Árið 2020 hófst eins og hver önnur hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og verkefnin voru hefðbundin eftir því, en það átti eftir að breytast mikið þegar fyrsta tilfelli kórónuveirunnar hafði verið greint hérlendis snemma árs. Við tóku mánuðir þar sem ýmist var verið að herða eða slaka á takmörkunum á starfsemi af öllu tagi. Enginn fór varhluta af þessu skrýtna ástandi og það var ansi þungt hljóðið í landsmönnum stærstan hluta ársins. Lögreglan þurfti fljótt að laga sig að gjörbreyttum aðstæðum og takast á við verkefni, sem ómögulegt var að sjá fyrir. Eftirlit hennar sneri ekki síst að smitvörnum og að þær væru í lagi hjá rekstaraðilum, m.a. veitingastaða og kráa. Þótti sumum nóg um og fékk lögreglan nokkra gagnrýni af þeim sökum. Afskipti hennar voru þó ekki að ósekju, en á annað þúsund tilkynninga voru skráðar hjá embættinu vegna grunsemda um brot gegn gildandi reglugerðum um sóttvarnir, sóttkví og einangrun. Gróflega má segja að ein tilkynning af hverjum tíu hafi leitt til þess að atvik væri tekið til nánari rannsóknar.
Heildarfjöldi mála sem var skráður hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu árið 2020 var um 72.000 og fækkaði þeim á milli ára. Það átti m.a. við um sérrefsilagabrot, en fjöldi hegningarlagabrota var hins vegar ámóta og undanfarin ár, eða um 9.800. Sérrefsilagabrotin voru annars nálægt 3.000 árið 2020, en voru um 4.000 árið á undan. Um þriðjungur sérrefsilagabrota árið 2020 voru fíkniefnalagabrot. Flest hegningarlagabrotanna voru hins vegar þjófnaðir og innbrot. Þjófnaðarmál voru ámóta mörg og undanfarin ár, en innbrotum fækkaði á árinu 2020. Það átti við um innbrot á heimili og sömuleiðis innbrot í ökutæki, en þeim fækkaði mjög mikið. Fækkunin náði samt ekki til allra innbrota, en innbrotum í fyrirtæki fjölgaði á milli ára.
Morð var framið í Hafnarfirði á fyrri hluta ársins, en þá var sextug kona stungin til bana í íbúð fjölbýlishúss. Sonur hennar var handtekinn á vettvangi, grunaður um verknaðinn, og var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald og síðan til vistunar á viðeigandi stofnun. Hann lést svo síðar á árinu og var málið þá fellt niður. Bruni á Bræðraborgarstíg um mitt sumar varð einnig að manndrápsrannsókn eftir að tæknideild lögreglunnar hafði tekið vettvanginn til skoðunar, en þrír létust í brunanum. Karlmaður á sjötugsaldri var handtekinn í þágu rannsóknarinnar, grunaður um íkveikju. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald og síðan til vistunar á viðeigandi stofnun. Fjöldi ofbeldisbrota í umdæminu hefur annars verið svipaður síðustu árin og tekið litlum breytingum frá árinu 2015. Þá varð fjölgun í kjölfar breytinga á verklagi vegna heimilisofbeldismála. Árið 2020 fjölgaði þó heimilisofbeldismálum frá árinu á undan, aðallega vegna mála sem varðar maka og fyrrum maka og vegna mála sem tengjast ofbeldi milli systkina.
Skipulögð brotastarfsemi var í brennidepli sem fyrr og þar koma fíkniefni iðulega við sögu, en lagt var hald á rúmlega 24 kíló af amfetamíni. Lögreglan tók einnig í sína vörslu verulegt magn af amfetamínbasa, en gróflega má jafna honum við 38 kíló af amfetamíni í smásölu. Þessu tengt má nefna að fjölmargir voru teknir fyrir fíkniefnaakstur, eða vel á annað þúsund. Færri voru hins vegar teknir fyrir ölvunarakstur og fækkaði þeim brotum reyndar mikið á milli ára. Snúið er þó að rýna í tölur yfir umferðarlagabrot, rétt eins og allar aðrar tölur á því herrans ári 2020 enda á það engan sinn líka. Áhrif heimsfaraldursins á umferðina voru ótvíræð og dróst hún mikið saman. Íslendingar voru einfaldlega miklu minna á ferðinni þetta árið vegna aðstæðna og ferðamenn hurfu eins og dögg fyrir sólu. Þrátt fyrir minni umferð létust fjórir í umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu, þar af tveir á Vesturlandsvegi í júní.
Rannsóknir kynferðisbrota voru áfram teknar föstum tökum, en áhersla hefur lögð á að hraða málsmeðferð eins og hægt er. Talsvert var um blygðunarsemisbrot, þ.e. myndsendingar og mynddreifingar af kynferðislegu efni. Sömuleiðs voru nokkur mál til rannsóknar, sem snéru að barnaníði á netinu og fylgdu því húsleitir og haldlagningar, en um mikið magn af efni var að ræða. Sé eitthvað jákvætt um málaflokkinn að segja má helst nefna að tilkynningum um nauðganir fækkaði miðað við árið á á undan.
Netglæpir voru vaxandi vandamál á Íslandi, eins og annars staðar, og þess sáust greinileg merki. Ógrynni slíkra mála kom á borð lögreglu og var ýmsum ósvífnum brögðum beitt til þess að hafa fé af fólki. Svikahrappar voru á ferðinni öllum stundum og féllu margir í gildru þeirra, því miður. Ítrekað var varað við hverskyns gylliboðum og fólk beðið um að gæta að sér á netinu, enda leynast þar margar hætturnar. Hér á eftir er farið frekar yfir helstu verkefni Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu árið 2020. Tekið skal fram að tölfræði embættisins fyrir sama tímabil er að finna í skýrslunni Afbrot á höfuðborgarsvæðinu (útgef. 2021).