Helstu markmið LRH

Öryggi og öryggistilfinning þeirra sem búa, starfa og dvelja í umdæminu var áfram efst á baugi hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu árið 2020, sem tókst á við verkefnin í mjög breyttu umhverfi. Kórónuveiran herjaði á heimsbyggðina alla og ekkert land var undanskilið. Fyrsta tilfelli veirunnar var greint á Íslandi í lok febrúar og við tóku mjög erfiðir mánuðir. Daglegt líf fólks fór úr skorðum og á löngum köflum var þjóðlífið ekki svipur hjá sjón. Mörgum fyrirtækjum voru takmörk sett og önnur urðu hreinlega að loka. Hefðbundið menningarlíf lagðist í dvala og mikið reyndi á þolrif landsmanna. Svona var ástandið mánuðum saman, en þótt birti aðeins til um sumarið var það bara tímabundið. Vissulega fáránlegur veruleiki sem Íslendingar, rétt eins og allir aðrir, þurftu að búa við. Og í þessu sérstaka umhverfi var nýr og ósýnilegur óvinur, kórónuveiran, sem vakti ótta hjá mörgum. Umhverfið var því mikið breytt og ólíkt öllu öðru sem Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði áður tekist á við.
Skyndilega voru sóttvarnaaðgerðir mál málanna og sóttvarnabrot þar með komin á forgangslista lögreglunnar. Önnur brot, öllu hefðbundnari, voru áfram til staðar, en embættið hefur horft til fækkunar afbrota á tilteknum sviðum (eignaspjöll, innbrot, þjófnaðir og líkamsárásir) og sett sér markmið þar um. Það hefur gengið misjafnlega eftir, en innbrotum fækkaði þó á milli áranna 2019 og 2020. Fjöldi þjófnaða og líkamsárása var hins vegar svipaður þegar sömu tímabil eru borin saman. Tilkynningar um eignaspjöll á höfuðborgarsvæðinu voru ívið fleiri árið 2020 en árið á undan. Annars er snúið að lesa í afbrotatölfræði ársins, sem er örugglega það óvenjulegasta sem landsmenn hafa upplifað.
Þrátt fyrir erfitt árferði hélt Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sínu striki í samræmi við einkunnarorð hennar sem eru traust, fagmennska og öryggi. Vel tókst til á ýmsum sviðum, en á meðal markmiða embættisins er að bæta þjónustu þess, ekki síst er lýtur að rafrænum samskiptum. Margt hefur áunnist og þótt sumir séu óþreyjufullir eftir frekari breytingum er sígandi lukka stundum best í þeim efnum. Á árinu var lögð töluverð vinna í lögregluvefinn, hann uppfærður og gerður nútímalegri. Í gegnum lögregluvefinn er hægt að reka ýmiss erindi og þannig spara sér heimsókn á lögreglustöð. Á honum er líka að finna ýmsar gagnlegar upplýsingar, en á árinu var t.d. komið þar fyrir sérstökum sektarreikni. Sýnir hann bæði upphæð sektar vegna hraðaksturs og sviptingartíma ökuréttinda ef svo ber undir, auk annars.