Heimsfaraldur setti mark sitt á alla starfsemi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu árið 2020. Honum fylgdu ný verkefni og áskoranir, en baráttan við kórónuveiruna kostaði sitt því grípa þurfti til margvíslegra aðgerða til að tryggja öryggi bæði starfsmanna og þeirra sem þurftu á aðstoð eða hjálp lögreglunnar að halda. Þetta er rakið sérstaklega annars staðar í ársskýrslunni, en sóttvarnir voru í hávegum hafðar, m.a. með hólfaskiptingu hjá embættinu og kaupum á vörum til að verjast smiti. Kostnaður vegna þessa nam um 130 m.kr., en hann fékkst að mestu bættur í fjáraukalögum.
Rekstur Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var þó erfiður fyrir, en niðurstaðan var um 300 m.kr. hallarekstur árið 2020. Þar var helst um að kenna afturvirkum hækkunum kjarasamninga og hækkunum orlofsskuldbindinga umfram áætlanir. Þær voru ekki að fullu bættar í fjárlögum og var það ekki til að auðvelda reksturinn. Ársvelta embættisins var um 6,1 milljarður króna og eigið fé í árslok, uppsafnaður afgangur/halli, var neikvætt um 400 m.kr, eða tæplega 7% fjárheimilda ársins. Á fjárlögum ársins 2020 var gert ráð fyrir 94,7 m.kr. hagræðingarkröfu til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en á móti komu auknar fjárheimildir, 16 m.kr., vegna aðgerða gegn peningaþvætti. Alls lækkuðu því fjárveitingar til embættisins um 78,7 m.kr.
Undanfarin ár hefur embættið skilað frá sér ársreikningi sem uppfyllir alþjóðlega reikningsskilastaðla opinberra aðila í samræmi við ný lög um opinber fjármál. Af því leiðir að rekstrarniðurstaðan er önnur miðað við eldri uppgjörsaðferð, sérstaklega er varðar orlofsskuldbindingar, og er rétt að hafa það hugfast. Ársreikninga Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er að finna á slóðinni https://arsreikningar.rikisreikningur.is
Umfjöllun um rekstur byggir á bráðabirgðatölum úr ársreikningi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir árið 2020.
Útgefandi:
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu
Umsjón og ábyrgð:
Upplýsinga- og áætlanadeild, Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson
Myndir:
Júlíus Sigurjónsson
www.lrh.is
www.facebook.com/logreglan