðri brotastarfsemi og peningaþvætti og vegna aðgerðaáætlunar um bætta meðferð kynferðisbrota.

Frá árinu 2017 hefur embættið skilað frá sér ársreikningi sem uppfyllir alþjóðlega reikningsskilastaðla opinberra aðila í samræmi við ný lög um opinber fjármál. Rekstrarniðurstaðan er því önnur en ef fylgt hefði verið eldri uppgjörsaðferð og hefur þess verið getið í síðustu ársskýrslum, sérstaklega er varðar orlofsskuldbindingar. Ársreikninga Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er að finna á slóðinni https://arsreikningar.rikisreikningur.is

Umfjöllun um rekstur byggir á bráðabirgðatölum úr ársreikningi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir árið 2019.