Ársskýrsla 2020

Erfiðir og krefjandi tímar

Að baki er eitt óvenjulegasta ár í manna minnum. Árið sem setti daglegt líf fólks úr skorðum á löngum stundum. Það hófst reyndar eins og hvert annað og verkefni lögreglunnar voru eftir því, hefðbundin. Í lok febrúar hafði heimsfaraldurinn hins vegar teygt sig til Íslands og við tóku mjög krefjandi og erfiðir tímar það sem eftir lifði ársins. Segja má að seinni hluta vetrar og fram á sumar hafi kórónuveiran skollið á þjóðina af fullum þunga. Ástandið skánaði talsvert um mitt sumar, en síðan hallaði aftur undan fæti í baráttunni og ný bylgja veikinda reið yfir með tilheyrandi fjölgun smita.

Um leið og fregnir bárust af veirunni út í heimi var kappkostað að undirbúa stofnanir samfélagsins fyrir það sem var í vændum. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var þar á meðal, en þrátt fyrir undirbúninginn gat enginn vitað með algjörrri vissu hvernig heimsfaraldurinn myndi leggjast á landsmenn. Enda fór það svo að hann var bæði mun skæðari og langvinnari en flestir áttu von á. Mikið reyndi á starfsmenn lögreglu við þessar aðstæður og einföld verkefni gátu orðið flókin. Við afskipti af fólki þurfti að gæta sérstakrar varúðar, en þeim fylgdi áhætta um smit í hvert sinn. Lögreglumenn þurftu því að klæðast sérstökum hlífðarbúningum og grímur og hanskur urðu staðalbúnaður. Aðgengi að lögreglustöðvunum í umdæminu var takmarkað og þeim jafnframt hólfaskipt. Margir þurftu að vinna heima og fjárfest var í búnaði svo það gæti orðið. Mikil áhersla var lögð á að vernda starfsemina með öllum ráðum og tókst það vonum framar. Embættið slapp þó ekki við smit frekar en aðrir, en áhrif þess voru minni vegna þeirrar fyrirhyggju sem sýnd var. Heilt yfir gekk starfsemin nokkuð vel þrátt fyrir heimsfaraldurinn og það er þakkarvert.

Helstu verkefni okkar á árinu voru annars að mestu hin sömu og áður. Fjöldi hegningarlagabrota var ámóta á milli ára, en sérrefsilagabrotum, þá aðallega umferðarlagabrotum, fækkaði talsvert frá árinu á undan. Af nýjum verkefnum, ef svo má segja, báru sóttvarnarbrot hæst. Tilkynningar um þau voru á annað þúsund. Ekki áttu þær allar við rök að styðjast, en gróflega má segja að ein tilkynning af hverjum tíu hafi leitt til nánari rannsóknar. Um var að ræða brot gegn m.a. sóttkví og einangrun, en vitaskuld lögðust samkomutakmarkanir þungt á alla. Þær var ýmist verið að herða eða slaka á yfir árið og þótti sumum nóg um. Hverskyns mannfagnaðir voru blásnir af og skemmtistöðum og öldurhúsum var gert að loka um lengri eða skemmri tíma.

Þótt kórónuveiruna sé mér ofarlega í huga var margt annað við að fást á árinu 2020. Baráttan við skipulagða brotastarfsemi hélt áfram af krafti og rannsóknir annarra alvarlegra brota voru líka teknar föstum tökum, en áhersla hefur verið lögð á að hraða málsmeðferð þeirra eins og hægt er. Sérstök ástæða er einnig til að nefna netglæpi. Þeir eru vaxandi vandamál og það urðum við vör við í heimsfaraldrinum.

Reksturinn gekk vel framan af ári en eftir að nýr kjarasamningur lögreglumanna kom til framkvæmda var ljóst að embættið myndi skila miklum halla sem raunin varð. Í starfsemi hverrar stofnunar er mannauðurinn mjög mikilvægur og óhætt er að segja að starfsmenn hafi staðið sig mjög vel. Það er ekki sjálfgefið og vil ég þakka þeim fyrir vel unnin störf.

Embættið vill leggja áherslu á að þjóna íbúum, svo og þeim um umdæmið heimsækja. Okkar metnaður er að tryggja öryggi og veita góða þjónustu. Árið 2020 var mikil áskorun í löggæslu og ljóst er að verkefni lögreglu verða flóknari og flóknari í framtíðinni. Mikilvægt er að efla lögreglu enn frekar við almenna löggæslu, rannsóknir ofbeldisbrota svo og baráttu gegn skipulagðri brotastarfsemi. Varðandi almenna löggæslu þarf að fjölga lögreglumönnum, snjallvæða lögregluna og virkja forvarnir. Varðandi skipulagða brotastarfsemi þarf að fjölga lögreglumönnum, efla geiningar og fjölga ákærendum sem vinna mikla vinnu við rannsókn málanna. Ljóst er að lögreglan þarf aukið fjármagn til þess að sinna betur hlutverki sínu. Vonum að áfram verið unnið að eflingu lögreglunnar með auknum fjárheimildum henni til handa næstu ár.

Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri