Snemma í apríl var Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kölluð að fjölbýlishúsi í Hafnarfirði, en í íbúð í húsinu var kvartað undan karlmanni um þrítugt og hann sagður í annarlegu ástandi.
Það reyndist rétt vera, en á meðan lögreglumenn voru á vettvangi var maðurinn nokkuð rólegur og sýndi ekki ógnandi tilburði. Úr varð að húsráðandi, kona um sextugt og móðir mannsins, ætlaði að leyfa honum að dvelja áfram í íbúðinni, en með ákveðnum skilyrðum. Nokkrum klukkutímum síðar var aftur hringt úr íbúðinni og beðið um aðstoð lögreglu, en þá hafði mikið gengið á með hörmulegum afleiðingum. Sonurinn, sem kvartað var undan áður, kom til dyra þegar lögreglan kom á vettvang í seinna skiptið og var hann handtekinn, grunaður um morð. Móðir hans fannst látin í svefnherbergi í íbúðinni, en hún hafði verið stungin tvisvar í brjóstið með hnífi. Unnusti konunnar, karlmaður á sextugsaldri, var líka í íbúðinni og hafði sonurinn einnig veist að honum með hnífi. Unnustinn, sem hringdi í lögregluna eftir árásina, var með áverka á handlegg og í andliti. Ætlað morðvopn fannst í stofunni og var haldlagt. Sonurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald og síðan til vistunar á viðeigandi stofnun. Hann lést svo síðar á árinu og var málið þá fellt niður. Morðið vakti óhug eins og ávallt þegar slíkur verknaður er framinn, en fjöldi manndrápsmála hjá embættinu hefur sveiflast nokkuð á starfstíma þess.
Fjöldi líkamsárása á höfuðborgarsvæðinu var hins vegar nánast óbreyttur á milli áranna 2020 og 2019. Það átti bæði við um minni háttar líkamsárásir og eins þær sem teljast meiri háttar. Tilkynningar um líkamsárásir voru í kringum 1.200, en tæplega 1.000 töldust minni háttar. Meiri háttar líkamsárásir, sem voru um 200, dreifðust nokkuð jafnt yfir árið, en voru þó sýnu fæstar í jólamánuðinum. Þær áttu sér stað víða í umdæminu og á ólíkum tímum sólarhringsins, jafnt um helgar sem virka daga. Á mánudagsmorgni um miðjan júní var lögreglan kölluð að húsi í Vogunum, en þar hafði karlmaður á fertugsaldri veist að konu á fimmtugsaldri og veitt henni alvarlega áverka með hnífi. Maðurinn var nýfarinn að leigja hjá konunni þegar hann réðst á hana. Leigjandinn, sem var í annarlegu ástandi, var handtekinn á vettvangi og færður á lögreglustöð. Daginn eftir var hann svo úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald í ljósi alvarleika málsins. Maðurinn hafði áður komið við sögu lögreglu, m.a. vegna ofbeldisbrota.
Á fimmtudegi seint í apríl bárust tvær tilkynningar um meiri háttar líkamsárásir. Sú fyrri barst síðdegis, en þá hafði 17 ára piltur verið stunginn með hnífi á göngustíg í Breiðholti. Hann var fluttur á Landspítalann og gekkst þar undir aðgerð, en um var að ræða lífshættulegan áverka. Jafnaldri piltsins var svo handtekinn daginn eftir, grunaður um verknaðinn. Þeim bar ekki saman um aðdraganda eða málsatvik, en rannsókn lögreglu leiddi í ljós að þetta skelfilega atvik tengdist illdeilum tveggja hópa. Á meðan málinu stóð, í þinghaldi, ræddust þolandi og gerandi við og lofuðu að slíðra sverðin svo ekki kæmi til frekari átaka milli þeirra eða hópanna. Seint að kvöldi fyrrnefnds fimmtudags var lögreglan farin að rannsaka aðra meiri háttar líkamsárás, en þá hafði hún verið kölluð að húsi í Kópavogi þar sem karlmaður á fimmtugsaldri fannst alvarlega slasaður. Þrír voru handteknir vegna málsins og einn þeirra, karlmaður á svipuðu reki og brotaþoli, var úrskurðaður í gæsluvarðhald daginn eftir. Honum var gefið að sök að hafa slegið og hrint hinum slasaða með þeim afleiðingum að hann féll aftur fyrir sig og skall í gólfið.
Tilkynningar um líkamsárásir í umdæminu bárust nokkuð jafnt yfir árið, líkt og áður var getið, en í apríl voru þær með allra mesta móti, eða rúmlega 120. Og á síðasta degi þess mánaðar var Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu með mikinn viðbúnað í Salahverfinu í Kópavogi eftir að tilkynnt var um að ráðist hefði verið á tvo unglinga. Mikil leit var gerð að meintum árásarmanni og naut lögreglan m.a. aðstoðar sporhunds og þyrlu Landhelgisgæslunnar. Eftir töluverða leit kom hins vegar á daginn að málsatvik voru með allt öðrum hætti en talið var í fyrstu. Þarna voru á ferð piltur og stúlka og reyndist hún hafa veitt honum áverka með eggvopni. Málið var unnið með aðkomu barnaverndaryfirvalda, en stúlkan var ósakhæf.